Everton – Sunderland 6-2

Mynd: Everton FC.

Sunderland menn mættu fullir sjálfstraust í þennan leik eftir 3-0 sigur á erkiféndum sínum, Newcastle, í síðasta leik. En í dag mættu þeir Everton liði í fantaformi og þrátt fyrir að hafa jafnað af harðfylgi í byrjun seinni hálfleiks höfðu þeir ekki roð við Everton í þessum leik.

Uppstillingin: Howard, Oviedo, Mori, Stones, Coleman, McCarthy, Barry, Barkley, Deulofeu, Kone, Lukaku. Varamenn: Robles, Galloway, Lennon, Naismith, Osman, Mirallas, Gibson.

Sunderland byrjuðu leikinn af krafti og áttu stangarskot á 3. mínútu upp úr engu og aftur stuttu síðar þegar Howard varði vel frá Defoe, frákastið fór út í teig til Sunderland manns sem skaut í stöngina vinstra megin. Frákastið aftur til Sunderland manns en Howard og Coleman hentu sér fyrir það og blokkeruðu. Everton liðið hefði ekki getað kvartað yfir því að vera tveimur undir á þeim tímapunkti.

En Everton óx ásmegin eftir því sem á leið og hafði náð 70% possession eftir um hálftíma leik. Barkley átti flott skot af löngu færi rétt framhjá á 10. mínútu og á 18. mínútu kom mark. Sunderland menn tóku útspark og skildu þrjá eftir í vörninni sem galopnaðist fyrir Deulofeu. Miðjan okkar vann boltann, sendi á Kone sem sendi frábæra stungusendingu á Deulofeu, sem tók á sprettinn inn í teig hægra megin og fékk að skjóta óáreittur gegnum klofið á markverði Sunderland. 1-0

Kone lagði boltann stuttu síðar flott fyrir Coleman, sem pikkaði hann upp, hljóp inn í teig og hlóð í skotið en varið í horn.

Oviedo lenti í einhverjum meiðslum á lærvöðva á 23. mínútu og inn á kom Galloway í staðinn fyrir hann.

En á 30. mínútu kom annað mark frá Everton. Kone óvaldaður við D-ið á vítateignum fékk boltann frá Barkely, tók einfaldan þríhyrning við Lukaku, og fékk boltann aftur í ákjósanlegu færi, þeir tveir búnir að opna vörn Sunderland illa. Kone skaut ekki strax og maður hélt að þetta væri búið en í staðinn tók hann skrefið til vinstri og þrumaði boltanum rétt neðan við slá. 2-0 fyrir Everton.

Lítið að gerast eftir þetta, loftið svolítið úr Sunderland mönnum og Everton virtist bara að bíða hálfleiks. Værukærð yfir mönnum og menn misstu einbeitingu og Sunderland refsuðu þegar komið var 20 sek framyfir uppbótartíma. Stones hreinsaði ekki fyrirgjöf fram og hleypti Jermaine Defoe í boltann. Boltinn breytti örlítið um stefnu og í hornið.

Staðan 2-1 í hálfleik.

Sama kæruleysið var í gangi í byrjun seinni hálfleiks og í þeim fyrri og Sunderland menn refsuðu. Einfalt mark, Defoe með fyrirgjöf frá vinstri, Mori tapaði skallaeinvígi og Fletcher skalla inn fyrir Sunderland. Staðan orðin jöfn 2-2.

En Everton tóku við þetta öll völd á vellinum, tóku Sunderland í kennslustund í possession fótbolta og röðuðu inn mörkunum á þá.

Það fyrsta kom eftir frábæra fyrirgjöf frá Deulofeu af hægri kanti. Lukaku ætlaði að skalla inn en fyrrum Liverpool maðurinn Coates varð á undan og einfaldlega sparkaði boltanum í eigið net. 3-2 fyrir Everton á 55. mínútu.

