Man City – Everton 1-1

Þær góðu fréttir bárust fyrir leikinn að Baines væri í byrjunarliðinu. Uppstillingin því: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbert. Osman og Gibson á miðjunni. Pienaar vinstra megin, Naismith hægra megin. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Lee Probert dómari.

Everton byrjaði leikinn af miklu sjálfstrausti og náði að halda boltanum vel og láta hann ganga. Gibson sýndi góða takta fyrir framan vítateig, plataði tvo varnarmenn og ætlaði að skjóta en náði ekki þar sem þriðji maðurinn var kominn í hann. Sendi í staðinn út til hliðar á Naismith sem skaut lausu skoti framhjá.

Á 4. mín var sóknarmaður City næstum kominn inn fyrir einn á móti markverði en Howard vel á verði og var fyrri til boltans. Kolarov fór út af meiddur á nára og Zableto inn á. Bæði lið að banka á dyrnar en náðu ekki að klára með færi. Á 9. mínútu greip Howard fyrirgjöf en rakst á sóknarmann City og lá á eftir. Maður hugsaði það versta en Howard hélt sem betur fer áfram. Sýndist göngulagið samt ekki vera alveg eins og venjulega þar eftir. Hvað um það.

Flæðið gott hjá Everton, boltinn að ganga vel á milli manna og Everton átti í fullu tré við Man City — jafnvel betra liðið ef eitthvað er fyrsta korterið. Á 17. mínútu komst Pienaar inn fyrir vörnina eftir flott þríhyrningaspil við Baines. Hann sendi fyrir mark City og skapaði stórhættu. En City náðu að hreinsa.

Á 19. mínútu kom aukaspyrna frá City (sem þeir áttu ekki að fá) við vítateig Evetrton hægra megin (Pienaar náði boltanum fyrst). Boltinn fyrir markið en City ná ekki skallanum. Útspark. Líklega besta færi City þangað til.

Á 23. mín kom flott sókn hjá City sem endaði með föstu skoti (Nasri að ég held) sem þeirra eigin sóknarmaður (Dzeko) varði (fékk boltann í hausinn). Ekki grátum við það.

Everton hélt áfram að spila flottan bolta eftir þetta og komast inn í vítateig eftir einfalt spil fyrir utan sem skildi City menn eftir en skotið alltaf slakt eða sendingin sem átti að gefa dauðafæri misfórst. Vantaði bara smá einbeitingu til að klára dæmið.

Sú einbeiting náðist loks á 33. mínútu þegar Fellaini skoraði eftir fyrirgjöf frá Baines. Kompany (!) skallaði sendingu Baines áfram á Fellaini sem var í dauðafæri og átti fastan skalla sem Hart varði frábærlega. Fellaini var tilbúinn að taka frákastið og fylgdi vel á eftir og skoraði með lærinu. 0-1 Everton og Everton vel að markinu komnir. Betra liðið fyrstu þrjátíu mínúturnar og City virkaði þunglamalegir og hægir og Everton menn alltaf fljótir að pressa. Fellaini óstöðvandi, eins og venjulega.

Það lifnaði aðeins yfir City við markið en Tevez skallaði að marki og Howard varði mjög vel í horn. Ekkert kom úr horninu hjá City. Osman fékk högg eftir skallaeinvígi við Toure á 38. mínútu en harkaði það af sér.

Dzeko átti skot sem Howard varði frábærlega en Fellaini braut óþarflega af sér innan vítateigs. Víti. Tevez skoraði þar með sitt fyrsta mark gegn Everton, að ég held. Og City virtust auka tempóið enn frekar eftir markið. Þeir höfðu þó ekki erindi sem erfiði í fyrri hálfleik og Everton átti hættulegt færi rétt fyrir lok hálfleiks en Hart vel á verði. Hálfleikurinn endaði því 1-1. Maður er mjög ósáttur við að fara ekki inn í hálfleik marki yfir þar sem vítið sem Fellaini gaf var óþarfi og Everton betra liðið í fyrri hálfleik (!). Sérstaklega þar sem City er yfirleitt betra liðið í seinni hálfleik þessa dagana og gjarnir á að stela sigri í lokin.

Engin breyting á liðsskipan hjá liðunum í hálfleik. Tevez átti skot innan vítateigs strax á 47. mínútu en Jagielka með fæturna fyrir boltanum. Distin næstum búinn að missa Tevez inn fyrir sig stuttu síðar þegar hann náði ekki að hreinsa en reddaði sér fyrir horn. City greinilega að byrja seinni hálfleik betur en þann fyrri, spila hraðar og pressa meira en vörn Everton hélt.

Minna um sóknartilburði Everton fyrstu 15 mínúturnar. Kannski spurning um að lifa af pressuna í upphafi og reyna skyndisóknir og reyna að halda svo uppteknum hætti úr fyrri hálfleik þegar pressuni léttir. Skot frá City á 62. mínútu af löngu færi en beint á Howard. Hætta við mark Everton 2 mínútum síðar en Everton hreinsaði í horn. City allt of mikið með boltann í byrjun seinni hálfleiks en náðu samt ekki að láta reyna á Howard nema einu sinni fram að því.

Everton komst svo í skyndisókn á 67. mínútu sem endaði með frábærri fyrirgjöf frá Gibson en Fellaini rétt missti af skallaboltanum.

