Swansea – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin fyrir Swansea leikinn var eins og búist var við: Howard, Oviedo, Distin, Jagielka, Coleman, Pienaar og Mirallas á köntunum, Barry og McCarthy á miðjunni, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi. Bekkurinn: Joel, Heitinga, Naismith, Osman, Stones, Vellios, Alcaraz.

Leikurinn virkaði á mann svipaður og Fulham leikurinn hvað varðar skemmtanagildi en Everton liðið náði aldrei sömu hæðum og í Man United/Arsenal leiknum. Einnig var nokkuð jafnræði með liðum í að halda bolta og liðin skiptust á að reyna að finna glufur en áttu í erfiðleikum með að fá boltann til að rata á markið.

Mirallas átti fyrsta skotið á 13. mínútu en ekki nægilega gott. Hann komst svo inn í sendingu varnarmanns á 20. mínútu og brunaði í sókn, náði að komast inn í vítateig með 3 sóknarmenn Everton á móti tveimur varnarmönnum Swansea. Ákvarðanatakan ekki alveg í lagi, þar sem hann gat sent á Lukaku frían í góðu færi en ákvað að skjóta — skotið varið í horn.

Everton greinilega ákveðnara liðið fyrstu 20 mínúturnar, með fjórar tilraunir á móti einni hjá Swansea, sem er tölfræði sem jafnaðist þegar leið á.

Stuttu síðar (24. mínútu) var brotið á Barkley innan teigs en ekkert dæmt. Erfitt að segja — maður hefur séð gefið víti fyrir annað eins. Everton átti svo aukaspyrnu aðeins mínútu síðar, háan bolta inn í teig sem markvörður grípur — en missir. Lukaku hefði líklega getað potað boltanum inn ef hann hefði áttað sig á því nógu fljótt því hann stóð við hlið markvarðar þegar þetta gerðist.

Á 30. mínútu náðu Swansea loks að opna upp vörn Everton með stungu en Wilfried hjá Swansea lúðraði boltanum langt upp í stúku.

0-0 í hálfleik og nokkuð jafnræði með liðunum, Everton með fjórar tilraunir, Swansea með þrjár og liðin skiptu með sér boltanum nokkuð jafnt (Everton með 2% forskot þar).

Everton óx ásmegin þegar leið á seinni hálfleik, settu Swansea undir meiri pressu og fengu nokkur ákjósanleg færi. Til dæmis þegar Pienaar átti frábæra stungusendingu á Barkley á 55. mínútu en sá síðarnefndi komst einn á móti markverði upp að marki hægra megin í vítateig en féll við og frábært færi fór forgörðum.

Aðeins tveimur mínútum síðar fór Coleman illa fyrst með einn varnarmann Swansea og svo annan en í stað þess að gefa reyndi hann að sóla þann þriðja sem tókst ekki og Swansea menn náðu að bjarga í horn. Ekkert kom úr horninu (minnir að Jagielka hafi tekið einhvern glímutökum inni í teig).

Barry fékk óvænt boltann á 62. mínútu inni í teig í einni sókninni en tók skotið kannski í aðeins of miklum flýti og boltinn yfir markið en stuttu síðar (64. mínútu) brunaði Barkley upp völlinn, lék á varnarmann Swansea og skaut að marki en markvörður varði glæsilega í slána og yfir. Ekkert kom úr horninu, sem leiddi til þess að formaður Everton klúbbsins stóð upp og sagði: „Ég er brjálaður!! Ég var búinn að spá því að staðan yrði 1-0 eftir 65 mínútur!“

Og hvað gerist? Jú, Coleman tekur skotið utan teigs af löngu færi í næstu sókn og skorar þetta líka glæsimarkið á nærstöngina. Staðan loksins orðin 0-1 fyrir Everton!

Nú hugsaði maður sér gott til glóðarinnar því Swansea hefur aldrei skorað mark gegn Everton síðan Úrvalsdeildin var stofnuð. En slysin gerast, því ekki nema fjórum mínútum síðar skaut sóknarmaður Swansea boltanum að marki, boltinn á leið framhjá marki en hefur viðkomu í Oviedo og í fjærhornið hjá Howard sem var strandaður. Óbragð í munninum á manni eftir þetta jöfnunarmark en kannski við hæfi að fyrsta mark Swansea væri sjálfsmark. Staðan 1-1.

Það sljákkaði nokkuð í manni við markið og ekki margt að frétta þangað til á 77. mínútu þegar Pienaar er sparkaður niður og meiðist á læri. Í kjölfarið komu Osman og Naismith Róbertsson inn á fyrir Pienaar og Mirallas.

