Everton – Man United 1-0

Mynd: Everton FC.

Mikið hrikalega er ég stoltur af mínum mönnum núna og þvílíkur léttir að fyrsta leik tímabilsins, sem venjulega tapast, er lokið! Og ekki bara lokið heldur lokið með flottum 1-0 sigri Everton á annars sterku liði United!! Með þá Van Persian Rug og Rooney í framlínunni, framherjapörun sem talinn er blautur draumur fótbolta-manager-leikjaunnenda víðs vegar um heiminn.

Það voru þó alls ekki þeir Rooney og Persie sem stóðu upp úr leiknum — síður en svo — þar sem þeir áttu báðir tiltölulega slæman dag, Rooney þó sínu verri. Reyndar mætti segja það sama um flesta leikmenn United, sem náðu lítið að komast í gegnum sterka vörn Everton og máttu sín lítils gegn Fellaini sem var úti um allt og dómineraði leikinn.

Uppstillingin 4-5-1: Howard, Baines, Jagielka, Distin, Hibbert. Gibson og Neville á miðjunni. Pienaar á vinstri kanti, Osman á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi. Maður stundi pínulítið yfir því að sjá Neville á miðjunni, en hann stóð sig mjög vel, eins og reyndar allir leikmenn Everton í kvöld.

Man United hélt boltanum mun meira í fyrri hálfleik en náði ekki að skapa sér almennileg færi og þrjú bestu færi leiksins í fyrri hálfleik féllu öll Everton í skaut. Jafnvel fjögur, ef stangarskot Fellaini úr mjög þröngu færi er talið með. Aðeins De Gea kom í veg fyrir að United lenti undir. Að sama skapi var Fellaini stórkostlegur í fyrri hálfleik, langbesti maður vallarins og virtist sem allt gott sem Everton gerði færi í gegnum hann. Unun að horfa á hann taka á móti löngum boltum, með mann í bakinu, taka hann á brjóstkassann og leggja boltann niður og skapa færi, trekk í trekk. Pienaar fannst mér aftur á móti mistækur í leiknum, þó mikilvægur sé hann alltaf, og skotin hjá honum stundum ónákvæm. Verð reyndar að viðurkenna að það var ágætt að sjá að við getum unnið toppliðin án þess að Pienaar eigi frábæran leik. Kannski er ég pínulítið ósanngjarn því Pienaar átti reyndar frábæran skalla sem De Gea varði vel yfir markið, en mér fannst Pienaar ekki jafn frábær og venjulega. Jagielka og Distin, aftur á móti, voru geðveikt flottir í vörninni. Unun að horfa á þá hlaupa menn í dauðafæri uppi og tækla boltann af þeim. Þeir fara nærri því að vera jafn góðir og Hibbert á því sviði, og þá er nú mikið sagt.

Mér fannst satt best að segja pínulítið ósanngjarnt að við skyldum ekki vera allavega marki yfir í fyrri hálfleik, þar sem við áttum bestu færin í fyrri hálfleik en mark Everton einhvern veginn lá í loftinu og maður var bjartsýnn á að hægt væri að endurtaka spilamennskuna í fyrri hálfleik, því ekki var United að gera mikið. Jelavic hefði getað fengið víti þegar Vidic hékk í honum inni í vítateig (fyrir framan dómarann meira að segja) og einhver United maður hefði getað fengið víti þegar varnarmaður Everton sparkaði í skóinn á honum í hreinsun síðar í leiknum. Hvorugt lið fékk víti, réttlætinu kannski fullnægt.

Baines átti frábæra aukaspyrnu sem breytti um stefnu og stefndi í hornið uppi hægra megin en De Gea varði vel. Pienaar átti skot og skalla að marki sem De Gea varði vel og Jelavic átti skot sem De Gea varði vel. Everton hefði getað verið nokkrum mörkum yfir á þessum tímapunkti. Maður hafði á tilfinningunni að United væri alltaf með gæðin til staðar til að skora mörk en einhvern veginn sköpuðu þeir sér aldrei jafn góð færi… Rooney átti tvö slök skot nálægt Howard og aukspyrnu sem fór framhjá en varð meira og meira frústreraður eftir því sem leið á.

