Stevenage – Everton 0-4

Mynd: Everton FC.

Everton stillti upp hálfgerðu varaliði þegar þeir mættu galvösku liði Stevenage á heimavelli þeirra síðarnefndu í 32ja liða úrslitum FA bikarsins. Greinilegt að Martinez áleit sem svo að varaliðið gæti afgreitt Stevenage auðveldlega, sem þeir og gerðu, og við ættum því að eiga marga hvílda fyrir leikinn við litla bróður á þriðjudaginn.

Fimm breytingar frá síðasta leik: Howard, Distin og Lukaku hvíldir, Hibbert inn fyrir Coleman, Pienaar ekki með, McGeady fékk sitt fyrsta start í byrjunarliðinu, Osman á bekknum og Jagielka lék bara fyrri hálfleik. Uppstillingin: Robles, Baines, Jagielka, Stones, Hibbert, McCarthy, Barry, Oviedo, McGeady, Mirallas, Naismith.

Stevenage byrjuðu af miklum krafti og drengirnir okkar voru eiginlega stálheppnir að vera ekki búnir að fá á sig mark eða tvö á innan við fimm mínútum. En svo hrökk Everton liðið í gang og sneri taflinu við og settu nokkur flott mörk á Stevenage.

Í fyrsta markinu gerði Naismith afskaplega vel í að draga miðvörðinn úr stöðu og senda á Mirallas sem náði að gera áhlaup á vörn Stevenage. Mirallas tók skotið af löngu, sem var varið til hliðar og McGeady mættur til að hirða upp frákastið og senda fyrir markið — beint á Naismith. Sá tók við boltanum inni í vítateig fyrir framan markið, rétt náði að halda jafnvægi og stoppa boltann og skaut honum svo upp í þaknetið. 0-1 fyrir Everton.

En ógæfan reið svo yfir á 17. mínútu þegar Oviedo reyndi að komast fyrir skot á mark og fékk þungt högg á fótinn og er líklega fótbrotinn. Borinn út af og Ozzie skipt inn. Maður hefur mjög mikla samúð með Oviedo en hann er búinn að bíða lengi á jaðrinum eftir tækifæri sem loks kom þegar Baines meiddist í leiknum gegn Liverpool. Hann greip það tækifæri aldeilis, skoraði sigurmarkið á Old Trafford og hefur átt frábæra leiki bæði í vinstri bakverði sem og á báðum köntum. Maður var farinn að tala um að hann stæði sig svo vel að það mætti alveg selja Baines ef risatilboð bærist. En, nú er Oviedo meiddur — var fluttur í skyndi á sjúkrahús og það kæmi manni á óvart ef hann tæki meira þátt í tímabilinu og missir líklega af HM. En við skulum vona að það komi góðar fréttir á næstu dögum og þetta sé ekki eins alvarlegt og leit út fyrir.

Oviedo var dæmdur brotlegur og svei mér þá ef Stevenage voru bara ekki næstum búnir að jafna úr aukaspyrnunni. En Everton náðu strax skyndisókn í bakið á þeim og Osman var kominn í dauðafæri fyrir framan markið en skot hans (önnur snerting Ozzie í leiknum) fór yfir.

Stevenage áttu frábæra aukaspyrnu á 25. mínútu sem Robles varði meistaralega en þetta var svona týpísk Baines aukaspyrna, í sveig rétt yfir vegginn og virtist ætla að detta inn rétt undir slána (ef Robles hefði ekki varið í horn). Bæði Baines og Mirallas hefðu getað verið stoltir af aukaspyrnunni, hefðu þeir tekið hana. Ekki alveg það sem maður bjóst við frá Stevenage. 🙂

En á 31. mínútu gerðu Everton eiginlega endanlega út um vonir Stevenage. Varamaðurinn Osman, sendi þá stungusendingu fram á Naismith, sem varnarmaður Stevenage virtist ætla að komast inn í en Naismith var á öðru máli, hirti af honum boltann og afgreiddi framhjá markverði. 0-2 fyrir Everton.

