Everton – Hull 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti Hull City í dag og uppstillingin eins og við var búist: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Barry og McCarthy á miðjunni, Osman og Mirallas á köntunum, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi.

Everton fékk fyrsta færið á 5. mínútu þegar Lukaku vann boltann af harðfylgi af varnarmanni Hull við vítateiginn vinstra megin og náði skoti á markið. Skotið hins vegar vel varið í horn. Ekkert kom úr horninu en Everton fékk annað horn strax á eftir og upp úr því kom mark. Baines nálægt hornfána vinstra megin gaf á Osman sem var við vítateigshornið og gaf strax á Mirallas. Mirallas tók skot í fyrstu snertingu utan teigs og boltinn sleikti innanverða stöngina og markvörðurinn gat bara horft á. Eina spurningin er hvort Barry kom við boltann eða ekki, því ef svo var þá var það rangstæða. Mér sýndist þó af endursýningu sem svo væri ekki. Skiptir litlu, markið stendur hvort heldur sem er.

Útlitið dökknaði hjá Hull þegar Danny Graham fór út af meiddur á 16. mínútu eftir tæklingu frá Barry (sýndist það ekki vera malicious tækling) en inn á kom Sagbo sem átti eftir að láta til sín taka síðar í leiknum.

Distin var næstum búinn að koma félaga sínum Howard í vandræði þegar hann átti allt of fasta sendingu á markvörðinn á 23. mínútu og upp úr því voru Hull næstum búnir að skora þegar leikmmaður þeirra fékk frían skalla fyrir framan markið. Skalli hans var þó niður og rétt yfir (og til hliðar vinstra megin) við markið. Leikmenn Hull hefðu átt að gera mun betur þar en Everton sluppu með skrekkinn.

Barkley átti skot sem markvörðurinn varði og Osman átti svo skot að marki á 25. mínútu en rétt framhjá — en Lukaku var þar ekki langt frá því að ná að breyta stefnu boltans sem hefði líklega endað í netinu.

Jöfnunarmark Hull kom svo á 30. mínútu þegar Sagbo (varamaðurinn fyrir Graham) skoraði með föstu skoti eftir fyrirgjöf frá hægri. 1-1. Þetta reyndist eina skot Hull sem rataði á markið allan fyrri hálfleikinn. Týpískt. (Everton til samanburðar með fjögur ef ekki fimm á/innan ramma).

Everton byrjuðu aftur að pressa vel á Hull eftir jöfnunarmarkið og náðu nokkrum skotum að marki en tókst ekki að jafna. Barkley átti skot á 36. mínútu sem fór í varnarmann, Mirallas átti skot af löngu færi til hægri sem fór rétt yfir. Baines átti fyrirgjöf frá vinstri á 42. mínútu, en vantaði bara mann til að klára færið og Hull náðu að bjarga í horn. Upp úr horninu átti Jagielka skalla í hausinn/bakið á Lukaku sem stoppaði boltann frá því að rata á markið. En Everton tókst ekki að komast aftur yfir.

Hull náði smá pressu rétt fyrir lok hálfleiks (45+5 mín) þegar þeir náðu skoti að marki sem breytti um stefnu en fór sem betur fer yfir markið. Þeir áttu svo skalla að marki sem Baines varði í horn og ekkert kom úr því horni.

Jafnt í hálfleik 1-1 en Everton með töluverða yfirburði á flestum sviðum, endaði hálfleikinn með næstum 70% possession, eins og við var að búast fyrir leik þar sem Hull eru ekki þekktir fyrir mikinn sambabolta.

Engar breytingar á liðunum í hálfleik.

Hull menn sáu varla boltann fyrstu mínútur seinni hálfleiks (Everton með vel yfir 70% posession fyrstu mínúturnar) en Everton lét boltann ganga vel, pressuðu vel án bolta og sópuðu upp lausum boltum. En alltaf þegar komið var inn í vítateig Hull náðu varnarmenn að bjarga í horn eða hreinsa frá. Fyrsta hættulega færi Hull í seinni hálfleik kom eftir það þegar þeir áttu skot að marki en í eigin leikmann og út af.

Pienaar kom inn á á 55. mínútu fyrir Osman og var það mikil gleðisýn enda Pienaar mikilvægur leikmaður og búinn að missa af 5 leikjum í röð hingað til vegna meiðsla. Og hann beið ekki boðanna heldur skoraði aðeins 25 sekúndum síðar! Howard með útspark, Lukaku vann skallaeinvígi á miðjunni og boltinn barst til Barkley sem sendi til hliðar til hægri á Mirallas sem var hægra megin við teig. Fyrirgjöfin hans beint á Pienaar sem snerti boltann létt og stýrði honum í net alveg út við stöng. 2-1 fyrir Everton! Síðast þegar Pienaar skoraði var það sigurmark Everton gegn Fulham, að mig minnir. Gæti hann endurtekið leikinn nú og landað þremur stigum fyrir Everton?