Í seinni hálfleik átti Osman skot í slána og niður (og út aftur) eftir skalla frá Fellaini — sláin bjargaði einmitt einnig United í heimaleiknum á síðasta tímabili. Það kom þó ekki að sök því að á 57. mínútu fékk Everton horn og Gibson, fyrrum United maðurinn, sendi inn í teig og þar stökk upp Fellaini og skallaði í netið en Carrick (sem hefur leikið miðvörð á undirbúningstímabilinu) kom engum vörnum við og lá í grasinu eftir þá viðureign.

United efldist nokkuð við að lenda undir og reyndi nokkrar fallegar sendingar í gegnum vörn Everton en alltaf voru Jagielka, Distin, Hibbert og Baines vel á verði og komu í veg fyrir að nokkuð kæmi úr þessu. United var mun meira með boltann en einhvern veginn var þetta mest megnis sendingar milli varnar og miðju, frá vinstri til hægri og aftur til baka. Sky Sports tók saman tölfræðina og „territorial advantage“ var ekki nema 52.8% United megin þó þeir hafi verið með boltann meirihluta leiks. Þeir náðu næstum tvöfalt fleiri sendingum fyrir mark af köntunum en Everton en oftast nær voru þetta auðveldir boltar sem voru skallaðir frá.

Leikurinn minnti um margt á frábæran sigurleik á Manchester City á síðasta tímabili, nema hvað City voru þá mun líklegri til að komast yfir og (eftir að Everton skoraði) jafna.

Fyrsta tap United í upphafsleik tímabils síðan 2008 staðreynd og fyrsti sigur Everton í upphafsleik tímabils í heil fimm ár einnig staðreynd en þá unnum við Wigan, að mig minnir. Löngu kominn tími á þetta. Pökkuðum þessu United liði saman í rauða borðdúkinn sem þeir klæddust í leiknum og sendum þá heim með engin stig í farteskinu.

Einkunnagjöf Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Distin 8, Jagielka 8, Hibbert 7, Pienaar 8, Neville 7, Gibson 7, Osman 7, Fellaini 9, Jelavic 7. Varamenn: Naismith, Coleman og Heitinga, sem komu allir inn á rétt undir lokin og náðu ekki að setja mark sitt á leikinn. Hjá United var markvörðurinn De Gea bestur með 8, enda átti hann nokkrar flottar markvörslur sem redduðu United. Tveir fengu 7 (varnarmaðurinn Vidic og Kagawa), en restin var í meðalmennskunni: fimm leikmenn United fengu 6 í einkunn og Nani, Rooney og Welbeck ráku lestina með 5. Van Persie (sem kom inn á á 68. mínútu) fékk 4 í einkunn.

Mirallas var kynntur fyrir hálfleik. Þetta á bara eftir að batna! 🙂 Aston Villa á laugardaginn. Meira svona!

14 Athugasemdir

  1. Orri skrifar:

    Ég tek heilshugar undir með þér að ég ekki bara stoltur af okkar mönnum,heldur rígmontin af þeim.Ef þetta er það sem koma skal,þá held ég að það verið einhver bikar okkar í vor.

  2. Sigþór skrifar:

    Frábær leikur hjá Everton og vonandi heldur þetta áfram, ég vona bara að engin bjóði í Fellaini því að hann er að verða okkar mikilvægasti maður.

  3. Finnur skrifar:

    Everton hefur alltaf sótt einhver extra 10-20% fram yfir 100% þegar leikið er við stóru liðin. Það verður fróðlegt að sjá hvaða Everton lið mætir til leiks gegn liðunum sem eru í neðri hluta deildar. Ég hef þó fulla trú á mínum mönnum.

