Everton – Liverpool 1-1

Mynd: Everton FC.

Það var greinilega hiti í mönnum fyrir derby leikinn sem hraður og skemmtilegur á löngum köflum. Enn á ný lendir Everton undir í leiknum en nær að harðfylgni að jafna og hefðu með smá heppni getað tekið öll þrjú stigin.

Uppstillingin: Howard, Galloway, Jagielka, Funes Mori, Browning, Barry, McCarthy, Naismith, Barkley, Deulofeu, Lukaku.  Bekkurinn: Robles, Gibson, Oviedo, Kone, Lennon, Osman, Holgate.

Enginn scouser í byrjunarliði Liverpool og bæði lið því óbreytt frá síðasta sigurleik í deild. Sturridge í framlínunni hjá Liverpool en enginn Stones eða Coleman í vörninni hjá okkur — þeir voru ekki einu sinni á bekknum. Jagielka því reynsluboltinn í vörninni með þrjá unga og óreynda sér við hlið. Maður hugsaði því með sér: „Þetta verður eitthvað…“ en ungliðarnir áttu frábæran leik og höndluðu þetta tilefni mjög vel.

Þetta reyndist þó nervy byrjun hjá okkar mönnum á heildina litið og fyrsti hálftíminn slakur. Spilið fyrirsjáanlegt, greddan Liverpool megin sem voru meira með boltann og meira ógnandi þó Everton fengju betri færi.

Sturridge átti reyndar fyrsta færi leiksins á 6. mínútu, var reyndar rangstæður en Jagielka mættur til að hreinsa í horn. Ings átti svo skot stuttu síðar en yfir markið.

Gera þurfti nokkrt hlé á leiknum til að gera að meiðslum Skrtl sem var meiddur á hendi. Kannski tognaður eftir öll górillugripin sín að öllum líkindum. Hann hélt þó áfram leiknum (og górillugripunum).

Millner átti viðstöðulaust skot á 25. mínútu eftir stungusendingu frá Coutinho inn í teig hægra megin, Howard varði með vinstri fætinum í horn.

Hér var orðið ansi þungt í manni yfir spilamennsku Everton, lítið að gerast og leikmenn virtust ekki rétt stemmdir. Það lifnaði þó yfir þeim eftir um hálftíma leik þegar Barkley tók aukaspyrnu, beint á skallann á Naismith sem náði frábærum skalla inni í teig rétt undir slána. Sakho út á þekju — átti að vera að dekka Naismith. En því miður bjargaði Mignolet Liverpool með ótrúlegri vörslu en þar átti staðan að vera 1-0 fyrir Everton. Langbesta færi leiksins.

Stuttu síðar átti McCarthy flott skot rétt innan teigs en aftur glæsilega varið. Liverpool menn hefði ekki getað kvartað yfir því að vera tveimur undir á þeim tímapunkti.

Á 37. mínútu var Can stálheppinn að vera ennþá inni á, þegar hann reyndi hjólhestaspyrnu í höfuðið á Barry. Hann hafði uppskorið gult spjald örfáaum mínútum áður fyrir að hrinda Barkley og það spjald var líklega dómaranum í fersku minni því hann sleppti öðru spjaldi.

Funes Mori átti svo algjöra landsliðstæklingu, hreinsaði í horn, á 41. mínútu þegar Liverpool komust í skyndisókn og var Sturridge næstum kominn einn upp á móti markverði ef ekki hefði verið fyrir hreinsun Funes Mori. En það horn gaf Liverpool mark. Barkley í ruglinu, sleppti því að dekka Ings, en reyndi í staðinn að skalla boltann sem fór svo yfir hann. Ings skallaði inn óvaldaður. Þetta var sama sagan í síðasta leik, ef ég man rétt. Skil ekki af hverju Barkley er látinn dekka menn inni í teig. Hann á að vera rétt fyrir utan og taka hlaupin á vörn Liverpool þegar boltinn er hreinsaður út úr teig. En í staðinn er 0-1 Liverpool.

