Árið 2013 gert upp

Mynd: EFC.

Everton.is tók viðtal við nokkra eldheita stuðningsmenn Everton og fór yfir árið með þeim. Það voru þeir Haraldur Örn (formaður Everton klúbbsins), Finnur (ritari) og norðanmaðurinn Elvar Örn sem rætt var við og afraksturinn er hér að neðan. Einnig viljum við nota þetta tækifæri og óska öllu stuðningsfólki Everton, til sjávar og sveita, árs og friðar og Meistaradeildarsæti á komandi ári! 🙂

Hver er leikmaður ársins árið 2013?

Halli: Jagielka. Ástæðan einföld: stöðugleiki.

Elvar: Að mínu mati er Coleman leikmaður ársins.Ekki nóg með að kappinn sé að sýna frábært einstaklingsframtak við undirbúning marka sinna sem myndi sæma hvaða framherja sem er heldur er hann orðinn fantagóður varnarmaður.  Að þessi leikmaður hafi verið keyptur fyrir 60 þúsund pund er náttúrulega bara grín og hugsanlega bestu kaup Everton frá upphafi og þá er ég ekki einu sinni að grínast.

Finnur: Erfitt val því fyrri og seinni helmingur ársins eru svolítið eins og tveir ólíkir kaflar — ekki bara um tvö mismunandi tímabil heldur tveir mismunandi stjórar og svörun leikmanna gagnvart þeim ólík. Mér fannst Mirallas frábær á fyrri hluta árs (seinni hluta síðasta tímabils) — markið sem hann skoraði gegn Stoke var guðdómlegt. En hann hefur ekki náð sömu hæðum á nýju tímabili. Það eru margir sem koma til greina á seinni hluta ársins, Barkley, Coleman, Lukaku, Jagielka, McCarthy, Howard (oft bjargað okkur stórkostlega) svo einhverjir séu nefndir og það er náttúrulega auðvelt að velja þá sem skora mörkin. En ég verð þó að velja Barry, sem hefur verið algjör klettur á miðjunni og (fyrir utan Sunderland slysið, manni færri) hefur Everton ekki tapað einum deildarleik með Barry á miðjunni. Hann gerir öðrum kleift að sækja á andstæðingana óttalaust og hefur aldeilis séð til þess að við höfum ekki saknað Fellaini…. tja, ekki neitt, ef ég á að segja alveg eins og er. Er ekki í vafa um að Barry skrifar undir 2-3 ára samning í sumar hjá okkur.

Hvaða leikmaður kom ykkur mest á óvart?

Halli: Coleman. Við höfum séð þvílíkar framfarir hjá honum.

Elvar: Sá leikmaður sem kemur mér mest á óvart myndi ég kannski helst telja vera Gareth Barry. En svo man maður eftir McCarthy þar sem hann var kannski meira óskrifað blað heldur en Barry og hefur því komið mér manna mest á óvart, verð því að segja James McCarthy. Howard er reyndar að brillera í ár en ok ok ég vel samt McCarthy. 🙂

Finnur: McCarthy kom mér mest á óvart. Maður þekkti hann ekki vel og hafði því litlar væntingar til hans en Martinez sýndi hversu mikils hann metur hann þegar hann keypti hann frá Wigan á upphæð sem gerði mann hvumsa. En sá drengur hefur aldeilis staðið sig síðan.

Hvaða leikmann urðuð þið fyrir mestum vonbrigðum með?

Halli: Jelavic. Aumingja drengurinn missti alveg touchið fyrir leiknum.

Elvar: Það eru nú fáir sem eru að valda mér vonbrigðum í þessu Everton liði en vonbrigði byggjast oft á fyrirfram ákveðnum væntingum og ég vænti mikils af Mirallas. En hann hefur ekki verið alveg nægilega öflugur og sama má segja með Osman en hann hefur jú spilað minna en undanfarin ár. Jelavic kannski mestu vonbrigðin en hann hefur ekki fengið neinn séns og því erfitt að setja hann á þennan lista og ég hef enn trú á að hann geti hjálpað liðinu, en líklegast er hann á leið út nú í janúar.  Heitinga hefur heldur ekkert spilað en ég svo sem bjóst ekki við því heldur. Vonbrigðin eru Osman held ég bara.