Hull reyndu hvað þeir gátu til að jafna en þeir fengu tvo fría skalla í röð eftir horn og mér sýnist sem Everton þurfi að fara að æfa það að verjast hornspyrnum því Hull fengu allt of marga fría skalla í leiknum.

Kone inn á fyrir Lukaku á 66. mínutu, enda mikið mætt á Lukaku í undanförnum deildar og landsliðsleikjum.

Sagbo hjá Hull var stálheppinn að sleppa með rautt þegar hann tæklaði Jagielka með takkana á lofti eftir að Jagielka hafði drepið skyndisókn Hull í fæðingu.

Það var annars lítið að gerast í sókn Hull í seinni hálfleik, mest megnis bjartsýnar og hálf máttlausar fyrirgjafir eða þá sóknarspil sem brotnaði á sterkum varnarmúr Everton við vítateigslínu. Þeir réðu hins vegar illa við Everton leikmennina og gripu ítrekað til þess að brjóta á þeim og kvörtuðu svo í sífellu yfir að dómarinn skyldi dæma á þá þó endursýning sýndi klárlega brot.

Everton komst í skyndisókn á 76. mínútu sem endaði með því að Kone var kominn upp að marki, tók skrefið til að leika á varnarmann þeirra og ætlaði að skjóta upp í hægra hornið (markvörður bjóst við lágum bolta — sjá mynd) en skotið í innanverða stöng uppi við samskeytin (endursýning sýndi reyndar að Kone var rangstæður). Hann átti svo ágætt skot innan úr teig mjög stuttu síðar en það varið í horn. Honum tókst ekki að setja boltann í netið í leiknum og á því enn eftir að setja mark fyrir Everton. En hann hefur verið óheppinn með meiðsli og lítið fengið að spila en manni finnst á honum að stutt sé í fyrsta markið.

Naismith kom inn á fyrir Ross Barkley á 78. mínútu og lifnaði nokkuð yfir leiknum við það en þrátt fyrir nokkra yfirburði Everton í seinni hálfleik náðu þeir ekki að bæta við mörkum. Manni fannst lítil ógnun frá Hull í seinni hálfleik og þeir aldrei líklegir til að bæta við mörkum.

Það skiptir þó ekki máli því tvö mörk nægðu til að landa þremur stigum í hús. Everton komið upp í 5. sæti en Man City og Tottenham eiga bæði leik til góða fyrir neðan Everton.

Villa næst á útivelli.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Distin 6, Jagielka 6, Coleman 7, Osman 6, Barry 6, McCarthy 5, Mirallas 7, Barkley 5, Lukaku 5. Varamenn: Kone 5, Naismith 4, Pienaar 7. Skil ekki alveg dómhörkuna í einkunnagjöfinni — fannst leikmenn eiga meira skilið. Svipaðar einkunnir hjá Southampton, nema Davies fékk 8.

15 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    Flottur sigur og má segja að það hefði verið ósanngjarnt ef við hefðum misst þetta í jafntefli. Kone hársbreydd frá því að skora og flott mark hjá Mirallas sem og fínasta innkoma hjá Pienaar sem reyndar gerði lítið annað en að skora 10 sekúndum eftir skiptinguna.
    Skynsamlegt að skipta Kone inná fyrir Lukaku sem var ekki alveg uppá sitt besta.

  2. Finnur skrifar:

    Úrslitin hjá liðunum fyrir ofan að mestu eftir bókinni. Kannski ekki hægt að biðja um að Chelsea eða Arsenal tapi stigum á heimavelli gegn sér lakari liðum en við náðum í umferðinni tveimur stigum á Southampton og Liverpool (þeir síðarnefndu náðu ekki manni fleiri að vinna Newcastle, liðið sem við spiluðum sundur og saman um daginn). Ekki grátum við það! 🙂

  3. Finnur skrifar:

    Jagielka í liði vikunnar, að mati BBC:
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/24603253

  4. Diddi skrifar:

    hvað er þetta með Moyes og markverði, hann er byrjaður hjá manutd :http://fotbolti.net/news/20-10-2013/markvordur-sarpsborg-a-leid-til-united

  5. Finnur skrifar:

    Hvað meinarðu?

