Everton vs. Newcastle

Mynd: Everton FC.

Everton og Newcastle (sem og Watford og Chelsea) eiga lokaleikina tvo í 24. umferð annað kvöld (miðvikudag) kl. 19:45.

Það verður fróðlegt að sjá liðið sem Newcastle menn stilla upp þar sem þeir keyptu Andros Townsend og Jonjoe Shelvey, hvorn um sig á 12M punda, og fengu einnig Seydou Doumbia (lán) og Henri Saivet (5M) til liðs við sig í janúarglugganum. Þeir voru þó einnig að leita að reyndum markaskorara en náðu því markmiði ekki og Doumbia þarf atvinnuleyfi þannig að óvíst er hvort hann verði með þeim.

Talandi um nýja leikmenn þá er okkar nýi sóknarmaður, Oumar Niasse (skemmtileg grein um hann hér), ekki gjaldgengur en reiknað er með að hann verði það fyrir næsta leik. Howard er tæpur fyrir leikinn en hann varð fyrir hnémeiðslum á æfingu og verður metinn á leikdegi. Ólíklegt þykir að Mirallas verði orðinn nógu góður og Besic verður pottþétt frá. Mirallas þarf einhverja daga í viðbót og Besic allavega einhverjar örfáar vikur.

Líkleg uppstilling því: Robles, Baines, Mori, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Pienaar, Barkley, Deulofeu, Lukaku.

Hjá Newcastle verða Colback og Dummett metnir á leikdegi en Tim Krul, Massadio Haidara, Kevin Mbabu, Vurnon Anita, Siem de Jong og Papiss Cisse verða frá vegna meiðsla.

Úr tölfræðideildinni er það að frétta að Lukaku hefur skorað 5 mörk og átt fjórar stoðsendingar í síðustu 7 leikjum gegn Newcastle en þeir hafa ekki náð að skora gegn Everton í þremur af síðustu fjórum leikjum þessara liða. Ross Barkley hefur einnig skorað í þremur af síðustu fimm leikjum gegn Newcastle. Til gamans má svo geta þess að Newcastle léku fyrir luktum dyrum vináttuleik gegn erkiféndunum í Sunderland svona til að halda sér í leikformi (þar sem hvorugt lið lék í FA bikarnum) og þeir töpuðu þeim leik 6-0.

Newcastle koma þó ekki til með að gefa neitt eftir á morgun en þeir eru í fallsæti og geta komist upp úr því með sigri annað kvöld. Leikurinn er í beinni á Ölveri.

Af ungliðunum er það að frétta að U18 ára liðið gerði 1-1 jafntefli við West Brom á dögunum en mark Everton skoraði Jack Bainbridge. U21 árs liðið lagði svo United U21 2-0 með mörkum frá Mason Holgate og Calum Dyson.

Í lokin er rétt að minnast á árshátíð en við þurfum svör frá helst öllum lesendum, hvort sem ætlunin er að mæta eða ekki. Sjá nánar hér.

7 Athugasemdir

  1. Teddi skrifar:

    3-0 fyrir Everton.
    Í stöðunni 1-0 fær Jonjo Shelvey rautt.
    Baines, Lukaku og Stones með mörkin.

  2. Diddi skrifar:

    3 -1 nýji strikerinn þeirra skorar ?

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Við töpum 1-2.

  4. Orri skrifar:

    Þá er þetta klárt sigur hjá okkur 4-1.

  5. Diddi skrifar:

    jæja full varnarsinnað og Stones ekki einu sinni á bekknum 🙂

  6. Finnur skrifar:

    Uppstillingin komin:
    http://everton.is/?p=10626

  7. Diddi skrifar:

    það verður væntanlega frakki á Vijnaldum, ekki veitir af, hann er of góður 🙂