Finnur: Ég á erfitt með að gagnrýna menn sem lenda í löngum meiðslum (Kone, Alcaraz, Gibson) þar sem meiðsli eru svo random og yfirleitt ekki leikmönnunum sjálfum að kenna. Val mitt er því augljóst: Jelavic. Hann gat varla snert boltann án þess að skora fyrstu 6 mánuðina sem hann var hjá okkur en er líklega búinn með „síðasta sénsinn“ (jafnvel þrisvar). Ég hef verið ötull stuðningsmaður hans í markaþurrðinni en þegar ég sá hann gegn Sunderland (það eina sem kom frá honum voru þrjár misheppnaðar tilraunir til að skora mark úr hjólhestaspyrnum) þá eiginlega komst ég á þá skoðun að þetta myndi líklega aldrei smella saman hjá honum hjá Everton í framtíðinni.

Hvað finnst ykkur um leikmannagluggann síðasta (kaupin í sumar)?

Finnur: Vá, það var algjör rússíbani! Ég fór með ákveðnar væntingar inn í gluggann og þær væntingar voru snarlega kramdar gjörsamlega þegar í ljós kom að við myndum ekki bara kannski missa Baines og pottþétt missa Fellaini (sem ég leit á sem máttarstólpa í liðinu) heldur virtist ekkert vera að gerast í kaupum. Og þá meina ég ekkert! Ég lá á Refresh takkanum í þunglyndiskasti þangað til hver gleðifréttin á fætur annarri barst. Þrír gríðarlega öflugir lánsmenn (Lukaku, Deulofeu og Barry) og sá síðastnefndi á frjálsri sölu þegar lánssamningi lýkur. Ég skal viðurkenna að ég var reyndar hissa á hversu mikið við borguðum fyrir McCarthy en hann hefur reynst frábærlega og mér sýnist hann vera „hverrar krónu“ virði. Og við seldum Fellaini á miklu hærra verði en klásúlan í samningnum sagði til um! Algjörlega brilliant!

Elvar: Leikmannagluggi seinasta sumars var einn sá besti sem ég man eftir.  Lukaku búinn að raða inn mörkum (lánsmaður), Barry búinn að vera límklessa liðsins á miðjunni (lánsmaður en gæti endað á permanent samning), McCarthy komið verulega á óvart og er sterkur, útsjónarsamur og gríðarlega vinnusamur (keyptur á um 15 milljónir punda), Robles er mjög öflugur markmaður en er að gera dýr mistök inná milli en átti alltaf að vera varaskeifa (keyptur á nokkrar milljónir), Kone verið meiddur nánast allan tímann svo hann er svolítið spurningamerki.  Alcaraz finnst mér hafa verið frábær það sem maður hefur séð til hans og kemur sér vel nú þegar Jagielka meiddist (free transfer). Og ekki má nú gleyma Deulofeu frá Barcelona á láni, hann kemur með nýtt element í okkar lið og synd að hann skuli hafa meiðst núna. Eins og ég sagði: einn allra besti leikmannagluggi Everton og má spyrja sig hvar Everton væri í dag ef Lukaku, Barry, McCarthy og Deulofeu hefðu ekki komið til liðsins. Einna helsti styrkur eftir seinasta leikmannaglugga var það hve mikil breidd kom í liðið og hópurinn greininlega stærri en oft áður.

Halli: Mér fannst Martinez gera mjög flotta hluti. Barry og McCarthy hafa verið með allra bestu miðjumönnum deildarinnar. Lukaku markaskorari af guðs náð. Robles virkar flottur ungur markvörður. Deulofeu frábær leikmaður á boltanum en á eftir að þroskast sem leikmaður. Alcaraz og Kone eiga náttúrulega eftir að sanna sig eftir öll þeirra meiðsli. Hvað varðar sölur: einhverjir ungliðar sem ég man ekkert sérstaklega eftir og svo Fellaini flottur leikmaður en mér finnst liðið ekki sakna hans.

