Morecambe – Everton 1-4

Vináttuleik við Morecambe lauk nú rétt í þessu en þetta var fyrsti leikur undirbúningstímabilsins, svokallaður Testimonial leikur fyrir þjálfara Morecambe en hann er gallharður stuðningsmaður Everton og er að hætta að spila með Morecambe til að einbeita sér að þjálfun liðsins.

Lið Everton samanstóð af blöndu af ungum og reyndari mönnum. Mesta athygli vakti kannski valið á markverðinum en það er 17 ára leikmaður úr Everton akademíunni að nafni Mateusz Taudul sem stóð stanganna á milli.

Uppstillingin var því: Taudul (mark), Bidwell (vinstri bakvörður), Distin og Duffy (miðverðir) og Coleman (hægri bakvörður). Á miðjunni voru Rodwell, Francisco Junior, Osman (hægri kantmaður) og Sam Kelly (vinstri kantmaður). Frammi voru Vellios og Anichebe. Á bekknum voru: Hibbert, Neville, Forrester, Browning, McAleny. Það voru því tveir hægri bakverðir tilbúnir að koma inn á ef Coleman þyrfti að draga sig í hlé!

Þess má geta að þó Everton væri að leika á útivelli vildi þjálfari Morecambe að lagið Z Cars, sem hljómar alltaf á Goodison þegar leikmenn ganga inn á völlinn, væri líka leikið á þessum leik. Gaman að þessu. 🙂

Það tók Everton aðeins 7 mínútur að ná forskoti í leiknum með skoti af löngu færi frá Francisco Junior. Heimamenn voru ósáttir við dómarann því þeir vildu meina að Vellios hefði verið rangstæður við markið en dómarinn lét markið standa.

Vellios skoraði annað mark Everton á 45. mínútu eftir stungusendingu frá Osman eftir að Morecambe missti boltann við miðlínuna.

Osman átti svo aðra stungusendingu á Rodwell sem nýtti sér mistök Haining og lyfti yfir markvörð Morecambe. Staðan 0-3 og þannig var staðan í hálfleik.

Conor McAleny og Tony Hibbert komu inn á í hálfleik fyrir Sam Kelly and Leon Osman. Þegar 65 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan enn 0-3 þó að Anichebe hafi næstum því verið búinn að skora úr aukaspyrnu en markvörður Morecambe varði vel í horn. Upp úr horninu barst svo skallabolti á markið en markvörðurinn stóð sig aftur vel og varði yfir slána.

Rétt eftir um klukkutíma leik kom Tias Browning inn á fyrir Distin og Hibbert færði sig þá yfir í miðvörðinn.

Anichebe átti svo fjórða markið þegar hann skaut flottu skoti utan við teig, lágt í hægra hornið niðri sem markvörðurinn nær ekki að verja. 0-4 fyrir Everton.

Undir lokin kom þjálfari Morecambe, Jim Bentley, inn á og var strax lýstur maður leiks! Hann fékk að fara óáreittur gegnum vörn Everton og komast einn á móti markverðinum, en markvörðurinn (Taudul) var ekki alveg með á nótunum og varði skotið frá honum. Eftir að komið hafði verið vitinu fyrir markvörðinn fékk Bentley annað tækifæri og skoraði auðveldlega.

Og það reyndust úrslitin: 4-1 sigur Everton í fyrsta leik undirbúningstímabilsins þar sem margir af reyndari mönnum voru enn í sumarleyfi og U19 ára stjörnurnar hvíldar enda Evrópumeistaramóti U19 ára liðanna nýlokið.

Sagt var að klúbburinn ætlaði að reyna að koma vídeói af helstu leikatvikum á netið rétt eftir kvöldmat að íslenskum tíma. Mögulega verður það aðeins sýnilegt þeim sem hafa keypt netaðgang að útsendingum leikjanna.

2 Athugasemdir

  1. Elvar Örn skrifar:

    Sá highlights á EvertonTV, vorum að spila flottan bolta og mörkin voru öll mjög góð. Þessi Francisco Junior lofar heldur betur góðu miðað við þennan leik amk. Ég að vísu bíð spenntastur eftir að sjá Ross Barkley í vetur (já og á pre-season). Næsti leikur verður í beinni á EvertonTV (á miðikudaginn).

  2. Finnur skrifar:

    Leik vid Dundee var adan frestad um 24 klst.