Everton – Crystal Palace 2-3

Mynd: Everton FC.

Fyrir leik var lítil athöfn til að minnast Hillsborough slysins sem átti sér stað fyrir 25 árum — og degi betur — þar sem 96 manns létu lífið fyrir það eitt að fylgjast með uppáhalds fótboltaliðinu sínu. Lagið He Aint Heavy, He’s My Brother með The Hollies var leikið, við mikinn fögnuð en þess má geta að hægt er að sjá áhrifaríka ræðu Martinez í tilefni dagsins hér.

Uppstillingin í leiknum kom nokkuð á óvart en Everton stillti upp mjög svo sóknardjörfu liði og breytti frá því að hafa Barry og McCarthy á miðjunni og spilaði í staðinn (auk Barry) með Mirallas, Barkley, Deulofeu og McGeady inn á. Uppstillingin því: Howard; Baines, Distin, Stones, Coleman; Barry, Mirallas, Barkley, Deulofeu, McGeady; Lukaku. McCarthy fórnað á bekkinn þar sem hann sat ásamt Robles, Hibbert, Naismith, Osman, Garbutt og Alcaraz. Með öðrum orðum: stillt upp til þess að sækja á Crystal Palace.

Í leiknum mættust tvö „in-form“ lið, Everton í leit að áttunda sigurleiknum í röð (og 10. á heimavelli) og Crystal Palace í leit að fjórða sigurleik sínum í röð eftir að hafa að mestu losað sig við falldrauginn með því að leggja Aston Villa, Chelsea og Cardiff í síðustu leikjum — og haldið hreinu í öllum þremur í þokkabót! Aðeins eitt lið hafði náð að skora (eitt) mark gegn Crystal Palace í síðustu fimm leikjum og þrjú stig í viðbót fyrir þá gegn Everton myndi þýða að þar með væru þeir búnir að gulltryggja sig í Úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Ég verð reyndar að viðurkenna það að ég reyndi að horfa á leikinn yfir 4G í sumarbústaðnum á meðan ég bjó til mat og missti því af völdum köflum en náði helstu leikatriðum (vona ég allavega) þó „útsendingin“ hafi rofnað á köflum og sýn mín á leikinn kannski bjagast fyrir vikið.

Leikurinn byrjaði líflega og áhorfendur létu mjög vel í sér heyra enda mikið í húfi. Mér sýndist reyndar ekki mikið af færum í fyrri hálfleik og það sem helst vakti athygli mína var að Lukaku virtist meiðast snemma, nógu mikið til að maður hefði áhyggjur af því að hann þyrfti að fara út af, en hann harkaði það af sér og kláraði leikinn.

Crystal Palace menn lögðu greinilega upp með það að verjast á nánast öllu liðinu — með að minnsta kosti 10 í eða rétt við vítateig og spretta svo fram við fyrsta tækifæri. Það átti eftir að reynast þeim vel því á 23. mínútu skoruðu þeir mark, þvert gegn gangi leiksins þar sem Everton hafði verið í sókn mestan part leiks. Fyrirgjöf kom frá hægri sem Howard varði út í teig, beint á Palace mann sem sendi stutt á Jason Puncheon sem smellhitti hann í hliðarnetið hægra megin við Howard. Óverjandi, 0-1 Crystal Palace. Kannski var um að ræða ofmat á andstæðingnum en svörun Everton við því að lenda undir var ekki nægilega góð.

Crystal Palace áttu skot af löngu færi á 34. mínútu þannig að kannski var Everton liðið heppið  langskot að vera ekki 2-0 undir í hálfleik. 0-1 í hálfleik og útsendingin í hléi fór yfir nokkur „greatest comebacks“ í sögu Úrvalsdeildarinnar, svona rétt eins og til að hjálpa geðheilsu manns.

Deulofeu út af fyrir Naismith í hálfleik og maður hafði ákveðnar væntingar til þeirrar skiptingar, í ljósi sögunnar. En áður en það varð að raunveruleika gerði Everton sig seka um að athyglisbrest í horni — ekki í fyrsta skipti. Því á 47. mínútu fengu Crystal Palace sitt fyrsta horn í leiknum; fengu óáreittir að skalla á mark og náðu náttúrulega að skora úr því. 0-2 fyrir Crystal Palace.