Hvaða væntingar hafið þið til næsta leikmannaglugga (í janúar)?

Elvar: Í næsta leikmannaglugga má telja víst að Heitinga og Jelavic fari og þarf Everton virkilega að fara að huga að framtíðar framherja fyrir liðið.  Einnig þarf liðið backup fyrir Gibson og hugsanlega kantmann hægra megin sem backup fyrir Mirallas en ég tel að flestar stöður aðrar séu ágætlega mannaðar. Dauðlangar reyndar í Landon Donovan að láni.

Halli: Mitt mat er að það eru 2 leikmenn sem bæði þurfa að komast burt frá liðinu og liðið að losna við þá: Heitinga og Jelavic. Og inn þarf liðið klárlega sóknarmann til að vera með Lukaku og svo finnst mér einnig lengi hafa vantað leikmann með þennan leikstjórnar-factor.

Finnur: Heitinga og Jelavic eru á leiðinni frá Everton, sem kemur líklega ekki á óvart. Martinez sér enga framtíð fyrir þá hjá Everton og þeir eru á of háum launum til að réttlæta að vera á bekknum. Það þarf „cover“ fyrir þá og sérstaklega þá sóknarmann. Lukaku er á láni, Kone er meiddur, Jelavic á förum. Mig langar að sjá Vellios meira, en það er líklega forgangsverkefni að fá inn sóknarmann.

Hvaða leikur/leikir standa upp úr sem bestu leikirnir á árinu?

Halli: Útisigur á Man United telst sennilega sem besti leikur ársins. Nr 2: heimaleikurinn við Liverpool sennilega einn skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef séð. Nr 3: Tottenham á útivelli í apríl 1-2 þar sen Jelavic skoraði sigurmark í uppbótartíma.

Elvar: Sigurinn á útivelli gegn United auðvitað sætur en ekki eins góður og Derby leikurinn.

Finnur: Ég vel þetta út frá spilamennskuni frekar en úrslitunum. Leikurinn við Arsenal á útivelli á þessu tímabili stendur upp úr. Að mæta á Emirates og yfirspila Arsenal sem var þá á toppi deildarinnar og eru algjörlega óvanir því að andstæðingarnir yfirspili þá á þeirra heimavelli. Lenda svo undir í seinni en halda áfram að sækja og uppskera mark og jafntefli. Og vera ósáttur við jafnteflið! Maður var ekki viss með Everton liðið þó það hefði unnið Chelsea heima og United úti. Báðir voru 1-0 baráttusigrar og við spiluðum ekki einu sinni það vel gegn Chelsea. Þannig að maður hugsaði: kannski væri þetta bara glópalán eða blaðra sem er við það að springa. En svo virðist ekki vera.

Næst besti leikurinn er United leikurinn þar sem væntingarnar voru nánast engar en Martinez tókst í fyrstu tilraun það sem Moyes tókst ekki á 11 árum, ef ég man rétt (að vinna United úti).

Á erfitt með að velja þriðja leikinn. Liverpool leikurinn var frábær skemmtun en að Liverpool skuli hafa náð tveimur mörkum í fyrri hálfleik var náttúrulega ekkert annað en rán um hábjartan dag. Everton spilaði Newcastle sundur og saman í fyrri hálfleik á þessu tímabili en þó leikurinn hefði unnist var spilamennskan í seinni hálfleik ekki jafn góð. Ég ætla því að velja leikinn við City á síðasta tímabili þar sem Everton vann sannfærandi sigur heima á stjörnum prýddu liði þeirra. Hélt reyndar að Jelavic væri loksins kominn í gang eftir þann leik.

Hvaða leikur/leikir standa upp úr sem verstu leikir ársins?

