Helstu fréttir

Mynd: Everton FC.

Áður en vikið er að nýjustu fréttum er rétt að koma nokkrum tilkynningum á framfæri:

Eins og fram hefur komið hér á síðunni gefst ykkur frábært tækifæri til að sjá hetjurnar okkar á Goodison Park að mæta Tottenham (flogið út 1. nóvember). Það sem ekki hefur komið fram, hins vegar, er að lokafrestur til að skrá sig er 2. október (sem er miðvikudagurinn í næstu viku).  Fyrir u.þ.b. verð á flugmiða fyrir einn fullorðinn fram og til baka með Flugleiðum færðu flug, gistingu í þrjár nætur (með morgunmat) og miða á leikinn. Alls ekki slæmt! Allar nánari upplýsingar er að finna hér — ekki missa af þessu tækifæri!

Tvær aðrar dagsetningar sem vert er að minnast á:

Frestur til að kjósa um nýtt merki Everton klúbbsins er til loka þriðjudags, 1. október. Til að geta kosið þarf Everton Customer Number en við getum verið ykkur innan handar með að finna það. Hafið bara samband.

Takið einnig frá 23. nóvember en þá er meiningin að halda árshátíð Everton klúbbsins á Íslandi. Meira um það síðar.

En þá að helstu fréttum:

Martinez og Heitinga hafa verið í fréttum undanfarið en Martinez lét hafa það eftir sér að hann myndi líklega styrkja liðið enn frekar í leikmannaglugganum í janúar og sagði að einhverjir peningar lægju á lausu til að gera það. Heitinga er jafnframt mjög sáttur við þá fersku vinda sem fylgja Martinez og hans samstarfsfélögum og hefur notið tímans undir hans stjórn.

Í öðrum fréttum er það helst að Barkley var borinn saman við Coutinho (sem stuðningsmenn litla bróður halda varla vatni yfir) en skemmst er frá því að segja að Barkley kom mjög vel út úr þeim samanburði. Það sem af er tímabili á hann fleiri heppnaðar sendingar (87% vs 78%), er með betri skotnýtingu, sækir fleiri brot og er mun betri maður á móti manni. Og hefur að auki skorað mark á tímabilinu, sem Coutinho hefur ekki gert. Vissulega eru þeir ólíkir leikmenn þar sem Barkley er líkamlega sterkari og líklegri til að taka þátt í baráttunni um boltann en Coutinho meira utan við að reyna að finna glufur með sendingum. En samt eiga þeir jafn margar „lykilsendingar“ í síðustu leikjum, skv. tölfræðinni. Alls ekki slæmt hjá 19 ára gutta, sem er ekta Scouser og kom í gegnum akademíu Everton. Sýnir að ekki þarf alltaf að sækja vatnið yfir lækinn. Gaman að þessu. Þakka Sigurgeiri Ara fyrir að benda mér á þessa grein — hún fór alveg framhjá mér.

Í lokin má geta þess að Shane Duffy (21. árs miðvörður) er farinn til Yeovil að láni í einn mánuð, örugglega með möguleika á framlengingu ef vel gengur. Þetta ætti að gefa honum mikilvæga reynslu sem hann fær ekki með að spila með Everton U21.

10 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Ferð á skemmtilegasta völlinn á Englandi og árshátíð hjá besta félagsskapnum á Íslandi í nóvember – mig hlakkar svo til.

  2. Finnur skrifar:

    Ekki ætla ég að missa af þessu tvennu. 🙂

  3. Elvar Örn skrifar:

    Við komum líklega 4-5 saman að norðan á árshátíðina amk.

  4. Finnur skrifar:

    Norðanmenn leggja greinilega ýmislegt á sig til að mæta á árshátíð og er það hið besta mál. Ánægður með ykkur. 🙂

  5. Diddi skrifar:

    bíddu bíddu, var ekki talað um að árshátíðin yrði á Siglufirði? 🙂

    • Elvar Örn skrifar:

      ER sko alveg drullu tilbúinn að koma á árshátíð á Sigló tengt Everton any time a day en skil svosem að það sé nokk erfitt að koma því við. Er ekki bara hægt að hafa svona midseason-hátíð og hafana á Sigló?

  6. Finnur skrifar:

    Jú, mikið rétt, Diddi. Ég var eiginlega farinn að hlakka til að sjá Siglufjörð í fyrsta skipti :/ og minntist á þetta á aðalfundi, en meirihluti stjórnar ákvað að hafa þetta fyrir sunnan aftur. Ég er enn vongóður um að halda fund fyrir norðan við tækifæri. 🙂

  7. Gunni D skrifar:

    Fallegur bær, Siglufjörður.

  8. Diddi skrifar:

    höldum bara árshátíðina í Siglufirði þegar nýja flott hótelið verður tilbúið 🙂

  9. Finnur skrifar:

    Keep us posted, Diddi.

    🙂

    En það er gott að þú minnist á árshátíðina, því við vorum að opna fyrir skráningu.
    http://everton.is/?p=5706