Everton vs. Swansea

Mynd: Everton FC.

Everton tekur á móti Swansea á morgun (lau) klukkan 15:00 á heimavelli. Þessi viðureign er forvitnileg sökum þess að liðin hafa aðeins 16 sinnum mæst frá upphafi en Swansea hefur aldrei unnið Everton. Þar af hefur Everton unnið 12 af þessum viðureignum, þar af fimm leiki á eigin heimavelli en sjö (!) á útivelli (fjórum sinnum jafntefli). Everton náði tvennu á móti þeim á síðasta tímabili, 1-0 heima og 0-2 úti og gerði svo enn betur á útivelli á þessu tímabili og vann 0-3. Everton er jafnframt eina liðið sem hefur unnið alla sína leiki gegn Swansea í Úrvalsdeildinni og það án þess að fá á sig mark. Vörn Everton hefur þó verið nokkuð lek undanfarið þannig að það er ekki víst að það haldi áfram. Everton menn hafa skorað í 18 síðustu deildarleikjum (20 með bikarleikjunum) og fengið á sig mark í 16 leikjum í röð (18 með bikarleikjum). Þetta ku vera félagsmet í (allavega) Úrvalsdeildinni hjá Everton.

Swansea eru í 9. sæti eftir 21 leik með 29 stig en Everton í 5. sæti með 36 stig (eftir jafn marga leiki). Sigur í leiknum myndi færa Everton upp í 4. sæti með möguleika á 3. sæti á markatölu. Tap myndi væntanlega þýða að Arsenal (og ólíklega WBA) kæmust kannski upp fyrir Everton.

Swansea vann Chelsea á útivelli í sínum síðasta leik (deildarbikar) en þar á undan gerðu þeir töluvert af jafnteflum (fjórir leikir af fimm). Þeir eru þar með taplausir í 6 leikjum, með hlutföllin 2:4:0 (S:J:T). Everton tapaði síðasta heimaleik gegn Chelsea sem var fyrsti tapleikurinn heima síðan í mars í fyrra og leikmenn væntanlega staðráðnir í að láta það ekki vera tvo tapleiki í röð heima. Eftir langa röð jafnteflisleikja var Everton komið á beinu brautina og hefur nú unnið 5 af síðustu 7 leikjum (5:1:1 í S:J:T).

Það hjálpar svo ekki Swansea í þessum leik að þeir áttu erfiðan bikarleik í miðri viku (Chelsea) og eiga annan erfiðan bikarleik í miðri næstu viku (Arsenal á útivelli í FA bikarnum) þannig að þeir gætu þurft að hvíla eitthvað af mannskap gegn okkar mönnum. Neil Taylor er sá eini hjá þeim sem staðfest er að sé meiddur og BBC taldi að svo gæti farið að allavega miðjumaðurinn Leon Britton yrði hvíldur. Greining Executioner’s Bong á Swansea er hér en hún sýnir að Swansea hafa bætt sinn leik nokkuð síðan þær fengu sér öflugri stjóra.

Hjá okkur hefur Baines verið að spila undanfarið þrátt fyrir ökklameiðsli og Gibson og Hibbert verða frá vegna meiðsla. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Miðjan: Osman og Neville. Pienaar á vinstri. Anichebe (eða mögulega Naismith) á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Ef annaðhvort Baines eða Pienaar eru meiddir tekur Oviedo þeirra stöðu. Kevin Mirallas er sagður á batavegi og gæti náð á bekkinn og fengið nokkrar mínútur í lokin.

Þess má geta að Baines varð fyrsti leikmaður Everton til að skora í þriðju umferð FA bikarsins fjögur ár í röð og þessi leikur var jafnframt fyrsti leikur sem Everton skorar gegn andstæðingum sínum úr báðum bakvarðarstöðunum (Baines og Coleman). Gaman að því! 🙂

Osman hefur verið áberandi í leikjum með Everton undanfarið og staðið sig mjög vel. Hann hefur einnig verið áberandi í fréttum frá félaginu (sjá m.a. viðtal hér) en á laugardaginn verða 10 ár (og 356 leikir) síðan Osman lék sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið. Hann hefur verið hjá klúbbnum núna í um 20 ár því hann er uppalinn hjá félaginu og var í U11 ára liði Everton. Margir hafa hrósað honum fyrir frammistöðu sína í undanförnum leikjum, nú síðast Ray Hall sem þjálfaði hann á yngri stigum. Mjög gaman að sjá leikmenn enn þann dag í dag tileinka feril sinn einu félagi, sérstaklega þar sem tíðarandinn hefur breyst en leikmenn virka stundum eins og málaliðar sem hoppa milli hæstbjóðenda í stað þess að sýna félagi sínu hollustu. Hægt er að sjá fimm flottustu mörki Osmans í bráðskemmtilegu vídeói (hér) og ljósmyndasýningu frá ferli hans (hér). Osman sagði jafnframt að núverandi Everton lið væri besta liðið sem hann hefði leikið með og er erfitt að vera honum ósammála.

En aftur að mörkum: Mark septembermánaðar var markið sem Jelavic skoraði gegn Tottenham en það var valið af um 60% stuðningsmanna.