Halli: Ég var ekki í vandræðum hér: 0-3 tap fyrir Wigan í FA Cup. 1-2 tap fyrir Fulham úti í deildarbikar. Og svo sennilegast leiðinlegasti fótboltaleikur sem ég hef séð: 0-0 við Cardiff á útivelli.

Elvar: Lélegustu leikir Everton það sem af er vetri verð ég að segja deildarbikarleikurinn gegn Fulham og líklega jafnteflið gegn Crystal Palace.

Finnur: Wigan í FA bikarnum. Roberto Martinez tók Moyes algjörlega í bakaríið og maður vissi varla hvaðan á mann stóð veðrið í þeim leik. Enginn skömm af því að tapa fyrir FA bikarmeisturunum en örlögin sáu til þess að Wigan féllu (kannski út af FA bikarnum?) og Everton hagnaðist verulega á því, eins og komið hefur í ljós. Everything happens for a reason, perhaps? Sunderland leikurinn á dögunum var náttúrulega viðbjóður. Lít á þetta sem þrjú stig töpuð þó Everton hafi verið manni færri. Sammála Halla með Cardiff sem þriðja leik.

Eitthvað (annað en einstaka leikmaður) sem stendur upp úr fyrir árið 2013?

Halli: Fyrir mér er það að klúbburinn hér heima fór með 2 stóra hópa á leiki á okkar ástkæra heimavöll Goodison Park, annars vegar Fulham í apríl, 22 í ferðinni og einnig við Tottenham í nóvember, 15 manns í þeirri ferð.

Elvar: Annað sem stendur upp úr í vetur eru auðvitað þjálfaraskiptin hjá Everton en margur aðdáandinn (ég líklega meðtalinn) hafði áhyggjur eftir brotthvarf Moysey. Martinez og allt það gengi sem hann tók með sér hefur blásið ferskum vindum um Goodison og Everton líklega að spila skemmtilegasta fótboltann í um 20 ár. Einnig tapaði Everton bara einum leik á Goodison á árinu sem gerir heimavöllinn að algjöru fortress.

Finnur: Stjóraskiptin standa náttúrulega upp úr. Maður var skíthræddur við að skipta um skipstjóra á skútunni enda búið að hamra á því í pressunni að Moyes næði alltaf meira úr mannskapnum en efni stæðu til. Mér sýnist sem búið sé að afsanna þá kenningu í eitt skipti fyrir öll og ég held að það séu ekki margir stuðningsmenn Everton sem tækju þessi stjóraskipti til baka, ef þeir gætu. Það er jafnframt algjörlega frábært að sjá hvað leikmenn hafa aðlagast nýju kerfi fljótt og vel og hvernig Martinez hefur gefið þeim aukið sjálfstraust til að takast á við efstu liðin heima (í virkinu okkar) sem heiman — sem er nokkuð sem skorti sárlega undir stjórn Moyes. Ekki átti ég von á því að Everton væri í meistaradeildarsæti í lok árs!

Eitthvað (annað en einstaka leikmenn) sem þið urðuð fyrir vonbrigðum með á árinu?

Halli: Að hafa ekki náð að halda Phil Neville í þjálfarateymi liðsins ég hef mikla trú á honum á þeim vettvangi.

Finnur: Ég sé mikið eftir stigunum sem við höfum tapað í jafnteflisleikjunum á tímabilinu gegn „minni spámönnum“. Hvernig væri staðan núna ef drápseðlið hefði verið til staðar í upphafi tímabils?

Elvar: Get ekki sagt neitt slæmt um elsku liðið mitt Everton 🙂

Everton.is þakkar viðmælendum hér að ofan fyrir skemmtilegar skoðanir og óskar ykkur öllum gleðilegs nýs árs!

