Everton – Sunderland 2-1

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti Sunderland í dag og lykilatriðið í dag var að komast á beinu brautina og láta af þessum endalausum jafnteflum sem hafa verið að hrjá Everton undanfarna leiki.

Uppstillingin sú sama og í leiknum á móti Fulham enda ekki skrýtið þar sem Everton algjörlega „dómineraði“ þann leik og ekki mikil ástæða til að breyta liðinu. Howard, Baines, Heitinga, Jagielka, Coleman. Miðjan: Osman og Neville, Pienaar á vinstri og Mirallas á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi.

Það hefur verið nánast regla í síðustu 6 leikjum að Everton fær á sig „suckerpunch“ mark á fyrstu 15 mínútunum og það fór um mann á fyrstu mínútum leiksins þar sem Sunderland fengu tvö góð færi til að komast yfir. Sessegnon komst einn á móti Howard en Howard var mjög vel á verði og varði í horn. Stuttu síðar var Everton í sókn, allir frammi en Sunderland unnu boltann á eigin vallarhelmingi af Neville, sendu fram völlinn á Sessegnon sem sendi stungusendingu sem skapaði færi fyrir Fletcher sem skaut framhjá Howard en einnig hárfínt framhjá markinu. Hér þakkaði maður fyrir að Everton væri ekki undir í leiknum, Hefði verið algjörlega í anda fyrri leikja.

Everton tók öll völd á vellinum upp úr þessu og náði góðri pressu á Sunderland sem virtust á þeim punkti búnir að leggja liðsrútunni fyrir framan eigið mark. Eftir um 20 mínútna leik þurfti maður að klípa sig til að ganga úr skugga um að mann væri ekki að dreyma. Komið 5 mínútur fram yfir fyrsta korter leiksins og ekkert suckerpunch mark komið á Everton! Var bölvuninni hér virkilega aflétt? Ummm… ekki alveg.

Everton átti stuttu síðar að fá vítaspyrnu þegar varnarmaður Sunderland varði með hendi, en ekkert dæmt. Víti af þessu tagi hefur ekki alltaf verið gefið (fer eftir dómara), þannig að maður tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Aðalatriðið er að spila nógu vel og skora nógu mikið af mörkum (og fá nógu fá mörk á sig) til að leikir ráðist ekki af svona vafaatriðum.

Pienaar var nokkuð aðgangsharður á þessum tímapunkti. Átti tvö skot sem voru varin en svo gerðist það að Mirallas þurfti að fara út af meiddur. Mikið skarð fyrir skildi þar, enda hefur hann verið frábær í undanförnum leikjunm. Hann hafði einnigverið mjög líflegur í leiknum fram að þessu og bitið úr sóknarleiknum fór nokkuð við þetta sem þýddi að Sunderland komst meira inn í leikinn.

Sunderland komst í dauðafæri, McClean (?) einn á móti markverði en Howard varði afspyrnu slakt skotið auðveldlega. Neville reyndi skot af nokkuð löngu færi, hitti markið utarlega en ágætlega varið.

Bölvun Everton er þó greinilega ekki alveg aflétt því mark Sunderland kom upp úr hornspyrnu rétt fyrir lok hálfleiks. Jelavic hreinsaði fyrsta boltann frá en boltinn barst til Sunderland manns utan teigs sem sendi háan bolta fyrir mark Everton þar sem Adam Johnson setti boltann í fyrstu snertingu framhjá Howard sem var, að því er virtist, ekki alveg með á hreinu hvar markið var bak við hann þegar hann mætti Johnson sem gerði þetta aðeins of auðvelt fyrir þann síðarnefnda.

0-1 í hálfleik, hálf óverðskuldað, fannst manni þar sem Everton liðið var betra, með boltann 60% tæplega, setti góða pressu á Sunderland og átti nokkur hættuleg færi. En, það verður að klára færin, eins og Sunderland gerði í fyrri hálfleik. Moyes orðaði þetta ágætlega eftir leikinn: „We were a wee bit pretty and there wasn’t really anything concise at the end of it“. Mér fannst Fellaini (minn maður) slakur í fyrri hálfleik en sá átti aldeilis eftir að setja mark sitt á þann seinni, sem og Jelavic, sem virkaði stirður eiginlega í öllum leiknum. Hvernig er hægt að skipta svona mönnum út af?

