Sunderland vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur getur vart komið of snemma eftir frábæra frammistöðu gegn Arsenal um síðustu helgi en Everton heimsækir næst Sunderland á Stadium of Light á laugardaginn kl. 14:00. Uppfært: 11. apríl: Leiknum verður seinkað, eins og öðrum leikjum þennan dag, um 7 mínútur til að minnast Hillsborough slysins fyrir 25 árum síðan. Sunderland eru sem stendur í bullandi fallbaráttu og eru að berjast fyrir lífi sínu í Úrvalsdeildinni, á botni deildar en með tvo leiki til góða á hin liðin. Sundarland er eina liðið sem hefur náð að sigra Everton á Goodison Park á tímabilinu, en þar spilaði stóra rullu rautt spjald og víti sem Howard fékk dæmt á sig í upphafi leiks en þrátt fyrir að Everton væri manni færri lágu þeir í sókn restina af leiknum og þegar uppi var staðið fannst manni 3 stig á Sunderland vera ekkert minna en rán um hábjartan dag, eins ótrúlegt og það hljómar. Gus Poyet, stjóri Sunderland, sagði eftir leikinn: „Even with 10 men they were the best team we’ve played….it’s incredible that we’ve beaten them“.

Fyrir ekki svo löngu hefði mátt ganga að því vísu að Everton færi með sigur af hólmi í leik gegn Sunderland en síðustu tveir leikir hafa þó ekki farið vel: Sunderland sigrað 1-0 í báðum leikjum. Gengi Sunderland hefur þó verið afleitt í undanförnum leikjum en þeir hafa ekki unnið leik (að einum FA bikarleik undanskildum) síðan þeir unnu erkifjendur sína, Newcastle, á útivelli 0-3 í byrjun febrúar. Síðan þá er tölfræðin hjá þeim (Sigrar:Jafntefli:Töp) 1:1:8 með markatöluna 6:23 (-17). Everton er aftur á móti á góðum spretti, 6 sigrar í deild í röð og þrjú mörk skoruð á andstæðinginn í síðustu fjórum leikjum í röð, þar með talið 3-0 sigur á Arsenal í síðasta leik.

Það boðar kannski ekki gott að Sunderland tapaði á útivelli fyrir Tottenham í síðasta leik 5-1 þannig að þeir koma örugglega dýrvitlausir til leiks enda eiga þeir erfiða útileiki gegn City, Chelsea, United framundan eftir þennan leik.

Osman og Jagielka eru tæpir fyrir leikinn. Osman fékk skurð við augað gegn Arsenal og miklar bólgur sem hafa valdið erfiðleikum með að sjá þannig að hann verður metinn á leikdegi. Jagielka fær æfingaleik fyrir luktum dyrum þar sem hann getur sýnt fram á að hann sé tilbúinn í 90 mínútur. Í öðrum fréttum er það helst að Barry er einu gulu spjaldi frá banni, líkt og fyrir leikinn gegn Arsenal en hann þarf bara að halda sig á mottunni gegn Sunderland til að koma í veg fyrir tveggja leikja bann. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Stones, Coleman, Mirallas, Deulofeu, Barry, McCarthy, Barkley og Lukaku. Sunderland verða án Steven Fletcher og Keiren Westwood.

Rétt er að minna aftur á bráðskemmtilega ferðasögu Sveins sem fór á Arsenal leikinn um helgina og hvetja ykkur öll sem farið á Goodison til að senda okkur ferðasöguna ásamt örfáum myndum því við komum þeim skilaboðum til skila af mikilli ánægju. Einnig hvert ég ykkur öll, sem hafið áhuga á að koma pistli varðandi Everton á framfæri til að hafa samband við okkur. Orðið er laust, hvort sem það er ferðasaga, skemmtileg tölfræði sem þið viljið koma á framfæri, leikskýrsla (vantar að manna leikskýrsluna fyrir United leikinn á páskadag, ef einhver er áhugsamur/áhugasöm) eða bara eitthvað annað. Ekki hafa of miklar áhyggjur af tækninni — ef þið getið sent okkur grein á tölvupósti erum við til í að prófarkarlesa, laga málfar og finna til góða mynd til að setja með greininni. Ekki hika við að hafa samband.