  4. Finnur skrifar:

    Hahaha, frábært að lesa viðtalið við Ferguson eftir leikinn — hann er svo yndislega veruleikafirrtur! 🙂
    http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2012/08/21/3320405/manchester-united-manager-sir-alex-ferguson-we-didnt-use-van

  5. Halldór S Sig skrifar:

    Þvílík snildar byrjun á tímabilinu! Mér fannst Jelavic eiga bara ágætis leik og ekkert meira en það. Það er svona eins og hann sé ekki alveg kominn í 100% form fyrir veturin en ég hef trú á því að komist í góðan marka gír fljótlega. Kanski féll hann soldið í skuggan á Fellaini þar sem hann átti hreint magnaðan leik. Það sem mér fannst sérstaklega skapa þennan frábæra leik hjá Everton var frábær varnarlína og svo var Fellaini eins og brúarstólpi þarna á miðjuni. En hvað var málið með Distin þarna í lokin, það var bara eins og hann væri að fá hjartaáfall?

  6. Halli skrifar:

    Þetta var svo frábær byrjun það liggur eitthvað gott í loftinu fyrir þennan vetur

  7. Finnur skrifar:

    Halldór S: Ég er sammála með Jelavic. Það virkar eins og evrópukeppnin sé ennþá að sitja eitthvað í honum. Ég sá hann í nokkrum leikjum á undirbúningstímabilinu og fannst hann ekki nógu áhrifaríkur. En, við vitum hvað hann getur og ef við ætlum að spila svona í upphafsleikjunum þá er ég alveg rólegur. 🙂

    Ég missti af Distin í lokin, var hann svona kátur? 🙂

  8. Finnur skrifar:

    Liverpool Echo sagði að Distin hefði meiðst á baki í leiknum… Hmmm, vonandi er það ekki rétt — eða í versta falli eitthvað smávægilegt… :/

    Bæði Jagielka og Fellaini eru í liði vikunnar að mati goal.com:
    http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2012/08/21/3319296/premier-league-team-of-the-week-newcomers-hazard-michu

    Hah! Goal.com er strax farið að tala um að Everton eigi möguleika á Champions League. Kannski aðeins of snemmt… 🙂
    http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2012/08/21/3320288/fantastic-fellaini-shows-manchester-united-exactly-what-they-are-

    Þeir sem ekki hafa fengið nóg af leiknum, geta horft á lengri highlights hér (24m):
    http://www.evertonfc.com/evertontv/home/7658
    Einhverra hluta vegna eru styttri highlights (4m) ekki í boði f. íslenskan markað. Örugglega vegna þess að Smáís fær ekki nógu mikið borgað fyrir að vera milliliður.

  9. Finnur skrifar:

    Ágætis yfirlit yfir tölfræðina í leiknum og helstu leikatvik hjá Executioner’s Bong:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2012/08/21/everton-1-0-man-united-tactical-deconstruction/

    Næsti leikur eftir ekki nema 4 daga (þetta líður allt of hægt). 🙂

  10. Halli skrifar:

    Ég ætla að skjóta á að Moyes geri eina breytingu fyrir leikinn á moti Villa að Mirallas komi inn fyrir Osman

  11. Finnur skrifar:

    Eftir frammistöðu Osman í gær held ég að Mirallas byrji á bekknum.

  12. Gunnþór skrifar:

    snilldar úrslit Fellaini og Jagielka frábærir eins og allt liðið reyndar,sammála Finni að þetta er bara einn leikur og það er nóg eftir en þetta lítur vel út,svo er bara aston villa næstu helgi og ef við verðum með sömu vinnusemi og í síðasta leik þá vinnum við klárlega ÁFRAM EVERTON.

  13. Finnur skrifar:

    Vel mælt, Gunnþór. Þeir Jags og Felli voru ekkert annað en guðdómlegir í leiknum. 🙂

  14. Ari skrifar:

    Felli var náttúrulega stórkostlegur, Jagielka flottur og Distin virðist yngjast með hverju árinu sem að líður, allir voru góðir og Hibbert var líka flottur í lokin og hélt Young í skefjum eftir að hann var settur inná, fékk fyrir okkur tvö útspörk á mikilvægum augnablikum þegar hann hefði getað látið ManUnited fá tvö horn. Jelavic setti nú líka fína pressu á Vidic í leiknum……

    En annars til hamingju Everton stuðningsmenn með þessa góðu byrjun, núna er það bara næsti leikur…:)