Leicester vs. Everton

 Mynd: Everton FC.

Nú eru innan við tveir dagar í fyrsta leik tímabilsins og ekki laust við að eftirvæntingin hafi bara ekki verið jafn mikil í nokkuð langan tíma enda ríkir afar mikil bjartsýni í herbúðum okkar manna. Martinez náði frábærum árangri á sínu fyrsta tímabili þar sem Everton setti stigamet í deild frá stofnun Úrvalsdeildar og það er ótrúlegt að hugsa til þess að þrátt fyrir umrót (eru Baines og Fellaini á leiðinni frá félaginu?) og arfaslaka byrjun á tímabilinu (þrjú jafntefli) var liðið aðeins örfáum stigum frá sæti í umspili um sæti í Meistaradeildinni þegar upp var staðið.

Lykilmenn í liðinu hafa á undanförnum vikum og mánuðum sýnt að þeir hafi trú á verkefninu sem framundan er með því að skrifa undir langtímasamninga (Baines og stjórinn Martinez riðu á vaðið og svo fylgdu á eftir Coleman, Barkley og Stones — efnilegustu ungliðarnir) og svo má ekki gleyma lánsmönnunum sem spiluðu sig inn í hug og hjörtu stuðningsmanna (Gareth Barry og Romelu Lukaku) sem hafa nú formlega gengið til liðs við Everton (Lukaku fyrir metfé!) og skrifað undir langtímasamninga — líkt og McCarthy, sem var keyptur fyrir síðasta tímabil.

Ljóst er því að hryggjarsúlan í liðinu er komin á langtímasamninga: Tim Howard, stjarna HM í Brasilíu, er með samning til 2018, bakverðirnir eru nýkomnir á langtímasamning, Jagielka með samning til 2017, Barry, McCarthy og McGeady eru nýkeyptir og bæði Barkley og Lukaku eru nýkomnir á fimm ára samning. Mirallas á allavega tvö ár eftir af sínum samningi og svo framvegis. Ef lykilmenn í liðinu verða seldir þá verður það fyrir háar upphæðir.

Aukinn áhugi sést líka á því að ársmiðasalan hefur farið algjörlega fram úr björtustu vonum en búið er að selja ársmiða sem samsvarar þremur af hverjum fjórum sætum á Goodison Park, þannig að það gæti verið erfiðara en áður að ná sér í miða á leik! Það verður jafnframt athyglisvert, þegar að næstu ferð kemur, að sjá hvaða endurbætur þau hafa gert á vellinum og nærliggjandi svæði.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Martinez gerir á öðru tímabili sínu undir stjórn án þessa umróts sem var í gangi í byrjun síðasta tímabils. Fjölmiðlar eiga í mestu vandræðum með að orða leikmenn Everton við önnur félög og vonandi því hægt að einbeita sér að því að byrja tímabilið af krafti. Martinez hefur sagst vera ánægður með fjölda leikmanna í hópnum en ekki sé loku fyrir það skotið að hann bæti við. Helst myndum við vilja sjá annan sóknarmann þar sem Lukaku, Naismith og Kone (plús ungliðar) er líklega ekki nægur mannskapur fyrir átökin sem framundan eru. Það þarf þó svo sem ekki að gerast fyrir fyrsta leik enda félagaskiptaglugginn opinn út mánuðinn og fer væntanlega eftir því hvort Arouna Kone er leikhæfur nógu snemma. En Jagielka og Distin vilja allavega meina að allir séu klárir í leikinn (sjá viðtal við þá tvo: Jagielka og Distin).

Liðið hefur ekki lent í neinum stórum meiðslum á undirbúningstímabilinu — eiginlega bara Coleman sem náði sér í smá meiðsli. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbert, Besic, Barry, McCarthy, McGeady, Barkley, Lukaku. Maður á eiginlega erfitt með að velja lið sem inniheldur hvorki Gibson né Pienaar en mig grunar að þetta verði uppstillingin. Hjá Leicester eru Anthony Knockaert og Matt Upson meiddir og Jamie Vardy og Marc Albrighton tæpir. Greinilegt er að hafa þarf góðar gætur á David Nugent og Jamie Vardy sem saman skoruðu 38 mörk á síðasta tímabili fyrir Leicester. Greining Executioner’s Bong á leiknum er hér og greiningin á tímabilinu sem framundan er hjá Everton er hér.

