Hearts vs. Everton (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Á morgun klukkan 14:00 mætir Everton skoska liðinu Hearts í fjórða vináttuleik af sjö á undirbúningstímabilinu. Hearts liðið, sem og Dundee, sem leikið er við næst, eru allavega Naismith að góðu kunnug en hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir aðallið gegn Hearts, þá sem leikmaður Kilmarnock. Hann hefur síðan skorað samtals fimm mörk gegn þeim á sínum ferli. Það er enn nokkuð í það að tímabilið í ensku hefjist en tímabilið hjá Hearts byrjar á sunnudaginn þannig að þeir koma líklega til með að stilla upp sínu sterkasta liði svo að þetta verður fín æfing fyrir Everton.

Leighton Baines og Bryan Oviedo eru báðir sagðir orðnir heilir og eiga því séns að ná leiknum við Hearts. Gerard Deulofeu er hins vegar meiddur á lærvöðva og mun því ekki spila fleiri leiki á undirbúningstímabilinu en ætti þó að vera orðinn góður fyrir fyrsta leik tímabilsins. Gibson og McGeady eru einnig meiddir. Hægt verður að horfa á leikinn í beinni útsendingu hér.

Í öðrum fréttum er það helst að…

– Luke Garbutt var lánaður til loka timabils til Fulham í ensku B deildinni og sagði Luke við það tilefni að sú reynsla sem hann fengi þar ætti að hjálpa honum að negla niður sæti í aðalliði Everton.

– Ekki er fleiri tilboða að vænta í John Stones því Mourinho virðist hafa snúið sér annað, sem betur fer.

– Duncan Ferguson sagði að viðbrögðin sem hann hefði fengið við fréttum af testimonial leik sínum hefðu verið ótrúleg. Tilkynnt var einnig að Wayne Rooney mun taka þátt í þeim testimonial leik og ekki laust við að það verði skrýtin tilfinning að sjá hann aftur í bláu.

Af ungliðunum er það að frétta að lánssamningar voru gerðir um að Francisco Junior og Jonjoe Kenny færu til Wigan í einn (Francisco) og tvo mánuði (Jonjoe) og hinn átján ára Jordan Thorniley mun fá leikreynslu með Stockport County. Einnig skrifaði sóknarmaðurinn Courtney Duffus undir samning til ársins 2017.

Sky tóku saman lista yfir þá tíu ungliða sem hefðu heillað mest hingað til á undirbúningstímabilinu og á Everton tvo leikmenn á þeim lista, Brendan Galloway og Tiyas Browning.

U21 árs liðið hélt áfram sigurgöngu sinni með sigri á Rhyl 0-3 en Antonee Robinson, Antony Evans og Conor Grant skoruðu mörkin.

Comments are closed.

%d bloggers like this: