Af landsliðsmönnum

Mynd: Everton FC.

Landsleikir fara nú í hönd en Osman, Baines og Jagielka eru í enska hópnum sem mætir Svíum á morgun. Fellaini er í belgíska hópnum en Mirallas er ekki þar með honum sökum meiðsla sem hann hlaut í síðasta leik. Coleman er í írska hópnum og miðvörðurinn og markamaskínan Shane Duffy á standby. Heitinga, Naismith, Jelavic, Howard og Oviedo eru einnig með sínum landsliðum. Vellios er í U21 árs hópi Grikkja og Matthew Kennedy, nýi kantmaður Everton, er með U21 árs liði Skota. John Lundstram og Chris Long eru með U19 ára liði Englands, Ben McLaughlin með U19 ára liði Írlands og Johan Hammer með U19 ára liði Svía.

Öll augu verða þó á Osman á morgun og hvort hann fái tækifæri í vináttuleiknum gegn Svíum. Hann hefur verið fyrirferðamikill í fréttamiðlum og fær vonandi að taka þátt í leiknum og sýna hvað hann getur. Osman hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og er oft sagt að hann sé afskaplega vanmetinn leikmaður, sem ég verð að taka undir. Ozzie for England!

Fellaini hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga og alls konar orðrómur í gangi. Hann hefur enda verið ótrúlega drjúgur undanfarið og verið nánast fastamaður í liði vikunnar í fjölmiðlum. Mikið rætt um að hann sé kannski á leiðinni í burtu, sem er að verða að föstum lið á nokkurra mánaða fresti. Þrátt fyrir umfjöllunina finnst mér líklegra að Fellaini fái til liðs við sig annan Belga (Ofoe) í janúarglugganum heldur en að Fellaini fari í annað lið — minni á að hann er enn á langtímasamningi hjá Everton. En maður veit aldrei — maður vill náttúrulega alls ekki missa hann en ef það gerist er ágætt að hugsa til þess að Moyes og hans teymi fann hann á sínum tíma og ég veit þeir hafa alltaf einhvern í sigtinu til að leysa hann af ef svo ber undir. Minni einnig á að í þrígang hefur Moyes selt einn af sínum betri leikmönnum (Rooney, Lescott og Arteta) og alltaf gerist það sama: 1) Everton fær myndarlega upphæð fyrir leikmanninn 2) Moyes nær að nýta þá upphæð sem hann fær afskaplega vel og stendur uppi með betra lið á eftir. Maður var dapur að sjá á eftir Arteta á sínum tíma en myndi maður skipta á liðinu þá (með Arteta innanborðs) og liðinu núna? Uh, nei.

BBC birti í dag vídeó af útvarpsviðtali á BBC Radio 5 live’s Monday Night Club þar sem Everton og árangur liðsins í upphafi tímabils var áberandi í umræðunni. Mæli með því.

En þá að ungliðunum. Everton U18 sigraði Blackburn U18 2-3 í leik þar sem fjórir úr U16 ára liði Everton tóku þátt. Everton lenti snemma undir en Joe Williams jafnaði á 20. mínútu og Chris Long skoraði síðan tvö áður en Blackburn náði að minnka muninn 7 mínútum fyrir leikslok. Everton U21 árs liðið tapaði hins vegar fyrir Blackburn U21 á heimavelli 1-2. Conor Grant skoraði mark Everton, sem var jöfnunarmark á 42. mínútu.

9 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Ozzie verður að fá að byrja vantar nr 21 for England

  2. Gestur skrifar:

    Ég tel að þegar Ronney var seldur var hann ekki komin í þann stall að vera einn að betri mönnum í liðinu. Arteta heillaði mig aldrei en Lescott var erfitt að missa. En þegar Everton hefur selt góða menn kemur alltaf bakslag og það fást ekki alltaf menn til að leysa af. Eins og með Billy, kostaði Everton mikin pening en lítið fékkst út úr honum. Þetta er hluti að fótboltanum ríku og stóru liðin koma og hirða bestu leikmennina. Hvar er liðið veikast núna?

  3. Ari G skrifar:

    Mundi segja veikasti hlutinn sé örugglega aftasti miðjumaðurinn ekki spurning. Mundi vilja einn góðan sóknarmann í janúar. Mundi alls ekki selja neinn fyrr en í sumar fyrir rétt verð.

  4. Finnur skrifar:

    Skv. Sky Sports er Hodgson búinn að tilkynna byrjunarliðið og Osman byrjar inn á ásamt Baines!!
    http://www1.skysports.com/football/news/12016/8246865

    • Gestur skrifar:

      það er algerlega frábært , vona að hann njóti kvöldsins

  5. Finnur skrifar:

    Veikasti hlutinn er hlutverk varnarsinnaða miðjumannsins. Vil fá Ofoe, sem ætti að vera gott fyrir móralinn hjá Fellaini og Mirallas. Byggja upp góðan belgískan kjarna í liðinu. Svo myndi ég segja að það vanti betri varamarkvörð en Mucha til að setja almennilega pressu á Howard. Og ég veit ekki um neitt lið sem þiggur ekki fleiri almennilega slúttara. 🙂

  6. Finnur skrifar:

    … en svo er náttúrulega Gibson að koma aftur. Hann stóð sig vel í „stöðu Neville“ í byrjun tímabils.

  7. Einar G skrifar:

    Ég veit ekki hvort þið sáuð leikinn milli Svíþjóðar og Englands en djöfull var markið hjá Zlatan flott. En af okkar mönnum þá verður þeim seint kennt um. Osman var eins og hann hefði aldrei gert neitt annað en að spila landsleiki og Baines var mjög traustur í sinni stöðu. Osman hefði mögulega átt að setja hann í eitt eða tvö skipti. Vona bara að þeir verði ekki þreyttir um helgina en þeir léku allan leikinn.

  8. Finnur skrifar:

    Mikið rétt, Einar, maður missir nú ekki af fyrsta landsleiknum hjá Osman! 🙂 http://everton.is/?p=3087