  6. Finnur skrifar:

    Og talandi um okkar fyrrverandi þá var Tim Cahill að setja met:
    http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/24608115

  7. Diddi skrifar:

    Finnur, ég hélt að þetta þarfnaðist ekki útskýringa, hélt að þeir sem hafa fylgst með Everton í stjóratíð Moyes hafi tekið eftir því að hann var alltaf að pæla í einhverjum ungum markvörðum og tók þá á trial, hlutur sem fór ofboðslega í taugarnar á stuðningsmönnum sem fannst hann ætti frekar að einblína á kantmenn og sóknarmenn sem liðið sárvantaði flest árin í stjóratíð hans 🙂

  8. Finnur skrifar:

    Hef reyndar aldrei skilið þá gagnrýni… Ef góður ungur markvörður er á lausu (til reynslu) má þá ekki að taka hann á reynslu af því að betri sóknarmann vantar í aðalliðið? 🙂 Góðir kantmenn og sóknarmenn kosta helling af pening, sem Everton hefur ekki og því bæði erfitt að fylla þær stöður og getur tekið langan tíma. Peningaskortinn má leysa með því að kaupa unga og efnilega leikmenn (John Stones) sem og að efla og treysta á akademíuna til að sjá um endyrnýjunina (sem Everton hefur gert í gegnum árin).

  9. Orri skrifar:

    Er þetta nokkuð spurning um penningaleysi,er ekki bara málið að tíma að nota þá.

  10. Diddi skrifar:

    Finnur, það breytir hins vegar ekki því að innlegg mitt þarfnaðist ekki útskýringa 🙂

  11. Finnur skrifar:

    Diddi: If you say so. Ég hafði ekki hugmynd um hvað þú varst að tala fyrr en þú útskýrðir það. og ég held að aðrir (sem taka ekki undir þá gagnrýni sem ég nefndi) hafi verið í sömu stöðu þangað til útskýringin kom.

  12. Diddi skrifar:

    Hibbo lítur náttúrulega ekki út fyrir að vera deginum eldri en 21 🙂 , verður fróðlegt að horfa á þessa viðureign sem byrjar núna kl 18. Áfram EVERTON

  13. Halli skrifar:

    Það að spila á móti Hull er pottþétt ekki mikil skemmtun þeir spila kerfi sem enginn annar stjóri en Bruce hefur notað (reynum að eiðileggja eins mikið fyrir andstæðningum og við getum og kannski náum við í stig aðferðin) En svona í fullri alvöru þá fannst mér aldrei hætta í þessum leik við vorum með hann allan tímann og það var bara spurning hversu mikið við næðum að opna þá. Af leikmönnum þá fannst mér Lukaku vera það slakur að hann hefði mátt fá skiptingu í hálfleik sennilega þreyttur eftir 2 landsleiki á 10 dögum, MaCarthy átti mun betri leik en 5 segir til um, Distin óvenjulegt að sjá hann í svona mörgum mistökum, Mikið djö var ég ánægður að fá Pienaar inná fyrir Osman, Barkley má aðeins horfa í kringum sig áður en hann lætur alltaf vaða ekki það að ég vilji ekki að hann skjóti á markið, Mirallas góður, Naismith jesús kristur, Bakverðirnir ásamt Jags og Barry solid, Howard hafði ekkért að gera

  14. Gunnþór skrifar:

    Halli sammála með Naismith,ekki með næg gæði í þessum leikmanni til að vera í þessu liði.Klárlega veikasti hlekkurinn.

  15. Georg skrifar:

    Þetta var kannski ekki okkar besti leikur í vetur en að mínu mati áttum við 3 stig skilið. Kone var óheppinn að skora ekki 1-2 mörk. Hann sýndi allavega glefsur af því sem hann gat hjá Wigan. Hann var yfirleitt hættulegasti leikmaður Wigan í þeim leikjum sem ég sá með þeim.
    Það besta sem ég tek út úr þessum leik er að Mirallas virðist vera að hitna, skoraði og lagði upp sigurmarkið og svo var McCarthy frábær að mínu mati, enda valinn maður leiksins af mörgum. McCarthy setur gríðarlega pressu á hitt liðið og stoppar ekki í 90 mínútur. Það er mjög öflugt að hafa hann í okkar liði, hann á bara eftir að vaxa.

    Var að rekast á frétt þar sem tvífari Baines er fundinn frá árinu 1970, þetta er áhorfandi á HM. Alveg ótrúlega líkur honum.
    http://www.101greatgoals.com/blog/incredible-doppelganger-leighton-baines-was-at-the-1970-world-cup-match-between-england-romania/?