Leikjaplanið fyrir næsta tímabil

Mynd: Everton FC.

Nú er ljóst hvert leikjaplanið verður í ensku Úrvalsdeildinni fyrir næsta tímabil en niðurröðun leikja má í heild sinni (leiki Everton) sjá hér. Það má horfa á þetta á ýmsa vegu en ég kýs að skipta þessu upp í nokkra kafla:

Upphafsleikurinn lítur svona út:

08.08: Watford (nýliðar) – heima

Það var ekki óskabyrjun á síðasta tímabili að fá nýliða Leicester á útivelli í fyrstu umferð og svipað er uppi á teningnum í ár því Everton mætir Watford í fyrsta leik tímabilsins — en á heimavelli þó. Everton liðið hefur ekki riðið feitum hesti frá upphafsleik tímabilsins undanfarin ár, ef 1-0 sigur á United á heimavelli er undanskilinn. Hinir fjórir leikirnir á síðustu fimm árum eru: Blackburn (tap), QPR (tap), Norwich (jafntefli) og nú síðast Leicester (jafntefli). Kannski væri því ágætt að fá útileik við City eða Chelsea — leik sem væri upp í móti hvort eð er. En bananahýðið úr neðri deild er ekki fyrsti valkostur í upphafsleik — maður vill sjá svoleiðis leiki (við nýliðana) seinna á tímabilinu, þegar mesta sigurvíman er runnin af þeim. En við veljum ekki okkar hlutskipti þar. Nýliðar í fyrsta leik (aftur)!

Næstu fjórir leikir:

15.08: Southampton (7. sæti síðast) – úti
22.08: Manchester City (2. sæti) – heima
29.08: Tottenham Hotspur (5. sæti) – úti
01.09: Lokað fyrir félagaskipti — ljóst hversu mikið liðin ná að styrkja sig.
12.09: Chelsea (meistarar) – heima

Næstu fjórir leikir eru að sama skapi afar erfiðir, allt saman stórleikir. Liðin tvö sem börðust um meistaratitilinn á síðasta tímabili (báðir leikir heima) og tvö af liðunum sem börðust um sæti í meistaradeild (báðir leikir úti). Kannski vinnur það með okkur að Chelsea eiga leik í meistaradeildinni stuttu eftir útileik við okkar menn en það er ekkert gefið þar. Það verður mjög fróðlegt að sjá hversu mörg stig Everton stendur uppi með eftir þessa törn — maður stillir náttúrulega væntingum í hóf en ef vel gengur er ekki annað hægt að segja en að það lofi mjög góðu fyrir restina af tímabilinu.

Stutt pása næst — eða hvað?

19.09: Swansea (8. sæti) – úti
21.09: League Cup 3. umferð — ??
26.09: West Bromwich Albion (13. sæti) – úti

Swansea hljóta að hata Everton því þeir hafa aðeins unnið Everton einu sinni frá því sögur hófust en það var í League Cup þegar Everton spilaði með varaliðið. Það hefði þó verið gott að hafa allavega annan leikinn (t. d. West Brom) á heimavelli. Á von á því að varaliðið spili League Cup leikinn, enda ekki markmið í ár að vinna hann.

Október:

03.10: Liverpool (6. sæti) – heima
17.10: Manchester United (4. sæti) – heima
24.10: Arsenal (3. sæti) – úti
26.10: League Cup 4. umferð — ??
31.10: Sunderland (16. sæti) – heima

Annar mjög strembinn mánuður. Það er Europa League leikur í riðli þann 1. október sem gæti sett strik í reikninginn fyrir Liverpool — og Champions League leikur í riðli 20. eða 21. október sem gæti haft áhrif á bæði United og/eða Arsenal. Sunderland voru einu sinni liðið sem Everton tók eiginlega alltaf stig af en undanfarin ár hefur það verið að jafnast út meira og Sunderland að ná að stela 1-0 sigri hér og þar.

Nóvember:

07.11: West Ham United (12. sæti) – úti
21.11: Aston Villa (17. sæti) – heima
28.11: Bournemouth (nýliðar) – úti
30.11: League Cup 5. umferð — ??

West Ham menn, ef þeir komast í riðlakeppni Europa League, spila þriðja síðasta leik í riðlakeppninni rétt áður en þeir mæta okkar mönnum. Ekkert yfir því að kvarta og Bournemouth vonandi komnir niður aftur á jörðina í nóvember. Villa menn án Tom Cleverly sem kom yfir til okkar, fróðlegt að sjá hvað þeir gera á tímabilinu eftir að hafa naumlega sloppið við fall.

Desember

05.12: Crystal Palace (10. sæti) – heima
12.12: Norwich City (nýliðar) – úti
19.12: Leicester City (14. sæti) – heima
26.12: Newcastle United (15. sæti) – úti
28.12: Stoke City (9. sæti) – heima

Hvað er hægt að segja? Það eru engir leikir auðveldir í ensku Úrvalsdeildinni og oft kemur Everton manni á óvart — bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Desember og janúar nýttust skelfilega illa á síðasta tímabili og nauðsynlegt að gera bragarbót þar á. Desember er mánuður sem verður að nýtast vel í ár, sérstaklega þegar litið er til næsta mánaðar!