6 mínútum bætt við fyrri hálfleik og Everton virkuðu beittari en náðu ekki að bæta við. Naismith frískur allan hálfleik, og hafði átt mjög flott hlaup. Jagielka út af í hálfleik og Heitinga inn. Líklega svanasöngur hins síðarnefnda því hann hefur verið orðaður við lið í Tyrklandi og er pottþétt á leiðinni út.

Seinni hálfleikur var ekki nema 8 mínútna gamall þegar Heitinga hafði sett þriðja markið á Stevenage. Mirallas hafði gert vel í að ná skoti á mark sem var varið í horn en upp úr horninu barst boltinn til vinstri inn í teig, Mirallas með hjólhestaspyrnu og Heitinga mættur fremstur til að skalla inn, með viðkomu í varnarmanni Stevenage sem gerði það ómögulegt að verja boltann.

Á 62. mínútu skoraði Naismith þriðja markið sitt, en var ranglega (skv. endursýningu) dæmdur rangstæður. Hann fékk náttúrulega gult fyrir mótmæli.

Á 70. mínútu fengu Stevenage sitt besta færi í seinni hálfleik þegar Osman tapaði skallaeinvígi við einhvern risann en skotið rétt framhjá stönginni. Sleikti hana eiginlega.

Mirallas fór út af á 80. mínútu fyrir Magaye Gueye en Mirallas hafði þá tvisvar lent í samstuði við leikmann Stevenage og maður var skíthræddur um að hann færi sömu leið og Oviedo þar sem Martinez gat ekki skipt honum út til að koma í veg fyrir það (allt of snemmt að klára þriðju skiptinguna). Sem betur fer kom það ekki til og Mirallas hélt sér meiðslafríum fram að 80. mínútu og ætti því að vera klár á þriðjudaginn.

Naismith fékk þriðju stunguna inn fyrir á 83. mínútu og komst upp að marki næstum einn á móti markverði en var truflaður af varnarmanni og missti jafnvægið. Einhverjir hefðu viljað víti en mér sýndist ekki fótur fyrir því.

Varamenn okkar héldu áfram að brillera því Osman sendi stungusendingu á Magaye Gueye á 84. mínútu. Sá lék á varnarmann Stevenage en var næstum búinn að missa jafnvægið en náði að halda sér uppi og afgreiða boltann í netið. 0-4 fyrir Everton.

Vonir Stevenage um að komast áfram algjörlega úr sögunni og Everton byrjuðu að slaka á. Stevenage gerðu það hins vegar ekki og komust í dauðafæri rétt undir lok leiks en Heitinga og Hibbert náðu að bjarga á línu í drullusvaðinu sem vítateigur liðanna var orðinn. Robles varði svo meistaralega skot sem kom úr frákastinu.

0-4 lokastaðan og sannfærandi og verðskuldaður sigur í höfn. Sky Sports gefa ekki út einkunnir fyrir leikinn (þar sem um bikarleik er að ræða) en margir leikmenn á jaðrinum sýndu frábæra frammistöðu. Robles var frábær í markinu, átti nokkrar flottar markvörslur og sýndi engin merki þess að hafa ekki fengið að spila mikið undanfarið. Það reyndi ekki mikið á bakverðina Baines og Hibbert sem höfðu sig ekki mikið frammi — gerðu það sem þurfti. Stones og Jagielka fínir í miðverðinum — Jagielka traustur að vanda og Heitinga átti flotta innkomu fyrir hann í seinni hálfleik sem hann kórónaði með marki. Oviedo var ekki nógu mikið með til að fá einkunn. McGeady var líflegur á kantinum og við fengum nasaþefinn af því hvað hann getur verið brögðóttur og fljótur. Mér sýnist hraðinn á honum slaga upp í Mirallas! Mirallas var frábær í leiknum, allt of hraður fyrir leikmenn Stevenage og fór oft illa með þá. Ég hefði valið hann mann leiksins ef ekki hefði verið fyrir frábæra frammistöðu Naismith í leiknum en fyrir utan mörkin tvö (þrjú ef löglega markið sem dæmt var af er tekið með) sem hann afgreiddi mjög vel átti hann mjög flott hlaup í framlínunni og skapaði oft usla í vörn Stevenage. Ef hann sýnir svona frammistöðu í framtíðinni er spurning hvort við þurfum nokkuð Traore til að veita Lukaku aðhald?