Seinni hálfleikur var rólegri en sá fyrri, allavega til að byrja með en Heitinga var staðráðinn í að skora. Hann átti tvo skalla að marki Sunderland, fyrst bjargað á línu en svo rétt framhjá. Hann náði þó ekki að jafna metin og um tíma leit út fyrir að þetta yrði „einn af þessum dögum“ þar sem Everton næði ekki nýta yfirburðina og svara markinu almennilega. Það varð þó alls ekki raunin. Það kom þó ekki í veg fyrir að örvæntingin liti færi vaxandi með hverri mínútu og hverri feilsendingu.

Moyes tók Neville út af, setti Vellios inn á, breytti úr 4-5-1 og lagði upp með 4-4-2 með því að draga Fellaini aftar. Og Vellios var ekki langt frá því að jafna en hann átti hættulegan skalla í samskeytin sem markvörður Sunderland varði.

En svo tóku Everton málin í sínar hendur. Osman með boltann utan teigs, sendir á Fellaini (einnig utan teigs) sem snýr sér og tekur boltann með sér inn í teig og er kominn í skotstöðu og þrykkir boltann í hornið á 76. mínútu. Everton liðið loksins búið að jafna, 1-1, okkur til mikils léttis. Fram að jöfnunarmarkinu var örvæntingin smám saman að ná tökum á manni, enda leit út fyrir að Everton myndi enda fimm jafnteflisleiki með ósigri á heimavelli gegn liðinu sem Everton vinnur nánast alltaf. Blöðin hefðu gert sér mat úr því að loftið væri að leka úr Everton blöðrunni og að árangur Everton þangað til hafi verið frávik frá reglunni.

En Everton lét ekki þar við sitja. Aftur sendi Osman á Fellaini sem í þetta skipti ákvað að taka ekki boltann sjálfur heldur áframsenda hann í fyrstu snertingu í gegnum klofið á varnarmanni Sunderland, beint á Jelavic í dauðafæri sem afgreiddi boltann í fyrstu snertingu (en ekki hvað?) á 79. mínútu (aðeins þremur mínútum eftir að hafa jafnað) framhjá markverði Sunderland. 2-1 fyrir Everton. Mikill léttir að sjá Jelavic setja mark, eftir markaþurrð síðasta mánuðinn eða svo.

Sjötta leikinn í röð lendir Everton undir (!) og jafn oft ná þeir að komast hjá því að tapa leiknum (!!). Þegar þetta gerðist í fimmta skiptið í röð (í síðasta leik) var það Úrvalsdeildarmet og aftur bæta þeir metið þessa vikuna. Ekki endilega metið sem maður vill sjá Everton setja, en fyrst Everton er að lenda undir er maður mjög feginn að þetta er raunin.

Það fór svo um mann undir lokin þegar Sunderland átti dauðafæri en einn þeirra í færi sparkaði boltanum í annan Sunderland mann og þar með rann sú sókn út í sandinn.

Verðskuldaður 2-1 sigur í höfn í 400. leik Everton með Moyes við stjórnvölinn (til hamingju, Moyes!). Everton heldur áfram að vera grýla í augum Sunderland aðdáenda og ekki grátum við það mikið. Samt ekki laust við það að maður hafi verið orðinn mjög leiður á öllum þessum jafnteflisleikjum og mjög sáttur við að fá loksins Sunderland í heimsókn, að þeim ólöstuðum. Everton í fjórða sæti eftir leikinn með 20 stig, sem er öllu minna en liðið á skilið, eins og það spilar þessa dagana. Taplausir heima í 11 leikjum, sem einungis þrjú lið geta státað af hingað til (og aðeins eitt af þeim liðum fyrir ofan Everton).

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Jagielka 7, Heitinga 6, Coleman 6, Pienaar 6, Osman 7, Neville 6, Mirallas 7, Fellaini 8, Jelavic 7. Svipaðar einkunnir fyrir Sunderland, sjöur og sexur.

