Tímabilið gert upp

Mynd: Everton FC.

Athygli flestra hefur nú eftir lok tímabils beinst að því að gera upp tímabilið og tölfræðina en hvað Everton varðar kom þetta einfaldlega mjög vel út á fyrsta tímabili Everton undir stjórn Martinez. Everton klúbburinn tók saman heildartölfræðina yfir tímabilið og þar kom margt skemmtilegt fram. Til dæmis náði Roberto Martinez (og Everton liðið) flestum sigrum Everton í deild frá stofnun Úrvalsdeildar og sömuleiðis flestum heimasigrum og flestum stigum á einu tímabili (einnig frá stofnun deildar). Ekki slæmur árangur Martinez á sínu fyrsta tímabili — en þar með er það ekki upptalið því Martinez náði jafnframt flestum stigum per leik af nokkrum þjálfara Everton á sínu fyrsta tímabili, flestum sigurleikjum í röð og jafnframt flestum heimasigrum í röð — og liðið skoraði náttúrulega flest mörk á heimavelli við þá iðju. Það þarf að fara aftur til ársins 1989/90 til að finna fleiri mörk á Goodison Park á einu tímabili. Ef þið viljið lesa meira um þetta þá smellið á hlekkinn hér að ofan. Executioner’s Bong bloggsíðan tók einnig saman frammistöðu leikmanna á tímabilinu sem var að líða og margt athyglisvert sem þar kom fram. Toffeeweb tók saman 10 atriði sem stóðu upp úr á tímabilinu og BlueKipper sendi frá sér sitt yfirlit. Klúbburinn gaf einnig mörgum af helstu Everton bloggurum færi á Martinez og var það viðtal tekið saman í eitt skjal af BlueKipper hér og hér (fyrri og seinni hluti).

Þar sem tímabilinu er formlega lokið og stórmót á döfinni í sumar berast nú annars vegar óáreiðanlegar heimildir um félagaskipta-slúður (sem ég ætla að leiða hjá mér) en einnig hverjir verða fyrir valinu þegar kemur að landsliðum þeirra landa sem taka þátt í HM. Leikmenn Everton verða þar þó nokkrir, eins og gefur að skilja. Baines, Jagielka og Barkley voru að sjálfsögðu valdir í enska landsliðið og Stones var valinn til vara ef meiðsli annarra varnarmanna koma í veg fyrir þátttöku þeirra. Fyrir tímabilið hefði maður kannski aðeins átt von á því að Baines og Jagielka ættu möguleika en frábært að sjá að Barkley og Stones hafa spilað sig inn í plön Roy Hodgson. Maður hefur smá áhyggjur af því að sviðsljósið verði aðeins of sterkt fyrir Barkley þegar líður að keppni, samanber þessa annars bráðskemmtilega grein um Barkley frá BBC. Peter Reid telur að hann geti verið game-changer fyrir England á HM, sbr. þessa grein. Nú er undir Barkley komið að sanna sig og verða lykilmaður í liði Everton um ókomin ár en Barkley er mjög gott dæmi um það að starfsmenn Everton fara ekki yfir lækinn að sækja vatnið því sami maður uppgötvaði Barkley (við það að spila fótbolta í Liverpool borg) og uppgötvaði Wayne Rooney á sínum tíma.

Tim Howard var valinn í bandaríska landsliðið (að sjálfsögðu), enda átt algjörlega frábært tímabil, Mirallas (og Lukaku) voru valdir í belgíska preliminary landsliðshópinn og Traore sömuleiðis (í hóp leikmanna Fílabeinsstrandar).

Bryan Oviedo, aftur á móti, kemur til með að rétt missa af HM í sumar en hann hefur sýnt ótrúlegan bata síðan hann hlaut tvöfalt fótbrot í leik í janúar. Martinez leit á björtu hliðarnar og sagði að hann mætti þakka fyrir að vera kominn svona langt í bataferlinu og að Oviedo sé farinn að geta hluti eftir þrjá og hálfan mánuð sem hann hefði að öllu jöfnu í raun ekki átt að geta því að það tekur oft allt að ár að jafna sig að fullu eftir svona slæmt fótbrot. Hann sagði að Oviedo myndi því einbeita sér að verða klár fyrir undirbúningstímabilið með Everton.

Silvain Distin tilkynnti það einnig á Twitter að hann ætlaði að leggja landsliðsskóna á hilluna en hann á að baki langan og farsælan feril með franska landsliðinu sem hann hefur fylgt að málum með því að horfa á sjónvarpsútsendingar frá leikjum landsliðsins úr sófanum heima hjá sér. Hann er nú 36 ára en sýnir þess engin merki og ótrúlegt til þess að hugsa að þessi leikjahæsti „útlendingur“ í ensku deildinni hafi aldrei leikið landsleik með franska landsliðinu.

Luke Garbutt and Tyias Browning voru valdir í enska U21 árs landsliðið og ljúkum við þar með umfjöllum um landsliðsmál í bili.

Í öðrum fréttum er það helst að tekjur Everton af sjónvarpsútsendingum á nýafstöðnu tímabili voru 85M punda og jukust því um rúmar 33 milljónir punda samanborið við tekjur tímabilsins þar á undan. Toffeeweb tók einnig saman nánara yfirlit yfir hvernig greiðslurnar skiptast niður. Jafnframt er gaman að sjá líka að klúbburinn hefur á undanförnum tímabilum hlúð vel að stuðningsmönnum (og konum) framtíðarinnar, eins og sést hefur í lækkuðu miða- og ársmiðaverði, sérstökum tilboðum á bikarleiki fyrir unga fólkið og kannski ekki síst svona atriði.

Tim Howard var í þriðja sæti yfir markmenn Úrvalsdeildarinnar sem héldu hreinu á tímabilinu en hann átti 15 slíka leiki. Ef hann hefði haldið hreinu í einum leik í viðbót hefði hann verið efstur ásamt Peter Cech og Wojciech Szczesny, sem héldu hreinu í 16 leikjum hvor.

U18 ára lið Everton er komið í úrslit akademíudeildarinnar eftir 1-0 sigur á Tottenham U18. Hægt er að sjá stutt vídeó af sigurleiknum hér en Michael Donohue skoraði sigurmark Everton eftir flott einstaklingsframtak. Þeir mæta því Manchester City U18 í úrslitaleiknum um Englandsmeistaratitilinn á laugardaginn kl. 16:30.

Ryan Ledson og Jonjoe Kenny héldu áfram sigurgöngu sinni með U17 ára enska landsliðinu en þeir unnu Tyrkland U17 4-1 og skoraði okkar maður Jonjoe Kenny þriðja mark enska landsliðsins. Þeir mæta Hollendingum U17 á morgun en hafa þegar nánast tryggt sér sæti í útsláttakeppninni (sigur eða jafntefli í leiknum tryggir meira að segja efsta sætið).

Ryan Ledson fékk einnig Keith Tamlin verðlaunin í ár fyrir að skara fram úr í akademíunni (leikmaður ársins þar) en þessi 16 ára leikmaður hefur staðið sig mjög vel með bæði U18 ára liðinu sem og U21 árs liðinu. Joe Williams var valinn leikmaður U18 ára liðsins.

1 athugasemd

  1. þorri skrifar:

    Sælir félagar, nú er yfir standandi tímabil lokið. Mitt mat á þessu tímabili: Var mjög gott en hefði verið flott hefðum við haldið 4. sæti, vonandi höldum við þessum hóp sem kom að láni. Og vonandi koma nýir inn. Martínes er mjög fær stjóri, ég vona að hann sé ekkert að fara. kv þorri ÁFRAM EVERTON