Everton – Newcastle 3-0

Mynd: Everton FC.

Everton mætti lánlausu liðið Newcastle í kvöld og áttu ekki í neinum vandræðum með þá enda betra liðið á öllum sviðum, þrátt fyrir að Newcastle hafi verslað duglega í janúarglugganum. Þeir keyptu vel og eiga náttúrulega enn eftir að stilla saman strengina en þurfa að bæta verulega varnarleik sinn ef þeir ætla að ná að halda sér uppi.

Uppstillingin: Joel, Oviedo, Mori, Jagielka, Coleman, McCarthy, Barry, Cleverley, Lennon, Barkley, Lukaku. Varamenn: Stanek, Baines, Gibson, Kone, Deulofeu, Osman, Pienaar.

Tveir nýir leikmenn í liði Newcastle í kvöld sem gaf þeim aukið sjálfstraust. Þeirra plan var að pressa framarlega á Everton og koma í veg fyrir sóknarspil Everton. Þetta reyndist þeim ágætlega til að byrja með því Everton reyndist erfitt að brjóta þá niður og skapa færi. Everton þó með undirtökin og mikið meira með boltann — nokkuð um mistök á báða bóga en nokkuð meira Newcastle megin.

Fyrsta færið kom frá Everton á 4. mínútu þegar Lukaku tók við boltanum inn í teig og lagði hann út úr teignum á Cleverley sem náði góðu lágu skoti hægra megin á mark Newcastle en Elliot í marki Newcastle varði vel. Lukaku átti svo aukaspyrnu rétt yfir samskeytin hægra megin á 20. mínútu.

Ekkert að gerast fyrir framan mark Everton í fyrri hálfleik — Newcastle menn fengu ekkert færi enda oft að reyna fyrirgjafir fyrir mark sem háu miðverðir okkar, Jagielka og Mori, áttu ekki í vandræðum með, enda framlína Newcastle ekki hávaxin.

Mark frá Everton kom svo á 23. mínútu frá Lennon, sem hann á eiginlega heiðurinn af að mestu sjálfur. Fékk boltann frá Cleverley en ekki á réttan fót. Náði þó að stoppa, steig út úr teig og tók 180 gráðu snúning og sá ekki markið en skaut niðri í vinstra hornið framhjá markverði. 1-0 Everton.

Barkley klúðraði nokkru síðar vippu yfir markvörð Newcastle sem hafði farið í skógarferð og skallað fram en beint á Barkley. Hefði getað gert betur þar.

Stuttu síðar tóku Coleman og Cleverley skildu bakvörð Newcastle eftir og Coleman sendi fyrir frá hægri lágan bolta á Lennon sem var á auðum sjó í dauðafæri fyrir framan mitt mark en miðvörður Newcastle náði að kasta sér fyrir skotið. Þar hefði staðan átt að vera 2-0.

1-0 í hálfleik.

Kone kom inn á fyrir Lukaku í hálfleik en miðvörður Newcastle, Collocini, hafði sett hnéð í bakið á honum um miðbik fyrri hálfleiks þegar Lukaku var að taka á móti boltanum, algjörlega óþarfi af Collocini sem slapp með það.

En einstefnan hélt áfram í seinni hálfleik og hvað eftir annað skall hurð nærri hælum við mark Newcastle.

Í upphafi hálfleiks átti Lennon flott skot utan teigs sem var vel varið. Hefði getað skorað þrennu í þessum leik. Svo átti Barkley skot rétt utan teigs sem Elliort varði í slána og yfir á 56. mínútu.

Tvær aukaspyrnur í röð frá Everton voru mjög nærri því að enda í netinu. Í fyrra tilfellinu hafði boltinn viðkomu í skallanum á Shelvey og Elliot þurfti að taka á honum stóra sínum og verja í slána og yfir. Í seinni aukaspyrnunni tók Cleverley skot beint á mark alveg út við stöng og Elliot rétt náði að slá boltann til hliðar. Newcastle enn ekki komist í færi og Everton auðveldlega getað verið búið að skora þrjú til fjögur mörk. Og jafnvel fleiri.

Það virtist því eins og skrifað í skýin að Everton myndi fá mark í andlitið í fyrsta og eina almennilega færi Newcastle í leiknum en það kom á 65. mínútu þegar sending kom inn í teig. Sem betur fer klúðraði Mitrovic algjöru dauðafæri fyrir þá með skoti rétt framhjá stöng.

Stuttu síðar vildi þulurinn enski meina að Newcastle maður hefði átt að fá rautt spjald fyrir tæklingu með takkana á undan sér niður eftir löppinni á Jagielka (án þess að eiga séns í boltann) en dómarinn ákvað… að aukaspyrna væri nóg.

Newcastle menn uxu inn í leikinn þegar á leið og áttu góða spretti á um 70. til 80. mínútu og þá fór að fara um mann enda virtist sagan frá því fyrr á tímabilinu að endurtaka sig: Everton mikið betra liðið, veður í marktækifærum en missir unninn leik í jafntefli eða verra.