Og fimm mínútum síðar (83. mínútu) fór að draga til tíðinda því McCarthy náði flottu hraðaupphlaupi og var klipptur niður að aftan frá rétt fyrir utan vítateig. Gult spjald, að sjálfsögðu, sem og aukaspyrna. Barkley og Lukaku stilltu sér upp við boltann og maður átti nú von á að sjá skot frá þeim síðarnefnda en það var alls ekki uppi á teningnum. Barkley tók þessa líka heimsklassa Baines-aukaspyrnu, yfir vegginn með erfiðum snúningi í neðanverða slána og inn. Everton komið yfir 1-2 á lokamínútunum og allt brjálað í salnum!

Swansea menn reyndu eftir fremsta megni að jafna og áttu gott skot innan teigs sem fór framhjá þremur í blárri skyrtu en endaði á rammanum, beint á Howard sem sló frá. Á 90. mínútu juku þeir pressuna og áttu allavega þrjár fyrirgjafir sem skallaðar voru frá en sú síðasta endaði með langskoti á markið sem Howard varði vel. Þeir áttu svo ákjósanlegt færi þegar sóknarmaður þeirra var næstum búinn að komast framhjá Howard eftir langa sendingu inn í teig, en hann fipaðist og ekkert kom úr því. Everton vörnin hélt þó út leikinn og landaði sigrinum.

Lukaku kom meira að segja boltanum í netið á síðustu sekúndunum en dómarinn tók sér góðan tíma í að dæma brot utan teigs sem ógilti markið.

Lokastaðan því 1-2, Everton í vil, sem á nú frábært tækifæri að tryggja stöðu sína meðal efstu fjögurra liða. 6 skyldustig í höfn (Fulham og Swansea, sem hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum við Everton undanfarin ár) og Sunderland næstir heima, sem hefur hingað til verið 3 stig í áskrift líka. Eins gott að liðið nýti sér það.

Fjórða sætið allavega í höfn í kvöld; liðið stigi á undan Chelsea og stigi á eftir Arsenal, en þau tvö lið eigast við á morgun. Nú þarf bara Arsenal að vinna Chelsea og þá á Everton þetta sæti skuldlaust!

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Oviedo 7, Distin 6, Jagielka 6, Coleman 8, Pienaar 6, Barry 7, McCarthy 7, Mirallas 6, Barkley 9, Lukaku 6. Varamenn: Naismith 5, Osman 6. Er eiginlega alveg sammála þeirri einkunnagjöf. Swansea menn þóttu slakari í leiknum, tvær fimmur, fimm sexur, og tvær sjöur. Aðeins varnarmaðurinn Williams stóð upp úr, með 8.

Sunderland næst, annan í jólum. Meira svona. Frábært að sjá liðið taka tvo slaka leiki í röð og ná 6 stigum!

Hvað segið þið? Sammála einkunnagjöfinni?

33 Athugasemdir

  1. Gunni D skrifar:

    Frábær vinnusigur og alveg mögnuð mörk,en hvar var Lukaku?. Var hann kominn heim til Belgíu? Þetta er aldeylis flott inn í jólin.

  2. Gunnþór skrifar:

    Rétt hjá Gunna D frábær vinnusigur,Everton liðið langt frá sínu besta en góð þrjú stig, þarf að vinna þessa leiki líka og við erum komnir með fleiri einstklinga sem geta unnið leiki eins og í svona leik þar sem við vorum að spila á móti 11 varnarmönnum.(AUGLÝSI EFTIR LUKAKU)

  3. Diddi skrifar:

    Mirallas hefur valdið mér vonbrigðum í vetur, hann tók rangar ákvarðanir í þessum leik og er alltof eigingjarn, hélt að hann myndi blómstra í vetur, frábært að vinna leik án þess að eiga fleiri sendingar, possession og þ.h. Samt spurning hvort að það sé komið að einhverjum þreytupunkti hjá liðinu, það var frekar misheppnað í dag (ósanngjarnt að vera óánægður með liðið þegar sigur vinnst en svona verður þetta þegar gengið er þetta gott, þá verða kröfurnar meiri) , ekki slæmt að vera í þessari stöðu og horfa á næstu leiki sem eru vinnanlegir svo ekki sé meira sagt. Áfram EVERTON, gleðileg jól !!!

