Stoke vs. Everton (Asíubikar)

Mynd: Everton FC.

Leikmenn Everton eru mættir til Singapúr til að keppa um Asíubikarinn við Arsenal, Stoke og úrvalslið Singapúr en fyrsti leikur Everton í keppninni er á morgun kl. 10:00 við Stoke og verður hann sýndur á Everton síðunni kl. 14:00. Fyrsti leikurinn á undirbúningstímabilinu, var sannfærandi sigur gegn Swindon, sem reyndist bráðskemmtilegur og maður bíður næsta leiks með eftirvæntingu — en mestan áhuga hefur maður á að sjá hverjir skara fram úr og eru tilbúnir í átökin fyrir næsta tímabil.

Stoke liðið þarf vart að kynna fyrir lesendum en þeir hafa fengið til sín nokkra nýja leikmenn, þar á meðal Steven Nzonzi, sem þeir keyptu frá Sevilla, Glen Johnson og Shay Given (báðir á frjálsri sölu) og Marco van Ginkel sem kom að láni frá Chelsea. Einnig seldu þeir markvörð sinn, Asmir Begovic, til Chelsea og Steven N’Zonzi til Sevilla.

Mohammed Besic er einn af þeim sem missir af Asíuferðinni vegna meiðsla sem hann hlaut í fyrsta leiknum á undirbúningstímabilinu, en tilkynnt var að meiðsli hans væru ekki talin alvarleg og hann ætti því að geta tekið þátt í fyrsta leiknum þegar leikmenn koma til baka frá Singapúr.

Í öðrum fréttum er það helst að ný hönnun á útitbúningnum fyrir næsta tímabil var kynnt í dag sem og treyjunúmer leikmanna fyrir næsta tímabil, en Tom Cleverly fær númerið 15 (sem Distin var með), Gerard Deulofeu fær númerið 19 (sem lánsmaðurinn Christian Atsu var með) og David Henen fær númerið 53. John Stones, sem áður var númer 26, hefur nú fengið fimmuna en önnur númer eru óbreytt.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 árs liðið vann annan undirbúningsleik sinn í röð þegar þeir sigruðu Wrexham U21 á útivelli 2-3 með tveimur mörkum frá Kieran Dowell og einu frá Joe Williams.

5 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Og kannski rétt að geta þess að Xherdan Shaqiri, sem Inter samþykktu 12M punda tilboð Stoke í, náði á endanum ekki samkomulagi við Stoke…
    http://www.theguardian.com/football/2015/jul/14/xherdan-shaqiri-stoke-city-mark-hughes-inter

  2. Elvar Örn skrifar:

    Hann er að best ég veit kl 10 beint á sky sports 1

  3. Diddi skrifar:

    Steven Nzonzi hefur verið leikmaður Stoke í nokkur ár en þeir voru að SELJA hann til Sevilla 🙂

  4. Finnur skrifar:

    Alveg rétt. Takk. Ég var búinn að gleyma því. Uppfærði greinina.

  5. Finnur skrifar:

    Og talandi um Stoke — þeir voru líka að tilkynna það í dag að þeir hefðu keypt kantmann frá Barcelona (táningurinn Moha El Ouriachi)… Hann ku vera þriðji fyrrverandi Barcelona leikmaðurinn sem nú leikur með liði Stoke.
    http://www.bbc.com/sport/0/football/33533336