Liverpool vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Baráttan um Bítlaborgina er í algleymingi þessa dagana en annað kvöld (þriðjudagskvöld) kl. 20:00 eigast við Everton og Liverpool á heimavelli þeirra síðarnefndu.

Stærsta spurningamerkið (hjá báðum liðum) er hverjir verða heilir fyrir leikinn en nokkuð hefur verið um meiðsli í herbúðum beggja liða sem keyra bæði á nokkuð fámennum hóp. Það er eiginlega ómögulegt að segja til um uppstillinguna hjá Everton á morgun því nokkuð margir eru sagðir tæpir og verða metnir á leikdegi.

Kone og Gibson eru á langtíma-meiðslalistanum hjá okkur en þeir hefðu hvort eð er að öllum líkindum ekki komist í liðið eins og það hefur verið að spila. Deulofeu (sem var frábært að eiga á bekknum þegar vörn andstæðinganna var farinn að þreytast) hefur einnig verið á langtíma-meiðslalistanum en farið er að rofa til með hann því hann er sagður verða orðinn góður fyrir Tottenham leikinn. Hann verður þó ekki með á morgun.

Ovideo, sem leyst hefur Baines og Pienaar af með frábærum hætti í síðustu leikjum er illa meiddur eftir bikarleikinn, en þegar Baines og Pienaar eru heilir er hann hvort eð er á bekknum, eins ósanngjarnt það kann að virðast miðað við frammistöðu hans. Sama má segja um Alcaraz, sem leysti Jagielka af frábærlega í meiðslum þess síðarnefnda, fer á bekkinn ef hinir eru heilir. Alcaraz ætti þó að verða orðinn góður fyrir leikinn ef á þarf að halda.

Það eru þó fimm leikmenn úr aðalliðinu sem allir eiga séns á morgun en verða metnir á leikdegi: Jagielka, Distin, Coleman, Pienaar og Barkley. Mín tilfinning er sú að Distin og Pienaar verði orðnir nógu góðir fyrir leikinn, Barkley á séns ef þeir tjasla honum saman, Coleman nær líklega ekki leiknum en við höfum tvo góða kosti í þeirri stöðu: Stones og Hibbert — þó vissulega taki það bit úr sóknarleiknum að missa Coleman, eins og undarlega og það kann að hljóma, því Coleman hefur staðið sig mjög vel í markaskorun á tímabilinu.

Hvað Barkley varðar þá er rétt að rifja upp að Baines var rétt rúman mánuð að jafna sig af sambærilegum meiðslum –sem gæfi til kynna að ef um Baines væri að ræða væri aðeins of snemmt að tala um endurkomu hans fyrir Liverpool leikinn á morgun. En það er ekki Baines sem er meiddur heldur Barkley, sem er ekki nema rétt rúmlega tvítugur (Baines er 29 ára) og það vinnur með Barkley hvað lengd meiðsla varðar. Það er því aldrei að vita nema hann komi manni á óvart og verði með. Jagielka er stórt spurningamerki því hann fór út af í hálfleik í bikarleiknum án þess að við hefðum merkt neitt vandamál þegar að því kom.

Ég ætla að skjóta á að Martinez hafi með þeirri skiptingu í hálfleik verið að rugla aðeins í Brendan Rodgers (segja að Jagielka sé tæpur). Kannski hef ég rangt fyrir mér en ég veit að Everton myndu örugglega segjast vera með fleiri en færri meidda til að halda þeim rauðklæddu giskandi fyrir leikinn.

Ég ætla því að skjóta á eftirfarandi uppstillingu:

Howard í marki að sjálfsögðu. Baines, Distin, Jagielka og Stones (talið frá vinstri til hægri). Engin ástæða til að ætla annað en að Barry og McCarthy verði á miðjunni, enda hafa þeir staðið sig algjörlega frábærlega á tímabilinu. Við eigum þó nokkra góða valkosti á köntunum en ég ætla að skjóta á að Pienaar verði á vinstri og Mirallas á hægri. Kantmenn okkar víxla reglulega á köntum í leikjunum (og eru keyptir með það fyrir augum) þannig að ef Pienaar nær ekki leiknum geta Mirallas, Osman, Naismith (sem skoraði tvö í síðasta leik) og Gueye (sem skoraði í síðasta leik) allir tekið að sér vinstri kantinn. Ég er að vonast til að Barkley verði á miðjunni í holunni en það kæmi mér þó ekki á óvart þó þurfi að leysa hann af. Osman, Mirallas og jafnvel Naismith eru líklegir til þess. Osman er líklega fyrsti valkostur til að leysa af en hann þekkir derby leikina inn og út og kemur því með mjög mikilvæga reynslu inn í svona leik. Enda vill maður sem allra fæsta kjúklinga í liðinu þegar kemur að baráttunni um Bítlaborgina. Frammi er Lukaku bæði heill og úthvíldur en varnarmenn Liverpool hafa oft átt í miklum erfiðleikum með stóra og sterka sóknarmenn á borð við hann (Benteke er annað dæmi sem Liverpool kunningjar mínir kvarta gjarnan undan). Nýi risastóri og sterki sóknarmaður okkar, Traore, sem skoraði bráðskemtilegt mark í Evrópudeildinni gegn Liverpool, verður metinn á leikdegi og kæmi mér ekkert á óvart þó hann komi inn á í lokin í sínum fyrsta leik með Everton.

Sem sagt… Fimm leikmenn úr aðalliðinu metnir tæpir fyrir leik en líkur á að kannski (mögulega) meirihlutinn af þeim taki þátt. Liðið hefur auk þess sýnt það að maður hefur komið í manns stað þegar á reynir hvað mest, eins og þegar Baines meiddist illa og Oviedo steig upp og stóð sig algjörlega frábærlega í vinstri bakverðinum — skoraði meðal annars sigurmarkið gegn United á útivelli á dögunum. Alcaraz og Stones hafa jafnframt komið okkur skemmtilega á óvart í miðvarðarstöðunni.

Martinez veit hvað þarf til að vinna Liverpool á þeirra heimavelli en hann tók Wigan liðið þangað fjórum sinnum; tapaði naumlega 2-1 á sínu fyrsta tímabili, gerði 1-1 jafntefli á næsta tímabili og sigruðu svo Liverpool í næsta leik þar á eftir. Wigan voru þá í fallsæti og notuðu þetta sem stökkpall til að ná frábærum úrslitum í næstu leikjum og forða sér frá falli (ef ég man rétt).

Martinez kemur til með að leggja upp með að mæta til leiks með ákveðinn hroka (í jákvæðum skilningi þess orðs) og jákvæðu spili og víkja ekki frá þeirri leikaðferð sem hefur gefist mjög vel á tímabilinu. Þessi leikaðferð hefur skilað Everton þremur stigum gegn Chelsea á heimavelli, þremur stigum gegn Man United á útivelli og einu stigi gegn bæði Tottenham og Arsenal en þeir síðarnefndu voru sundurspilaðir í fyrri hálfleik á þeirra eigin heimavelli sem fá lið hafa leikið eftir í öllum keppnum (þeir náðu ekki skoti á rammann fyrr en á fertugustu-og-eitthvað mínútu). Hjá okkur er David Moyes ekki lengur við stjórn, sem stílaði upp á að skora mark og pakka í vörn. Hjá Martinez er þetta spurning um að skora fleiri mörk þegar Everton er komið yfir. Aðalatriðið hjá Martinez er ekki að menn séu fastir í ákveðnum rullum heldur eru leikmenn hvattir til að tjá sig á vellinum og margir hafa stigið upp og svarað því kalli enda varla annað hægt annað þegar maður hlustar á jákvæðnina sem þessi frábæri stjóri smitar út frá sér.

Hjá Liverpool er, eins og hjá Everton, einnig mikið um meiðsli og sérstaklega gegnum alla varnarlínuna og varnarsinnaða miðjuhlutverk þeirra. Þeir hafa statt og stöðugt átt í vandræðum með vinstri bakvörðinn og menn þar á bæ ekki á eitt sáttir hver sé bestur í þeirri stöðu né hver sé besti varamaður í þeirri stöðu. Hægri bakvörður þeirra, Glen Johnson, meiddist á dögunum og einu miðverðirnir sem hafa verið heilir undanfarið eru Toure og Skrtel, sem menn hafa síður en svo verið á einu máli um hvort passi vel saman. Þeirra varnarsinnaði miðjumaður (Lucas) meiddist illa á dögunum og verður, að sögn, frá það sem eftir lifir tímabils og þeir hafa (að eigin sögn) virkað mjög ósannfærandi á miðjunni þegar hann vantar. Ég náði fyrstu 20 mínútunum af bikarleik þeirra gegn Bournemouth á dögunum og Liverpool voru vægast sagt arfaslakir í byrjun gegn liði í Championship deildinni, þrátt fyrir að hafa spilað á nánast sínu sterkasta liði. Það ætti jafnframt að vinna með okkar mönnum að þeir þorðu ekki að hvíla lykilmenn sína, því Everton náðu að hvíla þó nokkra og vinna samt auðveldlega 4-0.

