Everton vs. Fulham

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Fulham á morgun, klukkan 15:00, en þetta er ágætis tækifæri fyrir Everton að ná að saxa á forskot liðanna fyrir ofan og komast nær öðru sætinu, því að fjögur af liðunum í 6 efstu sætunum eigast við á sama tíma.

Árangur Fulham á Goodison Park er skelfilegur, vægast sagt, en liðin hafa mæst 25 sinnum í deild á heimavelli Everton og Everton unnið 21 þeirra leikja og Fulham náð fjórum jafnteflum. Þeir hafa jafnframt tapað síðustu 10 þar í röð. Þetta er þó akkúrat leikur sem Everton gæti koxað á og þeir eru sýnd veiði en ekki gefin, en þeir eru með nýjan stjóra, Rene Meulensteen, sem hefur vakið liðið til lífs á ný eins og sigur Fulham gegn Aston Villa í síðasta leik sýndi (og að þeir voru óheppnir að taka ekkert stig gegn Tottenham þar á undan).

McCarthy er í banni fyrir leikinn og bæði Hibbert og Baines eru meiddir sem og Kone og Gibson á langtímalegunni. Baines sem og Martinez vonast eftir endurkomu þess fyrnefnda í jólavertíðinni en það er erfitt að spá nokkru þar um. Margir hafa jafnframt verið nefndir sem varamenn fyrir McCarthy (t.d. Osman, Pienaar, Heitinga, Naismith, Alcaraz, Stones og Deulofeu), en mig grunar að annaðhvort Osman eða Pienaar verði fyrir valinu. Grunar að það verði Pienaar, þannig að líkleg uppstilling er: Howard, Oviedo, Distin, Jagielka, Coleman, Barry og Pienaar á miðjunni, Deulofeu og Mirallas á köntunum, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi.

Samningsmál voru líka ofarlega á baugi en mikið var rætt um frammistöðu Barkley og að Barkley fái nýjan langtímasamning. Distin fær líklega einnig framlengingu á sínum samningi um eitt ár.

Greining Executioner’s Bong á leiknum Fulham er hér.

Martinez sagði í viðtali að hann væri sáttur við hversu vel Everton hafi aðlagast leikskipulagi hans og hrósaði Barry og McCarthy í hástert fyrir framlag þeirra til Everton á tímabilinu. Ekki hægt annað en að taka undir þau orð. Robbie Savage fór líka fögrum orðum um frammistöðu Everton á tímabiinu og telur að, ef marka má spilamennskuna á fyrri hluta tímabilsins, komi Everton til með að enda í 4. sæti. I’ll believe that when I see it. 🙂

Í öðrum fréttum er það helst að þrír Colorado Rapids leikmenn æfa nú með Everton þessa stundina en nú er off-season hjá MLS deildinni. Þetta eru þeir Clint Irwin, 24ra ára markvörður, Chris Klute, 23ja ára varnarmaður, og 19 ára miðjumaður Dillon Serna.

Everton U18 tók á móti Brighton U18 og af vídeó-útdrættinum að dæma var aðeins eitt lið á vellinum að skapa sér færi en Everton vann leikinn 2-0 með mörkum frá George Green, sem er leikmaður úr unglingaliðinu sem við þurfum að fylgjast vel með í framtíðinni. Leikskýrsluna úr þeim leik er að finna hér og Kevin Sheedy var að vonum kátur með frammistöðuna.

En til að hita upp fyrir leikinn á eftir birti klúbburinn tvö vídeó af gömlum og góðum sigurleikjum gegn Fulhamn, til dæmis: 4-0 sigur árið 2012 og 4-1 sigur árið 2007.

Hvern viljið þið sjá á miðjunni við hlið Barry og hver er ykkar spá fyrir leikinn?

2 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    ég á von á sigri okkar manna og liðið sem þú stillir upp hér er akkúrat mitt val líka, þ.e. Pienaar inn á miðjuna í stað McCarthy. Það styttist í óvæntan Fulham sigur á Goodison Park en vonum að það verði nú ekki í dag, það væri hryllilegt (en svo týpískt) eftir frammistöðu í undangengnum leikjum. 4 – 1 er mín spá, Lukaku 2, Mirallas 1 og Jelavic kemur inná og setur 1.

  2. Halli skrifar:

    Ég ætla að vona að Martinez bakki Barkley niður á miðjuna og setji Mirallas í holuna og Deulofeu á kantinn mitt mat er að við fá mikið hraðari sóknarleik með þessu en ég held að Osman komi bara inn fyrir MaCarthy. 3-0 Lukaku Mirallas og Coleman með mörkin.

    Sjáumst kátir á Ölver.