Hugleiðingar um félagaskiptin

Ekki átti maður von á þvílíku kvöldi eins og í gær þegar félagaskipta-glugginn lokaði, en önnur var raunin. Maður þorði varla frá tölvunni ef eitthvað skyldi gerast!

Það er náttúrulega sjónarsviptir af Arteta en ég veit ekki með ykkur — eftir að hafa sofið svolítið á þessu þá ég lít þessi skipti jákvæðum augum, á heildina litið. Að óbreyttu var ekkert að fara að gerast en ég held að það hafi jákvæð áhrif á liðið að hrista aðeins upp í hópnum og kominn tími til að taka á ákveðinni stöðnun sem virtist vera að eiga sér stað, eins og í leiknum gegn Blackburn. Vissulega má líta svo á að þetta sé skref aftur á bak en ég kýs að líta á jákvæðu hliðarnar á þessu.

Arteta var keyptur fyrir 2M punda árið 2005 og hefur gegnum tíðina aldeilis sýnt hvað hann gat… þangað til hann meiddist illa. Við höfum núna beðið í eitt og hálft ár eftir að hann næði aftur sínu besta formi en ég var orðinn örvæntingarfullur um að það væri að fara að gerast því þegar glitti í það… þá meiddist hann (vonandi gengur honum betur hjá Arsenal). Hann er orðinn 29 ára og mig er farið að gruna að Moyes hafi séð að hans bestu ár eru að baki en aðeins tíminn mun leiða það í ljós náttúrulega. Auk þess var hann með 3.6M punda í laun á ári og það munar um minna, sérstaklega þegar maður er skugginn af sjálfum sér. Þykir verst að Arteta bað um að fá að fara rétt áður en glugginn lokaði þannig að enginn tími vannst til að finna eftirmann. Því þurfa aðrir að stíga upp og láta ljós sitt skína, en Everton liðið er að verða frægt fyrir að þrífast á mótlæti (eins og sjá mátti þegar við lentum í 4. sæti í deildinni eftir að selja Rooney).

Yakubu (28 ára) hefur enn ekki náð sér á strik síðan hann meiddist illa og hefur ekki verið svipur hjá sjón síðan — allavega ekki á móti varnarmönnum í efstu deild. Hann hefði kannski mátt fá fleiri tækifæri til að sanna sig eftir að lánssamningurinn hjá Leicester endaði, en mig grunar að hann eigi ekki eftir að gera stóra hluti, enda kominn yfir sitt besta skeið og rétt að hleypa öðrum sóknarmanni inn.

Nýliðinn Beckford átti fínt tímabil í fyrra en hefur heldur ekki náð að skína síðan, hvorki á undirbúningstímabilinu né í upphafi tímabils. Ég hafði svolitlar áhyggjur af því, en var samt spenntur að sjá hvað hann myndi gera á tímabilinu. Samt, ef maður lítur á þetta frá viðskiptalegu sjónarmiði, þá eru (allt að) 4M punda fyrir mann sem við fengum ókeypis í fyrra, alls ekki slæmt.

Ef litið er á nýliðana sem voru að koma inn þá finnast mér Stracqualursi og Drenthe spennandi kostir. Drenthe er aðeins 24 ára og Real Madrid var tilbúið til að borga 14M evrur fyrir hann fyrir ekki svo löngu síðan. Hann er sagður einn sprettharðasti maðurinn í boltanum og á öruglega eftir að gera usla í vörnum víða um England. Hann verður jafnframt laus allra mála hjá Real Madrid eftir lánssamninginn og því stendur ekkert í vegi fyrir því að fá hann til Everton fyrir lítið í lok tímabils.

Stracqualursi, lítur út fyrir að vera öflugur sóknarmaður, eftir því sem ég hef séð, fantagóður skallamaður og góður að höndla færin þegar hann snýr baki í markið, sem hefur svolítið skort.

Báðir ættu að geta tekið þátt í leiknum gegn Aston Villa laugardaginn 10. sept.

Á heildina litið fengum við ágætan pening inn, og bæði meðalaldurinn og launakostnaðurinn lækkaði töluvert. Ég hef ennþá fullt traust til Moyes og hans teymi þegar kemur að því að finna góða leikmenn fyrir lítið og fyrir mitt leyti er ég mjög spenntur að sjá hvernig þetta atvikast í næstu leikjum og að sjá Stracqualursi og Drenthe spila.

Comments are closed.