Þannig stóðu leikar þangað til rétt áður en flautað var til loka hálfleiks en þá tóku Deulofeu og Lukaku til sinna ráða. Deulofeu átti sendingu inn á 46. mínútu sem fór yfir Lukaku. Can í hægri bakverðinum reyndi óskiljanlega sendingu fyrir eigið mark, boltinn hrökk í Skrtl og datt fyrir Lukaku sem þrumar inn. Staðan orðin 1-1 og hvað það var mikið sem maður öskraði! Game on.

1-1 í hálfleik og engin breyting á liðum.

Everton liðið betra liðið í seinni hálfleik, minna um færi, leikurinn í járnum og svolítið daufari fyrir vikið — fyrir utan tvö stutt skipti þar sem allt logaði í rifrildum inni á velli. Lennon var skipt inn á fyrir Deulofeu á 60. mínútu og sá kom með spá innspýtingu á kantinn og meiri ákefð inn í leikinn fyrir Everton.

Barkley átti skot rétt framhjá á 64. mínútu eftir skyndisókn, með Lennon í góðu færi hægra megin við sig. Hefði viljað sjá Barkley gefa til hægri í stað þess að reyna skotið sem fór rétt framhjá.

Lukaku komst í dauðafæri hægra megin á 70. mínútu eftir stungu en skotið beint á Mignolet. Sakho fór í afskaplega glæfralega tæklingu á Lukaku rétt inn teigs en slapp með skrekkinn.

Coutinho svaraði með skoti hinum megin, en beint á Howard. Man ekki eftir neinum almennilegum færum öðrum frá Liverpool í seinni hálfleik… kannski rifjast það upp fyrir mér.

Lucas var svo stálheppinn að sleppa við rautt spjald þegar hann fór í manninn en ekki bolta í þriðja skiptið í röð. Hafði sloppið á undarlegan máta við spjald fyrir fyrsta skiptið, ekki í annað skiptið og átti heldur ekki að sleppa í þriðja skiptið. Rodgers sá hversu ótrúlega fáránlega heppinn hann hafði verið og kippti Lucas beint út af. Dómarinn greinilega að forðast það að reka menn út af þó þeir ættu það skilið. Skil það ekki — þetta er ekki undirbúningstímabilið…

Kone kom svo inn á fyrir Naismith á 78. mínútu.

Lukaku komst í ágætt færi upp við teig undir lokin, boltinn datt aftur fyrir hann skyndilega en skotið blokkerað.

Everton setti svo góða pressu á Liverpool í lokin, til að freista þess að setja inn eitt fyrir lokaflautuna en það gekk ekki. Niðurstaðan því 1-1 sem bæði lið geta verið sæmilega sátt við, Liverpool kannski öllu sáttari því Everton fékk klárlega betri færi á meðan Liverpool hefðu getað og hefðu átt að enda manni færri. En, lítið við því að gera. Rodgers fær væntanlega að halda starfi sínu aðeins lengur og við grátum það svo sem ekki.

Mörkin skrifast á lélega dekkun Barkley úr föstu leikatriði (horni) og algjöran sirkusfarsa varnarmanna Liverpool. Fastir liðir eins og venjulega.

Einkunnir Sky Sports: Howard (6), Browning (6), Jagielka (8), Fures Mori (7), Galloway (6), McCarthy (7), Barry (6), Deulofeu (6), Barkley (7), Naismith (6), Lukaku (8). Varamenn: Lennon (6), Kone (5).

Liverpool með aðeins lakari einkunnir, enginn með áttu en tveir með 5, þar af Coutinho, sem reyndist ekki of erfitt að stoppa.

28 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Lýst ágætlega á þessa uppstillingu nema ég er vafa með Browning en hann er ungur og þarf áskorun og engin leikur er betri en þessi fyrir áskorun. Er Mirallas ennþá í banni? Vonandi verður Deulofey alltaf í byrjunarliðinu les leikinn ótrúlega vel og sendingar hans inní í teiginn eru ótrúlegar eini galli hans er of mikið klapp með boltann. Lýst betur á Naismith í byrjun svo getur Kone komið inn ferskur i seinni hálfleik. Lennon er líka góður eftirréttur í seinni hálfleik.

