Everton vs. Hull

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Hull kl. 14:00 á laugardaginn á Goodison Park en Hull hefur aðeins mætt þangað fimm sinnum frá því sögur hófust, enda ekki eytt miklum tíma í efstu deild gegnum tíðina. Aðeins tvær af þessum fimm viðureignum áttu sér stað eftir 1953 og töpuðu Hull báðum leikjum, fyrst 2-0 tímabilið 2008/09 (sjá vídeó) og svo 5-1 tímabilið 2009/10. Og svo má ekki heldur gleyma 0-4 sigri á útivelli í september árið 2009 (sjá vídeó) og 2-2 jafntefli (eftir að hafa lent 2-0 undir) í fyrsta Úrvalsdeildarleik Everton gegn Hull City árið 2008 (sjá vídeó). Nýliðar Hull hafa þó komið töluvert á óvart í ár og eru svona ákveðið spútnik lið, sitja í 8. sætinu eftir 7 leiki, sætinu neðar en Everton. Þess ber þó að geta aðeins tveir af 7 deildarleikjum þeirra á tímabilinu voru á útivelli, 2-0 tap gegn Chelsea og 2-3 baráttusigur gegn Newcastle þar sem þeir lentu tvisvar undir. En þeir hafa þó náð athyglisverðum sigur gegn West Ham og Newcastle þannig að það verður ekkert gefið eftir.

Everton hafa aftur á móti ekki tapað í síðustu 11 heimaleikjum í Úrvalsdeildinni og hafa í þeim þremur leikjum á heimavelli á tímabilinu unnið Chelsea og Newcastle heima og gert jafntefli við West Brom (þrátt fyrir töluverða yfirburði). Önnur tölfræði sem rétt er að draga fram: Lið undir stjórn Steve Bruce hafa aðeins unnið Everton tvisvar í síðustu 16 tilraunum.

Styrkleiki Hull er vörn þeirra en þeir hafa ekki fengið á sig mark í síðustu þremur leikjum og fengið á sig færri mörk en t.d. Arsenal og United í deild. Þeirra sóknarleikur snýst mest um það að senda fyrirgjafir af köntunum en sóknarmönnum þeirra hefur gengið illa að skora og yfirleitt eru sigrar þeirra 1-0 sigrar (og yfirleitt skora þeir ekki meira en eitt mark í leik). Þeirra markahæsti leikmaður er miðjumaðurinn Robbie Brady með fjögur mörk (eini maðurinn sem hefur skorað meira en eitt mark) en hann gekkst undir kviðslitsaðgerð fyrir rétt rúmum tveimur vikum, en gæti þó verið með. Þeir eru með næst lélegustu tölurnar í deildinni þegar kemur að því að halda boltanum (42%) þannig að búast má við heilmikilli pressu á Hull liðið. Greining Executioner’s Bong á Hull er hér.

Til gamans má geta að Gary Abblet er einn af fáum leikmönnum sem hefur leikið fyrir bæði Everton og Hull og fjallaði klúbburinn um það stuttlega hér.

Meiðsli Gibson voru það eina sem skyggði á annars flotta frammistöðu leikmanna Everton í landsleikjahrinunni sem var að ljúka en hann var borinn af velli í 3-1 sigri Íra á Kazakhstan og verður frá í nokkra mánuði, jafnvel út tímabilið. Meiðslin eru anterior cruciate ligament (ACL) meiðsli og þarf hann að fara í uppskurð. Meiðslin eru þó ekki jafn slæm og óttast var í fyrstu en eftir myndatökuna hljómaði Martinez mun bjartsýnni en áður og var vongóður um að hann myndi ná að jafna sig af meiðslunum áður en tímabilið klárast.

Pienaar er jafnframt farinn að æfa á fullu með liðinu sem kemur til með að létta pressunni af miðjunni en hann mun þó ekki leika með í þessum leik og varnarmaðurinn Alcaraz þarf enn meiri tíma. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. McCarthy/Osman og Barry á miðjunni. Naismith/Osman og Mirallas á köntunum, Barkley fyrir aftan Lukaku frammi.

Víkjum þá stuttlega aftur að nýliðnum landsleikjum en þar ber fyrsta að óska íslenska landsliðinu til hamingju með frábæran árangur í undankeppninni. Þetta lið á meira inni í framtíðinni, hvort sem þeir komast í gegnum umspilið eða ekki, og hefur verið unun að fá að fylgjast með þeim.

En leikmenn Everton hafa líka verið að gera það gott með sínum liðum og var bent á að aðeins Bayern Munchen var með fleiri leikmenn í Evrópu í baráttunni um að komast á HM. Naismith skoraði til dæmis seinna mark Skota í sigri á Króötum og var mikið hrósað fyrir sína frammistöðu, ekki bara í síðasta heldur líka þar síðasta leik. Lukaku skoraði tvö mörk með Belgum eins og fram hefur komið (og tvö mörk í tveimur síðustu leikjum með Everton), James McCarthy og Seamus Coleman léku báðir allan leikinn áðurnefna hjá Írum en Coleman var fyrirliði Írlands í þeim leik. Sýnir kannski álitið sem nýr þjálfari Íra hefur á honum. Phil Jagielka and Leighton Baines áttu stóran þátt í að hjálpa Englendingum að ná 2-0 sigri gegn Pólverjum, sem kom þeim á HM í Brasilíu. Baines átti stoðsendingu í öðru markinu og Jagielka hélt niðri Lewandoski og félögum hans í pólsku sókninni. Brian Oviedo og félagar í Kosta Ríka eru einnig meðal þjóða sem komust áfram og Jelavic og félagar í liði Krótatíu þurfa að leika umspilsleik. Howard og félagar í bandaríska landsliðinu eru einnig búnir að tryggja sér farseðil til Brasilíu.

En, Hull á laugardaginn. Hvað viljið þið ræða um? Orðið er laust!

4 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Króatar voru að ráða nýjan landsliðsþjálfara:
    http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2013/10/17/kroatar_redu_nyjan_thjalfara/
    Þetta kveikir vonandi í Jelavic, sem þarf að sýna það að hann geti slegið Lukaku úr liðinu.

    Leikurinn er annars í beinni á Ölveri en ég missi því miður af honum en veit ekki betur en að mætingin verði að öðru leyti góð. Bendi hins vegar á það að það eru heilir 6 leikir í beinni útsendingu kl. 14:00 á Ölveri þannig að ég hvet ykkur öll til að mæta tímanlega!

  2. Elvar Örn skrifar:

    Áhugavert hve margir hjá Everton voru að taka þátt í nýliðinni landsleikjatörn:
    http://www.bluekipper.com/news/players_news/6808–.html?

  3. Gunni D skrifar:

    Spái fyrstu þrennunni hjá Lukaku.

  4. Halli skrifar:

    Sóknarleikurinn hans RM á eftir að gera sig í dag og Everton vinnur stórsigur 4-0 Lukaku með 2 Baines 1 og Jelavic 1 ég hef góða tilfinningu fyrir þessum leik