Bolton í bikar; Ungliðar byrja vel í deild

Mynd: Everton FC.

Komið er í ljós hverjum Everton mæta í 4. umferð FA bikarsins því Bolton gerði sér lítið fyrir og sigraði Úrvalsdeildarlið Sunderland í dag, 0-2, í endurteknum leik. Leikur Everton í 4. umferð verður því spilaður þann 26. janúar á heimavelli Bolton. Persónulega hefði ég frekar viljað Sunderland þar sem Everton hefur ekki tapað fyrir Sunderland í heilan áratug og leikirnir við Sunderland yfirleitt skemmtilegri leikir en það þýðir ekki að deila við dráttinn, frekar en dómarann.

En þá að ungliðunum en Everton U21 árs liðið lék gegn Blackburn, í sínum fyrsta leik (á seinni fasa tímabilsins), og sigraði auðveldlega, 3-0, með mörkum frá Conor McAleny, Francisco Junior og  John Lundstram. Everton endaði fyrri fasann í 4. sæti í sinni deild, einu stigi og markatölu frá því að enda í Elite Group og spilar því í hóp nr. 2. Sjá lokaniðurstöðu hér. Everton hefur þó byrjað seinni fasann með látum, eins og áður sagði, og er því efst í sínum riðli eftir aðeins einn leik (þrjú lið eiga þó eftir að spila leik). Seinni fasinn nær frá janúar fram í apríl en þá er komið að undanúrslitum og valið eftir frammistöðu í deildunum. Þrjú efstu liðin í Elite group fara beint í fjögurra liða úrslit en efsta liðið í hópi 2 (sem Everton er í) og hópi 3 mætast. Sigurvegarinn í þeirri umferð verður fjórða og síðasta liðið sem fylgir Elite liðunum þremur inn í undanúrslitin um Englandsmeistaratitil U21 árs liða. Everton þarf því að vinna riðilinn og vinna umspilið.

U18 ára liðið átti að spila við Port Vale í 5. umferð bikarkeppninnar en leiknum var frestað vegna frosins vallar. Sama fyrirkomulag er á þeirra deildarkeppni (og á U21 árs liðinu) en þeir stóðu sig nógu vel til að ná inn í Elite group. Þeir léku sinn fyrsta leik í dag þar og sigruðu Reading U18 3-2 á heimavelli. Þess má geta að Reading U18 er liðið sem vann riðilinn sem Everton U18 keppti í á fyrri fasa tímabilsins. Sjá lokaniðurstöðu fyrri fasa hér og stöðuna í seinni fasanum hér en þar er Everton einnig efst í sínum riðli (eftir aðeins einn leik).

George Green, eitt af ungstirnunum úr akademíunni — sem upp úr áramótum varð 17 ára — og skrifaði þar með undir sinn fyrsta atvinnumannasamning hjá Everton, var valinn í U18 ára hóp Englands. Þessi efnilegi miðjumaður kom til Everton frá Bradford þegar hann var 15 ára og var aðeins nokkrum mánuðum síðar valinn í U16 ára lið Englands. Hann er nú í U18 ára hópnum sem leikur á Algarve mótinu í Portúgal í næsta mánuði.

Af félagaskiptaglugganum er lítið sem ekkert að frétta nema vangaveltur blaðamanna. Engar fréttir góðar fréttir, svo sem. Helst að Everton þurfi bara að hafa alla leikmenn heila. Myndi alveg þiggja einn eða tvo lánsmann en sjáum hvað setur.

3 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    FA bikarinn er með Everton tag á sér fyrir 2013

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hefði frekar viljað fá Sunderland.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Vinnum bara helvítis dolluna og málið er dautt. Nei segi bara svona, mér finnst alveg kominn tími á að við vinnum eitthvað og erum reyndar með liðið í það í dag tel ég, þá amk bikarkeppnina.
    Ég var nú bara 6-7 ára þegar ég byrjaði að halda með Everton og er aðeins eldri í dag en man vel eftir því þegar við unnum nokkra englandsmeistaratitla já og urðum evrópumeistarar bikarhafa. Unnum við ekki seinast 1995 FA bikar gegn M.United?, en það eru nú orðin 18 ár síðan og líklega um 28 ár síðan efsta deildin vannst seinast.
    Þegar við komumst í bikarúrslitaleikinn gegn Chelsea fyrir 3,5 árum síðan þá átti ég nokkra miða á leikinn en varð að gefa þá frá mér því konan var að fæða tvíbura (ég veit, léleg ástæða).
    Nú er engin afsökun að fara ekki á úrslitaleik í FA (ef Everton kemst þangað) nema það að við erum um 8 Everton félagar að fara á Goodison þar sem Everton tekur á móti Fulham í Apríl, líklega nokkrum vikum fyrir úrslitaleik.
    En sjáum til 🙂

    Já og góðar fréttir, Mirallas er byrjaður að æfa, er alveg óþægilega hrifinn af þeim leikmanni.