Á þeim tímapunkti fóru þulirnir að tala um að Chelsea væri eina liðið sem væri með betri vörn en Crystal Palace (ef ég heyrði rétt) og maður fór að hugsa hvort væri yfirhöfuð hægt að ná meira en einu stigi úr þessum leik — sem myndi færa okkur Champions League sætið aftur.

McGeady fór út af á 58. mínútu fyrir McCarthy og Osman inn á fyrir Barry, sem hafði ekki átt sinn besta leik. Everton svaraði skiptingunni strax með marki (á 61. mínútu) þegar Mirallas fékk tvo sénsa til að krossa frá hægri, tókst í seinni tilraun, beint á hausinn á Baines sem skallar frá fjærstöng fyrir mark aftur á Naismith sem átti ekki í of miklum erfiðleikum með að skora. 1-2. Kannski er möguleiki á jafntefli, hugsaði maður.

Stuttu síðar varði Speroni frá Osman í slána og Baines átti flotta fyrirgjöf af vinstri kanti á Mirallas sem skaut yfir í ekki allt of slæmu færi. Barkley fór svo stuttu síðar auðveldlega framhjá einum varnarmanni og náði skoti framhjá öðrum en glæsilega varið. Þar hefði staðan átt að vera 2-2 — fyrir löngu síðan.

En svo refsaði Crystal Palace okkar mönnum þegar Jerome kom Crystal Palace í 1-3 á 71. mínútu. Þegar tölfræðin var skoðuð var Everton betri að öllu leyti: að halda bolta, í sendingum, sókndjarfara og raðaði inn hornum (10 hjá Everton á móti tveimur hjá Crystal Palace) og Everton með 17 tilraunir á móti 7 hjá Crystal Palace — en það dugir einfaldlega ekki til að vinna leiki, eins augljóst og það er.

Upp úr 80. mínútu fór að fara um mann enda ljóst að það yrði mjög erfitt að fá nokkuð úr þessum leik. En fjórum mínútum síðar kom smá ljósglæta þegar Mirallas fékk flotta stungusendingu inn hægra megin þar sem hann lék á markvörð og sendi boltann í autt netið. Staðan 2-3 og allt lagt í sölurnar.

Aðstoðardómari bætti 6 mínútum við leikinn og ég kleip mig og spurði sjálfan mig hvort um Fergie time væri að ræða. En þrátt fyrir stanslausa sókn Everton tókst ekki að jafna og Crystal Palace fóru með sigur af hólmi. Fyrsta liðið sem nær þremur stigum á tímabilinu á Goodison Park síðan ég man ekki hvenær — og á þau þrjú stig skilin (Sunderland voru heppnir manni fleiri). Það hlaut að koma að því að þetta „rönn“ endaði — Everton ekki unnið jafn marga leiki í röð síðan _áður_ en liðið varð síðast Deildarmeistari! Everton fékk sín færi í leiknum en nýtti ekki nógu vel og því fór sem fór. 2-3 sigur Crystal Palace í höfn og ég get ekki annað en tekið hattinn ofan af fyrir þeim.

Everton getur einfaldlega ekki tekið stjórn á eigin örlögum — verður að treysta á aðra og nú er Arsenal aftur komið í lykilstöðu varðand sæti í Meistaradeildinni. En, við héldum að allt væri glatað eftir tapið gegn Chelsea og nú er bara að sjá hvernig leikmenn (aftur) svara þessu tapi.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Distin 7, Stones 6, Coleman 6, Barkley 7, Barry 7, Deulofeu 6, Mirallas 7, McGeady 7, Lukaku 6. Varamenn: Osman, Naismith og McCarthy, allir með 7. Palace menn fengu 7 á línuna, nema markaskorararnir Dann og Jerome sem fengu 8 og Bolasie, sem fékk 9.

27 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Hálfleikur, Crystal Palace komið yfir, 0-1.