Því er ekki að neita að byrjunin á tímabilinu sé erfið hjá Everton enda vill maður kannski ekki beint mæta liðinu sem vann Championship í fyrsta leik á útivelli (maður vill helst mæta þeim síðar á tímabilinu þegar þeir hafa náð að komast niður á jörðina), og hvað þá að mæta Arsenal og svo Chelsea í næstu tveimur leikjum á eftir. En það er lítið við því að gera — þetta verður bara að virka sem hvatning á liðið að byrja tímabilið vel.

Nokkrar spurningar til lesenda:

Hvaða lið spáið þið að verði í efstu sjö sætunum?
Hver haldið þið að uppstillingin í fyrsta leiknun verði?
Hvaða leikmenn Everton heilluðu ykkur mest á undirbúningstímabilinu?

29 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Ég skal byrja:

    Hvaða lið spáið þið að verði í efstu sjö sætunum?

    1. Chelsea
    2. Man City
    3. Arsenal
    4. Man United
    5. Liverpool
    6. Everton
    7. Tottenham

    Hver haldið þið að uppstillingin í fyrsta leiknun verði?

    Nákvæmlega sama og hér að ofan. Reyndar… kannski Naismith fái að byrja á toppnum þar sem Lukaku er ekki í leikæfingu. Mirallas kemur inn á í seinni.

    Hvaða leikmenn Everton heilluðu ykkur mest á undirbúningstímabilinu?

    Ungliðinn Luke Garbutt fyrst og fremst. Ég vissi að hann væri góður en átti ekki von á að hann myndi líta svona vel út á velli. Veit ekki hvað þetta er með Everton og vinstri bakverði en sú staða virðist í góðum málum um ókominn tíma. Muhammed Besic og McGeady komu líka sterkir inn, sem og Naismith með sín tvö mörk í fjórum leikjum á undirbúningstímabilinu.

  2. Elvar Örn skrifar:

    Áhugaverðar fréttir í gangi þessa dagana en við erum sterklega orðaðir við Jonathan Biabiany sem er kantmaður (held ég) hjá Parma og einnig Samuel Eto (gæti gerst ef endurhæfing Kone gengur hægt), og nú síðast þá er mikið talað um að Gerard Deulofeu gæti komið aftur en hann er einnig orðaður við Sevilla og spurning hvort að koma Atsu gæti minnkað líkurnar á þessu. Spurning hvort Deulofeu gæti spilað meira sem backup í framherjastöðunni ásamt kanti.

    Ég er alveg viss að það muni bætast við 1 eða 2 ný andlit fyrir lok gluggans.

    Spáin:
    1. Man City
    2. Chelsea
    3. Arsenal
    4. Everton
    5. Man.United
    6. Liverpool
    7. Tottenham

    Varðandi leikinn gegn Leicester:
    Vona að Coleman, Mirallas og Lukaku spili amk 45 mínútur og langar einnig sjá Besic taka einhvern þátt og jafnvel Atsu.

    Það sem ég sá af Pre-Season þá fannst mér Besic koma á óvart og einnig Gibson verð ég að segja. Það litla sem ég sá til Duffy var ég ánægður með og Hibbert kom einnig svolítið á óvart. Mér finnst samt Jagielka og Distin parið vera mest solid (held samt að þeir hafi ekki spilað 1 mínútu saman) og vil gjarnan sjá Duffy frekar koma þar inn sem varaskeifa heldur en Stones. McGeady fannst mér vera ferskari en í fyrra en í þeim leikjum sem ég sá var miðvaraparið og tenging kanta og sóknar ekki að virka. Söknuðum semsagt Jagielka-Distin parsins og Mirallas-Lukaku einnig já að ógleymdum Coleman.

    Verð á bakvakt á laugardaginn sem er bara ekki sanngjarnt.

  3. Ari G skrifar:

    Minn spádómur
    1. Chelsea 2. City 3. Utd 4. Everton 5. Arsenal 6. Tottenham 7. Liverpool
    Uppstillingin: Hvað með Oviedo er hann meiddur? Vil hafa hann í byrjunarliðinu í stað Coleman fyrst hann er meiddur. Jagielka og Distin og Baines. Miðja McCarthy Besic og Barkley. Vil byrja með Mirallas og Pienaar, efast um að Atsu sé tilbúinn. Lukaku er sjálfkjörinn sem fremsti maður. Hef enga trú á að Hibbert verði notaður mikið í vetur. Gaman væri að sjá ungu mennina meira, Stones og Garbutt, þótt ég hafi aldrei séð hann en hann verður kannski næsta trompið í vetur. Síðast var það Stones.