  4. Halli skrifar:

    3 stig í húúúúss eins og á móti Fulham ekki besti leikurinn en 3 stig og við fögnum því Barkley mjög flottur Mirallas undir getu Lukaku vinnusamur en ekkert mark Pienaar lala Barry slakur í fyrri hálfleik en góður í seinni MaCarthy einn af betri mönnum liðsins Coleman með screamer Jags alltaf solid Distin góður Oviedo gat ekkert gert í þessu marki Howard solid.

    En lokapunkturinn 3 stig af 12 um jólin og verðum í meistaradeildarsæti um áramótin.

    Kv

    Halli

  5. Orri skrifar:

    Þetta var slakasti leikurinn sem ég hef horft á í vetur hjá okkar mönnum.En við gerðum bara það sem þurfti, og 3 sig í húsi.Mér fannst Barkley og Coleman standa sig best.

  6. Þór skrifar:

    Sýnist menn vera góðu vanir, góður sigur í erfiðum leik og tvö stórkostleg mörk.

  7. Elvar Örn skrifar:

    Alls ekki sammála að þetta hafi verið einn slakasti leikur liðsins í vetur.
    Bæði mörkin alveg mögnuð og Coleman er alveg að brillera hjá okkur í vörn og sókn. Óheppnir að fá þetta jöfnunarmark á okkur en Barkley kom með snilldarmark í lokin. Ég sá nú ekki betur en að skot Lukaku í markið í uppbótartíma hefði átt að standa en annars var Lukaku alveg arfaslakur og alveg spurning hvort ekki hefði átt að leyfa Vellios að spila seinasta korterið.
    Vita menn af hverju Jelavic var ekki í hópnum í dag?
    Núna eru tveir heimaleikir framundan, sá fyrsti gegn botnliði Sunderland og hinn gegn hratt hnígnandi Southampton á meðan t.d. Liverpool spilar gegn City og Chelsea og báðir leikir á útivelli.
    Everton er bara 2 stigum frá efsta sæti og engan bilbug að finna á liðinu.

  8. Orri skrifar:

    Sæll Elvar.Ég sagði ekki að þetta væri slakasti leikurinn í vetur,heldur þetta væri slakasti leikurinn sem ég hef horft á hjá mínum mönnum.

  9. Finnur skrifar:

    Veit ekki af hverju Jela var ekki í hópnum — kannski bara til að kveikja aðeins í honum? 🙂

    Sammála með að gaman hefði verið að sjá Vellios inn á í lokin, þó ekki nema bara fyrir hann að fá nokkrar mínútur. Þurfum að fara að hita upp hina sóknarmennina okkar. 🙂

    En mikið rétt — engan bilbug að finna á liðinu.

  10. Gunnþór skrifar:

    Elvar þetta er klárlega með lélegri leikjum í vetur,hins vegar erum við að verða góðu vanir með spilamensku liðsins hátt tempo,tikki taka og hápressa upp um allann völl.Það hökkti all verulega liðið sérstaklega í fyrri hálfleik en Martinez hefur farið aðeins yfir þetta á hálfleiknum því Everton liðið koim sterkara inn í þann síðari,en frábær 3 stig í dag og það er það sem skiptir máli.

  11. Ari S skrifar:

    Frábær sigur og falleg mörk. Gaman að sjá til Coleman í leiknum og eins Barkley sem að báðir toppuðu fínan leik með marki hvor um sig.

    Heilt yfir mjög ángæður með okkar menn í dag, liðið gerði það sem það þurfti að gera og mér fannst þetta alls ekki vera slakur eða lélegur leikur.

    En eins og Martinez kom inná í viðtali eftir leik þá var efiðara að halda focus í þessum leik heldur en gegn Manchester United og Arsenal Þeir héldur fócus í dag og unnu, það er nóg fyrir mig:)

    Gleðileg jól öllsömul 🙂

  12. Ari G skrifar:

    Ég hef séð verri leiki með Everton t.d. leikurinn á móti C. palace var hræðilegur leikur. Ég er ekki sammála að þetta hafi verið lélegur leikur hjá Everton. Vörnin stóð fyrir sínu og Swansea er með miklu betra lið en staða þeirra segir til um. Coleman var stórkostlegur í þessum leik og Barkley engar feilsendingar líka frábær. Eini leikmaðurinn sem lék undir getu var Lukaku kannski þreyta veit ekki. Everton hefur ennþá hungrið að vinna að alla leik. Eru með besta markvörðinn og bestu vörnina í deildinni ekkert lið hefur fengið færri mörk á sig.