Sunderland þurftu þar með að sækja og Everton nýtti sér það. Þeir unnu boltann í vörninni, Stones sendi á Deulofeu sem sendi geðveikan bolta upp völlinn frá miðju, sem setti Lukaku inn fyrir aftasta mann og Lukaku sneri auðveldlega á markvörð, komst framhjá og skoraði í autt markið. 4-2 á 60. mínútu. Lukaku gerði þetta vel en ekki má gleyma því að Deulofeu gerði honum mjög auðvelt fyrir í undirbúningnum.

Sama forskrift var notuð nokkrum mínútum síðar, Everton vann boltann í vörninni og þeir voru fljótir upp völlinn, komust þrír á móti tveimur varnarmönnum, Barkley gaf á McCarthy sem sendi stungu inn fyrir vinstra megin inn í teig á Kone sem einfaldlega þrumaði inn vinstra megin í teignum þegar maður átti von á fyrirgjöf. 5-2 eftir 62ja mínútna leik.

Mirallas skipt inn á fyrir Deulofeu á 65. mínútu og hann hefði getað bætt við marki á 72. mínútu, aftur eftir skyndisókn. Mirallas fékk flotta sendingu inn fyrir, komst framhjá markverði en Sunderland maður náði að blokkera sendingu fyrir mark með markvörðinn að hlaupa aftur í markið.

Það gerð þó ekkert til því að á 77. mínútu átti Lukaku með geðveika fyrirgjöf — utan fótar með vinstri fæti, beint á skallann á Kone. Einfalt. Auðvelt. 6-2 fyrir Everton og Kone kominn með sína fyrstu þrennu fyrir Everton.

Osman inn á fyrir Lukaku á 78. mínútu en leikurinn var búinn á þeim tímapunkti. Það var smá líf í Sunderland í lokin, þeir komust í tvö góð færi sem þeir náðu ekki að nýta, það seinna einn á móti markverði en Howard sá við honum.

Mirallas átti líka skot innan teigs en rétt framhjá stöng á 87. mínútu.

6-2 lokastaðan og Everton upp í 8. sæti.

Einkunnir Sky Sports: Howard (7), Oviedo (6), Funes Mori (5), Stones (6), Coleman (6), McCarthy (7), Barry (7), Kone (9), Barkley (7), Deulofeu (8), Lukaku (7). Varamenn: Galloway (6), Osman (5), Mirallas (6).  Sunderland menn oftast með 5 eða 6 en tveir með 7.

Að lokum er ekki úr vegi að minna fólk á árgjöld stuðningsmannafélagsins en finna má rukkun í heimabankanum!

23 Athugasemdir

  1. Einar Gunnar skrifar:

    Ég geri kröfu um 3 stig í dag. Það má vera ljótt, einskær heppni, en þrjú stig verða það að vera!

  2. Teddi skrifar:

    Ef okkar fulltrúi á vellinum (Daddi?) býr í norðurhluta Englands, væri fínt að klúbburinn mundi bjóða honum á heimaleiki þangað til í næsta tapleik. 🙂

    Sjibbý.

  3. Ari G skrifar:

    Frábær leikur. Everton á að halda áfram að spila svona fótbolta sækja og skora. Deulofeu stórkostlegur, besti leikur Kone með Everton frábær líka og Lukaku þessir 3 voru stórkostlegir. Bara allt liðið framávið voru að spila stórkostlegan leik. Mér er sama þótt vörnin hafi ekki verið sérstök þá er mér sama sóknin er besta vörnin.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Eigum við að ræða þetta eitthvað. Þvílíkur leikur og nokkrir alveg magnaðir hjá okkur, t.d. Deulofeu, Kone, Barkley, Lukaku og fleiri. Snilld að setja 6 mörk og yndislegt að sjá leikgleðina sem skein úr andlitum félaganna.
    Tökum West Ham í næsta leik og komumst upp að hlið þeirra og höldum að skríða áfram upp töfluna.
    Nokkuð létt leikjaprógramm framundan, amk í næstu 8 leikjum, ef létt má kalla.
    Svo er bara að komast lengra í báðum bikarkeppnunum og komast í Evrópu eða Meistara deildina á næsta ári.