  4. Finnur skrifar:

    Ari G: Oviedo er enn meiddur (eftir tvöfalt fótbrot).

  5. Ingi skrifar:

    Spáin mín.

    1. Chelski
    2. Shitty
    3. Everton
    4. Man Utd
    5. Arsenal
    6. Tottenham
    7. Liverpool

    Besic verið sérlega skemmtilegur í preseason.

    Okkur vantar nauðsynlega annan striker sem getur leitt línuna á móti Lukaku. Annars er ég rosa sáttur við gluggann. Atsu er alhliða betri en Delboy held ég. Delbay var rosa góður en átti til að pirra mig svakalega þegar hann gat með engu móti gefið helvítis boltann. Svo var varnarvinnan hans engin inná vellinum. Vonandi er Atsu alhliða betri eins og ég sagði.

  6. þorri skrifar:

    Mikið hlakka ég til þegar þetta byrjar. Ég sá ekki undirbúningstímabilið en miðað við hópinn þá held ég að framtíðin sé björt. Mín spá er þessi: Manc 1 Chelsea 2 Arsenal 3 Everton 4 Man 5 Liverpool 6 Tottenham 7. Everton eru bestir.

  7. Gestur skrifar:

    Ég tel að Everton sé aðeins eftir 5 bestu liðunum og það vanti nokkra menn til að standast álag í deild og Evrópu. Það verður erfitt að toppa síðasta vetur.
    En vonandi töfrar Martinez eitthvað flott í enda mánaðarins.

    spá:
    1.Chelsea
    2.Man.City
    3.Liverpool
    4.Arsenal
    5.Tottenham
    6.Everton
    7.ManUtd.

    uppstilling:
    Howard,Hibbert,Jakielka,Distin,Baines,McCarty,Barry,
    Pienaar, Osman, Barkley, Naismith

    ég sá ekki undirbúningstímabilið en mér fannst Everton ekki standa sig vel þar.

  8. Elvar Örn skrifar:

    Gleymdi alveg Luke Garbutt, hann stóð sig svakalega vel það sem ég sá af Pre-Season og er fyrsti maður inn af þeim ungu sem ekki hafi tekið þátt með aðalliðinu.

    Er fyrsti leikur á morgun eða? Djöfulli verður þetta spennandi hjá okkur.

  9. Finnur skrifar:

    Tæknilega séð fékk Luke Garbutt reyndar deildarleik með aðalliðinu þegar hann kom inn á gegn Southampton undir lok síðasta tímabils.

    En jú, þetta er óneitanlega spennandi. 🙂

  10. Arlo skrifar:

    1.Chelsea
    2.Citeh
    3.Arse
    4.Utd.
    5.Everton
    6.Liverpool
    7.Spurs

  11. Elvar Örn skrifar:

    Barkley meiddist á æfingu í dag og gæti misst af næstu 6-8 vikum. Svakalegt ef satt reynist.

  12. Finnur skrifar:

    Finn ekkert um það. Hvar heyrðir þú það?

  13. Finnur skrifar:

    Það eru engar myndir af þessu þannig að ég ætla hamingjusamlega að grafa hausinn í sandinn og vona þetta sé bara orðrómur til að villa um fyrir Leicester liðinu. 🙂

    Ef þetta er rétt þá er um mjög slæmar fréttir að ræða. Var einmitt að hugsa í gærkvöldi að Everton hefði sloppið ágætlega við meiðsli á undirbúningstímabilinu. Bara Coleman með smá „niggle“. :/

    Eins gott að Besic standi sig núna (ef rétt reynist).

  14. Diddi skrifar:

    þetta er á nokkrum netmiðlum og óttast að hann verði frá í a.m.k. sex vikur

  15. Finnur skrifar:

    Pfffft, spelkur á fætinum! Drengurinn er kiðfættur, það er bara verið að laga það fyrir tímabilið!

  16. Halli skrifar:

    Það er voðalegt að missa Barkley út í 4-6 vikur.

    Mitt lið ï dag er svona

    Howard

    Hibbó. Jags. Distin baines

    Barry MaCharthy

    Mirallas Osman Pienaar

    Naismith

    Ég væri til í að stilla liðinu aðeins oðruvísi upp en tel þetta besta liðið sem við eigum völ á í dag. Allt minna en 2 marka sigur verða vonbrigði að mínu mati. COYBD

  17. Georg skrifar:

    Þetta er mín spá:
    1. Chelsea
    2. Man City
    3. Arsenal
    4. Man Utd.
    5. Everton
    6. Liverpool
    7. Spurs

    Man Utd er ekki í neinni evrópukeppni sem á eftir að hjálpa þeim og þessvegna gef ég þeim eftir 4. sætið, hinsvegar gæti ég breytt skoðun minni ef við fáum ca. 2 leikmenn í viðbót, þá séstaklega ef við náum í annan framherja.