  2. Diddi skrifar:

    Sammála Ara G, þetta er fínt lið miðað við úr hverjum við höfum að spila í dag. Stend við rústspá fyrir okkur 🙂

  3. Gestur skrifar:

    Sama sagan , ílla valdað í föstu leikatriði

  4. Gestur skrifar:

    Drullu lélegur seinni hálfleikur

  5. Diddi skrifar:

    hundleiðinlegur og lélegur leikur okkar manna á móti ömurlega lélegu liverp. liði.

  6. Steini skrifar:

    Þetta er að verða svo ofmetin grannaslagir. Alltaf jafntefli eða liverpool sigur.
    Pfff

  7. Ari G skrifar:

    Þetta er lélegasta Liverpoollið sem ég hef séð lengi. Jagielka klárlega maður leiksins bjargi stigi fyrir Everton en jafntefli sanngjörn úrslit Liverpool betri fyrstu 30 mín og Everton betri í seinni hálfleik. Ungu varnarmennirnir stöðust pressuna og skiluðu hlutvverki sínu ágætlega Mori svolítið ruglaður fyrst en var góður eftir það. Báðir bakverðirnir skiluðu sínu ágætlega Browning mun betri núna engin slæm mistök. Deulofey náði sér aldrei á strik nema hann átti stöðsetninguna í markinu. Barkely hefur verið oftast betri samt þokkalegur Naismith berst alltaf og Lukaku er loksins að stiga uppöðrum leiknum í röð. Bestu menn leiksins Jagielka gef honum 8,5 ein mistök, Barry og Lukaku 7,5. Bakverðirnir fá 7 aðrir minna.

  8. Ari G skrifar:

    Gleymdi Mora fær 7,5

  9. Finnur skrifar:

    Ég spáði að þetta yrði tæpt, við myndum lenda undir og jafna af harðfylgi. Spáði lokaniðurstöðu 1-1 eða 2-1 og sá Lukaku og Naismith með mörkin. Þetta var nánast allt hárrétt hjá mér — ef Martinez hefði bara sleppt því að skipta Naismith út af þá hefði þetta klárast. 😉

    Flott líka að ná að stoppa Coutinho algjörlega — hann sást varla á vellinum og náði því aldrei að kveikja í Sturridge, sem var álíka slappur.

    Hundfúll með að Leiva fékk að hanga inná. Kolröng ákvörðun hjá Martin Atkinson, sem er í einna sístu uppáhaldi hjá mér af dómurum.

  10. Finnur skrifar:

    Sérstaklega gaman að sjá líka umsögnina um Funes Mori á Sky: „The Argentine made more tackles and interceptions combined (nine) than anyone else on the pitch, and one vital intervention prevented Sturridge from racing through on goal in the closing stages.“

    Hver var annars maður leiksins að ykkar mati?

  11. Gestur skrifar:

    Everton saknar auðvitað Coleman og Baines því það er ákveðinn sóknarþungi sem vantaði í dag sem fylgir þeim köppum. Naismith finnst mér bara ekki nógu góðu fyrir Everton, það vantar aðeins meiri færni á boltann í hann. Hann hleypur alveg helling og berst eins og ljón en er Everton ekki með Barry og McCharty í þessu hlutverki og það væri betra að hafa tekniskari leikmann í hans stað. Þegar Deulofeu var skipt útaf fyrir Lennon datt allt spil niður hjá Everton. Barkley er allur að koma til og Lukaku verður að bæta hjá sér sendingarnar og eins í seinni var hann að hanga á boltanum og reyna að skjóta sem gekk ekkert. Það heillaði mig engin sérstakur nema kannski Jagielka , en eins og ég hef áður sagt þá var þessi leikur ekki góður, það var jú mikið fjör í fyrri hálfleik og einni var alveg hundleiðinlegur. En Everton getur þó glaðst að þetta var seinasti leikur Rogers fyrir Liverpool eða ekki

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Það þykir mér ekki gleðiefni, þeir gætu álpast til að ráða einhvern sem veit hvað henn er að gera.

