Everton – Chelsea 1-2

Mynd: Everton FC.

Everton og Chelsea mættust í dag í síðasta leik ársins og fyrsta hálftímann var eins og bara eitt lið væri á vellinum (Everton). Chelsea átti ekki skot sem rataði á markið á þeim tíma (né svo mikið sem hornspyrnu) og var svolítið eins og þeir væru að spila í halla upp í móti því þeir virtust þurfa að hafa mikið fyrir því að koma boltanum fram og um leið og þeir misstu boltann gekk hann manna á milli Everton manna sem þurftu lítið að hafa fyrir því að komast í sókn. Chelsea í stöðugum feilsendingum og ekki að finna menn, skjóta út af eða láta Everton stela af sér boltanum. Góð barátta og gott sjálfstraust hjá okkar mönnum.

Maður var smeykur fyrir leikinn við útkomuna því uppstillingin gaf til kynna að sjúkralistinn hefði lengst enn frekar og Fellaini, okkar besti maður á tímabilinu, náttúrulega enn að klára bannið sitt. Tvær breytingar voru gerðar á liðinu frá síðasta leik: Heitinga og Naismith inn á fyrir Gibson og Neville sem veita nú Coleman, Hibbert og Mirallas félagsskap á sjúkralistanum. Allir þrír „náttúrulegu“ hægri bakverðir Everton þar með meiddir (Hibbert, Coleman og Neville) og okkar besti miðvörður, enski landsliðsmaðurinn Jagielka, aftur að leysa þar af í neyð — þar sem miðvörðurinn Heitinga vill ekki spila þá stöðu. Og þrír fyrstu kostir Moyes-ar í varnarsinnaða miðjuhlutverkið einnig frá (Gibson, Fellaini og Neville). Uppstillingin: Howard, Baines, Distin, Heitinga, Jagielka (í hægri bakverði). Anichebe á vinstri, Naismith á hægri, Osman og Hitzlsperger á miðjunni og Pienaar fyrir aftan Jelavic frammi.

En áhyggjurnar sem maður hafði hurfu á fyrstu þrjátíu mínútunum því Everton yfirspilaði Chelsea algjörlega, var mun meira með boltann, mun beittari í sóknartilburðum og fékk nóg af færum til að skora 4-5 mörk. Ekkert að gerast hjá Chelsea fyrsta hálftímann. Nákvæmlega. ekki. neitt.

Everton fékk sannkallaða óskabyrjun með marki strax á 2. mínútu þegar Chelsea missir boltann á miðjunni, Osman sendir á Pienaar sem, með varnarmanninn í bakið, sér Jagielka á hlaupum upp hægri kantinn, snýr sér hratt og setur boltann inn fyrir vörn Chelsea upp við hornfána. Jagielka nær boltanum og sendir fyrir á Anichebe sem á skalla í stöngina innanverða og út í teig. Boltinn berst aftur til Pienaar sem á ekki í vandræðum með að klára færið. 1-0 fyrir Everton á innan við tveimur mínútum.

Og Everton fékk fleiri góð færi: Jelavic tók aukaspyrnu nokkuð utan teigs á 8. mínútu. Boltinn sveif yfir vegginn í nærhornið í boga og Cech algjörlega sofandi á verðinum en boltinn því miður í stöngina og út aftur. Chelsea menn stálheppnir en hér hefði staðan átt að vera 2-0.

Á 25. mínútu setti Pienaar Jagielka aftur inn fyrir upp hægri kantinn og Jagielka með sendingu eftir jörðinni til Osman við D-ið og ef Cech hefði ekki verið leiftusnöggur niður til að verja stórglæsilegt skot frá Osman hefði Everton bætt við marki. Hér hefði Everton getað verið komið í 3-0 og Chelsea enn ekki náð skoti að marki.

Chelsea menn byrjuðu aðeins að komast í leikinn á 27. mínútu og áttu skot sem Howard varði vel. Ekki nærri jafn gott færi og þessi þrjú sem Everton fékk en hefði getað farið illa. Everton hefur verið lunkið við það undanfarið að dóminera leiki og fá svo á sig suckerpunch mark í fyrsta færinu sem þeir fá á sig þannig að maður andar alltaf léttar þegar fyrsta færi andstæðinganna (hér eftir um hálftíma leik!) fer forgörðum.

Þeirra fyrsta almennilega færi kom hins vegar á 33. mínútu eftir laglegt samspil inni í teig, sendingu fyrir markið frá hægri nálægt marki — boltinn fyrir markið framhjá mörgum en enginn náði til boltans, hvorki varnarmenn til að hreinsa frá né sóknarmenn til að setja hann í opið markið. Ashley Cole ekki langt frá því, samt. Besta færi Chelsea í fyrri hálfleik.