    Byrjunarliðið sem ég held að verði þar sem Barkley er meiddur, þ.e.a.s. liðið sem ég tel að Martníez muni tefla fram:

    —————–Howard
    Coleman-Jagielka-Distin-Baines
    ———-Barry-McCarthy———-
    Mirallas———————Pienaar
    ————–Naismith————-
    ————–Lukaku————–

    Það er þó erfitt að spá með Coleman, Mirallas og Lukaku þar sem Coleman er búinn að vera meiddur og Lukaku og Mirallas tæpir í formi, held þó að hann byrji alveg 100% Lukaku en spurning með Mirallas og Coleman, hann gæti byrjað með McGeady í stað Mirallas og Hibbert í stað Coleman. Svo kæmi mér svosem ekkert á óvart ef Osman eða Besic myndu byrja. Við erum komnir með ágætis breidd þá séstaklega á miðjuna.

    Besic og Garbutt komu flottir inn í þetta undirbúningstímabil og komu manni kannski einna mest á óvart. Ég held að Besic muni smám saman koma sér inn í liðið, þó ég haldi að Barry og McCarthy verði fyrsti kostur til að byrja með. Mo Besic og McCarthy eru framtíðarmiðjumenn hjá okkur og svo eru við með Gibson. Það sem ég sá af Gibson var flott miðað við hvað hann hefur verið lengi frá. Það hefur klárlega truflað okkar undirbúning þetta heimsmeistaramót þ.e.a.s. leikmennirnir okkar sem spiluðu þar fengu ekki fullt pre-season og Mirallas og Lukaku komu að mínu mati full seint fyrir fyrsta leik.

  18. Diddi skrifar:

    Arsenal 1, Man.C. 2, Chelsea 3, Everton 4, Liverpool 5, Tottenham 6, Hull 7. Liðið í dag: Howard: Stones, Jag, Distin, Baines: McCarthy, Barry: Mirallas,Pienaar, Atsu: Lukaku. Á undirbúningstímabilinu kom McGeady mest á óvart fyrir það hvað hann er fyrirsjáanlegur og lélegur, hann kann eitt trick og það eru allir búnir að sjá það. Vonandi kemur hann mest á óvart samt 🙂 Myndbönd af honum á Youtube voru alltaf klippt áður en sendingin frá honum kom, sennilega vegna þess að aðdragandinn var góður en lélegt „End Product“ , Besic virðist góð kaup en þarf aðeins að róa sig, frábær leikmaður samt. Er hóflega bjartsýnn fyrir leik dagsins vegna þess að nýliðar í deild koma alltaf brjálaðir í fyrsta leik. Við þurfum hins vegar að vinna þennan því það eru ekki auðveldari leikir í boði í næstu tveim. Koma svo 🙂

  19. Tryggvi Már skrifar:

    Everton
    24 Howard
    26 Stones
    03 Baines
    18 Barry
    06 Jagielka
    15 Distin
    07 McGeady
    16 McCarthy
    10 Lukaku
    14 Naismith
    22 Pienaar

    Substitutes
    01 Robles
    11 Mirallas
    17 Besic
    19 Atsu
    21 Osman
    23 Coleman
    30 Alcaraz

  20. Finnur skrifar:

    Jamm, komið upp:
    http://everton.is/?p=7665

  21. Diddi skrifar:

    McGeady er náttúrulega algjörlega frábær leikmaður 🙂

  22. Finnur skrifar:

    Diddi, var þetta trikkið hans McGeady sem þú varst að tala um? 🙂

  23. Diddi skrifar:

    Jinx Finnur, bara jinx, en nei þetta var bara skot en ekki trick 🙂

  24. Finnur skrifar:

    That, my friend, was a trick shot.

  25. Finnur skrifar:

    Einn sérstaklega fyrir Didda (ótengt McGeady).
    https://twitter.com/FootballFunnys/status/500616460998549504

    🙂

  26. Diddi skrifar:

    nú er bara verið að tala um 5 mánuði hjá Barkley, útlitið er ekki gott 🙂

  27. Ari S skrifar:

    1. Manchester City
    2. Chelsea
    3. Everton
    4. Arsenal
    5. Tottenham Hotspur
    6. Swansea City
    7. West Ham United