Bikarmótinu lokið, útitreyjan kynnt

Mynd: Everton FC.

Bikarmótinu í Bandaríkjunum er formlega lokið og leikmenn mættir á Finch Farm aftur. Roberto Martinez var mjög ánægður með veruna og sagði að það hefði verið ómetanlegt að fá tækifæri til að kynnast liðinu með þessum hætti, gegn firnasterkum mótherjum og fá að tækifæri til að prófa samvinnu mismunandi leikmanna í mismunandi stöðum. Að ekki sé minnst á hversu gott tækifæri þetta hafi verið til að auka hróður klúbbsins og íþróttarinnar á bandarískri grundu og hitta stuðningsmenn þar vestra.

Martinez sagði jafnframt í viðtali að þeir hefðu sloppið vel við meiðsli, Hibbert reyndar með smá „niggle“ og Piennar ekki leikið gegn Valencia til öryggis en báðir ættu að vera klárir fyrir Norwich leikinn sem nálgast óðum. Jagielka var líka sáttur við mótið og sagði að menn væru hungraðir í að byrja tímabilið — og ekki laust við að maður fái vatn í munninn við tilhugsunina um Jelavic í fullu leikformi og fullan sjálfstrausts.

Útivallartreyjan fyrir næsta tímabil var kynnt á dögunum (sjá mynd hér að ofan) en hún er flott blanda af sólskins-gulum og kóngabláum og fengum við forskot á sæluna við að horfa á leikmenn í nýju treyjunni í vináttuleiknum gegn Valencia. Hún vegur aðeins 150 grömm og er úr Dry-Fit efni sem ætti að vera okkur að góðu kunnugt. Hægt er að forpanta treyjuna hér.

Blöðin héldu því fram að United hefði lagt fram boð í Fellaini (þar sem þeir áttu, að sögn, að hafa gefist upp á Fabregas) en Martinez staðfesti að hvorki hefði verið boðið í Fellaini né Baines.

En þá að ungliðunum: Everton U15 ára liðið sigraði Watford í úrslitum Milk Cup en vítaspyrnukeppni þurfti til að skera úr um sigurvegarann því leiknum lyktaði með jafntefli, 1-1. Watford komst yfir á víti en Michael Taylor skoraði jöfnunarmark Everton rétt fyrir leikslok. Broadhead, Holland, Taylor og Bainbridge skoruðu úr sínum vítum en markvörður Everton, Matty Yorke, varði síðustu spyrnu Watford og tryggði þar með sigurinn. Þess má geta að Everton liðið hefur verið áskrifandi að þessari dollu undanfarin ár, en Everton hefur unnið þessa keppni í þessum flokki fjórum sinnum síðustu 6 árin.

U21 árs liðið héldu áfram sínum undirbúningi fyrir tímabilið sem er framundan og gerðu jafntefli við Southport, 3-3. en Hallam Hope skoraði tvö og Matthew Kennedy eitt. Þeir gerðu svo 1-1 jafntefli við Real Betis U21.

Slúðurdeildin: Everton var orðað við Toby Alderweireld í blöðum, sem og Anderson hjá United en meintu tilboði í Luca Marrone (hjá Juventus) sagt hafa verið hafnað.

Þar sem þetta er að verða nokkuð löng færsla eru hér nokkrar hraðsoðnar fréttir:

– Áhorfendur á heimaleik okkar við Real Betis koma til með að taka eftir nokkrum breytingum á Goodison Park.
– Klúbburinn gerði samning um að auglýsa The Protein Works próteindrykki — Everton þar með fyrst Úrvalsdeildarliða til að gera svo.
– Everton fékk heimaleik gegn Stevenage í 2. umferð deildarbikarsins sem leikinn verður í vikunni upp úr 26 ágúst.
– Baines og Jagielka voru kallaðir til liðs við enska landsliðið, sem mæta Skotum í vináttuleik. Stones og Barkley voru jafnframt kallaðir til liðs við U21 árs lið Englendinga.

Í lokin má til gamans geta að lestarvagnar í New York sporta nú merkjum Úrvalsdeildaliða, sem partur af kynningarátaki NBC á enska boltanum þar fyrir vestan. NSNO síðan birti myndir af Everton vagninum.

1 athugasemd

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Trúlega besta undirbúningstímabil nokkurn tíma. Held ekki að við höfum áður spilað við jafnsterk lið eins og núna.
    Vona að leikmenn og þjálfarar hafi lært eitthvað á þessu og það gagnist okkur á komandi tímabili.

    Nýja útitreyjan er svona allt í lagi, en ef þetta hryllilega merki væri ekki á henni þá væri hún flott.