    • Diddi skrifar:

      sammála Elvar en West Ham hefur verið að vinna þau lið sem stýra leikjunum og við verðum að passa okkur á þeim. Sást hjá þeim á móti Watford að þeir eru ekki góðir þegar þeir þurfa að stýra leikjunum sjálfir. En þeir hafa nú yfirleitt verið í uppáhaldi hjá okkur og við höfum frábært record gegn þeim. Koma svo !!!!!!!

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var flottur sigur og flott hjá Kone að ná þrennu.
    EN!!! Við vorum stálheppnir að vera ekki tveimur mörkum undir eftir 15 mínútur og mér líkaði ekki hversu aðveldlega Sunderland komust í gegnum vörnina hjá okkur.
    Hins vegar er ég mjög ánægður með hvað liðið hélt boltanum vel og mér fannst sóknarleikurinn mjög góður enda ekki annað hægt, við skoruðum jú 6 mörk.

    Ég ætla að halda mig á jörðinni þrátt fyrir þennan stóra sigur, þetta var jú bara Sunderland.

  6. Finnur skrifar:

    Var að sjá að Barkley og Kone eru í liði vikunnar að mati BBC:
    http://www.bbc.com/sport/0/football/34695055

    Gaman að því. Þetta var annars bráðskemmtilegur, hraður og opinn leikur, en eins og Ingvar benti á þá var þetta bara Sunderland sem Big Sam á enn eftir að herða — í vörninni sérstaklega.

    Einhver orðaði það svo að tímabil Everton „muni byrja fyrir alvöru“ með leiknum gegn Sunderland í dag því að í fyrstu 10 leikjunum spilaði Everton við öll liðin (!) sem enduðu í átta efstu sætunum á síðasta tímabili (Í röð eftir lokastöðu í deild í fyrra: Chelsea, City, Arsenal, United, Tottenham, Liverpool, Southampton og Swansea). Og Everton „byrjaði“ það tímabil með látum.

    Staðan er sú núna að Everton er aðeins 5 stigum frá Meistaradeildarsæti og er enn í deildarbikarnum, sem er ekki slæmt miðað við það sem á undan er gengið en nú þarf liðið að ganga á lagið og tína stig af minni spámönnum í þeim leikjum sem eru eftir fram að áramótum. Svo getum við séð hver staðan er þegar nýtt ár gengur í garð.

    Ég hef smá áhyggjur af athyglisbrestinum og kæruleysinu sem maður sá á köflum í dag og maður hefur séð of oft í leikjum á tímabilinu (þangað til liðið lendir undir) en ef sóknin verður eins og leiknum í dag þarf ekki að hafa miklar áhyggjur — 8 sinnum rataði boltinn á markið hjá Sunderland og það gaf 6 mörk. Það er ekki slæm nýting.

  7. Daddi Mar skrifar:

    Mikið rosalega var þetta gaman og hefði þessi leikur hæglega getað endað 10-4. Talað um Tiki Taka í stúkunni og allt. P.s. Hitti á J.R. fyrir utan völlinn. Hann er næstum því myndarlegri en ég hafði vonað. Tribute momentið fyrir H.K. gaf mér gæsahúð. Magnaður dagur alveg hreint. Búin að sjá 3 leiki á G.P. og 18 mörk. Geri ráð fyrir að Sky stöðin sendi mér atvinnutilboð í að mæta á leiki.