Það gerðist þó ekki í kvöld — Lennon sá til þess með því að fá víti á 85. mínútu þegar hann komst framhjá vinstri bakverði Newcastle og var af honum felldur innan teigs. Barkley tók vítið og átti ekki í vandræðum með það, sendi Elliot í vitlaust horn og skoraði vinstra megin. 2-0 Everton.

Barkley átti stuttu síðar skot sem fór í Collocini, breytti um stefnu og sleikti stöngina. Newcastle menn enn á ný heppnir að fá ekki á sig mark.

Everton liðið gat leyft sér að sitja aftur og beita skyndisóknum, enda tveimur mörkum yfir. Barkley var skeinuhættur í skyndisóknunum, komst upp að vítateig með tvo í sér og reyndi stungu til hægri á Kone sem var rétt utan teigs, en sendingin aðeins of föst fyrir Kone sem var annars í ákjósanlegu færi. Náði skoti undir pressu en langt frá marki.

Newcastle menn kórónuðu svo arfaslakan varnarleik með öðru víti og rauðu spjaldi í þetta skiptið en Lacelles missti Barkley aftur fyrir sig og felldi Barkley svo alveg upp við mark þegar Barkley var kominn einn á móti markverði og uppskar varnarmaðurinn því réttilega rautt spjald. Barkley aftur á vítapunktinn og einfaldlega chip-aði boltann í mitt markið — markvörðurinn löngu búinn að kasta sér þegar boltinn snerti netið.

Og þar með kláraðist leikurinn. Auðveldur, verðskuldaður og sanngjarn 3-0 sigur í höfn. Meira svona.

Everton í 11. sæti eftir sigurinn og aðeins tvö stig í 7. sætið.

Einkunnir Sky Sports: Robles (7), Coleman (8), Mori (7), Oviedo (7), Jagielka (7), Barry (7), McCarthy (7), Cleverley (8), Lennon (8), Barkley (9), Lukaku (6). Varamenn: Kone (6). Aðeins einn maður stóð upp úr hjá Newcastle í einkunnagjöf en það var Elliot, markvörður þeirra, með 9.

 

Ekki gleyma skráningu á árshátíðina, sjá hér. Hún er eftir örfáa daga!

26 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Hálfgert andvarðarleysi hjá okkar mönnum, vantar einhvern brodd í þetta.

  2. Gestur skrifar:

    Þetta lítur ekki vel út

  3. Diddi skrifar:

    eigum við ekki að skipta Dellafú inná núna fyrir cleverley

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Mikið er ég glaður að hafa haft rangt fyrir mér.
    Loksins sigur

    • Teddi skrifar:

      Til hamingju Ingvar, gott jinx!

    • Orri skrifar:

      Sæll Ingvar. Ert þú ekki orðinn bjartsýnni á gengi okkar manna eftir þennan sigurleik ????????

      • Ingvar Bæringsson skrifar:

        Nei reyndar ekki. Er einhver ástæða til þess?

        • Orri skrifar:

          Sæll Ingvar. Verðum við ekki að vona að þetta sé að koma hjá okkar mönnum, svo við getum horft björtum augum á framhaldið.

          • Ingvar Bæringsson skrifar:

            Jú ég vona það svo sannarlega. En ég hef bara ekki trú á því, allavega ekki ennþá.

  5. Diddi skrifar:

    McCarthy er svakalega mikilvægur fyrir okkur og var algjörlega frábær í þessum leik. Kemur á óvart hvað Lennon er sterkur líkamlega þessi tittur, hann átti líka flottan leik. Heilt yfir mjög sanngjarn sigur og flott frammistaða 🙂 p.s. Kone stóð sig líka vel í að halda boltanum og spila menn inn. Stórkostlegt 🙂

  6. Ari S skrifar:

    Ég sá bara seinni hálfleikinn. Þvílíkur leikur hjá okkar mönnum. Barkley stimplaði sig endan lega inn sem Heimsklassaleikmaður í kvöld. Í sínum 100. leik fyrir félagið og toppaði frábæra frammistöðu með mörkum úr tveimur vítum. Mér fannst bara allir leikmenn spila vel og góður baráttuandi ríkir í liðinu.

    Howard ekki einu sinni á bekknum og nú virðist Joel Robles vera búinn að tryggja sér stöðu í markinu sem er bara gott að mínu mati. Tim Howard búin að skila sínu fyrir félagið og hefur ekki verið nógu stöðugur í leik sínum síðustu 18 mánuði. Kominn tími á breytingar þarna.

    En umfram allt góður sigur og góð þrjú stig.

    • Einar Gunnar skrifar:

      Like!