Janúar

02.01: Tottenham (5. sæti) – heima
04.01: League Cup semi-final – ??
09.01: FA Cup 3. umferð – ??
13.01: Manchester City (2. sæti) – úti
16.01: Chelsea (1. sæti) – úti
23.01: Swansea (8. sæti) – heima
30.01: FA Cup 4. umferð – ??

Byrjunin á nýju ári álíka jafn erfið og byrjunin á tímabilinu verður. Gríðarlega erfiðir leikir í deild, sérstaklega útileikirnir tveir en heimaleikirnir ekki mikið síðri. Þessi mánuður verður upp í móti en svo fer stórleikjunum í deild að fækka.

Febrúar

03.02: Newcastle United (15. sæti) – heima
06.02: Stoke City (9. sæti) – úti
13.02: West Bromwich Albion (13. sæti) – heima
20.02: FA Cup 5. umferð — ??
27.02: Liverpool (6. sæti) – úti
28.02: League Cup úrslit — ??

Febrúar ágætur — erfiðir útileikir en ef Liverpool kemst upp úr Europa League riðli sínum eru þeir (aftur) að spila við Everton rétt eftir Europa League leik. Gott mál.

Mars

01.03: Aston Villa (17. sæti) – úti
05.03: West Ham United (12. sæti) – heima
12.03: FA Cup 6. umferð — ??
12.03: Sunderland (16. sæti) – úti
19.03: Arsenal (3. sæti) – heima

Erfitt að segja hvernig staðan í deild og á mótherjum verður þegar hingað er komið. Deildarleikirnir allt í lagi — og stórleikur við Arsenal í lok mánaðar sem við höfum haft ágætis tak á á Goodison undanfarið. Ef Everton kemst áfram í FA Cup frestast leikurinn við Sunderland.

Apríl

02.04: Manchester United (4. sæti) – úti
09.04: Watford (nýliðar) – úti
16.04: Southampton (7. sæti) – heima
23./24.04: FA Cup Semi final — ??
23.04: Crystal Palace (10. sæti) – úti
30.04: Bournemouth (nýliðar) – heima

Aðeins að rofa til í leikjaskránni, ef svo má að orði komast. Apríl (og sérstaklega maí) gætu reyndar orðið make-or-break fyrir lið eins og Watford og Bournemouth þannig að maður vildi helst sjá þá leiki fyrr á tímabilinu, en það verður að hafa það.

Maí

07.05: Leicester City (14. sæti) – úti
15.05: Norwich City (nýliðar) – heima
21.05: – FA Cup Final — ??

Ekki endilega óskaendirinn á tímabilinu í deild — lið sem líklega verða í neðri helmingi deildar og jafnvel að berjast fyrir tilverurétti sínum. En maður veit aldrei, kannski verða þessi lið í miðjumoði með engu að keppa — eða þegar fallin, sem reyndar boðar ekki endilega gott fyrir liðin sem mæta þeim, pressan farin af leikmönnum.

Í lokin er svo rétt að geta þess að Everton klúbburinn mun stefna á tvo heimaleiki á tímabilinu, einn að hausti og einn að vori. Þið getið haft áhrif á ferlið því ef þið hópið ykkur saman og veljið leik til að fara á — og nægur áhugi skapast — er aldrei að vita nema við gerum þetta að formlegri klúbbferð og auglýsum sem slíka. Einnig erum við í stjórn alltaf tilbúin að redda miðum fyrir smærri hópa/einstaklinga.

Orðið er laust!

2 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Miðað við hvernig okkar menn voru að spila á síðasta tímabili og sú staðreynd að krabbaspilsunnandinn er enn við stjórnvölinn þá reikna ég með 47 stigum. Það ætti að vera nóg til að hanga um miðja deild.

    Vonandi að gengi Everton verði framar mínum væntingum.

  2. Finnur skrifar:

    Fyrir okkur sem erum að spá í að fara út er hér til hægðarauka listinn yfir heimaleikina (og bikarleikina að gamni) — ATH: allar dagsetningar gætu breyst:

    Möguleg haustferð:

    22.08: Manchester City
    12.09: Chelsea
    21.09: League Cup 3. umferð
    03.10: Liverpool
    17.10: Manchester United
    26.10: League Cup 4. umferð
    31.10: Sunderland
    21.11: Aston Villa
    30.11: League Cup 5. umferð
    05.12: Crystal Palace

    Jólavertíðin:

    19.12: Leicester
    28.12: Stoke City
    02.01: Tottenham
    04.01: League Cup semi-final
    09.01: FA Cup 3. umferð
    23.01: Swansea
    30.01: FA Cup 4. umferð

    Möguleg vorferð:

    03.02: Newcastle
    13.02: WBA
    20.02: FA Cup 5. umferð
    28.02: League Cup úrslit
    05.03: West Ham
    12.03: FA Cup 6. umferð
    19.03: Arsenal
    16.04: Southampton
    23./24.04: FA Cup Semi final
    30.04: Bournemouth
    15.05: Norwich
    21.05: FA Cup Final

    Skiptingin er ekki fastákveðin en miðast við að eftir 15. des fer að verða erfitt að skipuleggja ferðir (allir á fullu í jólavertíðinni) og fólk –yfirleitt– ekki til í utanlandsferðir rétt eftir áramót… Aldrei að vita samt. 🙂