Einkunnir Everton.is: Robles 7, Baines 6, Jagielka 6, Stones 7, Hibbert 6, Oviedo ?, Barry 7, McCarthy 7, McGeady 7, Mirallas 9, Naismith 9. Varamenn: Osman 8, Heitinga 7, Gueye 7.

Hvað fannst ykkur um frammistöðuna í leiknum?

23 Athugasemdir

  1. Orri skrifar:

    Er þetta ekki komið hjá okkur,ég er alveg viss um það.

  2. ólafur már skrifar:

    flottur leikur hjá okkar mönnum vorum svolítið værukærir á köflum en við vissum hvað við þyrftum að gera og það sást alveg Naismith frábær í dag og allt liðið skilaði sínu og svo er bara stóri leikurinn á þriðjud. og ég er bjartsýnn og segji að við vinnum þá og takk fyrir leikinn það var að gaman að sjá ykkur alla og horfa á leikinn með ykkur. Once a Blue Always a Blue

  3. Finnur skrifar:

    Einn lesenda BBC sem kallar sig Tom sendi inn eftirfarandi SMS á þá:
    „Man City vs Everton 5th round. Guaranteed 4-4 draw.“
    🙂

  4. Sverrir skrifar:

    Sorglegt að Oviedo skuli vera tvífótbrotinn. Hann ætti samt að ná að jafna sig en því miður aðeins fyrir næsta keppnistímabil í best falli.

  5. Ari G skrifar:

    Finnst þið ofmeta Everton í þessum leik. Loksins sýndi Naismith flottann leik enda hentar hann greinilega betur sem fremsti sóknarmaður ekki á hægri kanti. Leikur Everton góður ekki meir en það enda var liðið sem þeir spiluðu við ekki sterkt. Hræðilegt með Oviedo er eiginlega í sjokki með hann. Hef mikla trú á MaGay.

  6. Finnur skrifar:

    4-0 með helminginn af aðalliðinu hvíldan? What more could we ask for? 🙂

  7. Ari G skrifar:

    Ég var ekki að gangrýna Everton í leiknum . Fannst þeir ekki spila af fullum krafti sem er mjög eðlilegt á móti svona lélegu liði. Allir að tala um Mata ef ég á að vera heiðarlegur mundi ég aldrei vilja skipta á honum og Barkley enda er Barkley miklu fljótari og sterkari leikmaður en Mata þótt Mata sé betri sendingamaður en Barkley en það á eftir að breytast Barkely í hag.

  8. Halli skrifar:

    Flottur 4-0 sigur í dag mörkin komu frá mönnum sem spila lítið og er það vel þar sem við eigum leik við litla bróður á þriðjudagskvöld á útivelli. Ömurlegt að sjá okkar mann Oviedo lenda í svona ljótu fótbroti en þetta er fótboltinn

  9. Finnur skrifar:

    Ég fór eitthvað rangt með nafn Magaye Gueye hér að ofan (það eru komnir ansi margir Mc’eitthvað) en það leiðréttist hér með. 🙂

  10. Ari S skrifar:

    Og svo sendi Naismith á Naismith 😉

    Anars, frábær lesning takk takk.

  11. Finnur skrifar:

    „Naismith sendi á Mirallas sem tók skotið“, átti þetta að vera. Takk fyrir ábendinguna, Ari. 🙂

  12. Diddi skrifar:

    við Ari skildum þetta örugglega Finnur og vorum hálfpartinn að vona að við ættum bara einn Naismith ! En nú erum við orðaðir við spánverja sem er sagður „attacking midfielder“ Mér líst ágætlega á það 🙂
    http://myevertonnews.com/everton-launch-loan-to-buy-move-for-spanish-prodigy/?

  13. Gunnþór skrifar:

    Sammála Ara G þetta gefur ekki rétta mynd af Everton í þessum leik gegn arfaslöku liði, en frábær sigur engu að síður .Naismith á klárlega heima í næst efstu deild á Englandi eða í mesta lagi í neðstu 10 í efstu deild.Diddi við þurfum þennan spánverja klárlega erum að missa menn í langtímameiðsli.

