Sunderland vs. Everton

Nú mætum við Sunderland á útivelli á morgun (mánudagur, annar í jólum) kl. 15:00. Martin O’Neill tók nýlega við Sunderland liðinu af Steve Bruce og hefur náð að rífa upp stemminguna í herbúðunum en þeir hafa undir hans stjórn unnið 2 af síðustu 3 leikjum sínum. 

Sunderland hefur þó gengið afleitlega gegn okkur í gegnum tíðina en fara þarf 15 leiki aftur í tímann (tímabilið 01/02) til að finna sigurleik Sunderland á Everton en 11 af þeim 15 leikjum vann Everton, þar af einn leik sem við unnum 7-1. Aðeins fjórir enduðu með jafntefli. Í síðustu fimm leikjum þeirra á heimavelli í deildinni á tímabilinu hafa þeir unnið einn (2-1 sigur á Blackburn), tapað einum og gert 3 jafntefli. Everton hefur á móti unnið tvo, tapað tveimur og gert eitt jafntefli.

Líklega verður varnarlínan eins og í síðasta leik: Howard, Hibbo, Heitinga, Jags og Baines. Gueye var líflegur á kantinum ásamt Drenthe sem báðir fá líklega tækifæri, sem og Fellaini sem líklega spilar með Neville við hliðina á sér (frekar en Rodwell sem á eftir að koma í ljós hvort er orðinn heill). Osman gæti byrjað fyrir aftan Saha eins og í síðasta leik nema Cahill fái séns aftur (eftir hlé í síðasta leik) til að minna okkur á hvað hann hefur verið okkur drjúgur undanfarin ár. Cahill hefur jafnframt skorað í tveimur af síðustu þremur leikjum okkar gegn Sunderland, þannig að mögulega heldur Moyes tryggð við hann. Osman fer þó ekki á bekkinn, enda sýnt frábæra frammistöðu í síðustu tveimur leikjum, og líklegra að Neville fái að víkja fyrir Osman ef Cahill spilar.

Hjá Sunderland eru Angeleri, sóknarmaðurinn Fraizer Campbell, markvörðurinn Gordon, Turner og Mignolet allir meiddir og spurning með Wickham. Þess má geta að á síðasta tímabili voru Darren Bent, Danny Welbeck og Asamoah Gyan að slást um laus sæti í sókninni hjá Sunderland en nú eru þeir allir farnir annað, sem hefur haft sitt að segja á þessu tímabili. Hjá okkur hafa Anichebe, Coleman og Rodwell verið frá vegna meiðsla undanfarið.

Við þurfum að hafa góðar gætur á Sebastian Larsson, sem er þeirra aukaspyrnusérfræðingur og hefur skorað 3 mörk úr aukaspyrnum á tímabilinu. Einnig þurfum við halda einbeitningu fram á síðustu mínútu því Sunderland hefur í síðustu þremur sigurleikjum sínum skorað mark rétt fyrir lok leiksins.

Það eru einnig batamerki á okkar leik en við fengum nóg af færum í síðustu tveimur leikjum til að gera út um fjóra til fimm leiki, nokkuð sem hefur skort í leikjunum þar á undan. Nú er bara að vona að við förum að nýta færin betur. Þetta er auk þess yfirleitt um það leyti sem tímabilið okkar hefst fyrir alvöru, en einhverra hluta vegna er okkur alltaf fyrirmunað að sýna okkar rétta andlit á fyrri hluta tímabilsins.

Til gamans má geta að ef við sigrum Sunderland verðum við sjöundi klúbburinn til að ná 1000 stigum í úrvalsdeildinni ensku en við erum nú með 998 stig. 

Comments are closed.