    Martinez ap prufa Barkley í McCarthy stöðunni, (vonandi bara til að hvíla McCarthy fyrst og fremst) en það er ekki alveg að ganga upp. Everton samt meira með boltann og fleiri horn en samt vantar helling á að liðið sé að spila eins og ég vil hafa það 🙂 Ég er samt bjartsýnn og spái sigri okkar manna í kvöld, 2-1 með mörkum frá Mirallas og Lukaku.

    kær kveðja,

    Ari S

  2. Ari G skrifar:

    Hræðilegur leikur. Ég er orðlaus Everton fóru á taugum. Best að gleyma þessum leik.

  3. Diddi skrifar:

    Enn og aftur sjáum við okkar menn kikna þegar mest á reynir og gegn hundleiðinlegum og ömurlegum andstæðingi, djöfull er maður svekktur eftir svona helvíti. Hvað er það sem gerist allt of oft þegar við sjáum eilítið ljós framundan, þá verður á vegi okkar pínulítill þröskuldur sem við náum ekki að yfirstíga. Andskotinn 🙂

  4. Gunnþór skrifar:

    Þetta er pínu svona eins og síðustu tíu ár eða svo ef eitthvað er undir smá möguleiki á einhverju þá gugna menn einhvernveginn alveg óútskýranlegt en svona er þetta bara,maður hélt að þetta myndi breitast með Martinez en þetta er eitthvað í klúbbnum,en fimmta sætið er samt flottur árangur.

  5. Gunnþór skrifar:

    En samt þrjú mörk á sig á heimavelli á móti cp og tp ósigur fyrir fótboltann klárt.

  6. Ari S skrifar:

    Hvað er að ykkur? Eruð þið tveir af öllum mönnum Diddi og Gunnþór þeir fyrstu af okkur sem að henda handklæðinu inná. Ég get þó alveg fullivssað ykkur um að ef ég hefði sett inn texta hérna fyrir 30 mínútum þá hefði hann verið eitthvað á svipaða leið. 😉

    Mér finnst eins og tímabilið sé búið eftir að hafa leisð þetta hjá ykkur tveimur. Nú er að duga eða drepast og ég hef trú á því að liðið okkar muni landa sigri gegn Moyes og félögum og Fellaini fær rautt spjald fyrir olnbogaskot á 30. mín. Leikurinn endar 3-1.

    Í sambandi við leikinn í kvöld þá er nokkuð ljóst að það dugar EKKI að hafa Barkley í þessari stöðu sem hann spilaði í kvöld. Auðvitað getur hann það seinna og þessi leikur fer í reynslubankann hjá honum en þetta var alltof dýrmætur leikur til þess að gera einvherjar tilraunir. Kannski er leikmaðurinn sem að Barkley leysti af einum of mikilvægur fyrir okkar lið? (McCarthy)

    Og svo loksins þegar McCarthy er settur inná þá er Barry tekinn útaf á svipuðum tíma. Það er orðið nokkuð ljóst að þetta tvíeyki er orðið ansi mikilvægt og sérstaklega núna í lokin á tímabilinu þegar hver leikur er mikilvægari en sá síðasti.

    Mig grunar að Martinez hafi ætlað sér að gefa McCarthy hvíld í kvöld (til undibúnings fyrir næsta heimaleik) en það mistókst. Auðvitað er ekki hægt að skella skuldinni einungis á þetta atriði vegur ansi þungt.

    Diddi minn og Gunnþór minn það eru ennþá 4 leikir eftir af tímabilinu og ég vil ekki sjá svona hvítahandklæðisskrif aftur 😉

    kær kveðja vinir mínir og gleðilega páska 🙂

    • Diddi skrifar:

      Ari minn, það er ekki hægt að lesa úr skrifum mínum neina uppgjöf, aðeins vonbrigði, ég er þess fullviss að við vinnum manutd en það er samt ömurlegt að skíta á sig gegn hinum svokölluðu lélegu liðum á heimavelli, það er hræðilegt, en ég hef síður en svo hent inn handklæðinu og er þess fullviss að Arsenal á eftir að tapa stigum 🙂

  7. Gunnþór skrifar:

    Góður Ari no comment.

  8. Finnur skrifar:

    Var mjög hissa að sjá að krukkað væri í formúlunni sem hefur skilað okkur svo mörgum stigum undanfarið. En menn vonandi læra af þessu. Nóg eftir af stigum og allt getur enn gerst.

