Eru línurnar að skýrast?

Mynd: Everton FC.

Maður er alltaf að leita eftir því að línurnar fari að skýrast eitthvað fyrir næsta tímabil, en erfitt er að átta sig á sögusögnum í fréttamiðlum hver er á leið út og hver ekki.

Fellaini var mikið á milli tannana á fólki — átti að vera á leiðinni til Arsenal og ég leiddi það hjá mér því formúlan á bak við fréttina var svo fyrirsjáanleg: 1) Kenwright nýbúinn að viðurkenna að Fellaini sé með klásúlu í samningi sínum. 2) Það er kominn nýr stjóri hjá Everton og því breytingar framundan. 3) Það er silly season núna. Af þessu þrennu leiðir að kominn er góður grunnur í slúðurfrétt. Látum hjólið snúast og örin stoppar á… Arsenal! Skrifum um það. Það má vel vera að þetta sé satt og rétt, en miðað við fyrri sögusagnir blaða (síðast var það United og þar á undan Chelsea) er ekki mikið tilefni til að ætla að það sé sannleikskorn í þessu. Martinez lítur þetta svipuðum augum og Moyes gerði: Þetta er bara hrós fyrir Fellaini fyrir vel unnin störf.

Ljóst er að Martinez ætlar ekki að hrófla við þeirri ákvörðun að láta Phil Jagielka taka við fyrirliðabandinu á næsta tímabili og samherjar Jagielka eru kátir með það. Jagielka er með hausinn á réttum stað og segist reiðubúinn (sjá viðtal). Ljóst er að Martinez lítur jafnframt á Baines sem fyrsta valkost í vinstri bakvarðarstöðunni en sagt var að til stæði að framlengja samninginn við hann.

BBC tilkynnti að David Weir, núverandi varaliðsþjálfari Everton, væri að fara að taka við Sheffield United, en það hefur ekki verið staðfest (uppfært 10. júní 2013: Það var staðfest í dag). Það er ekki vegna þess að hann er óvelkominn undir Martinez þar sem Martinez sagðist vera spenntur fyrir því að sjá Neville, Weir og Stubbs áfram hjá klúbbnum í þjálfurnarstöðum. Annars er (mér allavega) ekki ljóst hverjir (ef einhverjir) úr þjálfarateymi Wigan fylgja Martinez.

Nokkrir leikmenn hafa verið orðaðir við Everton að undanförnu: Til dæmis Arouna Kone hjá Wigan (væntanlega þar sem Whelan, stjórnarformaður Wigan, sagði að Martinez væri frjálst að bjóða í leikmenn Wigan), Leroy Fer (næsta skref í „Fellaini er að fara“ sögusögnunum) og Victor Moses (sem Martinez þekkir vel). Tökum því öllu með fyrirvara.

Af öðru er það að frétta að klúbburinn stóð fyrir Captains Week þar sem tekið var viðtal við ýmsa um undanfarin fyrirliðatímabil Everton, til dæmis tímabil StubbsRatcliffeWeir, og U21 árs fyrirliða okkar Duffy, sem margir vilja sjá fá fleiri tækifæri í vörninni undir Martinez.

Fram kom viðtal við Bellamy þar sem hann sagðist næstum hafa farið til Everton en að Moyes hefði bætt við undarlegum kröfum í samninginn á síðustu stundu, eins og að hann mætti alls ekki hrista höfuðið þegar hann tæki við skipunum inni á velli og að hann yrði að tala við sig fyrst þegar honum lægi eitthvað á hjarta. Veit ekki alveg hvað ég á að halda um þá frétt…

Klúbburinn tilkynnti jafnframt að verið væri að uppfæra grasflötina á Goodison Park með því að setja upp Desso Grassmaster kerfið, þar sem gervigras er ofið inn í náttúrulegt gras sem á að hjálpa vellinum að vera í toppformi lengur en bara yfir sumartímann. Þetta er meðal annars notað víðs vegar á völlum Úrvalsdeildarliða í Englandi, sem og á Wembley og var einnig notað í heimsmeistarakeppninni í Suður Afríku.

1 athugasemd

  1. Ari S skrifar:

    Ég er ánægður með að félagið skuli ætla að bjóða Baines kauphækkun. Talað er um 65þ. pund á viku. Það er nóg fyrir mig í bili….. þessar fréttir sko….. 🙂