Slúðursögur um brottför Fellaini

Mynd: Everton FC.

Það var ekki gaman að vakna upp í morgun og lesa fréttirnar um að Fellaini hefði talað við belgísku pressuna og sagt að þetta tímabil væri hans síðasta tímabil með Everton. Mér finnst þetta eiginlega hálf skrýtnar fréttir og eftir því sem ég hugsa meira um það, finnst mér þetta vera sífellt fjarstæðukenndara.

Fellaini er nefnilega nýbúinn að skrifa undir fimm ára samning við félagið, sem væri skrýtinn leikur ef hann vildi á brott. Ég á mjög erfitt með að trúa öðru en að hann sé lykilmaður í áformum Moyes-ar og að Moyes hafi látið hann vita að hann sé tilbúinn að byggja liðið upp í kringum Fellaini. Fellaini er auk þess nýbúinn að sannfæra landa sinn Mirallas, um að hann eigi að koma til Everton og hefur örugglega átt sinn þátt í að sannfæra Ofoe líka — sem væri kominn ef bara Brugge hefði ekki trassað að skila inn pappírunum á réttum tíma. Fellaini hefur auk þess oft verið orðaður við önnur lið og faðir hans hefur verið að básúna það að hann sé á leiðinni til e-s stórliðs en svo kemur alltaf eitthvað annað upp úr dúrnum.

Bíðum og sjáum til. Ég lít svo á sem að þetta sé misskilningur í pressunni og jafnvel skáldað upp frá grunni (ekki í fyrsta skipti). Maður sá nú viðtal við Heitinga á dögunum þar sem hann sagði að hann væri sjálfur ekki sáttur við að vera ekki í liðinu. Auðvitað ekki, var mín fyrsta hugsun, því lágmark þeirra allra er að komast í liðið og halda sinni stöðu. Það væri eitthvað athugavert við það ef hann væri sáttur við að vera á bekknum. Þetta var þó blásið upp í blöðunum sem að Heitinga hefði látið Moyes heyra það, nokkuð sem ég las ekki milli línanna þegar ég sá viðtalið. Heitinga hefur ítrekað það margoft að hann sé sáttur hjá félaginu og ætli að berjast fyrir sæti í liðinu. Ég á því alveg eins von á því að þessi frétt með Fellaini verði leiðrétt á morgun.

En, gefum okkur að svo verði ekki — að Fellaini sé í raun á leiðinni í burtu í janúar eða eftir tímabilið þá er nokkuð víst að Everton fær feita summu fyrir hann þar sem hann hefur verið að standa sig frábærlega og kaupliðið þarf að auki að kaupa upp langtímasamning hans. Við vitum líka vel hversu vel Moyes nýtir þá litlu peninga sem hann hefur fengið þannig að það kæmi maður í manns stað. Ég ætla samt að líta á þetta sem hugaróra blaðamanna þangað til annað kemur í ljós.

En að öðru. Everton lék vináttuleik við Huddersfield á Finch Farm, skv. vefsíðu Huddersfield Town og vann 2-1. Leikurinn fór fram fyrir luktum dyrum og var ætlaður til þess að halda þeim sem ekki fóru með landsliðum sínum í leikæfingu. Everton liðið var því skipað blöndu af ungliðum og reyndari mönnum úr aðalliðinu á borð við Phil Neville, Hibbert, Distin, Osman, Anichebe, Gueye og Ross Barkley. Mörk Everton skoruðu Osman, eftir stoðsendingu frá Anichebe, og Gueye sem skoraði upp úr horni.

Menn keppast einnig um að lofa vinstri bakverðina okkar þessa dagana en nýlega birtist vídeó-tribute grein um Leighton Baines og enn önnur ágætis grein um nýja bakvörðinn okkar, Bryan Oviedo. Baines mun jafnframt leika gegn Úkraínu og Jagielka mögulega líka og maður fer bara að hafa áhyggjur af því að enski landsliðshópurinn sé að verða full þunnskipaður þar sem hver Chelsea leikmaðurinn á fætur öðrum heltist úr lestinni. Þetta verður strembið prógram hjá þeim og við vonum bara að allir okkar menn komi heilir til baka.

2 Athugasemdir

  1. Gunnþór skrifar:

    hlýtur að vera slúður trúi ekki öðru,en ef hann vill fara þá á að selja hann strax og tækifæri gefst,það e enginn stærri en liðið það er alveg klárt.