Everton vs. Newcastle

(Uppfært 12/5 með réttum leikdegi). Síðasti leikur tímabilsins er við Newcastle á heimavelli á sunnudaginn kl. 14:00. Bæði lið hafa nokkuð að keppa að því ef Newcastle vinnur eiga þeir möguleika á að komast í Champions League en ef Everton vinnur er næsta víst að Everton endar í 7. sæti (fyrir ofan Liverpool og Fulham). Everton er með einu stigi meira en bæði Liverpool og Fulham og með 8 mörk í plús (eins og Liverpool en Fulham er með -1). Síðustu 7 árin hefur Everton unnið 6 af sínum síðustu heimaleikjum og gert jafntefli einu sinni. Newcastle hafa, einhverra hluta vegna, aldrei unnið lokaleik sinn í Úrvalsdeildinni. Newcastle hafa jafnframt aðeins einu sinni unnið Everton á Goodison Park síðan tímabilið 2000/01, Everton liðið hefur unnið 5 sinnum og einu sinni hefur leikum lyktað með jafntefli.

Helsta spurningin er hvort Leighton Baines og Gibson verði orðnir nógu góðir fyrir leikinn en ef svo er ekki heldur Distin áfram í vinstri bakverðinum og Fellaini/Cahill í varnarsinnuðu hlutverki á miðjunni. Einnig er óvíst með Phil Neville en Moyes var bjartsýnn á að þeir myndu spila. Anichebe og Rodwell eru hins vegar ennþá meiddir og taka ekki þátt.

Líkleg uppstilling: Howard, Distin, Heitinga, Jagielka, Hibbert. Pienaar á vinstri kanti, Fellaini og Osman á miðjunni. Barkley á hægri kanti, Cahill í holunni og Jelavic frammi. Hjá Newcastle eru Danny Simpson, Peter Lovenkrands og Steven Taylor meiddir og Danny Guthrie og Shola Ameobi tæpir.

Í öðrum fréttum er það helst að Heitinga var valinn leikmaður ársins en Sylvain Distin var valinn leikmaður ársins af leikmönnum. Phil Neville átti mark ársins og vann jafnframt Blueblood verðlaunin, Ross Barkley vann Keith Tamlin verðlaunin sem ungliðinn sem hefur skarað fram úr í ár. Apostolos Vellios var valinn ungi leikmaður ársins, Adam Forshaw var valinn varaliðsleikmaður ársins og Hallam Hope var valinn leikmaður ársins úr Everton Akademíunni. Bill Kenwright fékk Howard Kendall verðlaunin og í kvennaliði Everton var Rachel Brown valin leikmaður ársins.

Og að lokum má geta þess að U13 ára lið Everton vann AMA Freight Masters keppnina á dögunum.

Þetta verður annars spennandi lokaumferð á morgun og örlög margra liða að ráðast fyrir næstu leiktíð. Leikurinn er í beinni á Stöð 2 og útsending hefst nokkrar mínútur í kl. 14:00. Vonandi að sem flestir mæti á Ölverið að fylgjast með Everton í lokaumferðinni. Ljúkum þessu með stæl.

Comments are closed.