West Ham vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að næstsíðasta leik tímabilsins, sem er á móti West Ham á útivelli á laugardaginn kl 14:00. Það er ekki oft sem stigin í leiknum skipta minna máli en gulu og rauðu spjöldin en það á við nú. Hvorugt liðið hefur að nokkru að keppa í deildinni en bæði eru þó við toppinn á Fair Play deildinni og þegar er orðið ljóst að England fær þá leiðina sæti í Europa League keppninni á næsta tímabili. Sá farmiði gæti því komið í hlut prúðara liðsins í þessum leik. Þetta er þó vissulega tvíeggja sverð því Everton hefur keyrt undanfarin ár á fámennum hópi sem á erfitt með að takast á við jafn marga leiki og á síðasta tímabili (vegna Europa League) og því örugglega blendnar tilfinningar hjá mörgum gagnvart því hvort rétt sé að taka þátt eður ei.

Stærstu fréttirnar úr meiðsladeildinni eru þær að Baines þurfti að fara í uppskurð á ökkla til að laga langvarandi meiðsli sem hann hefur glímt við (frá 2012). Það kann að vera að þetta sé blessing-in-disguise því þetta gæti hvatt Garbutt til að skrifa undir nýjan samning við félagið en hann hefur svolítið verið í skugganum af besta vinstri bakverði deildarinnar undanfarin ár. Pienaar, Gibson, Hibbert og Oviedo eru meiddir og koma því ekki við sögu. Líkleg uppstilling: Howard, Garbutt, Stones, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Mirallas, Lennon, Barkley, Lukaku. Hjá West Ham er Winston Reid tæpur en James Tomkins, Diafra Sakho, Andy Carroll og Guy Demel eru meiddir.

West Ham hafa ekki unnið Everton í deildinni í síðustu 13 tilraunum (Everton unnið 9 og fjórum sinnum gert jafntefli) og hafa West Ham menn jafnframt tapað síðustu 5 í röð gegn okkar mönnum. Lukaku hefur jafnframt skorað í síðustu 5 leikjum gegn þeim. En á móti kemur að aðeins Villa, Newcastle, Burnley, Leicester og QPR hafa tapað fleiri leikjum en Everton á útivelli.

Af ungliðunum er það að frétta að enska U17 ára landsliðið byrjuðu Evrópukeppni sína með 1-0 sigri á Ítalíu U17. Þrír Everton leikmenn tóku þátt, þeir Tom Davies, James Yates og Nathan Holland. Það er skemmtilegt að rifja það upp að U17 ára lið Englands eru að verja Evrópumeistaratitilinn en Everton mennirnir Ryan Ledson og Jonjoe Kenny áttu stóran þátt í að hjálpa þeim að vinna þann titil. U17 ára liðið lék svo við Holland U17 og gerðu 1-1 jafntefli og eru því á toppi riðilsins en þurfa aðeins stig úr næsta leik til að tryggja sér sæti í næstu umferð keppninnar. Everton leikmaðurinn James Yates lék allan leikinn.

Everton U21 unnu West Ham U21 1-2 á útivelli með mörkum frá Chris Long og Kieran Dowell en sigurinn tryggði liðinu áframhaldandi þátttöku í efstu deild að ári.

Everton U18 unnu jafnframt West Brom U18 4-2. Mörk Everton skoruðu Nathan Broadhead, Arlen Birch, Daniel Bramall og Antony Evans en ef liðið vinnur Man City U18 í næsta leik verður Everton U18 ára liðið Englandsmeistari annað árið í röð!

Í öðrum fréttum er það helst að Everton tekur þátt í Asíumóti í júlí gegn Arsenal, Stoke og úrvali frá Singapore. Þátttaka í Europa League gæti þó komið í veg fyrir þátttöku þar — en sjáum hvað setur.

Í lokin er rétt að geta þess að James McCarthy var valinn leikmaður apríl mánaðar og Executioner’s Bong spáðu í spilin varðandi framtíðina — hverjir kæmu og hverjir væru líklegir til að fara.

En… West Ham næstir á laugardaginn kl. 14:00 og ekki gleyma grillveislunni strax á eftir í Guðmundarlundi kl. 17:00.

4 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég verð bara að vera samkvæmur sjálfum mér og spái þess vegna 3-1tapi.

    • Orri skrifar:

      Sæll Ingvar.Ég sé að í hvert skipti sem þú spáir okkur tapi,þá er sigur hjá okkar mönnum.Þú mátt bara halda þessu áfram.

  2. Diddi skrifar:

    við tökum 10. sætið af West ham í dag og endum í því. Ekkert jinx núna, vinnum Hamrana öruggt í dag. Segi 1-4 🙂

  3. Finnur skrifar:

    Uppstillingin:
    http://everton.is/?p=9331