  13. þorri skrifar:

    Kæru félagar. Mér fannst þetta mjög góður leikur en það var lítið um marktækifæri í þessum leik. Heilt litið á voru allir að spila vel að mínu dómi, á mjög svo erfiðum útivelli. Svo er bara Sunderland næst. Þann leik eigum við að vinna. Áfram Everton.

  14. Finnur skrifar:

    Barkley í liði vikunnar að mati BBC.
    http://www.bbc.com/sport/0/football/25488518
    Hefði viljað sjá Coleman þar líka en það er ekki hægt að dóminera þennan lista í hverri viku! 😉

  15. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ekki okkar besti leikur en þrjú stig eru alltaf þrjú stig sama hvernig spilamennskan er.
    Frábær mörkin hjá okkar mönnum. Ég var einn af þeim sem var að gefast upp á Coleman framan af síðasta tímabili, taldi hann ekki nógu góðann fyrir okkur. En síðan svona ca í nóvember í fyrra hefur mitt álit á honum verið að breytast og nú er svo komið að ég vil ekki sjá nokkurn annann í hægri bakvarðarstöðunni en hann. Ég vil líka ganga svo langt að halda því fram að hann sé einn besti ef ekki besti hægri bakvörðurinn í deildinni.
    Fáránlegt hvað þessir blessuðu „íþróttafréttamenn“ á Stöð2 eru stundum vitlausir.
    Valtýr Björn Valtýsson hélt því til dæmis fram í dag að Moyes hefði aldrei notað Coleman í hægri bakverðinum fyrr en Hibbert meiddist. Skítt með þá staðreynd að hann spilaði þá stöðu nánast allt síðasta tímabil og það hafði ekkert með Hibbert að gera.
    Hann afhjúpaði þarna fáfræði sína um önnur félög en þessi svokölluðu „stórlið“.

  16. Diddi skrifar:

    það er nú pínulítið til í þessu hjá „halta“ Birni, Moyes var reyndar ekki að nota Coleman mikið yfirleitt …….í fyrstu

  17. Georg skrifar:

    Mjög mikilvægur sigur í dag. Þetta eru leikirnir sem við höfum ekki verið að ná að klára síðustu ár. Ef menn telja þetta slakasta/einn slakasta leikinn okkar í ár þá er það alls ekki slæmt, því að Swansea liðið átti alls ekki mikið af færum í þessum leik, nánast engin. Vörnin hélt mjög vel, mér fannst aðalega að Swansea liðið var að pressa ofarlega á okkur sérstaklega í fyrri hálfleik og við vorum oft að missa boltann, en við vorum mun betri í seinni hálfleik og sköpuðum fullt af góðum sóknum.

    Markið þeirra var náttúrlega algjör grís þar sem boltinn var á leið út af, en það var aldrei að sakast við Oviedo þar, ég var aðalega pirraður við skelfilega lélega vörn hjá Pienaar í markinu, hann var að dekka manninn og snéri bakinu í manninn og sá ekkert hvar boltinn væri, fyrir mér algjörlega óskyljanleg vörn ef vörn má kallast. Þetta hefði getað kostað okkur 2 stig í dag en fyrir frábæra tilburði Barkley þá endaði þetta í 3 stigum sem að mínu mati voru fyllilega verðskuluð þar sem við sköpuðum mun meira af færum í leiknum og þeir áttu varna almennilegt skot í leiknum.

    Gaman að sjá þetta á twitter frá meistara Kanchelskis:
    (‏@AAKanchelskis) is happy with the character which Everton showed at Swansea: “Nervy game but in the end got our heads up and won a great game #EFC”

    Það er þétt leikjaprógramm um jólin og bið ég um ekkert minna en 6 stig fyrir áramót og væri gaman að enda árið fyrir ofan Liverpool 🙂

  18. Gunni D skrifar:

    Þetta var bara nokkuð góður leikur hjá okkar mönnum í dag.Mér fannst þeir hafa hann í hendi sér allan tímann.Það er mjög gaman að sjá hverig allt liðið spilar saman,alveg frá öftustu línu,og sérstaklega hvernig vörnin nær að spila boltanum fram, oft úr mjög þröngri stöðu. Þetta sá maður aldri áður, oftar en ekki var bara hreinsað fram í einhverju ofboði og boltinn beint á mótherja. Síðan þurfti að djöflast í því að reyna að vinna hann aftur framar á vellinum. Þetta útheimti oft mikla orku, þannig að þetta er allt miklu léttara í dag. Ég mundi sega að þetta væri stærsta breytingin á liðinu, og ég efast satt að segja að svona mikil breyting sé bara frá Martines komin. Svona tæknileg þróun tekur einfaldlega bara lengri tíma.Svo er gaman að sjá hvað Howard er orðinn miklu betri á boltann.Oftar en ekki var það tapaður bolti að gefa aftur á markmann. Fyrirgefið mér þessa langloku. Góðar stundir og GLEÐILEG JÓL!!