Chelsea náði upp góðri pressu á þessum kafla en Everton átti skyndisókn á 35. mínútu þar sem Pienaar sendi Jelavic upp völlinn og hann náði að bruna inn í vítateig vinstra megin, hrista af sér varnarmann og ná góðu skoti á markið. Boltinn stefndi í stöngina og inn en Cech reddaði þeim (aftur) með algjörlega frábærri markvörslu. Hvar væru Chelsea án Petr Cech? Fjórða færið sem fer forgörðum hjá Everton í fyrri hálfleik. Þetta blessaða Everton lið verður að hætta að vera svona aumingjagott og fara að drepa þessa leiki fyrir hlé.

Því rétt fyrir hálfleik náðu Chelsea að jafna. Markið einfalt, sending rétt utan teigs hægra megin, hátt á Lampard sem stóð vinstra megin og fékk frían skalla á fjærstöngina, óverjandi fyrir Howard. 1-1 í hálfleik. Óþolandi að horfa upp á þetta trekk í trekk.

Chelsea skipti Cech út af í hálfleik vegna ökklameiðsla (líklega eitthvað gamalt að taka sig upp) og Turnbull kom inn á.

Leikurinn var mun jafnari í seinni hálfleik og liðin skiptust á að hafa yfirhöndina, Chelsea kannski aðeins sterkari á heildina litið en Everton enn að fara illa með góð færi.

Everton lagði kapp á að setja annað mark en fengu á sig skyndisókn á 55. mínútu, boltinn barst til Torres-ar sem var einn á móti Howard en Torres skaut beint í Howard. Torres átti að gera mun betur þar, en… það er svo sem ekkert nýtt.

Jagielka átti á 61. mínútu háa spyrnu aftur fyrir sig utan úr teig sem var næstum farin yfir Turnbull og rétt undir slána en Turnbull vel á verði og greip hann áður en hann fór inn. Howard varði svo langskot frá Torres utan teigs á 66. mínútu. Fínt skot en Howard vandanum vaxinn. Bæði hálffæri upp úr engu en Everton átti næstu tvö alvöru færi.

Osman kom á ferðinni í átt að D-inu á vítateig Chelsea og náði skoti sem svipaði mjög til færisins sem hann fékk í fyrri hálfleik (fast, lágt, nálægt markverði) en útkoman sú sama — Turnbull eldsnöggur að kasta sér niður og varði glæsilega.

Jelavic skapaði frábært skallafæri (eftir góðan undirbúning Baines á 69. mínútu) en setti skallaboltann í slána og út. Turnbull átti engan séns en aðeins tréverkið reddaði Chelsea. Jelavic mjög óheppinn að boltinn skyldi ekki enda í netinu. Og eins og venjulega, þegar manni sýnist þetta vera að koma hjá Everton þá kemur bakslag.

Mark Chelsea kom á 71. mínútu upp úr skyndisókn og var smá heppnisstimpill á því. Jagielka dettur við það að reyna að hreinsa frá og frákastið fer til Mata sem skýtur að marki. Howard ver vel en boltinn berst til Lampard sem stendur fremstur manna — alltof framarlega að því er virðist — þegar boltinn dettur fyrir framan hann einn á móti markverði og hann ekki í miklum vandræðum með að skora. Nema hvað, Jagielka sem hafði ekki náð að standa nógu fljótt upp spilar hann rétt svo réttstæðan. 1-2 fyrir Chelsea og enn og aftur er Lampard að skora gegn Everton — stuðningsmenn Everton verða fegnir að losna við hann — en hann er sagður á leið í burtu frá Chelsea.

Everton búið að fá 6 mjög góð færi til að skora í leiknum en aðeins að nýta eitt þeirra. Og það er náttúrulega ekki hægt að ætlast til þess að vinna leiki gegn Chelsea ef færin nýtast ekki. Björtu punktarnir þó að Everton liðið er nú búið að mæta öllum 5 liðunum fyrir ofan sig og hefur sýnt að það á í fullu tré við öll þessi lið, 2 sigrar (United og Tottenham), 2 jafntefli (Arsenal og City) og Chelsea þar með eina liðið af þeim liðum sem hefur náð að sigra Everton. Og það skrýtna er að í öllum þessara leikja sem stig töpuðust — meira að segja City á útivelli — fannst maður Everton eiga meira skilið úr leiknum…

En fyrsti tapleikurinn heima á tímabilinu staðreynd og sá fyrsti síðan í mars á síðasta tímabili. Með þessari spilamennsku (og spilamennskunni almennt séð á árinu) þá á Everton að ná Evrópusæti í vor en ef 4. sætið á að vera raunhæft verður að fara að nýta færin sem liðið er að skapa. Vonum bara að seinni hluti tímabilsins verði betri en sá fyrri, eins og er yfirleitt raunin með Everton (en þó ekki sjálfgefið). Takk fyrir fylgdina í ár. Gleðilegt nýtt ár!