Það er þó ekki svo að skilja að leikurinn á morgun verði auðveldur leikur — síður en svo, því Liverpool menn hafa verið mjög erfiðir heim að sækja. Hér eigast við ein beittasta framlína ensku deildarinnar gegn einni hörðustu vörn deildarinnar en Everton hafa aðeins tapað tveimur leikjum á tímabilinu (útileikurinn gegn City þar meðtalinn en það fara engin lið með þrjú stig þaðan þessa dagana). Aðeins eitt lið (Arsenal) hefur fengið á sig færri mörk en Everton á tímabilinu. Ekkert lið hefur tapað jafn fáum. En á móti kemur að Liverpool hefur ekki á heimavelli mætt einu einasta liði í efstu 6 sætunum hingað til þannig að þetta verður almennileg prófraun fyrir þá í fyrsta skipti (fjórum sinnum hafa þeir mætt liði í efstu 6 sætunum á útivelli og aðeins einu sinni unnið). Okkar Akkílesarhæll eru liðin í fallbaráttunni. Þeirra eru töpuð stig gegn liðunum í efstu sætunum.

Það er lykilatriði í leiknum að stoppa flæðið til Suarez og brjóta ekki af sér nálægt eigin vítateig því Liverpool eru, líkt og okkar menn, sterkir í föstum leikatriðum. Þeir sýndu það til dæmis á Goodison Park þar sem þeir voru slakir í fyrri hálfleik en náðu samt að setja tvö mörk úr föstum leikatriðum, sem var ekkert annað en rán um hábjartan dag miðað við gang leiksins! Síðasti Anfield leikurinn fór 0-0 en löglegt mark frá Distin var þar dæmt af okkar mönnum.

Ég vona bara að leikurinn verði jafn skemmtilegur og síðast og að dómarinn láti ekki glepjast af einhverjum leikaraskap sem komi til með að eyðileggja leikinn (hvoru megin sem sá dómur lendir).

Í lokin má svo geta þess að Martinez tjáði sig í viðtali um það hversu mikið boost það væri að fá að njóta krafta Baines í besta kafla ferils þess síðarnefnda en Baines er einn besti vinstri bakvörður Evrópu, að mati Martinez og þó víðar væri leitað. Hann var sérstaklega kátur með það að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af stöðu vinstri bakvarðar í liðinu og sagði að sú staða (ásamt markverði) væri einhver sú mest sérhæfða á vellinum. Í öðrum stöðum væri ekki jafn erfitt að láta menn spila úr stöðu en Everton væri með bakvörð sem stæði sig frábærlega í nánast öllum leikjum og væri einn sá besti í sinni stöðu í Evrópu allavega síðustu 3-4 tímabilin.

Liverpool á morgun kl. 20:00. Ekki missa af honum.

22 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    það væri snilld ef Mirrorinn væri með þetta rétt, þ.e. Barkley á ný 🙂
    http://www.mirror.co.uk/sport/football/news/ross-barkley-return-lifts-everton-3067816?#.UubfzdLFJko

  2. Orri skrifar:

    Sæll Diddi.Við verðum bara vona að þetta sé rétt.

  3. Dyncla skrifar:

    Jæja, ég spái 2 – 1 fyrir Everton. Traore og Mirallas með mörkin. Sjáumst kátir á Ölveri á morgun.

  4. Holmar skrifar:

    Þetta verður vonandi jafn skemmtilegur leikur og sá síðasti. Spái þessu 2-2 og að þrjú rauð spjöld fari á loft.

    • Gestur skrifar:

      það er orðið langt síðan við sáum svona hörkuleik sem þú ert að spá. Vonandi að við græðum á því að vera fleiri.

    • Finnur skrifar:

      Það var þessi leikur:
      http://www.youtube.com/watch?v=qUGzgo4PWkQ

      Kjáninn í marki Liverpool lét reka sig út af eftir að þeir voru búnir með þrjár inná-skiptingar þannig að útileikmaður fór í markið hjá þeim. Svo lét Gerrard reka sig út af fyrir miður geðfellda tæklingu á Kevin Campbell.

