Everton – Porto 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Porto í gær í testimonial leik fyrir Osman og lokastaðan reyndist 1-1. Bæði lið stilltu upp nokkuð sterkum liðum, Porto meðal annars með HM-stjörnurnar Bruno Martins Indi, Maicon og Jackson Martinez innanborðs. Þeir eru komnir aðeins lengra á undirbúningstímabilinu en okkar menn, sem sumir hverjir eru nýkomnir aftur úr sumarfríum og voru að leika sinn fyrsta leik.

Uppstilling Everton: Howard, Baines, Alcaraz, Jagielka, Hibbert, Barry og Barkley á miðjunni, Pienaar og McGeady á köntunum, Osman fyrir aftan Naismith frammi.

Everton byrjaði leikinn mun betur og kom Naismith boltanum í netið strax á þriðju mínútu en markið dæmt af vegna rangstöðu. Barkley átti einnig skot að marki stuttu síðar. Porto náði til samanburðar ekki skoti á markið á fyrstu 20 mínútunum. Howard var upphaflega sagður ætla að horfa á leikinn ofan úr stúku en hann vildi ekki missa af tækifærinu að fá að heiðra Osman og setti því á sig hanskana og spilaði fyrstu 20 mínúturnar en skipti svo við Robles. Howard er enn að klára fríið sitt eftir HM og hefur því lítið sem ekkert æft með liðinu (líklega ekki neitt).

Porto komust betur inn í leikinn þegar leið á og náðu að halda boltanum mun betur og skapa færi en Everton liðið stóðst pressuna. Rétt fyrir hálfleik gerði markvörður Porto sig svo sekan um afleit mistök þegar hann ætlaði að senda á vinstri bakvörð sinn sem var kominn upp kantinn en boltinn of lágt og beint á kassann á McGeady. Sá þakkaði fyrir sig með því að leggja boltann beint á Naismith utarlega fyrir framan mitt markið sem tók viðstöðulaust skot beint í netið. 1-0 Everton og annað mark Naismith í þremur vináttuleikjum en hann var mjög duglegur í leiknum að elta alla bolta og skapa hættu og uppskar mark. 1-0 í hálfleik.

Lukaku var kynntur í hálfleik við mikinn fögnuð áhorfenda — dýrasti leikmaður Everton frá upphafi.

Uppstillingin í seinni hálfleik: Robles, Browning, Distin, Stones, Hibbert, Besic, Barry, McCarthy, McGeady (skipti við Hope á 86.), Osman (skipti við McAleny á 86.), Naismith (skipti við Long á 85.).

Porto byrjuðu seinni hálfleik líflega og voru búnir að jafn innan 10 mínútna með marki frá Jackson Martinez, sem kom inn á í hálfleik og fékk tvö önnur góð tækifæri til að bæta við marki. Everton menn fengu einnig tvö góð tækifæri til að komast yfir, fyrst Browning sem fékk boltann óvænt við fjærstöng vinstra megin en skotið varið og Osman náði skalla eftir fyrirgjöf úr hættulegu færi en náði ekki að stýra boltanum á markið.

Jafntefli því niðurstaðan en kannski ekki það sem öllu máli skipti. Meira um vert var að þetta var mjög góð æfing og umtalið eftir leikinn var aðallega um það hversu góð kaup Everton hefði gert þegar hinn fótfrái Besic var keyptur en hann heillaði ansi marga með góðum tæklingum og flottu spili. Fjórar milljónir punda fyrir hann virðist nú vera ekkert annað en rán um hábjartan dag.

Martinez sagði eftir leikinn að hann vonaðist til að geta bætt kantmanni við von bráðar. Einhverjir vilja meina að það verði Christian Atsu sem komi að láni en það verður gaman að sjá hvað kemur út úr því.

Celta Vigo næst (á miðvikudaginn).

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U18 ára liðið tapaði 1-2 fyrir Feyenoord U19 í riðlakeppni U19 ára alþjóðlegs Durban móts. Tapið var að sögn nokkuð ósanngjarnt þar sem Everton hafði nokkra yfirburði í öllum leiknum.

7 Athugasemdir

 1. Gunnþór skrifar:

  Fínn leikur, ekta æfingaleikur Besic á eftir að verða rosalegur.

