Fellaini semur til 5 ára

Þær gleðifréttir bárust í morgun að Marouane Fellaini (23 ára) er búinn að skrifa undir nýjan 5 ára samning við félagið.

Margir höfðu áhyggjur af því, sérstaklega í kjölfar þess að Arteta fór, að Fellaini myndi hverfa á braut líka en hann ákvað að gera langtímasamning við félagið. Fellaini sagði í viðtali að hann væri mjög ánægður með stefnu félagsins, Kenwright sem og með stjórann Moyes (og hans starfslið allt), að metnaðinn skorti ekki hjá félaginu og að stefnan væri að kaupa tvo til þrjá nýja leikmenn.

Það var mikilvægt fyrir félagið að ná samningum við Fellaini, enda hefur hann verið kjölfestan í liðinu og náð afar vel saman með Jack Rodwell á miðjunni á tímabilinu en hann hefur blómstrað síðan hann var keyptur fyrir metfé frá Standard Liege fyrir þremur og hálfu ári síðan (fyrir 15 milljónir punda).

Fellaini hefur skorað 16 mörk í 107 leikjum en hann átti 18 mánuði eftir af gamla samningnum. Nýi samningurinn nær til sumars árið 2016 og sagt er að hann fái líklega á bilinu 70þ-80þ punda vikulaun (óstaðfest).

Comments are closed.