Á 71. mín fengu Everton aukaspyrna eftir brot frá Kompany rétt utan teigs. Fyrirgjöf frá Baines, varið í horn en hornið frá Baines mjög slakt. Oviedo inn á fyrir Naismith: kom inn á vinstri kantinn og Pienaar færður til hægri.

Mesta pressu City virtist um það bil að létta á þessum tímapunkti, Everton liðið að komast meira inn í leikinn í seinni hálfleik og byrjað að banka á dyrnar aftur.

Balotelli inn á á 80. mínútu fyrir Dzeko. Lítið um færi en pressan að aukast hjá City aftur. Samt lítið að gera hjá Howard því vörnin hélt. Rólegt hjá Hart líka. City meira með boltann, 54% vs. 46%, en náði ekki að nýta sér það.

Á 87. mínútu kom skyndisókn Everton og Jelavic næstum kominn einn inn fyrir en Zabaleto brýtur á honum rétt utan teigs og fær gult fyrir. Jelavic tók aukaspyrnuna sjálfur og átti fast skot á markið sem Hart ver en snúningurinn veldur því að boltinn skoppar aftur fyrir. Horn. Ætlar Everton að stela sigri rétt undir lok leiks? Nei, það náðist því miður ekki; hreinsað frá úr horninu. Þremur mínútum bætt við en hvorugt lið fékk teljandi færi eftir þetta.

Jafntefli því niðurstaðan og alls ekki hægt að kvarta yfir því enda fá lið sem mæta á heimavöll City og taka af þeim stig. Spilamennskan í fyrri hálfleik var auk þess mjög góð og markið verðskuldað enda Everton betra liðið. Í seinni hálfleik hentu leikmenn City öllu lauslegu í átt að marki Everton en höfðu ekki erindi sem erfiði. Vörnin frábær. Það hefði verið gaman að sjá hvernig leikurinn hefði þróast ef Fellaini hefði ekki gefið þeim vítaspyrnu á silfurfati. 🙂

Everton í 6. sæti eftir leikinn og aðeins þrjú stig í næstu þrjú lið fyrir ofan (Chelsea, Tottenham og West Brom). Ef Everton vinnur Tottenham (næsti leikur á Goodison) og West Brom heldur áfram að tapa þá gæti Everton verið í 4. sæti aftur eftir næstu umferð.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Distin 7, Jagielka 7, Hibbert 7, Pienaar 6, Osman 7, Gibson 6, Naismith 6, Fellaini 8, Jelavic 6. City menn með svipaðar einkunnir, en tveir leikmenn þeirra fengu enga einkunn, e-a hluta vegna.

10 Athugasemdir

  1. Ari G skrifar:

    Vörnin orðinn miklu betri núna. Enn flottur leikur hjá Everton en Everton þarf að fara að vinna leiki til að eiga sjens á 4 sætinu. Næstu leikur skiptir öllu á móti Totten ham gott að Bale er ekki með meiddur. Hvað er að frétta af Miralles?

  2. Halli skrifar:

    Mér fannst varnarvinnan frábær í þessum leik og Howard að spila sinn besta leik í vetur sem að er vel gert. Það er samt orðið þreytt að gera öll þessi jafntefli við hefðum vel getað tekið þennan leik eins leikinn á móti Arsenal þeir tapa svo í dag fyrir Swansea. Næst er bara Tottenham förum bara á fullri ferð í þann leik 3 stig og allir glaðir.

  3. Gunnþór skrifar:

    sammála Ari góðu tíðindinn eru þau að okkar tími fer að koma ef marka má síðustu sex ár erum yfirleitt í neðri hlutanum fyrir áramót en töpum varla leik eftir áramót.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Sá ekki leikinn en miðað við það sem ég hef lesið á hinum ýmsu síðum þá var þetta gefins víti sem shitty fékk. Það virðist vera dagsskipun dómara fyrir hvern leik hjá okkur að gefa okkur ekkert og andstæðingnum það sem hann þarf, sérstaklega ef það er eitt af þessum toppliðum sem við erum að spila við.

  5. Finnur skrifar:

    Greining Executioner’s Bong á leiknum.
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/12/02/tactical-deconstruction-man-city-1-1-everton/
    Skemmtileg lesning, að vanda.

  6. Gestur skrifar:

    skil ekki til hvers var verið að kalla Barkley úr láni, Moyes virðist ekki treysta kauða.

    • Halli skrifar:

      Það er merkilegt líka hjá Moyes að gera bara eina breytingu í leiknum er á sama byrjunarliði 2 leiki í röð á mðvikudegi og laugardegi á sama tíma er Mancini að tala hvað hans lið er þreytt eftir 3 leiki á 7 dögum. Ég tel ekki breytingu á 90 mín plús

      • Finnur skrifar:

        Þetta er líka fullorðins þolþjálfunarprógram hjá Moyes; engin ríkisbubba-afslöppun á frönsku Rívíerunni. 🙂

      • Gestur skrifar:

        ég held að þetta sé að hafa áhrif á hópinn, það eru svo fáir sem fá að taka þátt. Það eru ekki gerðar breytingar nema vegna meiðsla eða leikbanna. Moyes þarf að breyta þessu og gefa fleiri mönnum tækifæri,

        • Elvar Örn skrifar:

          Já ég bara skil ekki af hverju Barkley fær ekki að taka einhvern þátt eftir frábæra frammistöðu þessa tvo mánuði á láni.