  8. Georg skrifar:

    Það er ekki annað hægt en að vera ánægður þegar liðið skorar 6 mörk. Við héldum boltanum vel sem sést á tölfræðinni þar sem við vorum 69% með boltann. Ég var einstaklega ánægður með það hvað við vorum að nýta okkur hraðann fram á við. Við náðum boltanum trekk í trekk af Sunderland í kringum miðsvæðið eða fyrir aftan miðju og brunuðum svo upp völlinn. Kone hefur heldur betur komið vel inn í þetta hjá okkur á þessu tímabili og var frábær í leiknum, gaman að sjá loksins hans rétta andlit. Hann fór í gegnum gríðarlega erfið meiðsli og var maður hræddur um að hann næði ekki aftur þeim hæðum sem hann náði með Wigan þegar hann var algjör lykilmaður í lðið Martínez þar.

    Þó maður vilji ekki vera að gagnrýna liðið eftir svona svakalega flottan sigur þá geta allir verið sammála um það að vörnin var ekki nógu þétt í leiknum. Það komu nokkur „moment“ í leiknum þar sem við vorum komnir mjög framalega með liðið og því var vörnin pínu beskjölduð gegn skyndisóknum. Stones og Funes Mori eru bara að læra inn á hvorn annan og held ég að þeir eigi bara eftir að ná betur saman í næstu leikjum.

    Svo verð ég að nefna Oviedo, það virðist engan endir ætla að taka þessi endalausu meiðsli hans. Hann verður eflaust frá næstu 3 vikurnar þar sem hann tognaði aftan í læri en það ætti þó að koma betur í ljós á næstu dögum hversu lengi hann verður frá.

    Baines er að koma til baka úr meiðslum og er byrjaður að æfa með aðalliðinu sem eru mjög ánægjuleg tíðindi. Hann hefur verið okkur gríðarlega mikilvægur síðustu ár og hefru hann ár eftir ár verið einn að mest skapandi bakvörðum heims.

    Það verður gaman að sjá hvar við verðurm um áramótin þar sem við eigum að geta safnað vel að stigum í þeim leikjum sem framundan eru.

  9. Einar G skrifar:

    Hefði Galloway ekki bara átt að byrja?? Mér lýst hrikalega vel á hann tel hann miklu betri en Oviedo.

  10. Tryggvi Gunnarsson skrifar:

    Sælir félagar, ég er nú ekki oft að tjá mig hérna en verð að minnast á þátt Kone í síðasta leik. Hann er x factorinn okkar það er bara þannig. Aftur á móti er ég algjörlega búinn að missa trúnna á Coleman… sendingargetan hans er engin. Tel heillavænlegast að selja hann sem fyrst til að fá eitthvað fyrri hann. Strákar án gríns ..hann getur ekki neitt.

    • Finnur skrifar:

      I have a very strong feeling of Dejavu now. 🙂

      Minni á að Coleman er nýstiginn upp úr bæði meiðslum og uppgangspest (er sagður nokkrum kílóum léttari en fyrir örfáum vikum síðan). Það reyndist rétt að bíða með stóra dóm á Kone þangað til hann yrði alveg heill og hann er að fá frábæra dóma núna. Kemur með þennan x-factor eins og þú nefnir, sem við hefðum ekki fengið að sjá ef hann hefði verið seldur af því hann var lélegur á meðan hann var að vinna sig úr meiðslunum.

      Ég er sammála því að Coleman er ekki búinn að vera neitt sérstakur í undanförnum leikjum en leikmenn sem vinna sig úr meiðslum fara oft í gegnum kafla þar sem þeir eru lélegir í ákveðinn tíma þangað til þeir finna sitt gamla form. Kone virðist vera búinn að finna sitt og Coleman þarf bara tíma. Rétt að rifja upp að það er ekki langt síðan Coleman var markahæsti varnarmaður Úrvalsdeildar (2014?).

      • Tryggvi Gunnarsson skrifar:

        Ok ég bíð með Coleman til áramóta… díll Finnur ?

