Af landsliðsmálum

Mynd: Everton FC.

Baines og Osman spiluðu báðir með enska landsliðinu gegn San Marino í leik sem endaði með stórsigri Englendinga, 8-0 á útivelli. Baines var í byrjunarliðinu, lagði upp þrjú af mörkum Englendinga og þótti fantagóður — svo góður að Goal tímaritið sagði að hann ætti að vera fyrsti valkostur í vinstri bakvörðinn með enska landsliðinu. Nokkuð sem við höfum vitað um nokkurt skeið. Osman kom inn á snemma í seinni hálfleik í sínum fyrsta keppnisleik með landsliðinu og þótti standa sig ágætlega. Baines fékk 7 í einkunn frá Sky Sports, Osman 6 en aðeins Oxlade-Chamberlain var með hærri einkunn en Baines í leiknum. Englendingar leika við Montenegro á morgun.

Fellaini lék allan leik Belga gegn Makedóníu (Mirallas á bekknum) en Belgarnir unnu leikinn 2-0. Stjóri Belga var þakklátur Everton í viðtali fyrir að gera Fellaini að einhverjum mikilvægasta leikmanni Belga og sagði jafnframt að Mirallas væri frábær leikmaður sem ætti enn eftir að bæta sig. Hann var ánægður þegar hann heyrði að Mirallas hefði skipt yfir í Everton á sínum tíma þar sem það „myndi reynast sterkur leikur fyrir alla hlutaðeigandi“.

Af öðrum landsleikjum er það að frétta að Hollendingar (Heitinga) unnu Eista 3-0, Króatar (með Jelavic á bekknum) unnu Serba 2-0, Írar (Coleman) gerðu jafntefli við Svíþjóð á útivelli 0-0 en Skotar (Naismith á bekknum) töpuðu fyrir Wales 1-2. Stjóri Íra, Trappatoni, hrósaði Coleman í hástert fyrir framlag hans í leik Íra. Kosta Ríka (Oviedo) töpuðu einnig fyrir Bandaríkjunum 1-0 (Howard meiddur). Enginn leikmaður Everton meiddist þó í landsleikjunum, svo vitað sé.

Þrír Everton leikmenn léku með landsliði Englands U19 ára gegn Tyrkjum U19 sem fór 1-0, Englandi í vil. Everton leikmennirnir þóttu allir standa sig vel, en þó sérstaklega Tyias Browning, sem hefur leikið sem hægri bakvörður en var færður í miðvörðinn fyrir leikinn.  Yfirþjálfari Englands U19, Noel Blake, sagði að leik loknum að þetta væri í fyrsta skipti sem hann hefði unnið með Tyias Browning og að hann hefði „staðið sig mjög mjög vel“. Kannski mun hann reynast framtíðarmiðvörður fyrir Everton. Kantmaðurinn, Matthew Kennedy, sem keyptur var nýlega átti einnig góðan leik með Skotum U19 gegn Svíum en þeir lentu 2-0 undir en náðu þó að vinna 3-2. Fyrsta mark Skotanna kom eftir hornspyrnu frá Kennedy og var sjálfsmark.

Fleiri landsleikir eru á döfinni. Ef ykkur leiðist að bíða eftir næsta Everton leik má rifja hér upp markið sem Jelavic skoraði á móti Englandsmeisturunum í síðasta leik. Og fyrst rætt var um Osman hér að ofan er gaman að rifja upp sigurmark hans í FA Youth Cup árið 1998.

4 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Og í dag er síðasti séns að skrá mætingu með okkur í Bjórskólann.

    Sjá nánar: http://everton.is/?p=4189.
    Til að skrá sig: https://docs.google.com/forms/d/106ygo-76fZiFj9p4e3koJ110qoDuNX9XubmnkRNhMhE/viewform

  2. Elvar Örn skrifar:

    Það verður gaman að horfa á leik Englendinga í kvöld og vonast maður til að Baines eða Osman taki þátt.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Einhver sem fellur fyrir þessu enn eina ferðina???
    http://www.liverpoolecho.co.uk/everton-fc/everton-fc-news/2013/03/28/100252-33081476/?

  4. Ari S skrifar:

    við þurfum ekkert að falla fyrir neinu Ingvar minn … gerðu bara eins og ég … 🙂

    Að segja bara „yeah right“ og vona það besta.

    Það var nú samt flott hj+a kallinum að segja að Everton stuðningsmenn vildu ekki neinn annann Bill Kenwright heldur alvöru aðila. Jafvel þú Ingvar hlýtur að getað samsinnt þessu og verið happy með kallinn fyrir þessi ummæli ?

    kær kveðja,

    Ari