Swansea vs. Everton — og aðalfundurinn!

Mynd: Everton FC.

Áður en við hitum upp fyrir leikinn er rétt að minna á að aðalfundur Everton félagsins verður á Ölveri í fyrramálið (lau) klukkan 10:15, eins og auglýst var hér. Við hvetjum alla Everton aðdáendur á Íslandi (bæði menn og konur) til að sýna stuðninginn í verki og mæta. Þeir sem ekki geta mætt á fundinn endilega mætið eftir fundinn og horfið á leikinn með okkur. Við viljum endilega sjá sem flesta mæta í báða dagskrárliðina, hvort sem þið eruð skráð í klúbbinn eður ei og taka þátt í þessu með okkur. Ölver verður með þrjú tilboð í gangi fyrir fundargesti: kjúklingaborgari á 1000 kr., ostborgari á 1000 kr., og stakur bjór á 650 kr. Að auki er 50 kr. afsláttur af bjór sem keyptur er með matnum (ostborgari og bjór kosta þá samanlagt 1600 kr). Tilboðin gilda fram að leik.

En þá að leiknum á morgun en hann hefst klukkan 11:45 og er á heimavelli Swansea, Liberty Stadium. Þar sem Swansea liðið er tiltölulega nýlega komið upp í Úrvalsdeildina þá hafa þessi lið aðeins spilað 15 leiki samtals en Everton hefur í þeim viðureignum aldrei tapað og aðeins gert 4 jafntefli (11 sigrar). 6 sinnum í samtals sjö leikjum á heimavelli Swansea hefur Everton farið með sigur af hólmi og einu sinni gert jafntefli 2-2. Markatalan í þeim leikjum er 19-5, Everton í vil. Everton vann Swansea tvöfalt í fyrra án þess að fá á sig mark: 1-0 heima með marki frá Osman og 0-2 úti með mörkum frá Baines (sjá mynd) og Jelavic. Til upphitunar er gaman að rifja upp helstu atriði í leik okkar við Swansea á útivelli í fyrra en Everton var eitt aðeins fjórum liðum á síðasta tímabili sem náði að sigra Swansea á þeirra heimavelli.

Dagsskipunin þá var að dekka Britton sem allt spilið hjá Swansea fór í gegnum og fékk Cahill það hlutverk að fylgja honum eins og skugginn. Það er ekki ólíklegt að Moyes reyni sömu taktík, enda riðlaði þetta nokkuð leiknum hjá Swansea. Einnig má búast við því að við komum til með að pressa á þá, þó það útheimti mikla orku en Moyes hefur alltaf séð til þess að menn komi með úthaldið í lagi inn í nýtt tímabil, hef ekki áhyggjur af því.

Swansea hefur verið í vandræðum með vörnina hjá sér, en Neil Taylor, vinstri bakvörðurinn, og Gary Monk, varnarmaður, eru meiddir og nýi miðvörðurinn Chico jafnframt í banni í 2 leiki. Bartley, sá sem átti að taka við af honum, er meiddur í 3 mánuði þannig að þeir eru með hálf brothætta vörn. Þeir hafa auk þess misst frá sér Gylfa, Joe Allen og kantmanninn Scott Sinclair frá því í fyrra. Í staðinn komu Chico Flores og Michu, en eitt af hlutverkum þeirra er að reyna að styrkja þá í skallaeinvígunum, sem var algjör akkilsarhæll hjá þeim á síðasta tímabili en hefur tekist að laga. Chico er þó í banni í leiknum eins og komið var inn á fyrir að reyna að sneiða eyrað af Louis Saha með skónum í leik Swansea gegn Sunderland. Einnig er kantmaðurinn Pablo Hernandez kominn til þeirra.

Moyes sagði að Hibbo væri tæpur fyrir leikinn en ég á erfitt með að trúa því enda þarf fótbrot til að Hibbert teljist tæpur. Annars eru Gibson og Jelavic meiddir þannig að búast má við að nær sama uppstilling verði og byrjaði síðasta leik nema að Anichebe kemur inn á fyrir Jelavic og ég held að Naismith komi á hægri kantinn. Uppstillingin því: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbert. Miðjan: Osman og Fellaini. Pienaar á vinstri, Naismith á hægri, Anichebe frammi og Mirallas fyrir aftan hann. Ég á síður von á að Moyes fari að stokka þessu upp meira, eftir að Everton algjörlega dómineraði Newcastle í fyrri hálfleik og átt skilið öll þrjú stigin úr leiknum. Kannski hann leyfi Heitinga að spreyta sig til að setja pressu á miðverðina að halda hreinu. Hvur veit.

Uppselt er á leikinn. Ég ætla að vera kokhraustur og spá 1-2 sigri Everton: Mirallas og Anichebe. Ef við skorum 2 mörk verður síðara markið 7 þúsundasta mark Everton í deildinni.

Random news of the day: McFadden, sem við létum fara í lok tímabils, er kominn til reynslu hjá Sunderland.

3 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Finnur þú ert kaldur helduru að Moyes taki fyrirliðann úr liðinu fyrir mér var Osman slakastur á móti Newcastle og ætti að missa sæti sitt. Mín spá 0-2 Pienaar og Distin.
    Það væri gaman að sjá góða mætingu á aðalfundinn.

  2. Finnur skrifar:

    Ég er alltaf kaldur. En þetta er ágiskun, sama og með 1-2 úrslitin í leiknum. 🙂 Ég hugsaði um hver ætti að koma inn fyrir Osman á miðjuna og ákvað að gefa honum bara annan séns. Það var allt talið um enska landsliðið sem steig honum til höfuðs í síðasta leik. Hann verður góður í næsta. 🙂

  3. Halli skrifar:

    Annars er mér sama hverjir spila ef við spilum góðan leik og vinnum