        • Finnur skrifar:

          Þú þarft ekki mitt leyfi til að mynda þér skoðun á leikmönnum, getur gert það þegar þér sýnist („ég meina, þú þarft ekkert að föndra ef þú vilt það ekki“). 😉

          Sjálfur myndi ég ekki styðja sölu á honum um áramót þó hann sé ekki búinn að ná sér á strik þá. Coleman gekk í gegnum erfitt tímabil eftir meiðsli á undirbúningstímabili fyrir ekki svo mörgum tímabilum síðan og það var hraunað yfir hann hægri vinstri hér sem annars staðar. Svo einfaldlega náði hann sér á strik og sýndi að hann er langbesti hægri bakvörður Everton, fittar vel inn í leikskipulag Everton og er (ef í formi) einn af þeim allra bestu í ensku deildinni.

  11. þorri skrifar:

    sá ekki leikinn miða við hvað skorað var mikið hjá okkar mönnum. Þá hefur þetta verið frábær leikur hjá okkar mönnum, Þá heyrist mér að allir hafa verið sáttir. Ég var það nokkuð þó að ég hafi ekki séð hann er ekki núna bara bjart framundan hjá okkar mönnum

  12. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég er ekki sammála því að Kone sé með einhvern x-factor í okkar liði. Hann átti góðan leik í þetta skiptið og skoraði þrennu það gerði Naismith líka gegn Chelsea en hefur ekki beint verið að brillera eftir það.
    Að mínu mati er Kone einungis miðlungs leikmaður sem átti góðan dag og ég býst ekki við svona frammistöðu frá honum aftur í bráð.

    • Diddi skrifar:

      sammála þér Ingvar en vona að Kone verði svona það sem eftir er 🙂

    • Finnur skrifar:

      Þetta er reyndar ekki einsdæmi á tímabilinu. Kone kom inn á á móti Watford á 63. mínútu þegar Everton var marki undir og þá lagði hann upp mark og skoraði annað. Í sigurleik á móti WBA var Everton líka marki undir þegar Kone kom inn á og þremur mínútum síðar var hann búinn að jafna. Hann tók svo stoðsendingu og þrennuna á móti Sunderland, eins og við þekkjum.

      Það skiptir litlu hvað við köllum það, x-factor eða eitthvað annað, staðreyndin er sú að hann hefur nú í þremur leikjum (25% deildarleikja Everton á tímabilinu) breytt leikjunum algjörlega. Ég sé ekki af hverju við ættum _ekki_ að búast við því að sú frammistaða haldi áfram. Á kannski ekki von á þrennum endilega, enda sjaldgæfar, en eins og hann hefur verið að spila á ég fyllilega von á fleiri mörkum og/eða stoðsendingum frá honum.

      • Diddi skrifar:

        einfaldlega að benda á að þó að leikmaður eigi einhvern einn fantaleik (Naismith á móti Chelsea) þá er óþarfi að missa sig algjörlega. Við félagar Ingvar kjósum sígandi lukku. Án þess að þurfi að bendla okkur við neikvæðudeildina 🙂

  13. þorri skrifar:

    er sammála þér Finnur. Það á ekki afskrifa leikmenn svona fljótt eftir meiðsli. Coleman er einn sá besti í deildinni þarna á kantinum. Frábært að heyra að Baines sé að koma aftur til baka hann verður bara betri og betri.

  14. Elvar Örn skrifar:

    Mér hefur ávallt fundist mórallinn og leikgleðin vera meira áberandi hjá Everton en hjá mörgum öðrum liðum. Í þessum leik var svo mikil leikgleði og samstaða að maður bara hreifst með. Auðvitað eru menn ánægðir þegar vel er gert en þetta var miklu meira en það. Menn voru svo innilega glaðir yfir mörkum og sendingum hvors annars og fögnin voru flott, já og þessi þrjú fögn hjá Kone voru mjög fyndin.
    Einn happy.

  15. þorri skrifar:

    Og nú er það Westham á laugardaginn. Veður ekki leikgleðinn þar strákar