Reading – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Reading í dag og uppstillingin kom svolítið á óvart því Thomas Hitzlsperger fékk sinn fyrsta byrjunarleik á kostnað Phil Neville. Mirallas var einnig meiddur þannig að Naismith kom inn á í staðinn fyrir hann. Uppstillingin því: Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman. Á miðjunni Osman og Hitzlsperger. Pienaar á vinstri kanti, Naismith á hægri, Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Það kom svo í ljós að Neville var ekki með þar sem hann þurfti að fara í aðgerð á hné og verður frá í um tvo mánuði. Þetta er skarð fyrir skildi, sérstaklega þar sem hann hefur verið að leysa af í stöðu á vellinum sem hefur valdið vandræðum undanfarið en Neville hefur spilað alla leiki Everton á tímabilinu í fjarveru Gibsons.

Martin Atkinson, dómarinn sem lét Suarez blekkja sig og rak Rodwell út af á Goodison, dæmdi leikinn. „Gefum honum séns“, sagði ég fyrir leikinn, „hann verður að fá tækifæri til að bæta sig“ — sem hann gerði lítillega, verð ég að viðurkenna, en þulurinn hafði á orði undir lok leiks að hallað hefði á Everton í leiknum. Verð ég að vera þar sammála.

Þetta var annars leikur tveggja mjög ólíkra hálfleikja. Everton byrjaði leikinn með látum og fékk tvö dauðafæri strax á annarri mínútu. Í því seinna var Jelavic óvaldaður í teignum með engan nema markvörðinn fyrir framan sig en skýtur yfir markið. Illa farið með gott færi.

Stuttu síðar vildi Naismith fá víti þegar hann fellur í teignum. Enski þulurinn sagði að þetta væri víti því þetta var snerting hjá varnamanni sem fellir Naismith og ekki fór varnarmaðurinn í boltann fyrst. Ég er ekki alveg sannfærður — maður hefur séð þetta gefið en hefði jafnframt verið hundfúll ef þetta hefði verið dæmt víti innan teigs hjá Everton. Hvað um það.

Naismith var annars líflegur í fyrri hálfleik og vann skallaeinvígi rétt utan teigs hjá Reading og skallaði í átt að marki. Varnarmaður Reading skallaði boltann til hliðar í teignum þar sem Jelavic var fljótur að ná til boltans og senda aftur háan bolta fyrir markið. Fellaini með tvo varnarmenn í sér tók boltann á kassann (en ekki hvað?) en boltinn endaði á bak við þvöguna þar sem Naismith var mættur eins og hrægammur, einn á móti markverði með boltann (sjá mynd hér að ofan) og þrumaði honum í netið. 0-1 Everton eftir aðeins 10 mínútna leik. Og yfirburðirnir héldu áfram í fyrri hálfleik en Everton náði ekki að bæta við. Jagielka átti skalla sem var varinn á línu, Osman, Pienaar og Hitzelsperger áttu allir færi sem hefðu getað gefið mark en markið kom ekki.

Rétt fyrir lok hálfleiks kom seinni beiðni Everton leikmanna um víti og það var ekkert annað en vítaspyrna. Varnarmaður ver með hendi eftir skot hjá Jelavic úr góðu færi. Þrír til fjórir Everton menn réttu upp hendi til merkis um að þeir hefðu séð vítið en Atkinson dómari úti á þekju. Eini maðurinn á vellinum sem sá ekki vítið. Arrrg!

Fyrir utan eitt færi sem Reading fékk (þar sem Howard fór í skógarferð og lét tvo varnarmenn eftir að verja markið sem Reading hitti svo ekki á) þá átti Everton átti skilið að vera tveimur til þremur, jafnvel fjórum mörkum yfir í lok fyrri hálfleiks. Everton átti 9 skot á markið fram að þeim tíma (samkvæmt talningu í útsendingu) en Reading ekki eitt einasta skot sem rataði á réttan stað. Everton með boltann 70% fyrri hálfleiks, skv. Sky Sports, miðjan mjög skipulögð og annaðhvort afgreiddi einn miðjumaður Everton sókn Reading með því að stela boltanum eða tveir menn voru strax mættir á hvern Reading mann með bolta — til að drepa sókn Reading strax í fæðingu.

Ég hlakkaði mikið til seinni hálfleiks og taldi von á góðu enda Everton sýnu sterkara liðið í fyrri hálfleik. En eitthvað breyttist — eitthvað mikið — sem gerði það að verkum að Everton átti sinn versta hálfleik sem ég hef séð á tímabilinu. Reading komu mjög ákveðnir til leiks og mark þeirra lá í loftinu. Markið kom á 51. mínútu eftir aukaspyrnu. Einhvern tímann var Everton með eitt sterkasta lið deildarinnar þegar kom að föstum leikatriðum en nú er eins og flest mörk sem andstæðingurinn skorar komi úr föstum leikatriðum. Þetta er fjórði leikurinn í röð, en þrír síðustu leikir voru: Sunderland (eina mark þeirra kom upp úr horni), Fulham (fyrra mark úr aukaspyrnu) og Liverpool (seinna mark úr aukaspyrnu).

Leikurinn opnaðist töluvert í seinni hálfleik og bæði lið áttu færi sem þau náðu ekki að klára. Everton meira í sókn og Reading meira í hættulegum skyndisóknum. Bæði lið sýndu á köflum frábæran varnarleik þar sem síðasti varnarmaðurinn reddaði sínu liði með stórkostlegri tæklingu (Coleman í okkar tilfelli) þegar sóknarmaður var að komast einn í gegn að marki.

