Baráttan um Bítlaborgina, 1. hluti

Mynd: Everton FC.

Baráttan um Bítlaborgina, eins og viðureignin er stundum nefnd, verður í algleymingi á sunnudaginn þegar Everton tekur hressilega á móti Liverpool í hádegisleik dagsins. Af því tilefni fengum við þrjá sérfróða Everton menn til liðs við okkur á everton.is til að hita upp fyrir leikinn en þeir ættu að vera öllum hér kunnugir, Elvar Örn, Georg og Haraldur Örn. Birtum hér fyrsta hluta þessa viðtals og annar hluti svo á morgun.

Hvernig ætti Everton að leggja upp fyrir derby leikinn?

Elvar: Ég vil Howard klárlega í markið, hann er einfaldlega betri en Robles. Vörnin er líklegast mesta óvissan og ef maður skoðar bara síðasta leik á mánudag gegn WBA þá var bara Jagielka með einhverja reynslu af öftustu fjórum varnarmönnunum. Galloway hefur spilað örfáa leiki en verið magnaður í þeim öllum (fyrir utan leikinn við Manchester City), Funes Mori hefur bara tekið þátt í tveimur leikjum og Browning aðeins í örfáum leikjum sömuleiðis. Ég tel allar líkur á að aftasta línan verði: Coleman, Jagielka, Stones og Galloway en þó gæti Oviedo verið valinn í stað Galloway en ungi strákurinn er bara að spila svo vel að ég vil halda honum í stöðu vinstri bakvarðar. Barry, McCarthy og Barkley munu allir byrja á miðjunni og verð ég að segja að þó Barkley fái mesta hrósið fyrir það hve mikið hann hefur bætt sig frá seinasta ári þá á það einnig við um Barry, hann hefur verið magnaður líka. Ég væri vel til í að sjá Oviedo á kantinum en ég held að hann muni byrja með Kone, Deulofeu og Lukaku í þessum leik. Tel að Oviedo verði á bekknum ásamt Naismith, Gibson, Robles, Osman, Browning og Lennon. Sem sagt:

Howard
Coleman  Stones  Jagielka  Galloway
Barry  McCarthy
Deulofeu  Barkley  Kone
Lukaku

Georg: Liðsuppstillingin mín er mjög svipuð og Elvars, bara með smá áherslubreytingu:

Howard
Coleman  Stones  Jagielka  Galloway
Barry  McCarthy
Deulofeu  Barkley  Naismith
Lukaku

Ég tel mjög mikilvægt að fá bæði Coleman og Stones inn í liðið (sem voru frá vegna meiðsla gegn WBA). Browning og Funes Mori áttu flottan leik gegn WBA en Coleman og Stones hafa verið gríðarlega öflugir í byrjun móts og vörnin hefur litið einstaklega vel út með þá í liðinu. Coleman kemur líka með miklu meiri ógnun fram á við en Browning.

Liðið eins og ég stilli því upp tel ég vera bæði sterkt varnarlega og sóknarlega. Svo eru leikmenn á bekknum eins og Kone og Lennon sem gætu komið inn á þegar líður á leikinn. Kone kom flott inn í leikinn gegn WBA og var ekki nema þrjár mínútur að skora, það er flott að eiga hann inni á bekknum þar sem hann hefur verið mjög flottur í því að taka á móti boltanum og dreifa spilinu þegar þess þarf. Kone er í raun eins og ný kaup þar sem hann er loksins farinn að sýna sitt rétta andlit eftir erfið meiðsli.

Halli: Ég vel 4-3-3 kerfið þar sem ég tel að Liverpool spili 3-4-1-2 kerfi og vil ég verja miðjuna betur og eins að þeir spila með 3 miðverði og enga bakverði og því vil ég fá fljóta kantsóknarmenn inn á bak við vörnina hjá þeim. Ástæðan fyrir að ég vel þessa leikmenn er að ég tel þá alla besta í sinni stöðu sem við eigum klára fyrir helgina og vonandi verða allir heilir.

Howard
Coleman  Stones  Jagielka  Galloway
McCarthy  Barkley  Barry
Lennon  Lukaku  Deulofeu

Ég held að ég væri til í að sjá McCarthy nánast man-marking Coutinho allan leikinn því að nánast allur sóknarleikur þeirra fer í gegnum hann. En í enda dagsins vil ég bara sigur, ljótan fallegan skiptir ekki máli bara að hann gefi 3 stig.

Hvernig verða liðin stemmd fyrir leikinn?

Elvar: Bæði lið virðast alltaf vel stemmd fyrir þennan derby leik og gengi og staða liða í deild virðist oft ekki hafa nein áhrif á frammistöðuna. Bæði lið sigruðu í síðasta deildarleik og eru með svipaða stöðu í deildinni svo ég tel að bæði lið séu með þokkalegt sjálfstraust þegar kemur að þessum leik. Fyrir leikmenn held ég að þetta sé leikurinn sem má ekki tapast og frá sjónarhóli Liverpool skiptir hann marga meira máli en t.d. leikurinn gegn Manchester United.

