Everton vs. Southampton

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Southampton á laugardaginn kl. 14:00 í 31. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Það hefur varla farið framhjá neinum að hlé vegna landsleikja hefur staðið yfir og fjölmargir leikmenn Everton með landsliðum sínum. Það væri löng upptalning að útlista þá alla en það var sérstaklega gaman að lesa hrósið sem Barkley fékk en hann kom inn á í seinni hálfleik í vináttuleik gegn Ítölum og veitti enska liðinu mikla innspýtingu í sókninni, fékk 8 af 10 í einkunn hjá Daily Star og var hrósað í hástert af landsliðsþjálfara Englands, Roy Hodgson. Jagielka þótti einnig standa sig frábærlega, en hægt er að lesa nánar um landsliðs-þátttöku Everton leikmanna hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér.

Eftir QPR sigurinn voru þrír leikmenn að glíma við meiðsli. Gibson og Lukaku misstu báðir af sínum landsleikjum og eru metnir tæpir fyrir leikinn við Southampton. Kone, hins vegar, er orðinn 100% og má búast við honum í framlínunni. Ekki er langt heldur í að við sjáum Mirallas og Pienaar en Hibbert og Oviedo eru frá. Baines var flogið heim eftir að hafa meiðst með landsliðinu en Martinez minntist ekki á að hann yrði frá. Líkleg uppstilling því: Howard, Baines/Garbutt, Stones, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Lennon, Osman, Barkley/Naismith, Kone.

Hjá Southampton missa Fraser Forster, Steven Davis, Emmanuel Mayuka, Jay Rodriguez og Matt Targett af leiknum vegna meiðsla.

Heimaleikjaárangur Everton gegn Southampton er afar góður, 29 sigrar, 7 jafntefli og ekki nema 5 töp í 40 og einum leik á Goodison milli þessara tveggja liða og vonandi að sá árangur haldi áfram.

Af ungliðunum er það að frétta að U19 ára lið Everton er að taka þátt í alþjóðlegu Dallas Cup móti en byrjunin lofaði ekki góðu, 1-3 tap gegn River Plate U19 (sjá vídeó). Mark Everton skoraði Kieran Dowell með þrumufleyg upp í samskeytin. Þeir bættu þó um betur í næsta leik, 3-0 sigur gegn LA Galaxy og skoruðu Kieran Dowell, Ryan Ledson og Delial Brewster mörkin (sjá vídeó). Ungliðarnir okkar þurftu að vinna Ryutsu-Keizai 2-0 til að komast áfram í keppninni og það var akkúrat það sem þeir gerðu, með mörkum frá David Henen og Jack Bainbridge (sjá vídeó). Undanúrslitaleikurinn verður á morgun (föstudag). Þess má auk þess geta að Kieran Dowell, sem skorað hefur tvö mörk í þessari keppni skrifaði á dögunum undir atvinnumannasamning með Everton.

Nokkrir ungliðar voru lánaðir til annarra liða til að öðlast reynslu, sbr. Gethin Jones (sem var lánaður til Plymouth Argyle) sem og George Green og Francisco Junior. Sá fyrri fór til Tranmere og sá síðari til Port Vale, eins og fram kom hér. Þess má geta að George Green opnaði strax markareikninginn með glæsimarki á lokamínútunum í 1-0 sigri Tranmere (sjá vídeó). Svo er rétt að minnast á annað vídeó af honum að skora bráðskemmtilegt mark sem ég rakst á í leit minni að hinu markinu sem hann skoraði — en það vídeó reyndar er í skelfilegum gæðum, en sýnir skemmtilegt mark ágætlega. 🙂 Fréttir bárust einnig af því að Everton hefði skrifað undir samning við ungan miðjumann frá Kenýa, að nafni Jacob Omutanyi, sem færi beint í akademíuna, en klúbburinn hefur ekki staðfest það.

En, Southampton kl. 14:00 á laugardaginn. Ykkar spá?

2 Athugasemdir

  1. Gunnþór skrifar:

    Ef allt liðið spilar á pari vinnum við þennan leik,ef við höldum áfram að spila svona eins og við höfum verið að spila þá fer illa gegn Southampton.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Southampton eru miklu betri en Newcrapstle og QPR og okkar menn verða að mæta tilbúnir í slaginn ef það á að fást eitthvað út úr þessum leik.
    Það kæmi mér skemmtilega á óvart ef það gerðist en eins og venjulega vona ég það besta.