Ég kvartaði undan því meðan á leik stóð að Moyes hristi ekki aðeins upp í þessu á 65. mínútu eða svo, en eftir á að hyggja var ekki mannskapurinn á bekknum til að gera það (Mucha, Distin, Duffy, Oviedo, Francisco Junior, Kennedy, Vellios). Meiðslin farin að segja til sín og skortur á breidd liðsins nokkuð að koma í ljós. Vellios kannski sá eini á bekknum sem jók á sóknarþungann og hann kom inn á um leið og seinna mark Reading kom.

Það gerðist á 79. mínútu þegar reynsluleysi Coleman kom honum í koll en hann stökk upp og keyrði í bakið á sóknarmanni Reading og gaf þeim vítaspyrnu. Enginn vafi á þeim vítaspyrnudómi en nú sveið það mjög mikið að hafa ekki fengið vítið/vítin í fyrri hálfleik. Reading skoraði auðveldlega úr vítinu. Staðan: 2-1 fyrir Reading.

Everton setti allan kraft í að jafna og var nálægt því þegar Fellaini skallaði í stöng í dauðafæri. Hitzelsperger átti jafnframt tvö færi og Osman átti frábært færi. En allt kom fyrir ekki. 2-1 tap staðreynd. Ekki okkar dagur. Eitthvað var maður að kvarta yfir því að lenda alltaf undir í fyrri hálfleik og ná svo bara jafntefli eða merja sigur. Maður hefði kannski átt að kvarta minna yfir því, því maður tæki því fegins hendi í þessum leik.

Það er auðvelt að benda á mistök einstakra leikmanna, dómaramistök (1-2 víti í leiknum) og kenna þeim um tapið (eða tréverkinu) en staðreyndin er einfaldlega sú að liðin sem koma til með að enda í efstu fjóru sætunum að tímabili loknu eru þau lið sem gera nógu mikið til að dómaramistök og mistök einstaklinga skipti ekki sköpum hvað úrslitin í leiknum varðar. BBC benti á að Everton væri kannski fórnarlamb eigin árangurs því meirihluti liðsins hefði spilað landsleik í miðri viku og að þeir væru einfaldlega þreyttir. Ég kaupi það ekki. Þetta blessaða Everton lið okkar þarf að fara að nýta yfirburðina og klára leikina í fyrri hálfleik. Þetta gengur ekki til lengdar.

Og til að bæta gráu ofan á svart þá fékk Fellaini gult spjald sem þýðir bann í næsta leik (gegn Norwich, sem unnu United á heimavelli í dag). Við tapið gegn Reading féll Everton um eitt sæti í deildinni, úr því 4. í það 5. því West Brom náði flottum sigri gegn Chelsea á heimavelli.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Heitinga 5, Jagielka 5, Coleman 5, Pienaar 7, Osman 6, Hitzelsperger 6, Naismith 7, Fellaini 7, Jelavic 6.Varamenn: Oviedo 6, Vellios 5. Markaskorari Reading fékk 9, tveir með 8 og restin sexur og sjöur.

8 Athugasemdir

  1. Andri skrifar:

    Það verður að segjast að Everton voru hrikalega slakir. Eitt að afgreiða ekki leikinn í fyrri hálfleik og svo að spilið, varnarleikurinn og hreyfanleiki liðsins var til skammar. Sjaldan hef ég verið jafn vonsvikinn með frammistöðu liðsins. Coleman er svo slakur varnarlega að maður fær í magann þegar hann á að verjast. Kostaði bæði mörkin ef útí það er farið. Slök dekkning í fyrra markinu. Jelavic er alls ekki að finna sig, rangstæður þótt hann hafi alla línuna. Osman sást varla. Heitinga sífellt að brjóta og spyrna langt. Reading gerði sitt besta til að gefa okkur leikinn og tóku hann svo áreynslulaust í síðari hálfleik. Þessi leikur er mesta vonbrigði sem ég hef upplifað í langan tíma, því miður.

  2. Gunnþór skrifar:

    sá ekki leikinn en miðað við úrslitinn og reading ekki unnið leik á tímabilinnun þá hefur everton liðið verið arfa slakt,held að liðsmenn ættu ekki að tjá sig um topp fjögur séns með svona úrslitum,ömurleg úrslit í alla staði.

  3. Finnur skrifar:

    Þetta var umferð litlu liðanna. Norwich vann Man U, Reading vann Everton, West Brom vann Chelsea og Liverpool vann Wigan…

  4. Orri skrifar:

    Þó maður sé hund svekktur þá eru þessi úrslit enginn heimsendir fyrir okkur.Ég sammála Andra við áttum að klára dæmið í fyrri hálfleik. Nú er bara hissa upp um sig brækurnar og koma með reysn í næsta leik.

  5. Halli skrifar:

    Ég hef átt svo erfitt með að tjá mig um þennan leik (hundsvekktur) Það að vera 3-4 yfir í hálfleik hefði verið eðlilegt en það er ekkért drápseðli í liðinu ok 0-1 yfir og ástæða til að gera ráð fyrir 3 stigum. En það þarf að mæta í seinni hálfleik eftir 15 mín er Reading búið að vera 73% með boltann og klára þetta svo með 2 mörkum og svo rétt til að strá salti í sárin þá á Felliani skalla í stong 2 mín eftir seinna mark þeirra. niðurstaða hrikalega svekktur

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Coleman????????????

  7. Finnur skrifar:

    Jamm. Þetta var á heildina litið slæmur dagur fyrir Coleman. En Moyes hafði ekki marga valkosti þar sem bæði Hibbo og Neville voru meiddir — og Heitinga vill ekki spila í hægri bakverðinum lengur.