Howard 7, Baines 8, Distin 7, Jagielka 7, Heitinga 6, Pienaar 8, Osman 7, Hitzlsperger 6, Naismith 6, Anichebe 7, Jelavic 7. Varamenn: Oviedo 6, Barkley 6, Vellios 6. Chelsea var með eina sexu, 6 sjöur, þrjár áttur og eina níu (Lampard náttúrulega).

13 Athugasemdir

  1. Teddi skrifar:

    fuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuuu

  2. Teddi skrifar:

    Það er þó jákvætt að við eigum meiri möguleika á að færa okkur ofar á töflunni á nýju ári. 🙂

    Gangið hægt inn og út um frostþurrkaðar dyr.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Ljósu punktarnir eru þeir að Everton voru betri í dag en það bara dugði ekki til. Við vorum með marga meidda og bekkurinn þunnskipaður. Ótrúleg óheppni að skora ekki fleiri mörk. Heiginga í miðaverði, common, Jagielka á þessa stöðu. Jelavic fannst mér flottur, með skot í stöng og slá m.a.
    Everton vantar stórsigur, kemur hann næst?

  4. Orri skrifar:

    Ég er sammála Elvari,við vorum betra liðið í dag en það er bara ekki alltaf nóg.Enn ég held að það sé bara bjart framundan.

  5. Ari G skrifar:

    Frábær leikur hjá Everton 3 stangarskot þetta er óheppni. Moyes endilega hættu að breyta vörninni hafðu Distan og Jagielka saman. Bæði mörk Chelsea voru frekar klaufaleg annars var leikur Everton frábær bara óheppni að vinna ekki t.d 4:2 hefði verið sanngjarnt.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það hlaut svo sem að gerast fyrr eða síðar að við myndum tapa á heima velli. Sá ekki leikinn en miðað við það sem ég hef heyrt og lesið þá var þetta bara argasta óheppni.

  7. Ari S skrifar:

    Var að vinna í dag og missti af leiknum en fylgdist þó með á livescore og mbl. Ég var hrikalega svekktur eftir þessi úrslit og mig langaði akkúrat ekkert að setjast við tölvuna til þess að lesa um leikinn.

    Er meira að segja búinn að sjá tvær góðar bíómyndir í dag/kvöld (til að dreifa huganum) og er að lesa þetta fyrst núna…. (23:32)

    Enn og aftur takk kærlega Finnur fyrir þessar góðu lýsingar og mér leið betur eftir að hafa séð þetta :

    „Björtu punktarnir þó að Everton liðið er nú búið að mæta öllum 5 liðunum fyrir ofan sig og hefur sýnt að það á í fullu tré við öll þessi lið, 2 sigrar (United og Tottenham), 2 jafntefli (Arsenal og City) og Chelsea þar með eina liðið af þeim liðum sem hefur náð að sigra Everton.“

    Þetta hressti mig aðeins og nú er bara að herða sig upp og taka næstu tvo leiki…. er bjartsýnn á að það takist….. 🙂

    Áfram Everton!

  8. Halli skrifar:

    Mjög sárt að tapa þessum leik mér fannst við hættulegra liðið í dag og náðum að halda sóknaraðgerðum Chelsea alveg niðri og 2 þeirra bestu menn í vetur teknir útaf í dag frekar slakir Mata og Hazard.
    Nú er bara næsti leikur og nýtt ár.

    Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir það liðna. COYB

  9. Einar G skrifar:

    Þetta var blóðugt að tapa þessum leik, en svona er þetta bara. Það er mikið gaman búið að vera að fylgjast með Everton á þessari leiktíð, þó maður vildi náttúrulega skipta út eitthvað af þessum jafnteflisleikjum fyrir sigra, en svona er þetta. Ég vil þakka þér Finnur fyrir alla þessa frábæru pistla og greiningar á síðunni á þessari leiktíð. Bravó og gleðilegt nýtt Everton ár 🙂

  10. baddi skrifar:

    Sorglegt að tapa þessum leik, en Gleðilegt ár allt EVERTON fólk kv Baddi

  11. albert skrifar:

    Þessi leikur var það sem kalla má skemmtun fyrir áhorfendur! Maður stóð á öndinn mest allan leikinn. Vorum mikið betra liðið, en svona er boltinn! Chelsea er sennilega með eitt besta liðið! Að taka þá svona í kennslustund sýnir hvað Everton er gott um þessar mundir. Gleðilegt nýtt á allir.

    • Teddi skrifar:

      Greyið öndin, :o)

      Tökum Newcastle 3-0, Jelavic með öll mörkin.