Everton vs. Reading

Mynd: Everton FC.

Áður en við fjöllum um leik helgarinnar er rétt að minna á ferðina á Goodison Park sem skipulögð er í apríl (25-28 apríl) að sjá Everton taka á móti Fulham. 15 manns hafa staðfest komu sína, þar af 13 keypt flugmiða með EasyJet og er meiningin að fara út á fimmtudegi (25. apríl) og fljúga til baka morguninn eftir leik (sunnudaginn 28. apríl). Fimmtudagurinn er frídagur (sumardagurinn fyrsti) þannig að ekki þarf að taka nema einn dag í frí frá vinnu og ekki skemmir fyrir að þegar síðast var athugað var verð á flugi+hótel+miði á leikinn ekki nema rétt tæpar 65 þúsund krónur. Meiningin er að panta skoðunarferð um Goodison Park fyrir þá sem hafa áhuga, sem ætti að kosta innan við 2þ krónur per mann. Allir í hópnum hafa staðfest mætingu í það. Allar nánari upplýsingar um ferðina er að finna hér. ATH: Ef þú hefur áhuga á að koma með ekki bíða með að staðfesta komu því eftir nokkra daga er meiningin að kaupa miða til að freista þess að hópurinn sitji sem mest saman. Líkur á því minnka eftir því sem lengur er beðið. Athugið einnig að fjöldi ferðalanga stendur, eins og er, á oddatölu sem þýðir að hér er tækifæri fyrir einn stakan ferðalang í viðbót að spara sér hótelkostnað.

En þá að leik helgarinnar en Everton mætir Reading í næsta leik — í deildinni, á heimavelli kl. 15:00 á laugardaginn. Everton tapaði fyrir Reading á þeirra heimavelli 2-1 og fylgdi sá leikur svipuðu mynstri og við höfum séð allt of oft á tímabilinu. Everton algjörlega dómineraði fyrri hálfleikinn (með boltann 70%) og átti 9 skot á markið gegn _engu_ hjá Reading. Everton hefði getað gert út um leikinn svo mörgum sinnum í fyrri hálfleik en skoraði þó bara einu sinni (sjá mynd) og hefði með réttu getað fengið eitt ef ekki tvö víti. Í seinni hálfleik fór að síga á ógæfuhliðina því Reading náði að setja mark upp úr aukaspyrnu og Coleman gaf svo víti. Reading náði þar með að stela sigrinum á mjög svo ósanngjarnan hátt. Everton fær hins vegar tækifæri til að bæta upp fyrir þau mistök.

Af meiðsladeildinni er það að frétta að Fellaini er sagður ekki mikið meiddur og mjög líklegur til að ná leiknum við Reading — og ef ekki þeim leik þá pottþétt bikarleiknum gegn Wigan. Aðrir sem gætu verið frá eru Anichebe og Hibbert. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Pienaar á vinstri, Mirallas á hægri, Gibson og Osman á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Hjá Reading er Pavel Pogrebnyak í leikbanni og Danny Guthrie, Alex McCarthy og Jason Roberts allir meiddir.

Mirallas missti af útileiknum við Reading vegna meiðsla en maður hlakkar til að sjá hvernig hann reynist gegn Reading en hann og Coleman náðu mjög vel saman á hægri kantinum í síðasta leik. Jelavic, aftur á móti, verður að fara að komast almennilega í gang svo Everton hafi möguleika á að velgja liðunum fyrir ofan sig aðeins undir uggum. Það eru erfiðir leikir framundan, sem virðist henta Everton liðinu ágætlega en Everton getur ekki til lengdar reitt sig á að 10 mismunandi menn skori mark, eins og í FA bikarnum á tímabilinu.

Spái 2-1 sigri Everton. Reading yfir í fyrri hálfleik en Jelavic með bæði í seinni. Hver er ykkar spá?

Í öðrum fréttum er það helst að leikjaplanið hjá Everton breyttist nokkuð við sigurinn á Oldham í FA bikarnum á dögunum en deildarleiknum við Arsenal (sem átti að fara fram þann 9. mars) hefur verið frestað til 16. apríl. Í staðinn kemur bikarleikurinn við Wigan (þann 9. mars kl. 12:45) og ef Everton vinnur þann leik verður leikurinn við Arsenal færður aftur um einn dag í viðbót (til 17. apríl). Þess má til gamans geta að undanúrslitin í FA bikarnum (ef Everton kemst svo langt) verða leikin þann 13. apríl og úrslitaleikurinn svo þann 11 maí.

8 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    1-1. Ef lið eru í basli, eins og Reading er þá er alltaf gott að eiga inni leik við Everton þar sem við eru alveg einstaklega góðhjartaðar sálir.

  2. Ari S skrifar:

    5-0 fyrir Everton, ekki spurning 🙂

  3. Ari S skrifar:

    Og Jelavić setur 3 mörk.

  4. Finnur skrifar:

    Ég verð á nálum allan leikinn. 🙂

  5. Halli skrifar:

    Ari ég ætla að vona að við sjáum sama leikinn. Mín spá 3-1 jela, pienaar og coleman

  6. baddi skrifar:

    Öruggur 3 0 sigur okkar manna Jelly 2 og Mirallas 1.Sjaumst allir hressir a Ölver

  7. Gunnþór skrifar:

    vel gert staðan 3-0 fyrir everton snild