      • Holmar skrifar:

        Þetta var magnaður leikur. Svo voru tvö rauð 2010 þegar Kyrgiakos meiddi Fellaini og Pienaar fékk svo rautt síðar í leiknum. Úrslitin úr þeim leik ætla ég ekkert að rifja upp.

  5. Gestur skrifar:

    Ég held að þetta verði mjög erfiður leikur fyrir Everton, bæði vegna þess að Everton hefur ekki unnið á Andfield síðan 1999 af því að Moyes var svo mikil skræfa og síðan hefur spilamennskan dottið aðeins niður og gengur hálf ílla á köflum. En Martinez er ráðagóður og vonandi nýtir hann sér seinaganginn í Toure og lætur Lukaku hlaupa hratt á hann. Ég spái 2-2 og Lukaku og Barry

  6. Finnur skrifar:

    Ég er sammála Gesti. Verður mjög erfiður leikur, 1-1 niðurstaðan. Skoppa ekki með þeim og Skrýtla setur því sjálfsmark á liðsfélaga sína en Sturridge jafnar með (grísa?)marki á lokamínútunum.

  7. Eiríkur skrifar:

    Er ekki mæting á Ölver í kvöld?

  8. Finnur skrifar:

    Jú, það verður örugglega flott mæting á Ölverið í kvöld.

  9. þorri skrifar:

    Því miður kemst ég ekki, er að vinna. En ætla samt að reyna að fylgjast með okkar mönnum. Þetta verður erfiður leikur því að það eru svo margir meiddir. Ég er samt mjög bjartsýnn maður, ég ætla að segja að við vinnum 1-2. Áfram Everton og tökum 4 sætið.

  10. Finnur skrifar:

    Þetta er víst 222. derby leikurinn þannig að það liggur beinast við að breyta spánni í 2-2 (var áður 1-1). 🙂 Mörkin sem upp á vantar: Lukaku kemur til með að dusta Toure af öxlinni á sér áður en hann hamrar hann í netið og Suarez með eitt controversial hinum megin.

    • Gestur skrifar:

      nú líst mér á þig, Lukaku þarf að komast í tveggja stafa tölu til að geta haldið áfram. Ætlaði hann ekki að skora 20 mörk fyrir Everton í vetur?

    • Finnur skrifar:

      Jú, minnir að einhver hafi sagt að það væri takmarkið hjá honum. En tökum einn leik í einu í þeim efnum. Hann er rétt tæplega hálfnaður að því takmarki en er kominn með fjögur mörk í fjórum síðustu leikjum gegn Liverpool (las ég einhvers staðar) þannig að nú er lag.

  11. Halli skrifar:

    Þetta verður eitthvað rosalegt ekki bara það að pungarétturinn sé í boði þá er 4 sætið líka í boði og mikið djööö langar mig í bæði. Ég vonast nú til að menn séu í einhverjum sálfræðihernaði með öll þessi meiðsli að það gætu verið 5 menn úr byrjunarliði frá er ekki gott mál ég vonast til að sjá í það minnsta jags og Distin inni. Ég spái 1-3 Suarez-Lukaku 2 og Baines. Koma svo Bláir

  12. Finnur skrifar:

    > Þetta verður eitthvað rosalegt ekki bara það að pungarétturinn sé í boði

    Úff… Ég hélt fyrst að þú værir að fara að innleiða nýjan matseðil! 🙂

  13. Hallur skrifar:

    ég er frekar svartsýnn fyrir leikinn en langar gríðarlega að vera bjartsýnn
    djöfull væri gott að vinna þennan leik
    góða skemtun á ölver

  14. Orri skrifar:

    Það hlítur að koma að því að vinnnum Liverpool.Ég held að við vinnum 1-3,mér er nákvæmlega sama hverjir skora bara að vinna leikin.

  15. Finnur skrifar:

    Barkley, Stones, McCarthy og Garbutt kíktu á aðstæður á Anfield nú rétt í þessu :
    http://pic.twitter.com/lEz8vzX0S2

  16. Finnur skrifar:

    Frábærar fréttir :
    http://everton.is/?p=6552
    Aðeins Distin og Coleman frá.

  17. Finnur skrifar:

    Ekki mæta seint, við erum í stóra salnum á Ölveri.