Yobo seldur til Fenerbache

Mynd: Everton FC.

Loksins er einhverjum lengsta félagsskiptafarsa í sögu Everton lokið með sölu á Joseph Yobo til Fenerbache! Klúbburinn hefur ekki formlega staðfest þetta en fjölmiðlarnir keppast við að vera fyrstir með fréttirnar. Kaupverð er talið verið tæpar 2M punda.

Yobo hóf feril sinn með Everton þegar hann kom fyrst að láni frá Marseille árið 2002 en Moyes var ánægður með kappann og ári síðar varð Yobo formlega leikmaður Everton, fyrir 5M punda samanlagt. Hann varð þar með fyrsti leikmaðurinn sem Moyes keypti, var lykilmaður í liði Everton framan af og spilaði til dæmis allar mínútur Everton tímabilið 2006/07. Í fjarveru Phil Neville var Yobo valinn fyrirliði Everton, á meðan allt lék í lyndi, og síðar átti hann eftir að verða fyrirliði nígeríska landsliðsins.

Yobo átti það þó til að eiga arfaslaka leiki öðru hverju eins og í Merseyside-derby leiknum í nóvember 2009 þar sem hann skoraði sjálfsmark og átti þátt í hinu markinu sem Everton fékk á sig. Smám saman fór að halla undan fæti hjá honum og Distin, Jagielka og Heitinga sáu til þess að Yobo fékk að verma bekkinn. Hann var á endanum lánaður til Fenerbache, tímabilið 2010/11, þar sem hann hefur verið allar götur síðan. Sagt er að hann hafi lent upp á kant við Moyes en það verða að teljast sögusagnir þangað til það fæst staðfest.

Gerður var lánssamningur við Fenerbache í ágúst 2010 sem kvað á um að þeir gætu keypt Yobo fyrir um 5M punda ef þeir vildu halda honum og þetta leit vel út um tíma því Yobo skoraði á sínu fyrsta tímabili sigurmark í leik sem tryggði Fenerbache deildarmeistaratitilinn í Tyrklandi. Maður hélt að þá væri þetta nú komið en það var sko aldeilis ekki þar sem Fenerbache hefur allar götur síðan dregið lappirnar í málinu og þráast við að borga uppsett verð. En þessu er nú loksins lokið því Everton og Fenerbache náðu loks samkomulagi um sölu á Yobo.

Við þökkum Yobo fyrir þjónustu hans og óskum honum velfarnaðar með Fenerbache. Vona bara að við gerum ekki annan kaupleigusamning við þá pilta í nánustu framtíð.