Það er gott að vera Everton stuðningsmaður í dag enda gengur vel bæði innan vallar sem utan en Everton klúbburinn kom til dæmis afskaplega vel út í könnun sem gerð var meðal stuðningsmanna Úrvalsdeildarliðanna og fékk hæstu einkunn í ýmsum flokkum, til dæmis þegar kom að kaupum á miðum yfir netið, öryggi á vellinum (efst, annað árið í röð) og verðlagningu á miðum á leikjum ungliða. Í nánast öllum flokkum var um framför að ræða frá síðasta ári, sérstaklega hvað varðar upplifun á leikdegi (næstbesta einkunn) sem og að nálgast upplýsingar um miða og miðasölu á netinu þar sem klúbburinn þótti bera af öðrum klúbbum í Úrvalsdeildinni, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.  70% stuðningsmanna segja að klúbburinn hlusti á skoðanir stuðningsmanna en meðaltalið í deildinni er 38%. Klúbburinn fékk ekki jafn góða einkunn þegar kom að aðgengi að miðum á útileiki og bikarleiki, en það skýrist að vissu leyti af því að eftirspurn eftir þeim miðum er miklu meira en framboðið enda seljast þeir hratt upp! Það er því í ljósi ofansögðu kannski ekki furða að ársmiðasalan fyrir næsta tímabil hefur tekið mikinn kipp!

En þá að öllu sorglegri fréttum, því Sandy Brown, sem var í vörn Everton sem vann deildarmeistaratitilinn 1969/70 lést á dögunum eftir langvinn veikindi, 75 ára að aldri. Hann lék 253 leiki með Everton en fór svo til Shrewsbury Town árið 1971. Hann var sókndjarfur og fjölhæfur bakvörður sem fékk einnig að spreyta sig í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns sem og í sókninni, undir stjórn Harry Catterick! Hugur okkar allra er með fjölskyldu Sandy.

Everton ætlar að heiðra minningu þeirra sem létust í Hillsborough slysinu með minningarathöfn á Goodison Park þann 15. apríl en 25 ár eru nú liðin síðan það gerðist.  Jafnframt var tilkynnt um plön um að reisa minnisvarða fyrir þá 96 stuðningsmenn Liverpool sem létu lífið í slysinu og koma honum fyrir á Goodison Park til frambúðar.

Í öðrum fréttum er það helst að Sylvain Distin var valinn leikmaður marsmánaðar eftir fimm sigurleiki í röð við hlið John Stones, þar af tvo þar sem Everton hélt hreinu.

Og Leon Osman fær góðgerðarleik í sumar en Osman hefur leikið 400 leiki með félaginu frá því að hann kom fyrst inn á gegn Tottenham fyrir rúmum 10 árum síðan (2003). Góðgerðarleikurinn verður á Goodison Park í sumar og verður partur af undirbúningnum fyrir næsta tímabil.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 gerði 1-1 jafntefli við Leicester U21 á útivelli í deildarleik á dögunum. Luke Garbutt skoraði mark Everton úr víti.

14 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Skemmtileg grein frá Peter Reid líka, þar sem hann sér margt líkt með liðinu okkar í ár og Everton liðinu sem vann deildarmeistaratitilinn síðast:
    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/current-everton-fc-squad-echoes-6950054

  2. þorri skrifar:

    ÁFRAM EVERTON við vinnum þennan leik og förum upp í 4 sæti ekki satt

  3. Gunni D skrifar:

    Sælir félagar. Ég hef ekki trú á að 5-1 tap í síðasta leik sé gott fyrir sjálstraust liðs sem er neðst á töflunni. Þetta er orðin hálf vonlaus staða með þetta útileikjaplan framundan. Það er nú eða aldrei að taka stökkið fram á við og hirða fjórða sætið og halda því. En þetta er nú bara mín skoðun. Tökum þetta með stæl. Góðar stundir.

  4. Finnur skrifar:

    Maður er alltaf smeykur við að mæta liðum sem eru nýbúin að tapa stórt, sérstaklega liðum sem tapa á útivelli og mæta svo næst Everton á heimavelli — væntanlega staðráðnir að sýna að það sé líf eftir í þeim.