      • Gestur skrifar:

        Það var ég einmitt að hugsa

        • Finnur skrifar:

          Svo lengi sem leikmannakaupanefndin þeirra er að störfum geta þeir ráðið Guardiola og það myndi breyta voðalega litlu.

  12. halli skrifar:

    Og þađ er búið að reka Brendan Rodgers. Mitt mat à manni leiksins er Jagielka hann spilaði mjög vel í dag. Annars frekar slakur leikur á að horfa.

  13. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég sá því miður ekki leikinn í heild sinni heldur bara stutta kafla í einu en ég er hundsvekktur með að hafa ekki náð sigri í dag.
    Og já meðan ég man, Martin (Tw)Atkinson er fífl.

  14. Eiríkur skrifar:

    Hafði á tilfinningunni að meira væri lagt upp úr því að tapa ekki frekar enn að vinna. Synd því að þetta Liverpool lið áttum við að vinna.

  15. Diddi skrifar:

    Ings hrinti Barkley frá sér í teignum og að mínu mati á Howard að taka boltann eða í það minnsta að ráðast á hann og kýla hann út. Almennilegur og þokkalega graður markvörður á að fara í alla bolta sem detta inní markteignum. Mér finnst því Howard eigi meiri sök á þessu marki heldur en Barkley þið fyrirgefið 🙂

    • Elvar Örn skrifar:

      Sammála, Howard átti klárlega að fara í boltann því sendingin endaði bara rúman meter frá marklínunni.

  16. þorri skrifar:

    Þetta var ekki skemmtilegur leikur. Mér finnst þetta vera sangjörn úrslit. En ég verð að segja mér fannst Lukaku vera mjög góður í þessum leik og Jagielka líka. Hann Martinez gerði vitlausa skipingu með að taka Deulofeo útaf mér fannst hann skila sínu.

    • Elvar Örn skrifar:

      Merkilegt því mér fannst þetta versti leikur Deulofeu í vetur, átti bara eina sendingu sem skilaði (með heppni) marki. Annars mistókst nánast allt sem hann reyndi. Er samt drullu hrifinn af þessum leikmanni. Hann hefur verulega bætt sig varnarlega en á aðeins inni þegar kemur að því hvenær er betra að senda en að reyna sjálfur að troðast í gegnum vörnina.
      Jagielka var jú frábær og reyndar stóð vörnin sig vel og það með 3 óreynda menn í öftustu línu Everton.
      Fannst þetta ekki slakur leikur, það var hellingur að gerast í fyrri hálfleik en seinni var frekar rólegur en fannst Everton klárlega hættulegra liðið í seinni hálfleik og átti tvö rosaleg markskot sem Mignolet varði super vel.
      Bara 1 tap hjá Everton sem af er og ekki dottnir út úr deildarbikarnum. Það er ekki alslæmt en alltaf vill maður meira.

      • Diddi skrifar:

        algjörlega sammála Elvari með Deulofeu, hann var ekki að gera sig í þessum leik.

      • Finnur skrifar:

        En hann átti hins vegar tvær stoðsendingar í 5-2 sigur Spánar U21 á Georgíu U21 í kvöld. 🙂

  17. Elvar Örn skrifar:

    Er Yarmolenko á leiðinni til Everton í Janúar glugganum eftir allt saman? Væri ekki leiðinlegt. En umbinn hans tók mynd af sér í dag á Goodison Park og setti á Fésbókina, getur varla verið hrein tilviljun, eða hvað?
    http://www.101greatgoals.com/blog/transfers/andriy-yarmolenkos-agent-vadim-shabliy-posts-a-picture-on-facebook-at-evertons-goodison-park/?

  18. Elvar Örn skrifar:

    Vert að nefna það líka, þar sem klúbburinn ætlaði að fjölmenna á Crystal Palace í byrjun Des, þá hefur hann verið færður frá laugardegi (5 des) yfir á mánudagskvöld (7 des):
    http://toffeeweb.com/season/15-16/news/30938.html