Nýr búningur, leikjaplan og helstu fréttir

Mynd: Everton FC.

Klúbburinn svipti í dag hulunni af nýjum og glæsilegum búningum sem liðið mun leika í á næsta tímabili. Það eru Umbro sem sjá um hönnunina á þeim í þetta skiptið en treyjan er blá (eins og við er að búast) með dökkbláum kraga, hvítar stuttbuxur og dökkbláir sokkar.

 

Aðalbúningur fyrir tímabilið 2014/15

 

 

Umbro sótti innblástur til þess þegar fyrirtæki þeirra var stofnað (árið 1924) en það ár vann Everton ‘Barcelona cup’ á Spáni og spilaði þá í þeim litum.  Klúbburinn kynnti jafnframt búninginn með skemmtilegu vídeói:


Hægt er að forpanta búninginn hér (fer í almenna sölu 17. júlí) og lesa allt um hönnunina hér.

Einnig var leikjaplanið kynnt fyrir næsta tímabil en hægt er að sjá það í heild sinni hér. Tímabilið byrjar á útileik við nýliða Leicester (sem unnu B deildina) en strax á eftir koma tveir risastórir heimaleikir, annars vegar við Arsenal og hins vegar Chelsea. Svo líða tveir leikir en þá koma tveir risastórir útileikir, annars vegar við Liverpool og hins vegar United. Febrúarmánuður verður svakalegur líka en þá leikur Everton við Liverpool (heima), Chelsea (úti) og Arsenal (úti). Lokaleikur tímabilsins er svo við Tottenham heima. Gera má ráð fyrir að leikjaplanið komi þó til með að raskast nokkuð, enda þarf að hliðra leikjum til vegna þátttöku Everton í Europa League.

Þrír yfirgáfu klúbbinn í mánuðinum, tveir stjórar ungliða og einn leikmaður. Alan Irvine, stjóri akademíunnar var kynntur sem nýr stjóri West Brom (sjá viðtal) og Alan Stubbs, sem sá um U21 árs lið Everton, var kynntur sem nýr stjóri Hibernian í Skotlandi. Ekki er búið að velja eftirmann þeirra en Tim Devine tekur tímabundið við akademíunni. Roberto Martinez hafði ekki miklar áhyggjur af því að þetta myndi riðla ungliðastarfinu, en mikil gróska hefur verið þar undanfarin ár eins og Englandsmeistaratitill Everton U18 sýnir sem og þáttur Ryan Ledson og Jonjoe Kenny í því að Englendingar urðu Evrópumeistarar U17 ára liða. Svo má ekki gleyma mönnum á borð við Barkley og Luke Garbutt sem hafa tekið næsta skref og fengið tækifæri með aðalliðinu (og Barkley með enska aðallandsliðinu).

Kantmaðurinn Magaye Gueye (23 ára) yfirgaf einnig klúbbinn fyrr í mánuðinum en hann lék samtals 39 leiki á fjórum árum með Everton, skoraði þrjú mörk og átti 8 stoðsendingar.  Hann fékk aðeins tvö tækifæri í deild á síðasta tímabili Moyes með Everton og engin hjá Martinez enda var hann að láni hjá Brest undir lokin. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum en báðir aðilar samþykktu að slíta honum. Óskum við þeim öllum (Irvine, Stubbs og Gueye) velfarnaðar í framtíðinni.

Og í lokin má geta þess að forstjóri okkar, Robert Elstone, fór víða í skemmtilegu viðtali við Liverpool Echo þar sem hann fór yfir stöðuna og gaf yfirlit sitt yfir síðasta tímabil og rifjaði upp margar góðar minningar.

Orðið er annars laust í kommentakerfinu um það sem hér að ofan kom eða HM eða hvað annað sem þið viljið ræða.

4 Athugasemdir

  1. Ingi Þór Eyjólfsson skrifar:

    Ég er annars bara að bíða eftir einhverjum fréttum af leikmönnum. Við þurfum að bæta við 5+ mönnum vegna þátttöku í Evrópudeildinni. koma svo. 😉

  2. Finnur skrifar:

    Það er lítið annað að frétta þar en sögusagnir — og þær eru fjölmargar — en erfitt að átta sig á því hvað er satt og rétt. Þetta er náttúrulega kjörinn tími fyrir umboðsmenn að leka í blöðin að hinn og þessi klúbburinn hafi sýnt leikmanni þeirra áhuga (sem gæti svo verið uppspuni frá rótum).

  3. Gunni D skrifar:

    Sælir félagar.Hvernig fær maður miða á leiki á Goodison. Ég verð nefnilega staddur í Evertonborg 21.-26 nov. og ætla að sjálfsöðu að fara á völlinn. Okkar menn eiga þá heimaleik við West Ham. Sá þessi sömu lið 15.des „07 í London og unnum að sjálfsögu. Reindar unnu okkar menn West Ham tvisvar í þeirri viku, slógu þá út úr deildarbikarnum.