    • Diddi skrifar:

      Því miður er ástæðan fyrir fjarveru Howard aðeins meiðsli þannig að við skulum búa okkur yndir komu hans um leið og hann verður heill þrátt fyrir hrein mörk hjá Joel. Vonandi hef ég rangt fyrir mér eins og Ingvar vinur minn stundum ……..og ég líka oft 🙂

    • Gestur skrifar:

      Barkley var samt mistækur í fyrri hálfleik gott að sjá hann koma sterkann í seinni. Lennon mjög góður og líka margir en í miðjum seinni hálfleik kom smá pressa frá Newcastle og þá fór um mann. Newcastle eru bara ekki sterkir og við hefðum ekki geta leyft okkur að spila svona ef við hefðum verið að spila við sterkari aðstæðinga en góður sigur í kvöld

      • Ari S skrifar:

        Þú veist bara ekkert um það Gestur. Hvernig við hefðum spilað. Kommon njóttu stundarinnar, njóttu sigursins og prófaðu að sleppa þessum neikvæðu pælingum og einblína á það góða og skemmtilega í leik Everton manna. Ég veit það virkaði hjá mér og því ekki þér. Kær kveðja, Ari.

        • Gestur skrifar:

          Þú getur heldur ekki sagt svona sjáandi bara seinni hálfleikinn en eins og ég sagði , góður sigur í kvöld.

          • Ari S skrifar:

            Ég var nú bara að tala um bullið í þér að við hefðum verið svona góðir bara af því að við hefðum verið að spila gegn svo lélegu liði og að við hefðum ekki verið svona góðir ef við hefðum verið að spila gegn betra liðið en Newcastle er. Vertu sæll að sinni Gestur. ( eða bara Hr. Neikvæður)

  7. Orri skrifar:

    Mér fannst aldrei spurnnig hvort liðið færi með sigur í þessum leik,við vorum einfaldlega nokkrum núnerum of stóriir fyrir Newcastle.Barkley bestur af mörgum góðum.

  8. Trausti skrifar:

    Lennon maður leiksins

    • Finnur skrifar:

      Hann er núna búinn að vera frábær tvo leiki í röð. Vonast eftir að sjá hann á kantinum um helgina.

      • Gestur skrifar:

        Hann hefur komið sterkur inn og er að taka leiki af Dealufo

        • Finnur skrifar:

          Jamm. Liðið er, finnst mér, betra varnarlega þegar Lennon er að hjálpa við að brjóta niður sóknir andstæðinganna (frekar en Deulofeu). Dont get me wrong: Deuloefu er algjörlega frábær leikmaður… framarlega á vellinum. Stóri veikleikinn á hans leik er varnarhliðin: Hann eyðir of löngum tíma í að svekkja sig á að sóknir renni út í sandinn, virðist stundum spara sig fyrir næstu sókn (með því að hlaupa ekki til baka) og þegar hann hleypur til baka er hann hálf áhugalaus um að staðsetja sig rétt og stoppa sendingar fyrir markið. Lennon er einfaldlega alltaf að.

          Þar sem vandi Everton á tímabilinu hefur ekki verið að skora (sem oft er sagt að sé það erfiðasta í fótbolta) þá er ekkert vitlaust að Lennon sjá um að halda Deulofeu á bekknum, allavega á meðan Lennon er bæði að skora og leggja upp — og liðið ekki einu sinni að fá á sig mörk í millitíðinni. 🙂

          • Teddi skrifar:

            Sammála með spánverjann, eins og maður er að fíla að hann sýndi hvað hann getur í vetur! (I’m a poet and I didn’t know it)
            Þá er hann alltaf að garga á samherjana þegar að sóknir klikka í stað þess að taka Barca-pressuna og vinna boltann aftur.

            Best regards,
            Ford Fairlane.

  9. albert gunnlaugsson skrifar:

    Ekki hissa að Elliot hafi fengið 9 í einkunn.
    Okkar menn ættu að fá meira sjálfstraust núna þegar þeir eru búnir að kveða niður jafnteflisdrauginn! 🙂

  10. Elvar Örn skrifar:

    Ég er enn viss um að Yarmolenko komi til okkar í sumar:
    http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2016/02/04/vill_ekki_bara_taka_selfie_med_messi/

    Svakalega var þetta flottur leikur af hálfu Everton. Fannst Barkley frábær og ef hefði ekki verið fyrir frábæra frammistöðu Elliot í marki Newcastle þá hefðum við unnið með mun stærri mun.
    Lennon líka flottur og Cleverley að koma vel út og í raun var liðið mjög duglegt og kröftugt í dag og Robles að koma fínt út líka.

    Svakalega mikilvægir leikir framunda gegn Stoke og WBA en þetta eru liðin rétt fyrir ofan og neðan okkur.

    Spurning hvort Lukaku verði eitthvað frá vegna meiðsla í næstu leikjum og þá líka spurning hvort Niasse sé tilbúinn en hann er jú búinn að vera í mánaðar fríi eftir hlé í Rússnesku deildinni.

    Er bjartsýnn með að allt sé á uppleið hjá okkur.

  11. þorri skrifar:

    verða menn ekki bara hressir á ölver á laugardaginn ég ælta að reyna koma og hvetja okkar menn. Frábær leikur hjá okkar mönnum koma ekki nokkri sigrar í kjölfari áfram EVERTON