Manchester City – Everton 2-0

Það tók Manchester City £400 milljónir pund af fjárfestingum til að ná loksins að leggja Everton að velli eftir fjöldamargar tilraunir og þurfti smá hjálp og heppni til.

Það er gömul tugga og ný að finnast dómarinn ekki hliðhollur eigin liði en mér fannst dómarinn alls ekki samkvæmur sjálfum sér og hallaði heldur mikið á okkur í leiknum. Dómarinn var nokkuð spjaldaglaður nánast frá upphafi leiks en gaf þó ekki spjöld fyrir sambærileg brot hjá City og sleppti tveimur augljósum brotum varnarmanna rétt utan við teiginn hjá Manchester City, nokkuð sem sá sem lýsti leiknum í sjónvarpinu tók líka eftir. Það var jafnframt hálf kómískt að sjá 120 kílóa spánverja (?) hjá City hrynja í jörðina eftir öxl-við-öxl samstuð við Osman (sem hlýtur að vera um 50 kíló). Minna fyndið var að Osman skyldi fá gult fyrir vikið, fyrir eitthvað sem var ekki einu sinni brot og Neville svo einnig einnig gult fyrir það eitt að City maður hljóp utan í hann. Verst var þó að sjá Vincent Kompany sleppa létt (ekkert spjald) við að traðka ofan á löppinni á Cahill í tæklingu svo að Cahill þurfti að fara út af meiddur. Það er ekki hægt að kenna dómaranum um ósigurinn þó, en það hefði verið fróðlegt að sjá hvernig leikurinn hefði þróast ef Komany hefði verið rekinn út af eins og hann átti sannarlega skilið fyrir þessa ljótu tæklingu.

City menn urðu pirraðari eftir því sem á leið leikinn, enda hafði lítið gengið að brjóta niður sterka vörn Everton. Einu skotin frá þeim á markið komu utan við teig. Við náðum ágætlega að halda Silva niðri og menn eins og Dzeko voru varla svipur hjá sjón.

Það var greinilegt að Balotelli ætlaði sér að fiska vítaspyrnu, því hann lét sig detta við minnstu snertingu inni í vítateig. Sat svo sneyptur inn í vítateig og kvartaði sáran en dómarinn hló bara að honum. Kannski bara vegna þess að mynstrið á hausnum á Balotelli lét það líta út eins og keyrt hefði verið yfir hann.

Fyrra markið kom á 70. mínútu eftir innkast City (sem endursýning sýndi að City átti alls ekki að fá) þar sem Balotelli skaut föstu skoti nokkuð fyrir utan teig og boltinn fór í Jagielka og breytti stefnu og inn. Nokkur heppnisstimpill á þessu marki. Við þetta létti nokkuð yfir City sem litu út fyrir að ætla bara að fá stig úr leiknum, og við þurftum að sækja meira. Við fengum þá á okkur annað mark frá Milner eftir mistök hjá Drenthe sem mistti boltann á eign vallarhelmingi og Silvar sendi flotta stungusendingu á Milner. City bjargaði svo á línu eftir skot frá Fellaini þegar Joe Hart fór í skógarferð. Hvað um það — 2-0 sigur City í höfn. Fyrsta skipti sem þeir vinna okkur í mjög langan tíma — og í raun eitt af fáu skiptum sem þeir ná stigi af okkur undanfarið.

Hægt er að sjá tæklingu Kompany og yfirlit yfir leikinn hér (enn um sinn — verður örugglega tekið niður von bráðar).

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Jagielka 7, Distin 7, Baines 7, Coleman 7, Hibbert 6, Neville 7, Osman 6, Fellaini 7, Rodwell 7, Cahill 6. Varamenn: Drenthe 4, Saha 5, Vellios 5. Hjá byrjunarliði City var mest um sexur, tvær fimmur og aðeins 4 sjöur.

Í öðrum fréttum er það helst að við fengum Chelsea (enn á ný) í deildarbikarnum á heimavelli. Spilað verður í vikunni sem byrjar 24. október. 

Comments are closed.