Fulham – Everton 1-3

Undanfarna áratugi hefur nánast mátt stóla á það að þegar Everton og Fulham mætast þá vinnur heimaliðið… alltaf. Hægt var að ganga að þessu jafn vísu og dauðanum, sköttum og vælinu í Kenny Dalglish yfir því að dómarar finni ekki til með leikmönnum sínum þegar þeir hrasa um grasstráin á vellinum.

Ef undan er skilinn einn nýlegur 0-2 útisigur Everton á Fulham (og eitt 0-0 jafntefli í fyrra á Craven Cottage) þá þarf að fara aftur til tímabilsins 1974/75 (samtals 22 leikir) til að finna leik þar sem heimaliðið vann ekki. Það varð hins vegar ekki raunin í dag, sem betur fer.

Moyes gerði nokkrar breytingar á liðinu — tók út Cahill, Coleman og Saha og setti í staðinn Neville, Drenthe og Vellios. Drenthe fékk þar með sinn fyrsta byrjunarleik með liðinu og sá launaði Moyes aldeilis traustið í leiknum, ekki síst þegar hann skoraði fyrsta markið í leiknum; fékk sendingu frá Rodwell og skaut þrumuskoti verulega langt utan við teig og sá bolti söng í netinu eins og sagt er (sjá markið). Leikurinn rétt nýhafinn og Drenthe búinn að skora á þriðju mínútu. Alls ekki slæm byrjun.

Fyrri hálfleikurinn þróaðist síðan ágætlega, við réðum leiknum á köflum ágætlega og hefðum getað bætt við mörkum fyrir lok hálfleiks með færum frá Fellaini, Vellios og Rodwell.

Í seinni hálfleiknum döluðum við nokkuð og Fulham komst mun meira inn í leikinn og áttu hættuleg færi. Á 64. mínútu kom Bryan Ruiz inn á fyrir Danny Murphy og náði svo að jafna með því að vippa yfir Howard á 67. mínútu. Þetta kveikti aðeins í okkar mönnum. Við fengum eitthvað af færum og hefðum átt að fá vítaspyrnu þegar varnarmaður Fulham virtist nánast grípa í andlitið á Cahill og snúa hann niður, en ekkert dæmt. Róðurinn fór svo að þyngjast smátt og smátt og annað mark Fulham virtist liggja í loftinu allan síðari hálfleikinn og voru þeir lygilega nálægt því að ná því.

Á 89. mínútu fékk Bobby Zamora algjört dauðafæri, komst framhjá Howard og eini maðurinn sem stóð í vegi fyrir opnu marki var varnarmaður Everton (Hibbert?). Zamora hefði auðveldlega getað lagt boltann framhjá honum en ákvað í staðinn að reyna að skora mark með stæl með því að senda hann upp í vinstra hornið en þar fipaðist honum flugið og sendi hann boltann hátt yfir markið.

Við þetta vöknuðum við til lífsins og það var ekki meira en nokkrum andartökum síðar sem Saha (fyrrum Fulham leikmaður) fékk boltann upp við teiginn hjá Fulham, hljóp framhjá varnarmanninum vinstra megin og setti boltann á hægri stöngina fram hjá Schwartzer og inn. Á 93. mínútu innsiglaði Rodwell svo sigurinn með þrumuskoti rétt utan við teig sem fór milli þriggja Fulham leikmanna og inn.

Ekki kannski besta spilamennskan sem við höfum sýnt undanfarið en stigin þrjú voru afskaplega kærkomin í þessari erfiðu törn sem við erum í. Fulham hefðu kannski réttilega getað gert tilkall til fleiri stiga úr leiknum, enda fengu þeir fleiri færi (nokkur hættuleg) þar sem Howard þurfti að taka á honum stóra sínum en það sannaðist enn og aftur að það verður víst að klára færin ef á að vinna leikinn og það var einfaldlega það sem við gerðum.

Hægt er að sjá mörkin hér.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Hibbert 7, Jagielka 8, Baines 6, Distin 6, Neville 7, Drenthe 9, Osman 6, Rodwell 7, Fellaini 6, Vellios 6. Varamenn: Coleman 6, Cahill 6, Saha 8. Hjá Fulham fékk varamaðurinn Ruiz (sem skoraði) 8 en annars voru fjórar sjöur og rest lægri.

Comments are closed.