 2. Elvar Örn skrifar:

  Sá bara seinni hálfleik.
  Fannst Besic lang bestur hjá Everton, kom mér amk verulega á óvart.
  Porto hættulegra liðið í seinni hálfleik.
  Margir ungir hjá Everton fengu að spreyta sig.

  Líklegt að Everton noti næstu tvo leiki til að undirbúa fyrir næstu leiktíð, þegar að senior players taki meiri þátt.

 3. Ari S skrifar:

  Ég á ekki til orð yfir Muhamed Bešić. Flottur leikmaður þarna á ferðinni með mjög svo bjarta framtíð, vonandi nær Martinez að gera hann enn betri því hæfileikana hefur drengurinn. Kaup ársins því að miðað við upphæðirnar sem maður hefur verið að heyra þá eru 4 milljónir punda (verðið á Bešić) ekki mikið. Mér finnst hann vera mun betri en ég átti von á. Bjóst alls ekki við þessu sem ég sá í dag frá honum. Reyndar aðeins einn leikur eð ahluti úr leik, en fyrstu viðbrögðin mín eru svona.

  Leon Osman maður dagsins átti tvö tækifæri á að skora en því miður tókst það ekki. Mér fannst Everton byrja vel og svo tók Porto yfirhöndina og voru betri aðilinn í leiknum.

 4. Georg skrifar:

  Flottur leikur við flott lið, þar sem þeir eru komnir aðeins lengra í pre-season en við þá er ekki annað hægt en að vera sáttur við þennan æfingaleik.

  Besic kom flottur inn í þennan leik og virðist hafa fullt af hæfileikum, 21 árs gamall og kostaði litlar 4m punda sem er verð sem varla sést fyrir landsliðsmann í dag. Klárlega framtíðarmaður í liðinu þarna á ferð.

  Leiðinlegri fréttir eru þær að Coleman og Garbutt eru úr leik það sem eftir er pre-season. Mjög slæmt að missa Coleman í byrjun leiktíðar og fyrir hann að missa pre-season. Martínez segir reyndar að þeir munu missa af næstu 2 leikjum svo það er veik von að Coleman nái fyrsta leik í deildinni en hann verður þó aldrei klár í 90 mín.

  Við erum komnir með flotta breidd í vörn og miðju, spurning kannski að fá einn kantmann. Svo er líka spurning með annan framherja. Reyndar er maður alveg búinn að gleyma að við eigum Kone, sem er reyndar ekki ennþá farinn að spila og hef ég ekki séð neinar fréttir hvenær það er von á honum. Ef hann verður heill þá erum við með Lukaku, Kone og Naismith. Mér dettur í hug að Martínez sé að leita í lánsmenn frekar en að kaupa. Kæmi mér ekki á óvart ef við myndum sjá allavega 1 kantamann og jafnvel 1 framherja á láni.

  Kaupin á Lukaku voru frábær, frábært að fá Barry aftur og svo gætu kaupin á Besic reynst frábær einnig. Nú verður ekki sakast í okkur að vera byggja upp lið á lánsmönnum eins og menn voru að tala um í fyrra, sem ég var þó ekki sammála. Það er stutt í fyrsta leik og verður gaman að sjá síðustu tvo æfingarleikina þar sem við munum sjá líklegri byrjunarlið.

 5. Georg skrifar:

  Áhugavert að sjá að nú hefur Jack Rodwell gert 5 ára samning við Sunderland. Ótrúlegt hvað hans ferill hefur dalað eftir að hann fór frá okkur. Það var alltaf mín tilfinning að hann væri að taka vitlaust skref fyrir sinn feril enda var ekki mikil vöntun á miðjumönnum hjá City þegar hann var keyptur þangað, þó settu meiðsli strik í reikninginn en hefði að mínu mati ekki breytt öllu. Hann var of bráður að taka næsta skref en hann þarf nú að taka 2 skref til baka og spila með liði sem hefur verið að ströggla að halda sér í deildinni. Grasið er ekki alltaf grænna hinum megin.

 6. Orri skrifar:

  Sæll Georg. Rodwell er ekki sá fyrsti sem tekur ranga ákvörðun með brottför frá Everton, leiðir þó nokkra ungra manna sem hafa yfirgefið Everton hafa legið nánast lóðbeint niður. Ég gæti nefnt mörg dæmi um það.

%d bloggers like this: