Bournemouth – Everton 3-3

Mynd: Everton FC.

Ótrúlegur tilfinningarússibani í dag í jafnteflisleik gegn Bournemouth. Everton kyrfilega við stjórnvölinn þangað til á 80 mínútu þegar Bournemouth skoruðu algjört glæsimark sem kveikti aldeilis í þeim

Uppstillingin: Howard, Galloway, Mori,  Stones, Coleman, McCarthy, Barry, Deulofeu, Barkley, Kone, Lukaku. Varamenn: Robles, Gibson, Osman, Cleverley, Mirallas, Lennon, Naismith. Sem sagt: Óbreytt uppstilling frá Aston Villa leiknum sem Everton vann 4-0.

Leikurinn leit strax út fyrir að verða opinn og skemmtilegur, Bournemouth í sóknarboltanum og greinilega staðráðnir í að vinna. Enda eru þeir ekki lið sem parkerar rútunni fyrir framan markið. Bournemouth með fyrstu þrjú hálffærin í leiknum, það fyrsta rétt framhjá stönginni, næsta í fangið á Howard og svo eitt sem hann varði ágætlega. Ekkert til að hafa of miklar áhyggjur af.

Bournemouth hafa verið óheppnir með meiðsli á tímabilinu og sú staða virtist vera að versna mikið á 15. mínútu þegar markvörður þeirra meiddist eftir að hafa lent illa eftir stökk í úthlaupi. Þeirra aðalmarkvörður þegar meiddur, en Allsop, þriðji í goggunarröðinni sendur að hita upp — aldrei spilað Úrvalsdeildarleik áður.

Og þetta viritst kveikja í Everton sem settu mjög góða pressu á vörn Bournemouth. Kone átt fyrsta skot á markið fyrir Everton, eftir að varnarmaður hreinsaði með skalla beint á Kone sem var í ákjósanlegu færi en skotið varið í horn. Lukaku átti frábæran skalla sem var glæsilega varinn en þar hefði staðan átt að vera 0-1. Everton átti svo flott skot stuttu síðar sem var einnig varið en pressan skilaði sér loks með marki. Everton fékk horn skömmu síðar og nýtti sér það, boltinn hár inn í teig og Funes Mori stökk hæst og stangaði boltann í netið. 0-1 fyrir Everton og nokkuð verðskuldað.

Og áður en Bournemouth höfðu náð áttum var Lukaku búinn að bæta við marki. Deulofeu sendi glæsilega stungu inn í teig, sá hlaupið hjá Lukaku sem setti boltann fyrir sig í teig hægra megin með einni snertingu og þrumaði inn framhjá markverði, með varnarmanninn í bakinu. 0-2 fyrir Everton og Lukaku bara getur ekki hætt að skora.

Stones bjargaði á línu fyrir Everton nokkrum mínútum síðar. Howard hafði ekki náð til bolta í úthlaupi eftir fyrirgjöf Bournemouth frá hægri og boltinn hrökk af Bournemouth manni og svo af lærinu á Stones og virtist ætla að enda í netinu en Stones hreinsaði frá. Galloway reyndar ekki langt frá heldur til að hreinsa líka. Fyrsta og eina taugaveiklunin sem sjáanleg var í vörn Everton og þannig hélst það í fyrri hálfleik.

Everton með verðskuldað tveggja marka forskot í hálfleik.

Tvær breytingar hjá Bournemouth í hálfleik: Alsop í markið (eins og búist var við) og nýr hægri bakvörður inn á.

Bournemouth byrjuðu seinni hálfleik af nokkrum krafti, héldu bolta mjög vel og náðu að láta reyna aðeins á Howard í hálffærum en Everton svöruðu helsts með skyndisóknum, greinilega sáttir við að vera tveimur yfir og minnkuðu pressuna.

Ekki mjög mikið að gerast samt þangað til Lukaku fékk dauðafæri á 60. mínútu þegar Coleman fékk boltann óvænt á hægri kanti og sendi fyrir. Lukaku einn á móti markverði en náði ekki til boltans, enda erfitt. En það átti eftir að reynast Everton dýrkeypt.

McCarthy fór út af á 67. mínútu og Tom Cleverley inn á (McCarthy hafði lent illa eftir skallabolta stuttu áður).

Bournemouth áttu ágætlega útfærða sókn stuttu síðar sem endaði með langskoti, en eins og svo mörg önnur færi þeirra var skotið beint á Howard.

Meiðslabölvun Bournemouth hélt áfram þegar þeir misstu annan mann af velli á 75. mínútu með tognun í lærvöðva.

Allt leit nú út fyrir auðveldan sigur Everton í leiknum, komnir 2-0 yfir, Bournemouth liðið veikst af meiðslum, komnir með þriðja valkost í markið og búnir með allar skiptingar sínar í leiknum. Bournemouth þó mun meira með boltann en Everton leit út fyrir að vera algjörlega við stjórnvölinn og líklegri til að bæta við marki úr skyndisókn en fá á sig mark.

En þá gerðist slysið. Bournemouth minnkuðu muninn í 1-2 með algjörlega frábæru langskoti frá hægri í samskeytin vinstra megin, stöngin inn. Óverjandi fyrir Howard en Deulofeu hefði mátt vinna varnarvinnuna betur að mínu mati, var næstur markaskoraranum en kaus að fara ekki í hann og blokkera heldur gerði sig líklegan að hlaupa fram. Staðan allt í einu orðin 1-2 og búið að hleypa Bournemouth inn í leikinn að þarfalausu.

Og Bouremouth menn gengu á lagið og vildu víti örskömmu síðar þegar Smith féll við inni í teig eftir viðskipti við Galloway en dómarinn ekki á því að gefa víti. Lîklega rétt ákvörðun — Smith farinn að láta sig detta áður en Galloway kom við hann, að mér sýndist. Bournemouth klárlega í uppsveiflu í leiknum.

Lennon var skipt inn á fyrir Deulofeu á 86. mínútu en hann fékk ekki mikinn tíma til að átta sig á leiknum því aðeins mínútu síðar höfðu Bournemouth jafnað. Þeir fengu aukaspyrnu við miðju sem þeir tóku hratt, sendu á kantinn hægra megin og þaðan lágt fyrir markið. Sanistlas mættur og hamraði í netið. Staðan 2-2 og ótrúlegur viðsnúningur á hálfleikjum og ekki síður dramatíkin í lokamínútunum sem fylgdu.

Fimm mínútum var bætt við leikinn í lokin og undir blálok leiksins skoraði Barkley það sem leit út fyrir að vera sigurmarkið í leiknum. Sendi á Kone inn í teig og fékk stuttu síðar boltann aftur eftir að Coleman hafði mistekist að skjóta á mark. Barkley brást hins vegar ekki bogalistin, tók snúninginn og skoraði af stuttu færi.

Allt varð náttúrulega brjálað inni á vellinum! Everton virtist vera að stela sigrinum í blálokin og stuðningsmenn Everton komnir inn á völlinn að fagna með leikmönnum og útlitið dökkt fyrir Bournemouth enda staðan orðin 2-3 fyrir Everton og nær ekkert eftir á klukkunni.

En þegar búið var að róa mannskapinn niður og koma áhorfendum út af, höfðu Bournemouth aðeins örfáar sekúndur til að jafna og það tókst þeim. Stanislas þar aftur að verki á 98. mínútu, með öflugum skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri. Staðan 3-3 og dómarinn flautaði leikinn af strax eftir miðjuna.