  9. Ari S skrifar:

    Já Diddi og Gunnþór, ég varð líka fyrir gríðarlegum vonbrigðum og þetta getur bara virkað eins og vítamínssprauta á liðið fyrir næsta leik á sunnudaginn. Ömurlegt í kvöld :(o

  10. Gunnþór skrifar:

    Já sjáið td Arsenal slátruðu vh hægt og rólega,ok eigum við ekki að vera raunhæfir eða er þetta bara væl,hvaða skoðun hafa menn.

  11. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var hrikalega svekkjandi. Og ég er sammála Didda varðandi þetta með að kikna þegar mest á reynir. Átti samt frekar von á því í síðasta leik en þessum. Vonandi að menn mæti dýrvitlausir gegn man. utd. á sunnudag og hirði þessi þrjú stig sem í boði eru. Nú er ekkert annað en að gera það sem maður vonaði að Arsenalmenn þyrftu að gera út tímabilið, sem sagt að vinna okkar leiki og vonast til að þeir tapi stigum.

    Svo langar mig líka aðeins að minnast á Lukaku.
    Veit ekki hvort menn hafa tekið eftir því en manngreyið gæti varla gefið óbrjálaða sendingu þó líf hans lægi við.
    Meira að segja stuttar þriggja-fjögurra metra sendingar virðast vera vandamál fyrir hann.
    Þetta mun eflaust lagast eftir því sem hann eldist og þroskast sem leikmaður, en þetta er drullupirrandi að horfa upp á. Það er alla vega mín skoðun, að öðru leyti finnst mér hann frábær.

  12. Ari S skrifar:

    Gunnþór viltu ekki bara skella Tottenham Hotspur og Manchester United fyrir ofan okkur líka? Hvað er að vera rasunhæfur….? að tapa rest? Ok vert þú raunhæfur ég er bjartsýnn eins og alltaf…. við vinnum rest

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Ég er ekki bjartsýnn en hef þó fulla trú á að við getum hæglega unnið rest.
      Því miður held ég að það geti Arsenal líka.

  13. Diddi skrifar:

    ég hata Pulis !!!!!!!!

  14. Ari S skrifar:

    Það hefur oft og eiginlega alltaf gerst í þau 40 ár sem ég hef fylgst með enska boltanum að lið sem eru í fallbaráttu vinna óvænta sigra í síðustu leikjum sínum.

    Við eigum erfiða leiki gegn liðum sem eru ofarlega (fyrir ofan miðju) á meðan að Arsenal á þrjá leiki gegn liðum sem geta fallið. Þau lið munu berjast fyrir lífi sínu. Það verða nokkrir svakalegir úrslitaleikir í lokin.

    Með þessu er ég bara að benda á að möguleiki okkar á 4. sætinu er alls ekki farinn ennþá.

    Góða nótt.

    • Ari S skrifar:

      Og með sigri sínum gegn Everton í kvöld bjargaði Crystal Palace sér endanlega frá falli.

  15. Gunnþór skrifar:

    Ari minn miði er alltaf möguleiki, en þetta var algjör skildusigur til að hafa þetta í okkar höndum það er alltaf vont að þurfa að treysta á aðra.

  16. Ari S skrifar:

    Ég er ekkert að endilega að segja að Everton þurfi að treysta á aðra eða Arsenal ef út í það er farið bara benda á möguleikann sem uppi er núna miðað við það sem áður hefur gerst, Gunnþór minn 🙂

  17. Halli skrifar:

    Ekki sá ég leikinn en klárlega er þetta áfall í baráttunni um CL sætið en menn hafa dottið af baki áður og þá er bara að girða sig og koma sér á bak aftur og koma sér í mark. Varðandi uppstillinguna er þá ekki RM að horfa til leiksins við Man C og hvort Barkley væri rétti maðurinn til að vera djúpur á miðjunni í stað Barry sem ekki má spila þann leik og hefur talið þennan leik öruggari en leikina við Man U og Southamton til að vera með tilraunir á liðsuppstillingu

  18. Gunni D skrifar:

    Drullusvekkjandi, þetta átti að vera öruggasti leikurinn af þessum fimm. Nú þurfum við að vinna bæði Manchester liðin. Og það er alveg möguleiki miðað við úrslitin í hinum leiknum í gær.

