Næstu skref

Mynd: Everton FC.

Nú þegar Arouna Kone (sjá myndasafn) er kominn í hús fer fólk að spyrja hver sé næstur inn. Sky Sports hefur farið mikinn undanfarið og lýst því yfir að miðvörðurinn Antolin Alcaraz sé við það að skrifa undir tveggja ára samning og sé í dag í læknisskoðun á Goodison Park. Þeir (hjá Sky Sports) vilja einnig meina að Martinez sé við það að ráða Dennis Lawrence frá Wigan inn í þjálfarateymið og þar á undan voru þeir með frétt að CSKA Moskva væri til í að selja stjörnu sína, miðjumanninn Keisuke Honda sem Everton hefur verið orðaðir við. Erfitt að segja hvort nokkuð sé til í þessu, sjáum hvað setur.

Ýmsir aðrir hafa verið orðaðir við Everton undanfarið: miðjumaðurinn Clement Chantom (PSG), kantmaðurinn Victor Moses (Chelsea), markvörðurinn Joel Robles (Atletico Madrid), miðjumaðurinn Mohamed Diame (West Ham), kantmaðurinn Nathan Dyer (Swansea), miðjumaðurinn Aaron Ramsey (Arsenal), miðjumaðurinn Victor Wanyama (Celtic) og sóknarmaðurinn Gerard Deulofeu (lán frá Barcelona). Einnig var rætt um að Martinez hefði hafnað tilboði í Naismith.

Fyrsti æfingaleikurinn nálgast óðfluga en hann er 14. júlí við Austria Vín en leikmenn héldu flestir til Austurríkis í æfingabúðir í dag. Leikjaplanið lítur því svona út (sama leikjaplan og auglýst var síðast hér á everton.is, nema hvað Real Betis bætist við í lokin og tímasetningar orðnar klárar á sumum leikjum):

Austria Vín – 14. júlí, kl. 16:00.
Accrington Stanley – 17. júlí, kl. 18:45.
Blackburn Rovers – 27. júlí, kl. 13:00
Juventus – 31. júlí, kl. 19:00.
Real Madrid/LA Galaxy – 3. ágúst, tími dags auglýstur síðar.
Chelsea/Valencia/Inter/AC Milan – 6./7. ágúst, tími dags auglýstur síðar.
Real Betis – 11. ágúst, kl. 14:00.

Það er svo sem ekki mikið að frétta af liðinu annað en klúbburinn gaf út nokkur viðtöl við þá sem eru þar viðloðnir:

– Aðstoðarstjórinn Jones ræddi um hvernig stjóri Martinez er og þær aðferðir sem hann beitir.
– Tim Howard var tekinn fyrir í My Likes þáttaröðinni. Sjá hér.
– Andy Gray spáði því að Kevin Mirallas ætti eftir að taka Úrvalsdeildina með trompi á þessu tímabili sem er að hefjast og velti fyrir sér hvort hann hefði sama hlutverk innan liðsins og þegar Moyes var við stjórnvölinn.
– Graeme Sharp ræddi um aðstoðarmennina nýju sem komu inn og hversu miklu máli skiptir fyrir nýjan stjóra að taka með sér teymi sem hann treystir.

4 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Athyglisvert. Það er búið að uppfæra Wikipediu og segja að Alcaraz sé búinn að skrifa undir hjá Everton og nú berast fréttir frá Spáni um að markvörðurinn Robles sé einnig búinn að því…
    http://www.nsno.co.uk/everton-news/2013/07/robles-joins-the-blues/

    Afsakið meðan ég klóra mér í hausnum og bíð staðfestingar… 🙂

  2. Elvar Örn skrifar:

    Já ég held að Alcaraz verði tilkynntur sem Everton leikmaður á næstu klukkustundum.
    http://www.toffeeweb.com/season/13-14/news/25080.html?

    Svo væri ég mjög til í að fá Honda í liðið.

    Er allt í einu allt komið á fullt hjá Everton, hmmm.

  3. Finnur skrifar:

    Allt að gerast. Sjá: http://everton.is/?p=4844