Lítið er að frétta svo sem í leikmannamálum annað en slúður sem lítið er að marka, að mínu mati. Sagt var að Heitinga væri á leiðinni út en það hefur ekki gerst. Sagt var að búið væri að samþykkja tilboð í Anichebe en Moyes sagði að það væri bull. Heilmikið hefur verið rætt um Fellaini, að sjálfsögðu. Fyrst var sagt að hann væri með samningsklausu svipaða og Demba Ba, nema upp á 20M punda (sem mér finnst heldur lítið). Svo var sagt að hún væri nærri 30M punda. Svo var sagt að sú klásúla gilti aðeins ef lið í Champions League byði í hann en það virtist ekki stoppa fréttamenn í að segja að Chelsea ætlaði að nýta sér klásúluna í janúar (þó þeir séu dottnir út úr Champions League). Segir kannski alla söguna með það hvort eitthvað sé að marka þessar fréttir, líkt og bullfréttirnar í kringum Baines og United í síðasta glugga. Moyes hefur gefið það út að hann sé ekki á leiðinni að kaupa neinn (kannski fá 1-2 að láni) og heldur ekki á leiðinni að selja neinn, þannig að það er líklega ekki von á miklu. Lítið er einnig að frétta af samningsmálum Moyes en hann hefur sagt að hann vilji bíða með samningaviðræður þangað til eftir að glugginn lokar, væntanlega vegna þess að þá er ljóst hvaða hópur klárar tímabilið og hann veit á hvaða sæti Everton getur stefnt.

Og talandi um það… Ross Barkley er farinn að láni til Leeds þó maður hefði fyrirfram talið að hann myndi fara aftur til Sheffield Wednesday en þeir voru sagðir hafa beðið um að framlengja lánið. Ætli þetta þýði ekki að Moyes sé að framlengja samninginn hjá Hitzlsperger allavega fram í næsta sumar. Vinstri bakvörðurinn Jake Bidwell (19 ára) framlengdi einnig lán sitt um annan mánuð hjá Brentford. Hann hefur leikið 27 leiki með þeim nú þegar og hjálpað þeim að komast upp í 4. sæti í C deildinni ensku.

Í öðrum fréttum er það helst að Everton samdi við Southport um að U21 árs liðið spili sína heimaleiki þar en þeir hafa undanfarið notað æfingasvæðið til að spila heimaleikina, sem gefur ekki sömu „leikdags-tilfinninguna“ og ekki var hægt að selja inn á leikina. Dagskrá U21 árs liðsins er annars hér.

Svo mörg voru þau orð. Leikur á morgun, eins og áður sagði. Spái 2-1, Michu kemur Swansea yfir en Fellaini jafnar með skalla og Anichebe innsiglar. Fyrsta mark Everton á morgun yrði 400. mark Everton á Goodison í öllum keppnum undir stjórn David Moyes. Áfram bláir!

5 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Og þetta er ekki fyrr komið upp en tilkynning berst af því að Hitzelsperger fékk framlengingu til loka tímabils…
    http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/01/11/hitzlsperger-to-stay-with-blues

    … og Baines er sagður nógu góður af ökklameiðslunum til að mæta Swansea:
    http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/01/11/baines-set-to-face-swansea

    En að öðru…

    Anichebe er vanmetinn leikmaður að mínu mati. Tölfræðin hans á tímabilinu lítur svona út:

    Orient : 93 mínútur, 1 mark. (bikarleikur)
    W. Brom : 22 mínútur, 0 mörk.
    Newcastle: 53 mínútur, 2 mörk. (tel með löglega markið – dæmt af)
    Swansea : 95 mínútur, 1 mark.
    Leeds : 95 mínútur, 0 mörk. (bikarleikur)
    Southamp.: 17 mínútur, 0 mörk.
    Wigan : 14 mínútur, 0 mörk.
    QPR : 52 mínútur, 0 mörk.
    West Ham : 90 mínútur, 1 mark.
    Wigan: 70 mínútur, 0 mörk.
    Chelsea: 96 mínútur, 0 mörk, 1 stoðsending.
    Newcastle: 39 mínútur, 1 mark.
    Cheltenham: 95 mínútur, 0 mörk, 2 stoðsendingar.

    Þetta gerir 6 mörk og 3 stoðsendingar (9 samtals) í 13 leikjum (mark í rétt tæplega öðrum hvorum leik, þó hann hafi ekki nema í helmingi tilfella fengið að leika allan leikinn!). Hann skorar mark í öðrum hverjum leik og á þátt í marki sem Everton skorar (skorar eða gefur stoðsendingu) í næstum 70% leikja sem hann spilar. Það er ekki hægt að kvarta yfir því.

    Til gamans má geta þess að Wikipedia segir að á hálfu tímabili er Anichebe búinn að jafna það sem Daniel Sturridge gerði (sjá http://en.wikipedia.org/wiki/Daniel_Sturridge) á *þremur* tímabilum með Manchester City (samtals 6 mörk og 4 stoðsendingar í 34 leikjum) og Anichebe er auk þess með betra meðaltal á hálfu tímabili en Sturridge á öllum ferlinum með Chelsea (lánið hjá Bolton meðtalið) en Sturridge átti þátt í fjörutíu og þremur mörkum í 96 leikjum (á þátt í marki í næstum 45% leikja).

    Anichebe vanmetinn? Já, ég myndi segja það… 🙂

  2. Ari S skrifar:

    Alltaf gaman að lesa þetta hjá þér Finnur. En mikið var líka gaman að sjá flottu mörkin hans Osman. City markið og Larissa markið…. stórkostleg mörk… eiginlega voru þau öll flott… takk fyrir mig 🙂

    Áfram Everton 🙂

  3. Teddi skrifar:

    Metnaður í þessum pistli.
    Vinnum 1-0 með marki Distin. 🙂

  4. Halli skrifar:

    2-1 Jelly og Felli

  5. Ari S skrifar:

    4-0 í 400. leiknum. Osman með 1 mark á 10 ára leikafmæli sínu.