Og um það leyti sem Everton var að vinna Sunderland þá missti Arsenal sigur gegn Fulham niður í jafntefli þegar Arteta gaf Fulham vítaspyrnu og klúðraði svo vítaspyrnu fyrir Arsenal á lokamínútunum. Hvernig er það, er hann enn á launaskrá hjá Everton? 🙂

Í öðrum fréttum er það helst að everton U18 sigraði Blackburn U18 2-3 á útivelli með mörkum frá Joe Williams og tveimur frá Chris Long.

17 Athugasemdir

  1. Ari skrifar:

    Vel skrifað Finnur….:) eins og vanalega.

    Mér fannst Fellaini alveg hræðilegur í fyrri hálfleiknum, en bætti heldur betur um í þeim seinni.

    Mig langar samt að minnast á Osman sem mér fannst hreint frábær í dag. Hefði átt að fá 8 í einkunn frekar en 7 sem að hann fékk hjá sky. Spilaði eins og han væri að fara að leika sinn 100. landsleik í vikunni en ekki sinn fyrsta. Gaman að þessu valið á honum í enska landsliðið virðist einungis efla hann svo um munar sem er bara frábært……

    Flott að sjá Vellios koma inná og hann átti ekki sístan þátt í markinu sem að Fellaini skoraði… því að hann hélt aftur af varnarmanni Sunderland sem að hefði örugglega náð að blokkera skotið hjá Fellaini…. Vellios skorar bráðlega spái ég….:)

    Og undurbúningurinn í öðru markinu, sem að byrjaði með Osman á miðjunni og þessari líka glæsilegu hælspyrnu hjá Fellaini, var sannarlega frábær……..o:)

  2. Ari G skrifar:

    Hæ loksins voru heiladísirnar með okkur. Finnst að varnarleikurinn mætti lagast þurfum 2 Fellaini einn líka sem aftasti miðjumaður og fremstur miðjumaður en miðjan og sóknin er fín.

  3. Finnur skrifar:

    Takk. Jú, Osman var frábær í leiknum.

  4. Gunnþór skrifar:

    sjáum glöggt í þessum leik hvað við erum geldir sóknarlega þegar neville er á miðjunni,markið sem sunderland skoraði skrifast á osman algjörlega,hann byrjaði rólega í leiknum en moyes hefur talað rækilega við hann því hann stóð sig vel í seinni hálfleik,mirallas er frábær leikmaður sást vel hvað sóknarleikurinn hrundi þegar hann fór útaf,svo þegar vellios kom inná þá urðum við aftur hættulegir og fellaini tók alla bolta sem kom í áttinna að vörninni.

  5. Ari G skrifar:

    Mundi vilja breyta aðeins t.d hafa Heitinga aftast á miðjuna í stað Phil Neville finnst hann miklu betri í hægri bakverðinum ef hann á að spila. Finnst Miralles hafa komið mest á óvart og Osman hefur alltaf verið traustur hefur sennilega ekki fengið eins mikla athygli og aðrir í liðinu en það er að breytast núna. Mundi vilja kaupa sóknarmann í janúar finnst það nauðsynlegt til að Everton geti keppt áfram um sætið í vor.

  6. Finnur skrifar:

    Gunnþór: Ég held að sóknarleikurinn hafi batnað vegna breytingar á uppstillingu fyrst og fremst. Fellaini var vel valdaður af varnarmanni Sunderland og ekki jafn virkur frammi og venjulega en þegar Everton skipti í 4-4-2 þá fengu miðverðir Sunderland tvo aðra til að hafa áhyggjur af frammi og þá losnaði um Fellaini við jaðar teigsins, sem hann nýtti sér vel (tvisvar). Þetta er orðið ansi drjúgir síðustu leikir hjá Fellaini. Mark og stoðsending í dag, Tvö mörk gegn Fulham. Stoðsending á móti Liverpool. Og þetta eru bara síðustu þrír leikir! 🙂

    Ari G: Heitinga og Neville finnst mér svipaðir í þessari stöðu; held að Heitinga væri kannski aðeins betri (í þessari stöðu) en kafteinninn er aftur á móti mjög mikilvægur í að peppa mannskapinn upp þegar á þarf að halda. Helst vil ég hafa Gibson þarna og kaupa Ofoe (fyrir alvöru í þetta skiptið) til að veita Gibson aðhald og samkeppni.

