Nánar um Alcaraz og Robles

Mynd: Everton FC.

Maður hafði varla tíma til að kynna sér nýju leikmennina betur og þorir varla ennþá að líta af fréttamiðlunum því það er eins og það detti inn nýr leikmaður á nokkurra klukkutíma fresti. Nú er slúðrið komið á fullt varðandi lánssamning á Gerard Deulofeu, sem er samningsbundinn Barcelona. Það verður spennandi að sjá hvort það verður eitthvað úr því — það sem maður hefur séð af honum hingað til lítur mjög vel út.

Executioner’s Bong fjallaði annars í greiningu sinni um nýju mennina Alcaraz og Robles og hvað þeir hafa fram að færa en margt athyglisvert kom fram þar. Stutt yfirlit yfir það hér:

Antolín Alcaraz

Alcaraz er réttfættur miðvörður með töluverða reynslu. Hann les leikinn vel og er „composed“ þegar hann er með boltann. Hann er líkari og því líklegri til að skipta út Heitinga heldur en Distin eða Jagielka en hann hefur það fram yfir þá tvo síðarnefndu að hann er mun betri að senda boltann (84% pass completion). Sendingarnar er þó styttri að meðaltali (meðallengd 20 metrar, Distin 24m og Jags 27m). Mér sýnist reyndar á vídeó sem ég sá af honum að hann á það til að taka stutt þríhyrningaspil við samherja að hætti Baines og bregða sér í sókn (sem er eitthvað sem maður sér Jagielka og Distin ekki gera). Interceptions-tölfræði hans var sú þriðja besta í deildinni tímabilið 2011/12 og hann var í 8. sæti tímabilið 12/13. EB bentu á að Distin og Jags hafa vinninginn þegar kemur að því að hreinsa boltann (clearances) en benda á að það geti verið vegna þess að Wigan og Everton spila ólíkan bolta (Everton vanir að pressa framarlega en Wigan liggja aftar). Hann er auk þess sveigjanlegur þegar kemur að því að breyta leikskipulagi en hann ræður vel við miðjustöðuna í þriggja manna vörn og sem vinstri eða hægri miðvörður í fjögura manna vörn, þó hann sé líklegri til að vera sá hægri. Martinez á það til að stokka upp og fara úr 3-4-3 yfir í 4-3-3, 4-1-4-1 eða jafnvel 2-5-3 og Alcaraz hefur alltaf aðlagast vel að þeim breytingum.

Hægt er að benda á að tölfræðin í vörninni hjá Wigan var slæm (eins og búast má við af liði í fallbaráttu) — fengu 1,7 mörk á sig í leik að meðaltali síðustu tvö ár (135 mörk í 76 leikjum). Það er þó rétt að benda á að í leikjum án Alcaraz fengu þeir 2,0 mörk á sig en 1,4 þegar hann spilaði, þannig að hann hafði greinilega mjög jákvæð áhrif á vörnina. Og það sem meira er, hann spilaði mikilvægu leikina þegar Wigan fékk ekki á sig mark í fræknum sigrum á Anfield og Emirates, sem og sigri á United (sem hélt þeim uppi í fyrra) og að ekki sé minnst á FA bikarúrslitin gegn City.

Veikleikar hans virðast vera að skapið gæti hlaupið með hann í gönur (fékk meðal annars bann fyrir að slá Lucas Leiva í Copa America) en hann fær að meðaltali spjald í fimmta hverjum leik, sem er svo sem ekkert svakalegt. Þeir hjá EB benda þó á að Distin og Jags eru þrisvar sinnum ólíklegri en hann til að missa manninn fram hjá sér í stöðunni „einn á móti einum“, en gáfu ekki upp tölfræðina þannig að það er erfitt að meta hvort það sé vegna þess að erfitt var að komast fram hjá Distin og Jags (sem það er) eða auðvelt að komast framhjá Alcaraz.

Á heildina litið sýnist mér þetta vera no-brainer. Hann er ókeypis og er þekkt stærð, maður sem Martinez veit hvað getur og getur treyst. Kannski þýðir þetta að Heitinga verður seldur en þá væri hægt að nýta þá fjármuni til að styrkja aðrar stöður.

Joel Robles

Joel er ungur og hávaxinn markvörður (Robles 195 cm vs Howard 187 cm) sem ætti að hjálpa til í hornunum en Everton fékk á sig næst flestu mörkin úr hornum á tímabilinu sem var að líða. Hann er snöggur niður og verst vel bæði með höndum og fótum. Hann höndlar pressuna vel í stórum leikjum (eins og t.d. sigurinn í FA bikarúrslitunum sýndi) og átti auðvelt með að aðlagst ensku deildinni. Hann er með reynslu úr öllum landsliðsflokkum Spánar (frá U16-U23). Hlutfallslega eru sendingar (stuttar og langar) sem tókust færri en hjá Howard og hann hélt sjaldnar hreinu en Howard, en það er erfitt að segja hvernig hann kæmi til með að standa sig með alvöru vörn fyrir framan sig. Þeir hjá EB bentu á að eini gallinn hans meðan hann var hjá Wigan hefði verið að hann hefði ekki skipulagt vörnina fyrir framan sig nógu vel en bentu jafnframt á að hann hefði ekki haft miklu úr að moða þar.

Hægt er að sjá vídeó af honum hér.

Niðurstaða Executioner’s Bong: Hvorugur á eftir að safna verulegum fjölda stiga fyrir Everton á tímabilinu, en báðir eru góður og ódýr kostur fyrir liðið og koma til með að auka baráttuna í liðinu meira en Heitinga og Mucha gerðu.

7 Athugasemdir

  1. Ingi Þór Eyjólfsson skrifar:

    nú berast fréttir um að Gerard Deulofeu frá Barcelona sé kominn á láni út leiktíðina. #spennandi

  2. Halldór skrifar:

    Líst virkilega vel á þetta. Hækka lægsta levelið í búningsklefanum og loksins er hægt að halda sér rólegum þegar vörnin þarf að róterast.

  3. Finnur skrifar:

    Deulofeu er kominn!
    http://everton.is/?p=4873

  4. Halli skrifar:

    Spennandi tímar

  5. Baddi skrifar:

    Bjartur vetur framundan strákar.

  6. þorri skrifar:

    Martínes hann er að breikka aðeins hópinn hjá okkur, það er mjög gott. Og líka að fá þennan Spánverja lánaðan, ég held að það verði mikill plús. Annars er ég mjög spenntur fyrir næsta tímabili. Nýr stjóri og nýir leikmenn. Mig hlakkar mikið til að ég get ekki beðið eftir því að hitta félagana á ölveri í vetur. Ég er mjög bjartsýnn á tímabilið. Verðið þið ekki í Ölveri eins og venjuega? Kveðja Þorri. Evertonmaður.

  7. Finnur skrifar:

    Jú, ég á ekki von á öðru en að við mætum á Ölver á flesta leiki.