Upphitun nr. 2

Mynd: Everton FC.

Áður en við hugum að stórleik helgarinnar er rétt að óska íslensku stelpunum til hamingju með flottan sigur á Úkraínu og fyrir að tryggja sér þátttökurrétt í lokakeppni Evrópumótsins í annað skiptið í röð! Glæsilegt hjá stelpunum okkar!

Stóra spurning vikunnar, hins vegar, hvað Everton varðar er hvort Fellaini sé búinn að jafna sig af meiðslunum og geti spilað leikinn á sunnudaginn. Það ætti að koma í ljós von bráðar, þegar sést hvort hann geti æft eða ekki. Einn af þeim sem hefur góða yfirsýn yfir það er Kevin Mirallas sem segist halda að Fellaini spili. Vonandi hefur hann rétt fyrir sér í því, því Fellaini er illviðráðanlegur á vellinum eins og hann hefur sýnt á tímabilinu.

Mótherjar okkar, Liverpool, spiluðu í Europa deildinni núna áðan og sökum krónískrar meðalmennsku þurftu sigur á heimavelli, sem þýddi að þeir gátu ekki hvílt sína lykilleikmenn. Þetta þýddi að miðverðirnir Daniel Skoppa og Martin Skrýtla, sem og Glen Johnson, Gerrard og Suarez byrjuðu allir inná og þurftu allir að spila heilan leik — að Johnson undanskildum, sem entist í einn hálfleik. Það helsta markverða við leikinn var að Stuart Drowning skoraði mark (já!) en BBC hafði það eftir einhverjum að stuðningsmenn Liverpool geti nú stoltir sagt barnarbörnum sínum að þeir hafi verið á vellinum þegar þau merku tíðindi gerðust að sá kappi skoraði mark.

Heitinga hefur nokkuð verið í fréttum undanfarið en hann er, eins og allir Everton leikmennirnir, æstur í að fá að taka þátt í stærsta leiknum á tímabilinu hingað til. Ég myndi persónulega vilja sjá hann í því hlutverki sem Neville hefur verið að sinna (varnarsinnuðu hlutverki á miðjunni) og Neville þá frekar detta í sína stöðu, hægri bakvörðinn. Helst af öllu vil ég náttúrulega sjá Gibson aftur á miðjunni, en ég efast um að hann spili þar því hann er ekki í leikformi. Ég held jafnframt að Coleman eigi framtíðina fyrir sér í hægri bakverðinum en hann hefur verið mistækur í leikjunum gegn Liverpool og held ég að verði að skrifa mistök hans á reynsluleysi. Hibbert fór í gegnum 90 mínútur með varaliðinu þannig að hann ætti líka að vera klár í leikinn, meti Moyes það svo að hann sé tilbúinn og ætti það að setja pressu á Coleman að standa sig, yrði hann fyrir valinu. Enginn Everton leikmaður hefur hefur leikið fleiri leiki en Hibbert, sem ásamt Osman er nánast skylduval í þennan leik, ef heilir eru.

King Brenny-r úr færinu, stjóri Liverpool, hefur gert mikið úr þeim hugsjónum sínum að leggja áherslu á að halda boltanum en eins og Executioner’s Bong minntist á það í greiningu sinni fyrir leikinn (mæli með þeirri lesningu) þá vann Everton lið Swansea nokkuð þægilega án þess að fá á sig mark, þó Swansea hefði verið með boltann 60% leiks (eða meira). Gera má ráð fyrir að Everton pressi framarlega á vellinum til að trufla andstæðinginn frá því að byggja upp spil og þvinga þá til að gera mistök, sem hefur sýnt sig að er veikleiki í þeirra leik.

Ég kom inn á það í upphitunarfærslunni á dögunum að síðast þegar þessi lið mættust 28. okt á Goodison Park þá vann Everton 1-0 en það sem mér láðist að nefna var að síðasti leikur Everton þar á undan var gegn QPR (eins og nú) og sá leikur fór einnig 1-1 (eins og nú). Andy King rifjaði upp ýmis skemmtileg atriði tengd þeim leik.

Bókararnir spá tvísýnum leik, Everton hefur aðeins sterkari stöðu að þeirra mati, með stuðulinn 13/8 á sigri Everton, 17/10 á sigri Liverpool og 9/4 á jafntefli.

Í öðrum fréttum er það helst að Robin Petersen, yfirmaður knattspyrnusambands Suður-Afríku, vonast til að Pienaar hætti við að hætta og dragi landsliðsskóna fram að nýju. Hann sagði að þetta væri mikið bakslag fyrir þá þar sem Pienaar væri þeirra besti leikmaður. Ég á síður von á því að Pienaar láti undan því, en maður veit aldrei.

Chris Long hjálpaði U18 ára liði Englendingum að leggja Ítali U18 2-0 á heimavelli í gær, en Long skoraði seinna mark Englands. Long var kátur eftir leikinn og lýsti leiknum sem sinni bestu lífsreynslu. Félagi hans hjá Everton, Conor Grant, lék í rétt rúmar 60 mínútur í leiknum.

Í lokin má svo geta þess að Everton ætlar að fella niður sendingarkostnaðinn af öllum varningi sem keyptur er í vefversluninni (hvert sem sent er í heiminum) í nokkra daga ef keypt er fyrir 40 pund eða meira svo nú er hagstætt að klára jólainnkaupin. Síðasti frestur til að panta er núna undir lok helgarinnar.

4 Athugasemdir

  1. Haraldur Anton skrifar:

    Flott grein félagi, við tökum þetta. Gaman að sjá smá húmor í þessu. Eitt veit ég ef Everton vinnur þá koma allir Liverpool menn með afsökun um að þeir hafi verið að spila í dag, sem er engin afsökun.

    • Finnur skrifar:

      Jú, það er smá afsökun fyrir allavega Gerrard. Hann er kominn á aldur og farinn að láta aðeins á sjá. Það verður fróðlegt að sjá hvort hann endist í þrjá heila leiki á einni viku.

  2. Einar G skrifar:

    Eins og alltaf gaman að skoða þessar greinar 🙂 Sjáumst á Ölver

  3. Elvar Örn skrifar:

    Þú ert snillingur Finnur. Takk fyrir frábærar samantektir.