Georg: Bæði lið eru að koma inn í þennan leik með sigur á bakinu í deildinni, þó verður að ráðast svolítið af því hvernig Liverpool kemur inn í leikinn hvernig leikurinn gegn FC Sion fer á fimmtudaginn í Evrópudeildinni. Everton sýndi gríðarlegan karakter að koma til baka verandi 2-0 undir og vinna leikinn 2-3 gegn WBA og því ætti að vera mikið sjálfstraust í liðinu. Innkoma Coleman og Stones í liðið ætti einnig að veita liðinu ennþá meira öryggi. Liverpool er að spila heimaleik gegn FC Sion á fimmtudag og því þurfa þeir ekki að ferðast neitt fyrir Evrópuleikinn sem ætti að hjálpa þeim að jafna sig hraðar og vera klárir í leikinn gegn Everton.

Finnur: Við þekkjum það mjög vel frá síðasta tímabili að það er oft slen og þreyta í leikmönnum í leik um helgi eftir að hafa spilað í Europa League í miðri viku (fimmtudegi í tilfelli Liverpool) og spurning hversu stórt hlutfall af aðalliðinu endi hjá þeim inni á í Evrópuleiknum. Meiðsli geta líka sett strik í reikninginn fyrir bæði lið, þó líkur á meiðslum á æfingu séu líklega minni en í keppnisleik eins og Liverpool er að fara að spila. Það er þó ekki laust við að það sé bullandi sjálfstraust í Everton liðinu eftir síðustu leiki og þá staðreynd að liðið er taplaust á tímabilinu, ef leikurinn gegn City er undanskilinn og ríkjandi meistarar lagðir í síðasta heimaleik.

Halli: Bæði lið með góða sigra í síðustu umferð og koma væntalega hungruð í næsta sigur og við að koma með annan sigurinn á heimavelli eftir góðan sigur á Chelsea í síðasta leik.

Seinni hluti viðtalsins verður birtur á morgun en í öðrum fréttum er það helst að Everton birtir reglulega útvarpsþátt, Official Everton Radio Show, og þessi nýjasti þáttur var að sjálfsögðu tileinkaður derby leiknum. Hann er að finna hér.

Af ungliðunum er það að frétta að ungliðinn og markvörðurinn Jindrich Stanek fór að láni til Hyde United í einn mánuð og Everton U21 unnu Norwich U21, 3-1 (sjá vídeó) eftir að hafa lent undir í leiknum, líkt og aðalliðið gerði gegn West Brom stuttu áður. Mörk Everton skoruðu Jonjoe Kenny (víti), Mason Holgate og Callum Connolly. Þetta var fyrsta mark Mason Holgate fyrir félagið en þessi ungi og efnilegi varnarmaður var nýlega keyptur og var kallaður til liðs við enska U20 ára landsliðið á dögunum, ásamt Russell Griffiths.

3 Athugasemdir

  1. Halldór Sig skrifar:

    Spennan er farin að magnast fyrir þennan leik ef ég á segja sjálfur frá. Ég horfði á seinni hálfleikinn hjá Liverpool og Aston Villa síðasta laugardag og í þeim leik voru poolarar að sína ákveðin batamerki. Þeir voru að halda boltanum vel og voru ógnandi fram á við. En að sama skapi var vörnin frekar klaufaleg og voru mörkin sem þeir fengu á sig eiginlega frekar aulaleg. Sturridge virðist vera að stíga upp og er að nálgast sitt besta. Það er eitthvað sem Martines þarf að huga vel að og reyna að loka á hann. Þá er nú gott að Stones og Jagielka séu vel vakandi og í góðu leikformi.
    Gaman að sjá hvað Deulofeu er að verða alltaf betri og betri. Sjálfstraustið blómstrar og gæinn er stútfullur af hæfileikum.

    Mér hefur fundist stundum í þessum leikjum síðustu ár að Everton sé að tapa baráttuni um að yfirstíga spennustigið. Þess vegna vona ég að okkar menn byrji leikinn af krafti og ætla sér að vinna leikinn. Þessi leikur er svolítið sérstakur núna vegna þess að þetta er fyrsti leikurinn eftir að Gerard hætti. Þetta ætti að vera mjög jákvætt vegna þess að Gerard hefur alltaf verið okkur mjög erfiður í þessum leikjum og skorar oft í þessum viðureignum. Leikmaður sem gerði allt til þess að vinna þessa leiki sérstaklega.

    Ég er mjög bjartsýnn og ætla að spá sigri 3:1
    Lukaku 1
    Deulofeu 1
    Barkley 1

    ÁFRAM EVERTON!!

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég vil bara sigur og mér er alveg nákvæmlega sama hvernig.

  3. Einar Gunnar skrifar:

    Gaman að lesa viðhorf sérfræðinga klúbbsins til leiksins. Mjög vel unnin frétt hér á síðunni okkar.

    Eitt atriði er ég tel vert að hafa í huga í þessum leik, en það er staða knattspyrnustjóra Liverpool. Fjölmargir stuðningsmenn liðsins eru allt annað en ánægðir með hann og fjölmiðlar kalla eftir viðbrögð hans í kjölfarið. Ég tel þetta áhrifaþátt sem muni trufla undirbúning þeirra fyrir leikinn á sunnudaginn. Mark frá okkur snemma í leiknum væri mjög mikilvægt til að ganga frá þeim.