  19. Georg skrifar:

    7-0-1 run er alls ekki slæmt. Hefði tekið það fyrir 8 umferðum. Hinsvegar drullu svekkjandi að tapa þessum leik. 1 stig frá 4. sæti þegar 4 umferðir eru eftir er betra en flestir spáðu. Þetta er ennþá séns. Skyldusigur gegn Man Utd til að halda þessu í séns. Ákvað að pústa 1 sólarhring með að skrifa hér. Var of svektur í gærkvöldi. Við erum ennþá í dauðafæri með 4. sætið þó þetta sé ekki létt prógramm. Finnst mjög ólíklegt að Arsenal vinni rest. Við vinnum næsta leik og málið er dautt. Hull mætur Arsenal á heimavelli Hull, það er alls ekki gefins leikur fyrir nallana.

  20. Diddi skrifar:

    Staðan er hins vegar sú fyrir Hull að þeir eru í úrslitaleiknum í FA cup á móti Arsenal og fara því í Evrópukeppni sem tapliðið ef Arsenal kemst í CL, þannig að það er kannski óskastaða fyrir Hull að tryggja Arsenal stig í baráttunni um meistaradeildarsæti, staða Hull breytir ekki svo miklu í deildinni héðan af. Þetta getur verið hættulegt fyrir okkur 🙂

  21. Georg skrifar:

    Var ekki viss með þetta Diddi svo ég ákvað að google þetta. Fann þetta:
    „If the FA Cup winners finish in the top four, their UEFA Europa League place goes to the runners-up. However, if the FA Cup winners finish outside the top four, their UEFA Europa League place goes to the next-highest ranked team in the Barclays Premier League (nominally the seventh-placed team)“.

    Semsagt ef Arsenal endar í 5. sæti þá fær Hull ekki evrópusæti. Vonandi að Hull fari ekki með því hugarfari í þennan leik.

  22. Ari S skrifar:

    Þeir geta fallið ef þeir tapa þessum leik gegn Arsenal. Eftir þann leik eiga þeir þrjá erfiða útileiki í röð. Ég hef trú á því að þeir fari með þeim huga í leikinn gegn Arsenal frekar heldur en evrópudraumminn. En ég gæti svo sem haft rangt fyrir mér í því. Held að Hull vilji vera búnir að tryggja sæti sitt fyrir síðustu tvær um ferðirnar en þá eiga þeir leiki gegn Manchester United og Everton. Arsenal leikurinn þeirra er næst síðasti heimaleikurinn og sá síðasti verður gegn okkur í Everton.

  23. Elvar Örn skrifar:

    Það var skelfilegt að tapa þessum leik.
    Þó að Everton virðist margoft tapa þegar mest á reynir (amk síðustu ár) þá er ég ekki sammála mörgum hér sem tala um að nú hafi sú staða verið uppi. Þegar mest á reynir var t.d. leikurinn gegn Arsenal en þann unnum við frábærlega.
    7 sigurleikir í röð og maður getur bara ekki kvartað, hinsvegar hefði jafntefli haldið okkur í 4 sætinu og auðvita svekkjandi að tapa heima á móti liði eins og Crystal Palace.

    Held að Martinez hafi gert of margar breytingar á liðinu frá fyrri leikjum og helstu mistökin að setja Barkley með Barry á miðjuna en McCarthy og Barry samsetningin hefur verið að svínvirka.
    Palace menn nýttu náttúrulega færin sín fáránlega vel og eina skotið sem ég man eftir utan þessara þriggja sem gáfu mark var stangarskot þeirra.
    Ég er mjög hræddur um að það verði erfitt fyrir Everton að ná 4 sætinu þar sem Arsenal á miklu auðveldara prógram eftir og Everton á City og United eftir en þó eru þeir báðir á Goodision. Ef Everton vinnur í dag þá eigum við enn hellings séns á 4 sætinu og allt getur gerst. Ég er fullviss að Everton hefur tryggt sér sæti í Evrópudeildinni hið minsta en auðvitað væri meistaradeildarsæti svakalegt boost fyrir okkar góða klúbb.