    En maður verður að viðurkenna að með hverjum leik Everton er maður búinn að gera ráð fyrir að þessi sprettur sem Everton er búið að vera á hljóti nú að fara að taka enda. Maður hugsaði „allt er þegar þrennt er“ á móti Swansea því Everton var búið að vinna þá tvisvar áður á tímabilinu — en vann svo þann þriðja líka. Svo hugsaði maður „nú er komið að því“ á móti Newcastle úti þar sem Everton var búið að tapa þremur leikjum á útivelli í röð fram að því — en sá leikur vannst líka. Á móti Fulham hugsaði maður „úff, lið í fallsæti á heimavelli þeirra; líf og dauði fyrir þá“ — en aftur vann Everton. Og á móti Arsenal hugsaði maður „lið í fjórða sæti, getur ekki verið að Everton vinni sjötta deildarleikinn í röð á móti svoleiðis liði, sérstaklega í ljósi tapleiksins í bikarnum þar á undan“. En annað var uppi á teningnum (Everton vann auðveldlega). Og nú er það botnlið deildarinnar — eina liðið sem hefur unnið Everton á Goodison á tímabilinu.

    En, á móti kemur að Sunderland er eitt af aðeins þremur liðum í deild sem hafa fengið færri stig á heimavelli en á útivelli og ekkert lið fengið færri stig á heimavelli en einmitt Sunderland. Og þá hugsar maður aftur… úff, nú hlýtur að vera komið að því… 😉

    • Gunni D skrifar:

      Kannast alveg við svona hugsanaferli.Ábyggilega til eitthvert nafn á því. En hvernig er það, er hægt að sjá okkar menn í beinni á einhverjum pöbb á Siglufirði. Verð þar sennilega á morgun.

      • Hallur skrifar:

        Findu Albert hann býr þar og ætti að vita hvar everton klubburinn er staðsettur á Siglufirði

      • Albert Gunnlaugsson skrifar:

        já sæll
        Ég fer alltaf á Billan (pool stofa) Er í Lækjargörtu 8. Ekkert mál að finna (gatan sem liggur norður úr Aðalgötunni við torgið (The Town Squer 🙂 milli siglósport og Allans. Hitti þig þar á eftir? 15 min fyrir leik.

        • Gunni D skrifar:

          Sorry, sigldi út frá Sigló 13:30.Var á Billanum í gærkvöldi.

  5. Diddi skrifar:

    ég held einfaldlega að við séum ekki búnir að átta okkur á því að Everton liðið er orðið firnasterkt og Martinez algjör meistari að spila því. Ég verð að viðurkenna að þetta er akkúrat eins og mér hefur liðið undanfarna vikur Finnur en við verðum bara að „sætta okkur við það“ að liðið er ógnarsterkt og við þurfum ekki að hræðast neitt, tapið á annan í jólum var algjört slys og þar töpuðust þrír punktar sem væru vel þegnir í dag eins og reyndar fleiri. GunniD, Albert Gunnlaugsson tekur örugglega vel á móti þér ef þú talar við hann. Ég spái því að við vinnum Sunderland á morgun 1-4 og hana nú 🙂

  6. Gunnþór skrifar:

    Þessi leikur er algjörlega í okkar höndum,ef við mætum til leiks þá rúllum við yfir þá það er klárt en ef menn mæta með tyggjóið og ætla að taka þetta með vinstri þá gæti farið illa.

  7. Teddi skrifar:

    Spái 1-2. Mirallas og Lukaku.

  8. Ari S skrifar:

    Ekkert annað en sigur kemur til greina í mínum huga. Það er samt gott að vera ekki með neinn hroka í þessu en samt er liðið okkar orðið það hrikalega gott að við verðum bara að „sætta okkur við það“ 🙂

    Það virðist vera alveg sama hvernig Martinez stillir liðinu upp það er alltaf sterkt.

    Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn og spái sigri okkar manna 0-5, Naismith með þrennu. Þeir fá þessa spá frá mér fyrir að reka Di Canio, mann sem ætti að vera heiðursfélagi hjá Everton 😉

  9. Finnur skrifar:

    Uppstillingin komin: http://everton.is/?p=7187