  14. Finnur skrifar:

    Fáum Swansea heima í næstu umferð.

  15. Gunnþór skrifar:

    Góður dráttur það,fengum heimaleik.

  16. Finnur skrifar:

    Og getum ekki verið annað en ánægð með restina:

    Manchester City vs Chelsea
    Arsenal vs Liverpool
    Sheffield United eða Fulham vs Nottingham Forest eða Preston North End
    Brighton & Hove Albion vs Hull City
    Cardiff City vs Wigan Athletic
    Sheffield Wednesday vs Charlton Athletic
    Sunderland vs Southampton
    Everton vs Swansea City

    Everton taplausir gegn Swansea undanfarið og ekki verra að fá heimaleik!

  17. Diddi skrifar:

    varla hægt að hugsa sér flottari útdrátt (í heildina)

  18. Finnur skrifar:

    > Naismith á klárlega heima í næst efstu deild á Englandi eða í mesta lagi
    > í neðstu 10 í efstu deild

    Ég skil ekki svona komment — sérstaklega ekki eftir frábæra frammistöðu Naismith í þessum leik. Naismith var ekki bara jafningi annarra leikmanna á vellinum — og by the way: helmingurinn af þeim spilar í Úrvalsdeildinni í hverri viku — heldur var hann besti leikmaðurinn á vellinum og átti þrennuna fyllilega skilið (tel með markið sem var ranglega dæmt af honum). Hann var aðeins betri en Mirallas — gildir þá ekki það sama um Mirallas?

    Moyes leit á Naismith sem kantmann sem litar svolítið okkar skoðun á Naismith, en Naismith spilar sem sóknarmaður með landsliði sínu. Martinez er til í að prófa hann frammi og hann launaði stjóranum traustið með þremur löglegum mörkum. Hann skoraði sigurmarkið gegn Chelsea á tímabilinu og skoraði gegn litla bróður á síðasta tímabili. Gefum honum allavega smá tækifæri til að sanna sig undir Martinez.

  19. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Já fínt að fá heimaleik gegn Swansea en við skulum ekki fagna of snemma, er ekki búinn að gleyma hvernig fór gegn Wigan í fyrra.

  20. Orri skrifar:

    Ég er sammála Ingvari, við skulu ekki fagna fyrirfram. Það var ekki auðveldur leikur á móti Swansea í deildinni um daginn, við þurftum að hafa verulega fyrir sigrinum í þeim leik.

  21. þorri skrifar:

    Flottur sigur hjá okkar mönnum. Það sýnir að breiddin er til staðar hjá okkur. Svo er derbí leikurinn næst. Eigum við ekki segja að við tökum þann leik með stæl?

  22. Diddi skrifar:

    ég er algjörlega sammála Gunnþóri um Naismith, hann virkaði líflegur þarna á móti hægum og klaufskum miðvörðum en því miður, hann á ekki heima í úrvalsdeild að mínu mati 🙂 Ef þessi frammistaða verður til að hann verði frammi á móti liverp… þá held ég að hann komist lítt áleiðis, hann er að vísu stundum réttur maður á réttum stað það má hann eiga 🙂 en hann er oft lengi að koma sér þangað……..

  23. þorri skrifar:

    Ég er sammála Didda og Gunnþóri.En bæti við Naismith mér finst hann ná upp barátunni í liðinu þegar hann kemur af Varamannabeknum hann er mjög góður þá.Hann er harður nagli Það er mín skoðun.Ég held að það væri í góðu lagi að láta hann byrja inn á.Leiðinlegt með hann Oviedo að hann skuli meiðast og að tvíbrjóta sig Leiðinlegt Fyrir hann.Þetta þýðir að hann verði frá í einhverja mánuði.JaJa ég seigi bara skemmtið ykkur vel að horfa á Stórabróðir að spyla við Liltabróðit.Eða Liverpool við Everton. Áfram Everton þið vinnið þennan leik