Það er erfitt að líta á þetta öðruvísi en sem tvö töpuð stig en ekki vantaði spennuna né flottan fótbolta og sannaðist það sem BBC sögðu eftir síðasta leik að leikir Everton eru einhver besta skemmtun fyrir áhorfendur sem völ er á í Úrvalsdeildinni.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar: Howard (7), Galloway (6), Funes Mori (7), Stones (7), Coleman (6), McCarthy (6), Barry (6), Deulofeu (6), Barkley (6), Kone (6), Lukaku (7). Varamenn: Gibson (6), Lennon (6), Cleverley (6)

15 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Everton hafa verið góðir meirihluta leiksins en virka svakalega þreyttir í síðari hálfleik. Vonandi heldur vörnin. Kær kveðja, Ari.

  2. Ari S skrifar:

    Þvílíkur endir, Bournemouth átti þetta skilið.

  3. Gunnþór skrifar:

    Hvað kom fyrir sá ekki seinni hálfleik?djöfull er ég brjálaður

  4. Diddi skrifar:

    þvílík aumingjagæska, hættu bara í tvö núll, þetta hlýtur að vera dagskipun þjálfara, andskotinn 🙂

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Fyrri hálfleikur var fínn en menn mættu bara ekki til leiks í seinni hálfleik fyrr en staðan var orðin jöfn.
    Ég hélt að við værum að hafa þetta af þegar Barklay skoraði en af því að stuðningsmennirnir ruddust inn á völlinn og Martinez ákvað að gera tilgangslausa skiptingu þá fengu Bournemouth einn séns enn og nýttu hann vel.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Svo skil ég ekki af hverju Martinez gat ekki séð það sem allir aðrir sáu að menn voru bara gangandi í svefni í seinni hálfleik og bara tímaspursmál hvenær Bournemouth myndi skora. Það var ekkert að gerast í sóknarleiknum og það hefði átt að setja Mirallas inn á í staðinn fyrir Kone sem var ekki góður í dag.

    • Diddi skrifar:

      algjörlega sammála Ingvar, vildi fá Mirallas inn fyrir Kone strax á 60. mín. Mirallas hlýtur að hafa tekið kellinguna hjá Martinez 🙂
      Kone var gjörsamlega heillum horfinn og missti oft boltann klaufalega sem leiddi til pressu á okkur, en ok allir virtust detta í drullugírinn 🙂

  7. Gestur skrifar:

    algjör aumingjaskapur hjá okkar mönnum

  8. Teddi skrifar:

    „Get off the pitch you crazy fans“

    Tilfinningasveiflur milli kl.16-17 með eldri týpum af smileys.
    Sá ekki fyrsta markið í beinni.
    🙂 >>> 🙁 >>> 🙁 >>> 🙂 🙂 🙂 >>> 🙁 >>> x-/

  9. Halldór Sig skrifar:

    Alveg samála með Kone, hvers vegna var manninum ekki skipt útaf? hann var augljóslega orðin grútslappur fljótlega í seinni hálfleik og í engum takti við leikinn. T.d. í marki nr. 2 hjá Bormouth upphafið var að Kone tapaði boltanum aulalega á miðsvæðinu, Barry gefur aukaspyrnu og svo…..

  10. Elvar Örn skrifar:

    Svakalegur endir. Arfa slakir í seinni hálfleik og skrái jafnteflið á Martinez Fyrir að gera ekki amk 2 skiptingar á um 60 mínútu.
    Var á Everton bar hér í New York og um leið og við komumst í 2-3 þá ákvað ég að taka Video yfir hópinn þegar flautað væri af til að ná fagnaðarlátunum og allir að gleðjast og ,,en svakalegt kjaftshögg þarna á 98 mín grrrrrrr. Var ekki leikurinn búinn? Æi var pirraður í nokkra klst á eftir.

  11. Teddi skrifar:

    Úff maður er hálf svekktur ennþá en farinn að skrifa aftur á mannamáli. 🙂
    Liðið okkar bætir þetta upp með taplausum desember.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Hann verður það tæplega. Fyrsti deildarleikur í desember er okkar árlega svekkjandi tap á heimavelli gegn Crystal Palace.