  7. Gunnþór skrifar:

    Sammála okkur vantar ofoe sárlega uppá að auka breiddinna á miðjunna og fleiri skapandi miðjumenn erum með nóg af trukkum sem eru nauðsynlegir líka,málið er að andstæðingarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur þegar neville er með boltann því þeir vita að hann er ekki að fara að skora fyrir utann teig.

  8. Halli skrifar:

    Ég sá ekki leikinn en 3 stig eru vel þeigin og meðan lið eins og wba halda sínu striki þá verðum við að halda áfram stigasöfnun næstu 2 á móti Reading og Norwich það eiga bara að vera 6 örugg stig

  9. Finnur skrifar:

    Ég vil bara fá Mirallas aftur heilan sem fyrst. Það er mjög erfið törn í nánustu framtíð (Arsenal, City úti, Tottenham og svo Stoke úti — og Chelsea ekki langt undan þar á eftir).

  10. Ari skrifar:

    Gunnþór, það var nú ekki langt frá því að Neville myndi skora með skoti fyrir utan teig….. í þessum leik 🙂

  11. Halli skrifar:

    Ef það er rétt að Fellaini er til sölu fyrir „rétt“ verð hvað er þá rétt verð á besta leikmanni leiktíðarinnar á Englandi ég bara spyr

  12. Finnur skrifar:

    Rétt verð er það sem Moyes er tilbúinn að selja hann á og aðrir eru tilbúnir að borga. Hann er ekki formlega til sölu, fyrir utan það fornkveðna að allir séu falir fyrir rétt verð. Þessi orðrómur kemur upp á nokkurra mánaða fresti; stundum út af einhverju sem Felli segir, stundum einhverju sem pabbi hans segir og stundum bara út frá einhverjum hugarórum blaðamanna. Glugginn er lokaður og enginn á leiðinni út í um tvo mánuði. Ef þetta gerist þá veit ég að peningunum verður mjög vel varið eins og alltaf. Það var Moyes og hans teymi sem fann Fellaini og ég treysti honum vel fyrir því að fylla í skarðið ef svo ber undir. Ég á erfitt með að trúa að Everton nái ekki í evrópukeppni í lok tímabils (miðað við hvernig liðið hefur spilað) og þá ætti svona tal að lægja eitthvað; tala nú ekki um ef Everton nær alla leiðina í Champions League.

  13. Finnur skrifar:

    Talandi um Fellaini þá var hann valinn í lið vikunnar hjá Goal tímaritinu í 5. skipti:
    http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2012/11/12/3521752/premier-league-team-of-the-week-fellaini-notches-fifth

  14. Ari G skrifar:

    Fellaini gæti verið valinn besti leikmaður tímabilsins. Hef samt miklar áhyggjur að hann fari í janúar ef það skildi koma risatilboð í hann þá. Allavega mundi ég alls ekki vilja selja hann fyrr en næsta sumar á 40 millur lágmark.
    Hvað er að frétta unga stráknum hjá Sheff Wed væri ekki gott ráð að fá hann og setja hann fremstan á miðjuna til að minnka álagið á hina leikmennina. Hvað er að frétta Anchepe mann ekki hvernig það er skrifað?

  15. Finnur skrifar:

    Mig grunar að verðið á Fellaini þurfi að vera hátt til að Moyes freistist til að selja. 40+ er kannski í hærri kantinum en gleymum ekki að þetta er bara einn leikmaður og Moyes hefur nýtt svoleiðis afskaplega vel (sbr. Lescott og Rooney).

    Anichebe meiddist með U21 árs liðinu um daginn. :/ Hefði viljað sjá hann setja pressu á Jelavic því Anichebe er með mjög gott markahlutfall per mínútu.

  16. Finnur skrifar:

    Sky Sports: Marouane Fellaini says he is in no hurry to secure a move away from Everton
    http://www1.skysports.com/football/news/11671/8249229/

    Hvað um það, umfjöllunin um landsleikina komin upp:
    http://everton.is/?p=3087