  19. Finnur skrifar:

    Fín langloka Gunni, ekkert að fyrirgefa. 🙂

    Og góður punktur líka, Ingvar. Coleman fékk fullt af leikjum á hægri kanti á sínu fyrsta tímabili og meiddist svo á næsta undirbúningstímabili þar á eftir ef ég man rétt. Þetta var ekki spurning um hvort Hibbert væri meiddur eða ekki. Þetta var spurning hvort Coleman væri heill.

    Greining Executioner’s Bong á Swansea leiknum er annars hér:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2013/12/22/tactical-deconstruction-swansea-1-2-everton/

  20. Albert skrifar:

    I Love It

  21. Einar G. skrifar:

    Þetta er geggjað 🙂 Skítt með það hvort að þetta hafi verið slakur leikur hjá okkar mönnum eða ekki. Það þarf að vinna þá leiki líka. Swans eru með helvíti gott lið. Maður er bara í skýjunum með þessa stöðu yfir hátíðina 🙂 Vonandi að árið endi á þessum nótum og það næsta byrji eins 🙂 Gleðileg Jól 🙂

  22. Gestur skrifar:

    það er gaman að vera Everton maður þessa dagana, og
    það sem meira er, Everton er ekki í sviðsljósinu þó að það gangi vel og þá er ekki eins pressa á okkar mönnum. Lukaku var ekki að heilla mig í þessum leik og var ég að vona að Vellios kæmi inná í restina. Gleðileg jól

  23. Diddi skrifar:

    moyes spilaði Coleman aðallega á kantinum fyrst vegna þess að hann treysti honum ekki sem varnarmanni 🙂

  24. Finnur skrifar:

    Ekkert óeðlilegt við það. Ég hefði gert það sama. Hann var náttúrulega að spila í írsku áhugamanna deildinni þegar Everton keyptu hann. Mistökin sem hann myndi gera á meðan hann var að sanna sig þar með ekki jafn dýr.

  25. Diddi skrifar:

    ég hef ekki sagt að það sé neitt óeðlilegt við það aðeins að það hafi verið þannig 🙂

  26. Finnur skrifar:

    Mikið rétt. En Coleman fékk fullt af leikjum undir Moyes — og ekki af því að Hibbert væri meiddur. Verð reyndar að leiðrétta þessa hugsanavillu strax því Hibbert er okkar Chuck Norris: Hann meiðist ekki — flestir andstæðingar eru bara fyrir neðan hans virðingu að spila gegn. Hann spilar _kannski_ gegn Barcelona og svo náttúrulega þegar England kemst í úrslit á HM.

  27. Diddi skrifar:

    Síðast þegar við mættum Sunderland á annan í jólum þá unnum við 5 – 0 árið 1999. Væri alveg til í það aftur.

  28. Diddi skrifar:

    reyndar var ég heldur fljótur á mér þarna, við gerðum jafntefli við Sunderland 1 -1 árið 2009 á annan í jólum. Mundi bara meira eftir 5 – 0 leiknum 🙂

    • Diddi skrifar:

      og reyndar var 1 -1 jafntefli líka gegn þeim 2011, hvaða, hvaða, þetta er greinilega vinsælasta Boxing day liðið okkar 🙂

      • Diddi skrifar:

        og svo var líka leikur………nei þetta er allt og sumt…..

  29. Diddi skrifar:

    Fottar einkunnir sem okkar menn fá, þó að þeir hafi ekki verið neitt sérstakir he, he, http://stdomingos.com/2013/12/24/swansea-city-1-3-everton-player-ratings/?

    • Diddi skrifar:

      enda ekki skrýtið ef við höfum skorað einu marki meira í þeirra sjónvarpi 🙂

  30. Finnur skrifar:

    Barkley og Coleman rötuðu báðir í lið vikunnar að mati Goal.
    http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2013/12/24/4500105/premier-league-team-of-the-week-adebayor-makes-the-cut-on

    Upphitunin fyrir Sunderland annars komin í loftið:
    http://everton.is/?p=6232