Og talandi um ykkur, lesendur góðir! Ef þið hafið eitthvað til málanna að leggja þá getið þið spreytt ykkur á spurningalistanum hér að neðan (engin skylda að svara öllu):

Hver er leikmaður ársins árið 2013?
Hvaða leikmaður kom ykkur mest á óvart?
Hvaða leikmann urðuð þið fyrir mestum vonbrigðum með?
Hvað finnst ykkur um leikmannagluggann síðasta (kaupin í sumar)?
Hvaða væntingar hafið þið til næsta leikmannaglugga (í janúar)?
Hvaða leikur/leikir standa upp úr sem bestu leikirnir á árinu?
Hvaða leikur/leikir standa upp úr sem verstu leikir ársins?
Eitthvað (annað en einstaka leikmaður) sem stendur upp úr fyrir árið 2013?
Eitthvað (annað en einstaka leikmenn) sem þið urðuð fyrir vonbrigðum með á árinu?

7 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Gaman að þessu. Gleðilegt nýtt Evertonár og þakka ykkur allir Evertonmenn góðar stundir á árinu sem er að líða.

  2. Ari S skrifar:

    Flott samantekt og skemmtilegur lestur, hef engu við þetta að bæta með því að koma með mínar hugleiðingar. (kannski samt að ég komi með það seinna, hehe)

    Stundum sammála Halla sundum sammála Finni og stundum sammála Elvari. 🙂

    Eins og Halli segir, ég þakka ykkur öllum góðar stundur á árinu sem er að líða.

    kær kveðja,

    Ari

  3. Ari G skrifar:

    Ég ætla að svara þessu. Leikmaður ársins. Baines
    Mest á óvart. 2 koma til greina. Barkley algjör snillingur og svo auðvitað Coleman. Vonbrigði. Jelavic auðvelt val. Leikmannagluggann. Frábær allt í lagi að missa Fellaini á ca 28 millur. Barry frábær. Spánverjinn snillingur. Lukaku frábær. MacCarthy hefur verið alltaf að bæta sig nýr Roy Keene spái ég. Hinir hafa spilað svo lítið gef þeim tíma. Væntingar í janúar. Verðum að kaupa sóknarmann algjör forgangur. Bestu leikir ársins. 1. Everton-Liverpool stórkostlegur leikur. 2. Fyrri hálfleikur Everton-Newcastle besti hálfleikur sem ég hef séð Everton sýna í áraraðir seinni hálfleikur var ekki góður set hann samt í annað sætið. 3. ég treysti mér ekki að velja fleiri leiki erfitt að gera á milli þeirra. Verstu leikir. 1. Crystal Palace. 2. Cardiff 3. Bikarleikurinn við Wigan. Samt er mjög erfitt að gera upp á milli leikjanna man helst eftir þessum núna. Annað. Það sem stendur upp úr Finnst mér vera stjóraskiptin enda vildi ég alltaf fá Martinez enda hefur hann lyft Everton upp á hærra plan. Spila mun skemmtilegri fótbolta. Uppgangur Barkley. Þetta stendur upp úr. Vonbrigði. Engin. Hvað ætti það að vera 4 sætið núna.

  4. Finnur skrifar:

    Takk fyrir innleggið, Ari G.

  5. Gestur skrifar:

    gleðilegt ár, ég vil svara þessum lista
    1. Distin, verið alveg frábær
    2.Barkley
    3.Heitinga, leikmaður ársins í fyrra
    4.þau voru vel heppnuð og að kaupa MacCarthy var snilld
    5.vona að það gerist eitthvað skemmilegt
    6.sá ekki marga en Arsenal elikurinn var góður
    7.Sunderland
    8.að losna við Fellaini var toppur
    9.Osman hefur verið soldið óstöðugur
    takk fyrir skemmtilegt ár og vona að þetta ár verði gott og jafnt samskipta ríkt og 2013

  6. Gunnþór skrifar:

    Stones og Alcaraz hafsentar í dag ekki gott en vonum það besta.Áfram Everton sigur í dag.

  7. Finnur skrifar:

    Búið að birta liðsuppstillinginu, eins og Gunnþór tók eftir:
    http://everton.is/?p=6338